8.5.08

Það er geðbilað gott veður úti!

Bara svona til upplýsingar fyrir aðra sem ekki hafa heldur tíma til að njóta veðurblíðunnar. Ég fékk þó að labba Ránargötuna einu sinni fram og tilbaka með Hraðbátinn, áðan, þar sem hann var í skoðun og sprautun. Hann var ekki sérlega ánægður með það og var til dæmis í fýlu alla leiðina heim.

Í morgun gerðist það, einu sinni enn, að ég komst eiginlega ekkert í ritgerðina mína fyrir þýðingaverkefnum. Þegar ég síðan fór að ritgerða, eftir hádegi, fékk ég eina hugmynd til að nota í eitt af leikritunum sem ég á einhversstaðar hálfklárað og hef ekki mátt vera að því að skrifa neitt í í mörg ár. Og sé ekki frammá heldur. Þá fékk ég hugmynd.

Mig langar að hætta þessum þýðingum. Þær eru hvortsemer negravinna. Þær éta líka allan tíma sem ég gæti huxanlega mögulega notað í að grufla í ópantaðri leikritun. En ég á eiginlega alveg tvö... nei þrjú... eða kannski fjögur hálfskrifuð leikrit sem mig langar svakalega að klára, áður en ég missi áhugann á þeim. Þetta væri nóbreiner... ef ekki væri fyrir peningahlið málanna. Þýðingarnar, þó negravinna séu, eru alltaf launuð vinna. Það verður nú leikritunin líklega seint, þá illa, og sennilegast ekki.

Á hinn bóginn erum við Rannsóknarskip mesta hæfileikafólk í fjármálum. Um daginn fréttum við til dæmis að í sumar þyrftum við að borga um hálfa milljón í utanhússviðgerðir og sameignina á húsinu okkar. Og við þurfum ekki að spekúlera í hvernig við ætlum að fara að því að borga það, heldur bara hvaða peninga við eigum að nota. (Úr þessum fjárhaugnum eða hinum.) Ekki slæmt, fyrir barnmarga fjölskyldu með tekjur undir fátækramörkum.

Þannig að. Ég er að huxa um að hætta að þýða, þann 29. maí, í bili, reyna kannski að skrifa í staðinn eitthvað annað, þegar ég má vera að. Get þá alltaf skriðið aftur í þýðingarnar með skottið á milli fótanna ef ég sé fram á að vera að hengja fjölskylduna á horreimina. Svo hef ég alveg heyrt að til sé fólk sem gerir bara eitthvað eitt, er ekki endilega með negravinnur á hliðarlínunni. Svo þetta hlýtur að vera hægt...

Þeir sem nenna mega gjarnan kóa og segja að þetta sé besta hugmynd í heimi...

7.5.08

Hættu að moka!

Ég held að borgarstjóri sé að verða einu vandræðalegu viðtali frá því að lenda einn í minnihluta í borgarstjórn. Það er agalegt að horfa upp á þetta. Hann kemst yfirleitt sæmilega frá því sem hann er að reyna að tala sig í kringum framan af, en í síðustu málsgreininni tekur hann sig síðan til og handrotar sjálfan sig. Ef einhver væri með honum í flokki ætti sá hinn sami að standa við hliðina á myndatökumanninum og gefa honum merki þegar hann á að þagna.

Ætli það sé það sem Jakob Magnússon á að gera, fyrir milljón á mánuði.?
Setti aðeins fleiri upplýsingar í "persónur og leikendur" til að gamlir kunningjar geti séð hvað flotinn heitir, og menn furði sig ekki um of á því hvernig ég gat allt í einu átt 11 ára barn, verandi eintrjáningur þar til fyrir einhverjum þremur árum síðan.

Fyrir ömmur og frænkur: Freigátan fór til hálsnefogeyrna í morgun og á að fara í nefkirtlatöku í næstu eða þarnæstu viku, fer eftir hvernig hormál standa. Ætli fjölskyldan fái ekki bara svefntruflanir ef hún hættir að framleiða næturtónlistina sína?

Og ég er farin að taka Júlla Júll mér til fyrirmyndar og hætt að horfa á sjónvarpið. (Ég sá einhverntíma í viðtali að það væri trixið sem hann notaði til að mega vera að öllu því sem hann bardúsar.) Rúm vika í lokaskil á ritgerðinni minni, en allt að bilast í þýðingum sem ég tími ekki að hafna og Hraðbáturinn að verða félagslyndari með hverjum deginum og minna til í að leyfa mömmunni að hanga í tölvunni þegar hann er vakandi. En mikið finnst mér nú samt leiðinlegt að fara einhvern veginn beint úr "vinnunni" í tölvunni, í rúmið á kvöldin. Við sjónvarpið munum eiga yndislega endurfundi að kvöldi þess 16. maí, í síðasta lagi. Þá verður líka hægt að fara að versla næstu seríu af The Wire.

Svo skrópaði ég meiraðsegja í jóga í morgun vegna annríkis. Hreint ekki fallegt afspurnar. Best að ræða aðeins málin við hann Hraðbát og þreyta hann almennilega svo ég geti gabbað hann til að fá sér langan og öflugan blund eftir hádegið. Verst hvað hann er mikið krútt... alltof gama að leika við hann. Enda öfundar Rannsóknarskip mig mikið af tímanum sem ég hef með honum og hlakkar gífurlega til að fara í fæðingarorlof eftir næstu áramót.

6.5.08

Tujúllað

Það bara hrynja inn sjaldséðir hrafnar. Hæ, Hildur Vala. Alveg skal ég veðja að þú ert með Barnalandssíðu eða Moggablogg eða eitthvað álíka. Ef þú vilt ekki setja slóðina í komment, vil ég fá hana hingað: siggla04@gmail.com.

Greinilega mikið verk að vera í varastjórn Bandalaxins. Hef ekki mátt vera að neinu síðan ég lenti þangað. Hef bara einhverjar mínútur núna þar sem ég er að bíða eftir þýðingarfælum. (Ætti auðvitað að vera að taka til, en... júnó.)

Freigátan er að fara til háls- nef og eyrnafræðings á morgun, sem er gott þar sem hún var lasin í dag og hrýtur núna hærra en samnefnd amma sín. Og er þá mikið sagt. En ég var sem sagt heima með smábörnin tvö í dag og líður eins og ég hafi lifað af dag í skotbardögum Bagdadborgar.

Þannig líður mér líka venjulega þegar ég kem heim úr jóganu með Hraðbátinn í vagninum. Er búin að búa í Reykjavíkurborg frá 1994 og sjaldnast bílandi. Og það virðist ævinlega hafa verið stefna borgaryfirvalda að gera fótgangandi vegfarendum ófært að ferðast um á sínum tveimur jafnfljótum eða einhverju hjólkyns. Og að ætla að ferðast um með barnavagn er óðs manns æði, alveg stórhættulegt. Gangstéttastubbarnir um bæinn enda margir allt í einu og út í loftið auk þess sem meirihluti borgarbúa virðist halda að þeir séu bílastæði og gangbrautir eru greinilega ekki í tísku. Ferðin í og úr jóga er þess vegna oft mesta glapræði. Ég skora á alla sem vantar spennu í líf sitt að prófa að skreppa með barnavagn í labbitúr um Borgartúnið. Og reyna að komast framhjá framkvæmdasvæðunum við helv... tónlistarhúsið og Höfðareitinn.

Ég er farin að hlakka mikið til að eyða sumrinu í sveitinni þar sem gangstéttir teygja sig jafnan, alveg galtómar, svo langt sem augað eygir. (Og sumar þeirra lagði ég meiraðsegja sjálf.)

Var að lengja sparibuxur Smábátsins, en sá hefur heldur betur síkkað að undanförnu. Hann var líka í píanóprófi og stóð sig svo vel að hann fékk að velja ruslfæði í kvöldmat. Fjölskyldan er því mjög vel haldin og úttroðin af gúmmulaði frá Pizza Hut.

Best að taka vioð Hraðbætinu og hleypa þreytta Rannsóknarskipinu í bað.

4.5.08

Í fyrsta skipti á öldinni

var ég á landinu þegar Bandalagsþing var haldið, en mætti samt ekki þangað. Mundi varla einu sinni að það væri í gangi. Og þá var ég í fyrsta sinn kosin í eitthvað.
Tilviljun?

Í kosningabaráttu fer mér greinilega best að vera fjarverandi.

Er komin með góða afsökun fyrir að skrópa ekki á þing eða fundi Bandalaxins næstu 2 árin. Þar sem ég er orðin varamaður í stjórn. Dem, hvað maður er nú alltaf góður í að koma sér "í" eitthvað. 

Áttaði mig reyndar ekki á því fyrr en eftir á að þar með er ég búin að láta láta kjósa sjálfa mig í gengið sem þarf að undirbúa alþjóðlega leiklistarhátíð NEATA (North European Amateur Theatre Alliance) á Akureyri 2010. 

Eins gott að mar er að fara á svoleiðis hátíð í Lettlandi til að æfa sig...