27.8.04

Íbúðin "mín" er horfin af eignaskrá og þar með væntanlega seld. Ojæja. Hef það svo sem ljómandi gott hér á byrjunarreit. Ætla að fara með dótið í greiðslumat í dag og sjá svo til með framhaldið.

Í öllu íbúðafárinu hef ég síðan eiginlega ekkert tekið eftir einu. Það er rúm vika í áætlaða frumsýningu á Petru von Kant. Jæks! Hvenær gerðist þetta eiginlega? Og leikhópurinn hefur ALDREI pöbbað! Þetta er ekki fallegt afspurnar. Æfingar ganga nú samt alveg þokkalega og annað slagið hvarflar nú barasta að manni að þetta gæti orðið alveg fantagóð sýning, svei mér þá.

Í þessum fárum öllum saman er síðan fíni 11. september útvarpsþátturinn minn allur að verða útundan í umræðunni. Ég er nú samt búin að skrifa af honum alveg sæmilegt uppkast, þarf aðeins að liggja yfir því betur og spekúlera í tónlist. Svo er náttlega spurning aldarinnar hvort eitthvað af draslinu mínu reynist vera nothæft sem útvarpsleikrit...

26.8.04

Jæja.
Þá er búið að koma mér af stað í enn eina maníuna. Villtist inn á skrifstofuna mína seinni part dax til að reyna að finna fólk sem væri til í að staðfesta skriflega á umsókn mína um greiðslumat að ég væri ég.

Þar reyndist vera einvalalið sem gerði það, ég festist síðan náttlega á spjalli og fór ekki baun í banka fyrir lokun. Á hinn bóginn var stungið að mér ýmsum hugmyndum um að koma höfundarverkum mínum á framfæri. Og nú er ég búin að fá einhverja undarlega þrá, þörf, löngun og obsessjón til að fara að klára eitthvað af því sem ég er búin að vera að skrifa, og jafnvel fara með á ákveðna staði með sölu í huga!

Bleh, eins og það hafi ekki verið nógu undarlegt að hafa allt í einu farið af stað og reddað öllum pappírum í greiðslumat á einum degi.

Sé fyrir mér að nú komi eitthvað svona geðveikistímabil þar sem allt gerist í einu, og rúmlega það. Alltaf gaman, en soldið eins og að keyra á ólöglegum hraða.

25.8.04

Fór á rúntinn, fann Seláshverfi (það er staðsett lengst, lengst, næstum í Mosfellsbæ) fann blokkina sem íbúðin "mín" á heima í, og skoðaði hana að utan.
(Er ekki enn búin að finna hjá mér kjark eða þor til að hringja í manninn sem sýnir hana.)

Þegar ég kom þangað var bara sól á Seláshverfinu en þungbúin ský allt í kring. Ákvað að það væri tákn nr. 1. Annars er þetta ógurlega lítið og fallegt hverfi, lengst úti í sveit og rétt hjá reiðhöllinni... villtist aðeins þangað í leiðinni.

Þegar ég kom heim voru síðan í fréttunum einhver svakaleg húsnæðislán hjá KB banka og fleirum. Jámjám. Tákn nr. 2.

Kannski ég ætti að fara að drífa í að gera þetta þrennt sem ég þarf að gera fyrir greiðslumat? Hmmmm. Er reyndar þungt haldin af eignamöppuveiki. Hún lýsir sér þannig að þegar ég er búin að setja eignir í eignamöppuna sem ég er búin að stofna mér á mbl.is þá finnst mér ég eiga þær. Mín íbúðakaupamál eru sumsé orðin svolítið eins og tölvuleikur. Gerast bara í tölvunni en hafa engin áhrif á raunveruleikann.

Er allavega búin að ákveða að ef alheiminum finnst að ég ætti að búa í íbúðinni sem ég er skotin í, þá bíður hún eftir mér þangað til ég nenni að:
a) Flytja lögheimilið mitt til Reykjavíkur
b) Fá mér afrit af skattframtalinu mínu
c) Fá yfirlit yfir hvað ég skulda lánasljóðnum
d) Finna leið til að ljúga greiðslumatinu mínum upp í 10 milljónir
e) Gera tilboð

Þetta ætti ekki að taka nema svona rétt fram á næsta ár...
Quiz Me
Sigga was
a Rich Bum
in a past life.

Discover your past lives @ Quiz MeÞað var nefnilega það... útskýrir ýmislegt!

23.8.04

Í fréttum er þetta helst:

- Er orðin alvarlega ástfangin af einni íbúð.
Hún er reyndar:
a) Lengst uppi við Rauðavatn
b) Á jarðhæð
c) Algjörlega óskoðuð af minni hálfu, fyrir utan myndir á netinu
d) Trúlega allt of dýr fyrir mig

Fyrir utan það að ég er ekki neitt komin einu sinni hálfa leið með að klára að redda gögnum í greiðslumat, eða ákveða hvort ég ætla að gera það núna eða bíða með það og sjá til hvort eitthvað kemur út úr atvinnubröltinu mínu.

Sótti annars um annað hlutastarf áðan... á fasteignasölu.
Það bara lá eitthvað svo beint við...

Fór annars og menningarnóttaði í svosem klukkustund á laugardaginn. Þar með var mitt úthald í fullan miðbæ af fólki útrunnið.

Þarf að finna verkstæði til að láta setja gúmmíkanta í gluggana á Fífí og láta yfirfara hana í hvívetna, svo á hún að fara í skoðun í september. Þar fer fjársýsla heimilisins væntanlega fjandans til, svona í bili.