25.8.06

Föstudagur

Það er föstudagur og það er nú gott. Um helgina á að:

-Hafa saltfisk í laugardaxhádeginu, vegna þess að svoleiðis var alltaf heima hjá mömmu þegar ég var lítil.
-Hafa hrygg í sunnudaxhádeginu. Af því að það var alltaf einhvurslax kind í sunnudaxhádeginu hjá mömmu þegar ég var lítil. (Dreg samt mörkin við svið.)
-Við Smábátur ötlum í bíó að sjá Pirates of the Carabean. Hlökkum til.
-Rannsóknarskip ætlar í golf.
-Ég held við ætlum öll að skrifa smá í leikritin okkar.
-Freigátan ætlar að halda áfram að endurraða óperusafni föður síns, kúka tvisvar og hoppiróla smá.

Þetta verður nú bissí helgi.

Ég man þegar helgarlistarnir litu einhvernveginn svona út:

Fös-Lau
-Fara í ríkið.
-Panta pizzu
-Fara í partí
-Fara út að djamma.
-Borða þynnkuborgara.

Lau-Sun
-Endurtakist.

Og svona voru helgarprógrömmin árum saman.
Það er nú frekar merkilegt að maður skuli ekki hafa endað í ræsinu... eða orðið feitur.

24.8.06

Orton

Þá hefur Rannsóknarskip hafist handa við það sem hann hefur verið að hóta frá því að við felldum hugi saman. Hann hefur nefnilega alltaf saxt ætla að Ortona mig. (Nei, það er nú ekki jafn dörtí og það hljómar.)

Forsagan að þessari athöfn er sú að maður nokkur hét Joe Orton. Hann átti kærasta, hann Halliwell, sem hafði árum saman barist við að reyna að meika það sem leikskáld. En ekkert gekk. Svo skrifaði Orton eitt leikrit, og það svínvirkaði og hann varð geðveikt frægur og skrifaði fleiri og varð frægari og frægari en vesalings Halliwell sökk bara lengra og lengra í gleymskunnar dá, svo það endaði með því að hann drap Orton með hamri í öfundarkasti. (Og sjálfan sig á eftir, ekki með hamri.)

Tekið skal fram að það er bara Rannsóknarskip sem ætlar að Ortona mig. Ég hef engan hug á að Halliwella hann, sma hversu heimsfrægur hann verður.

Allavega, Rannsóknarskip er búinn að skrifa eitt, lítið og sikk, stuttverk, og sat fram á nótt við að skrifa eitthvað annað. Nú má maður semsagt fara að passa sig. Ég ætla nú samt ekki að leggja árar í bát, heldur láta hendur standa fram úr ermum og plögga. Nú fara nebblega að hefjast æfingar á leikriti eftir mig hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs sem verður hluti af þessu. Svo er líka eitthvað nýtt að brjótast um í hausnum á mér sem ég veit ekki hvar endar.

Og svo börnin.

Freigátan er aðeins farin að ferðast, er m.a. búin að finna óperur föður síns. En hann geymir heilan haug af þeim á geisladiskum í hillu niðri við gólf. Þessa gripi athugar Freigátan mjög vandlega þessa dagana, en er merkilega lítið að smakka á þeim. Það er meira eins og hún sé bara að flokka þá markvisst. Í gær tók hún til dæmis eina óperu eftir Monteverdi og faldi hana vel undir teppi. Vildi sennilega koma í veg fyrir að hún lenti í spilaranum.

Smábátur er byrjaður í skólanum. Hann hefur huxað sér að vera fyrirmynd annarra barna í einu og öllu þennan veturinn og byrjar m.a. að læra ensku. Það kemur nú sennilega til með að verða honum fáránlega auðvelt þar sem hann hóf sína skólagöngu fimm ára gamall í Liverpool. Hann hefur einnig hafið leikritaskrif, auk þess sem ég held að verið sé að athuga hann í að leika í einum einþáttungi í vetur. Þar að auki er hann að fara að halda áfram píanónámi sem hann var í fyrir norðan og sóttist einstaklega vel. Smábátur ætlar semsagt hreint ekki að verða öðrum fjölskyldumeðlimur neinn eftirbátur í listiðkununum.

Já, ég er frekar montin af krökkunum mínum, þessa dagana. En stundum verð ég ógurlega hissa. Ég á nefnilega fjölskyldu! Ég held ég hafi aldrei reiknað með því. Svo það er ánægja sem enn er að koma mér á óvart.

23.8.06

Og einn enn

Einn leikarinn minn frá liðnum vetri, hann Hjörvar, eignaðist víst líka son þann 18. ágúst. Heilsist á því heimili. Og nú fer þeim nú bara að fækka óléttunum sem ég þekki. Fyrir utan Sillu. Ég sem hélt að nú yrði þetta svona framundir fertugt.

Svo verð ég að tjá mig um hjólreiðar. Það er stórmerkilegur fjandi að þessa fáu mánuði sem er maklegt og réttvíst að hjóla, án þess að verða kalt eða detta í hálku og slasa sig eins og Siggi, skuli borgaryfirvöldum þykja alveg bráðnauðsunlegt að grafa hjólastíga borgarinnar í tætlur og strimla í einhverri geðveikri framkvæmdagleði. Er ekki hægt að gera þetta á veturna? Ekki eins og það sé mikið um snjó eða frost í Reykjavík á veturna. Ætti alveg eins að vera hægt að grafa þá. Gurrr. Eins gott að ég keypti mér torfæruhjól þar sem ákveðinn hluti af leiðinni minni er ný þrautabraut á hverjum degi.

Annars er ég enn frá mér numin af hamingju yfir hjólreiðaátakinu mínu. (Fyrir utan torfærur og fólk sem þvælist stundum fyrir mér.) Ti ldæmis, ef maður vaknar nú með hárið allt út í loftið, þá hjálmast það niður á leiðinni í vinnuna. Ég er reyndar alin upp fyrir tíma hjálmanna og finnst ég eiginlega frekar þroskaheft þegar ég er komin með þetta á hausinn, en það hefur þó sitt notagildi. Fyrir nú utan hversu fullkomlega ómótstæðiegt vaxtarlagið verður orðið um jól.

Við fengum alls konar fólk í mat í gærkvöldi, foreldra mína og afa og ömmu Smábáts. Í nótt sofnuðum við Freigáta síðan einu sinni sem oftar út frá því að hún var að næra sig. Og vöknuðum við það að hún hrundi frammúr. Hún virðist vera alveg í heilu lagi, en ég er með taugaáfall. Enn ein ástæðan til að láta hana hætta að drekka á nóttunni. Sem ég ætlaði að vera hætt fyrir löngu. Sem ég síðan klikka alltaf á vegna þess að hún grenjar svo svakalega hátt. Vandlifað...

22.8.06

Föt

Keypti mér fat í kínversku búðinni í gær. Hefur langað til þess lengi. Vissi bara ekki hvernig mér færi að vera kínversk. Í ljós kom, bara alveg ágætlega. Er að huxa um að kaupa mér kjól í kínversku búðinni áður en næst verður frumsýnt leikrit eftir mig í fullri lengd. (Semsagt, bæði. Kjólinn og leikritið. Í fullri lengd.)

Og er ég með almennt fatakast. Mig langar í fleiri föt. Nenni samt eiginlega aldrei að kaupa mér neitt vegna þess að ég er alltaf að mjókka. Og svo eru líka alltaf öll fötin sem ég er í bara með hjólasvita eða barnagubbi á, alltaf, og þá er náttlega lítill tilgangur með því að vera í eitthvað fínum fötum. Vandlifað.

Og svo langar mig að skrifa margt. Þarf að gera einn einþáttung betur. Gera líka kannski tvö leikrit betur, sem ég er reyndar eiginlega búin að missa áhugann fyrir. Svo langar mig að skrifa óperu. En ég veit ekki um hvað. Og svo má ég náttlega ekkert vera að því að gera neitt af þessu. Úff. Bestaðfaraðvinna.

Og svo er námskeið hjá Gunnari Hersveini á Endurmenntunarstofnun 23. okt til 30. nóv. Mikið væri nú skemmtilegt að skella sér á það. Athuga hvort heimspekin hann Gunnars er jafn fádæma gagnleg og mann minnir. Spurning hvort þetta væri ekki tilvalið fyrir mæður í fæðingarorlofi líka? Berglind?

21.8.06

Margt

Mar veit nú bara ekki hvar skal byrja. Þessa dagana er ég mikið að skoða krúttmyndir af nýfæddum afkomendum vinkvenna minna á veraldarvefnum. Það er gaman og þetta eru óskaplega sætir strákar.

Ég gerði þau mistök að fara aðeins út úr húsi eftir flugeldaasýningu á menningarnótt. Fékk menningarsjokk og fór beint heim aftur. Sá fullt fólk með ólæti innan um skíthrædd smábörn auk heils hellings af unglingadrykkju. Er algjörlega sammála Geirjóni. Menningar"nótt", sem ætti reyndar að heita Menningardagur, ætti að vera á sunnudegi. Íslendingar geta nefnilega ekki veriða menningarlegir á nóttunni. Bara fullir. Og mér finnst að börn undir 10 ára aldri eigi ekki undir neinum kringumstæðum að vera að þvælast niðri í bæ fram undir miðnætti þegar annarhver maður er dottinn íða. Þó það sé flugeldasýning.

Svo höfundafundaði Hugleikur. Þar kenndi ýmissa grasa. M.a. var jómfrúarstykki Rannsóknarskips lesið og gerði það mikla lukku. Svo eru allir svo mikið að skrifa og skrifa og vinna og vinna að ég held að nú þurfi höfundafundir að fara að gerast kannski bara svona hálfsmánaðarlega, af því að það er svo gaman.

Svo er Smábátur að byrja í skólanum á morgun þannig að sumarið er bara allt í einu búið!