9.4.10

Pólitísk gjörningaskýrsla...

Ég veit sosum ekki með skýrsluna ógurlegu.
Mér finnst þetta vera svolítið eins og að gefa út endinn á myndinni, og jafnvel byrjunina á síkvelinu. Að rannsaka hrunið? Aðdraganda hrunsins? Aðdragandi hrunsins var langur. Allt þenslutímabilið var aðdragandi hrunsins. Hrunið sjálft var ekki ein báran stök frekar en aðrar. Það var afleiðing atburðarásar sem er líklega alveg hundlöng. Allt að því 20 ár, eða eitthvað.

Ég get alveg afgreitt "orsök hrunsins" í einu orði. Góðærið. Tímabilið sem einkenndist af sýndarvelmegun og hafði á að skipa ríkisstjórn sem gerði nokkrum mönnum kleift, geðveikum af græðgi, að ræna þjóðina nokkra áratugi inn í framtíðina.

Einfalt mál.

Nema náttúrulega ef maður er að gera doktorsrannsókn um pólitískt leikhús fyrir og eftir hrun.
Og mönnum detti sá skemmtilegi gjörningur í hug að lesa kvikindið frá upphafi til enda uppi í Borgarleikhúsi.
Skemmtilegt, en, bætir við mig nokkurra mánaða (jafnvel ára) vinnu af grúski um pólitíska og samtímatengda gjörningalist. Mér liggur við örvinlan... þó þetta sé vissulega seinni tíma vandamál þar sem ég hef ekki vinnu við eftirhrunsleikhús fyrr en þarnæsta vetur, í fyrsta lagi.

Svo nú er mér skapi næst að kaupa fjárans skýrsluna og láta hana vaða í hausinn á einhverjum.
Kalla það pólitískan gjörning?

7.4.10

Ferðabókanir

Eftir að hafa þvælst um frumskóga þess sem þarf að skipuleggja ferðalög erlendis í kreppunni finn ég mig knúna til að setja inn nokkur hint og linka. Nú er ég búin að vera í svona mánuð að reyna að koma því heim og saman hvernig ég á að fara á ráðstefnu í München í lok júlí án þess að fara á hvínandi höfuðið. Og fyrsta góðráð er:

- Að gefa sér gríðarlega mikinn tíma til að spá og spekúlera.

Ég hef brúkað heilmikið vefinn dohop.is til að grennslast fyrir um ódýrustu ferðaleiðir en það er ágætis yfirlitsvefur. Þó endaði með því að ég datt ofan á bráðgott tilboð á næturflugi beint frá Keflavík til München, aðfaranótt ráðstefnunnar og krækti í síðasta sætið. Keflavík-München á 26.000 kall. Hefði reyndar getað flogið aðeins ódýrara með Icelandexpress og Easyjet, en það hefði þýtt að leggja af stað hálfum degi fyrr og nótt á hinum bráðskemmtilega Gatwick flugvelli auk þess sem maður fær að éta í Flugleiðavélum. Og eins og það kostar í útlöndum þá getur það alveg talið nokkra þúsundkalla.

- Það borgar sig að skrá sig á nettilboðalistann hjá Icelandair. Aldrei að vita nema það sem mann vantar detti inn.
- Með því að ferðast á nóttunni báðar leiðir sparar maður tvær nætur í gistingu. Sem er slatti.

Í München ákvað ég að spreða á mig eins manns herbergi. Það er þó bara á svona hóteli sem er heimavist á veturna. En það mikilvæga er að það er í göngufæri við ráðstefnuna. Allt í útlöndum kostar nefnilega formúgu fyrir íslenskar krónur í dag. Þar á meðal almenningssamgöngur. Með því að ferðast á nóttunni báðar leiðir kemst ég af með þrjár nætur í gistingu og greiddi fyrir þær 17.000 kall. (Með morgunverði.)

Heimferðin er óbókuð enn. Það kemur til af því að ekki er hægt að bóka lestarferðir með minna en 3 mánaða fyrirvara. En í lok mánaðarins hyggst ég tryggja mér beð í næturlest frá München til Kaupmannahafnar hvaðan ég mun taka kvöldflug með Icelandexpress kvöldið eftir. Um þrjátíuþúsundkall. Þ.e.a.s., nema Icelandair detti í hug að poppa upp með góðan díl til baka í millitíðinni.

En lestir eru snilldarferðamáti. Og þá fær maður smá ferðalag út úr þessu í leiðinni.

Með ráðstefnugjaldi og öllusaman held ég að kostnaðurinn sé ennþá hérnamegin við hundraðþúsundkallinn. Sem er um helmingi lægra en á horfðist í fyrstu. Eitthvað er reyndar eftir að éta og drekka og svona ... í dýrustu borg Þýskalands ... en vaxtabæturnar verða bara að standa undir því!

4.4.10

Ammliiii!

Þennan dag upprisunnar heiðra ég með því að eiga afmæli. Er í dag 36 ára. Hvorki meira né minna.

Það er nú kúl. Hægt að taka heila kvaðratrót af því og svona. Næstum jafnkúl og prímtöluafmæli. Sem er til dæmis á næsta ári.

Annars var seinni hálfleikur fermingarveislu haldinn í gær. Unglingurinn orðin talsvert fjáðari en honum er hollt. Gaman verður nú að rífast við hann um í hvað hann fær að eyða peningunum... Strax farin að hlakka gífurlega til.

Páskunum hefur sumsé verið varið í höfuðstað Norðurlands hvar við höfum dvalið í orlofsíbúð ásamt foreldrum mínum. Þau hafa ammast og afast eins og égveitekkihvað svo við höfum haft það nokkuð rólegt. Meðal annars verið netlaus sem er alltaf spes.

Nú erum við stödd á óðli feðra Rannsóknarskipsins hvar páskalambið mun snætt von bráðar.

Á morgun verður svo lagt land undir hjól og haldið aftur heim til Borgar Óttans.