24.9.05

Mundi allt í einu

að ég var búin að hafa uppi mikil fyrirheit um að fylgjast af ákafa með íslenska battsjelornum. Skemmt frá því að segja að ég var um 30 sekúndur að láta kjánahrollin hrekja mig yfir á RÚV. (Þar sem var reyndar verið að sína síðasta þátt af bresku eyjadrama sem ég var búin að horfa dáldið á, til að vera alveg fair, það var samkeppni.)

En ég hryllti mig samt dáldið. Ég bjóst hálfpartinn við einhverjum kjánagangi og vonaði eiginlega að menn gerðu þetta af kátri alvöru. Þannig mætti e.t.v. hafa gaman af. En, nei, menn stungu sér beint í væmið, myndskreytt með sykurlegnum landslagsmyndum. Þegar ég var komin með velgjuna alla leið uppí háls fóru huxanlegir keppendur að birtast á skjánum. Menn (sem ég reyndar einhverju kannaðist alveg við) hrósandi eigin mannkostum í hástert. Einhverra hluta vegna trúi ég fólki aldrei þegar það byrjar á því.

Þar breyttist kjánahrollurinn í krípíhroll og ég skipti endanlega yfir til framhjáhalsdsins á bresku eyjunum ógurlegu. En ég ætla samt að reyna að gera aðra tilraun. Svo framarlega sem RÚV kemur ekki með eitthvað því meira freistandi samtímis á fimmtudögum. Hins vegar ríkir mikil gleði í mínum herbúðum yfir endurkomu gamalla vina í imbakassann minn, með lækkandi sól, eins og Survivor og sollis. Enda ekki seinna vænna að verða húkkt á kassanum, svo mar verði nú soldið svekktur þegar æfingar hefjast. Sem þær gera bráðum, á meðan ég man:

Fyrsti samlestur á Jólaævintýri Hugleix verður á Eyjarslóðinni á þriðjudaxkvöld klukkan 20.00. Allir að mæta sem vilja vera með.
Og talandi um, kannski ætti mar að reyna að fara að klára að skrifa það, í staðinn fyrir að sitja bara og bulla á bloggið sitt.

Úr Ylfurhorninu: Ætla að baka vöfflur með kaffinu. Held það sé ágætis stökkpallur yfir í að mynda sér skoðanir (og hæfileika til að baka) pönnukökur.

23.9.05

Sýnist ekki verða friður

fyrr en maður svarar klukkinu. Gat ekki svarað því fyrr en ég fann þörf fyrir að kasta einhverju sem huxanlega gæti verið sprengihætta af. En hér koma fimm eitthvöð:

- Mér þykja The Simpsons skemmtilegir þættir.
- Hins vegar þykja mér menn sem venja sig á Hómerska ósiði, og finnst það kúl, vera öjlar og snefilmenni.
- Ég vil heldur að barnið mitt sé með downs syndrom en alkóhólisma.
- Ég er löngu farin að hlakka til jólanna.
- Ætla að ofnbaka ýsu frá Óla Smábátsafa í kvöldmatinn.

Og ég held það sé örugglega búið að klukka alla sem ég þekki.

Feitan leynist víða

Fór í sund með Smábáti í gær. Sem var skemmtilegt. Á leiðinni uppúr heyrði ég á einkar áhugavert (eða ekki) og ótrúlega langt samtal nokkurra 11-12 ára stúlkna. Sem fjallaði um:
Hvort þessi eða hin innan hóps væri feit.
Hvort hinar eða aðrar fjarstaddar væru feitar.
Og svo gekk mikið á við að sannfæra eina nærstadda, sem var gott efni í offitusjúkling, um að hún væri Heimsins Grennsta Stúlka.

Ég veit ekki hvað mér blöskraði mest, aldur umræðenda, meðvirknin með þeirri feitu eða umræðuefnið sjálft í öllu sínu veldi.

Á heimleiðinni fór ég að reyna að rifja upp mín umræðuefni á þessum aldri. Það er eins og mér finnist að 11-12 hafi ég nú bara mest verið með vinkonum mínum, öllum jafn skítugum og úfnum, uppi í skógi, sennilega að taka myndir af haustlitum á þessum tíma árs. Eða hreinlega í barbí. Og meira að segja þegar gelgjan helltist yfir, og útlit varð vissulega áhugamál, þá héldu nú allir "self respecting" einstaklingar þeim áhuga alfarið út af fyrir sig.

Vér landsbyggðarpönkarar urðum þó varar við að Reykjavíkurmeyjar voru mun uppteknari af tegundum gallabuxna og ælæners (eða afturendastærð nábúans), en vissu sjaldnast hver væri forsætisráðherra. Og af því spruttu trúlega mínir fyrstu fordómar. Sem gerðu smá kombakk í gær.

Ætli unglingar á höfuðborgarsvæðinu séu grunnhyggnari en annars staðar?

22.9.05

Það var...frí!

Sumt er svakalega gott og gerist allt of sjaldan. Í gærkvöldi brá svo við að litla Hamarshússfjölskyldan var öll heima hjá sér. Enginn var í heimsókn eða láni neins staðar, enginn á leikæfingu eða fundi, enginn þurfti að vera inni í skáp að þýða, og allir gátu legið saman í makindum og horft á Americas next Top Model í sjónvarpinu. (Sem eru einmitt þættir sem njóta mikillar hylli alls flotans.) Telst þessi viðburður til nokkurra tíðinda, þar sem þetta gerist næstum aldrei.

Enda var þetta aðeins stundarfriður, húsbóndinn þarf á æfingu í kvöld og húsfrúinn verður í skápnum að umskrifa íslenska drauga í ýlandi dræsur. Allir skemmta sér vitaskuldir konunglega, en hitt er óskaplega notalegt, svona nokkrum sinnum á ári.

Og ætlunin er að hafa saltað folald í kvöldmatinn.
(Svo ég geri eins og Ylfa og rapporteri af heimilishaldi.)

Uppskrift:
1 kjet í pott, sýðst í um klukkutíma.
x margar kartöflur í annan pott, sjóðist í um hálftíma.
Á borð leggist, ásamt fyrrtöldu og græjum til átu, smjer og vatn.

Það eru mér nánast trúarbrögð að drekka bara vatn með söltuðu kjöti eður fiski. Eða eins og hún Berglind sagði... (Hér skiptum við yfir í örleiksform.)

(Sviðið er heimili okkar á Laugarnesveginum í kringum 1996. Það er sprengidagur og því saltkjötsogbaunaveisla fyrir fjölda manns. Menn eru að setjast til borðs.)

Gestur: Eigiði ekki kók með þessu?

Berglind: Kók? Þú vilt kannski tómatsósu líka?

21.9.05

Sögur...

Læf útgáfan af þessari sögu hjá honum Birni M sannfærði mig endanlega um að bráðnauðsynlegt væri fyrir okkur hjón að fara á foreldrunarnámskeið. Þó ekki væri nema fyrir hvað þetta virðist vera absúrd upplifun.

Og í öðrum óspurðum fréttum, ég þverbraut eina lífsregluna mína um daginn. Tvisvar í einu. Venjulega fjárfesti ég nefnilega ekki í tónlist nema mig sé búið að langa í hana í 10 ár. (Þá er hún reyndar oft horfin af markaði. Og sparnaður í því. Enda hlusta ég sjaldan á neitt.) En um daginn lenti ég á tilboði og keypti í einni ferð: Noruh Jones og Manu Chao. Sem mig var ekki búið að langa í nema 3 og 6 ár! Sama dag eignaðist ég reyndar líka tónlist, fyrir tilstilli Biblíufræðingsins, sem ég vissi ekki að mig langaði í. Já, tónlistin úr Túskildingsóperunni er snilld, enda var ég búin að ætla ÞVÍLÍKT að sjá hana um eða eftir jól í Þjóðleikhúsinu... Ef... semsagt... hægt verður. (Þýðing: Ef rassinn á mér mögulega kemst ofan í leikhússæti þá.)

Og svo er ég búin að velta málum fyrir mér, og hef komist að þeirri niðurstöðu að allt er yfirleitt sem sýnist. Og mér sýnist 40 year old virgin vera arfaleiðinleg mynd.

20.9.05

Ókei. Sko.

Hef heyrt því fleygt að menn séu farnir að sakna mín úr mannlífinu. En allt í einu er bara... galið að gera, eiginlega. Er að reyna að klára leikrit, og að þýða allan heiminn á daglegum basís, og það er soldið mikið að gera í vinnunni, og leikfélaginu, og heimilinu. Auk þess sem ég þarf alveg yfir meðallagi af stundum til svefns og næringar og líkamsræktar þessa dagana. Þannig að félaxlíf er hreinlega útundan og ég get eiginlega ekki lofað neinum breytingum þar á í fyrirsjáanlegri framtíð.

Þannig að, ef menn vilja hitta mig eitthvað, er besta sóknarfæri að hreinlega vera í leikfélaginu mínu. Annars verður bara að láta bloggið duga. Eða hafa samband eftir... svona... ég veit ekki hvenær.

Annars er ég aðallega að velta fyrir mér hvort ég nenni að gefa mér tíma til að klippa á mér táneglurnar á meðan ég næ ennþá til þess...

19.9.05

Það fjölgar...

Þá er leikárið að hefjast og í kvöld fer næstfætt afkvæmi í hnakkaþykktarmælingu. Það er getið, mest í tölvupósti, af okkur Sigrúnu Óskars, Togga og Bibba og eru foreldrar allir þegar nokkuð stoltir af afrekinu. Í kvöld verður greyinu skellt undir smásjá fæðingareftirlits, þ.e. höfundahóps og stjórnar Hugleix, og eftir það verða sjálfsagt einhverjir genagallar sneiddir af fyrir fyrsta opinbera samlesturinn. (Vonum bara að það verði ekki greint fjölfatlað og snarvangefið.) Sem auglýstur verður von bráðar. Og eftir það hefst nú meðgangan fyrir alvöru. Ásettur frumsýningardagur er einhvern tíma síðla nóvembers. Og er ég þegar búin að leysa vandamálið um hvern skrattann ég þykist ætla að komast í þá, fatkyns.

Talandi um kyns, held ég að y-litningar séu farnir að gera vart við sig hjá Kafbáti. Allavega gengur mikið á innra með mér þessa dagana þegar í sjónvarpinu er:

a) Fótbolti
b) Hasar eða slaxmál hverskonar

Annars er bara logn og ládeyða. Allavega keppnisskap og árásarhneigð farið að gera vart við sig. Ekki líst mér áða... Nema þetta séu mótmæli og tilraunir til að stinga af?

18.9.05

Þögn?

Bloggið varð afgangs um helgina. Þess vegna fær pabbi minn ekki afmæliskveðju fyrr en hér með, degi of seint. Til hamingju.

Þessi þögn kemur til af annríki einu miklu. Í gær var ég semsagt á stjórnarfundi í vinnunni, og Rannsóknarskipið sofandi. Í dag fór Rannsóknarskipið í golf, en ég var sofandi. Smábátur er í láni hjá ömmu sinni. Kafbátur er næstum alltaf sofandi, nema þegar hann fær kaffi.

Og ég er að verða of sein á höfundagengisjólaævintýrisfund.

Svo var víst verið að klukka mig, það þýðir víst að ég eigi að skrifa 5 gagnslausar upplýsingar um sjálfa mig. Held ég geri sjaldnast mikið annað á þessu bloggi, þannig að ég held ég sé lönnnngu búin að því, oft.