Reis seinni partinn eins og fuglinn Fönix af sveittum sjúkrabeði og þreif meirihlutann af heimilinu. Rannsóknarskip sagði að ég væri góð húsmóðir. (Þar hefurðu það, mamma!) En svo sagði hann ekki fleira þar sem söngkennarinn hans er búinn að skipa honum að þegja í viku. Hann fer létt með það.
Ég er búin að komast að því hver drap Eitthvað Lávarð, og er búin að gleyma því aftur. Það er sjálfvirkur búnaður í hausnum á mér sem gerir mér kleift að lesa sömu bækurnar aftur og aftur. Talandi um það, ég er reyndar búin að setja sjálfa mig í straff og fæ ekki að lesa neina bók sem ég hef lesið áður á þessu ári. Gengur vel. Er búin með hálfan Dalai Lama (sem ég lánaði síðan atvinnulausu systur minni), Alkemistann og er komin vel á veg með Veronika ákveður að deyja. Inn á milli hafa síðan smeygt sér tvær áður ólesnar Agötur. (Man ekki hvað hin hét.) Mér fannst Alkemistinn svosem ágætur. Enginn Birtíngur samt.
Er búin að komast að því að ef maður les "nýjar" bækur gerir maður sér miklu betur grein fyrir hvað maður les nú asnalega mikið.
Svo vorum við að klára Angel í gær. Endanlega, huxa ég. Mér fannst hann klénn. Ég held ég sé vaxin upp úr Joss Whedon.
Heiða fær hér með móralskan stuðning til að reyna að halda áfram að lesa Grámosinn glóir. Hef samt enga trú á öðru en að það sé alveg hreint hroðalega leiðinleg bók. Bara titillinn gæti svæft mig.