26.8.05

Aliens?

Smábátur er kominn á kaf í félaxlífið. Hann er búinn að kynnast dreng sem á hund. Svo mikil var gleðin á heimilinu í gær, með þetta alltsaman, að ég var næstum búin að gleyma að fara í sónar.

Og talandi um það. Við Árni erum reyndar búin að vera að horfa á fyrstu þættina af X-Files undanfarið, en samt áttum við nú eiginlega ekki von á þessu:



The truth is in there!


(Fyrir þá sem ekki eru að fatta, þá er þetta sónarmynd af litlu geimverunni sem ég er að ganga með. Og, nei, við vitum ekki hvort það er stelpa eða strákur eða marsbúi. Það verður að vera einhver spenna í þessu.)

Og, allt reyndist vera á sínum stað, sagði konan. Ekki sáum við nú mikið vitrænt út úr þessu, samt. Barninu var einkar umhugað um að sýna ekki heilann á sér. Veit líklega að þar verða sko gerðar KRÖFUR. Og fæðingardagur er áætlaður þann 13. janúar. Gaman að því, ha? Gróa?

(Dagsetning þessi var pöntuð af einni móðursystur og einni föðursystur. Og ég hef eftir áreiðanlegum heimildum að hún Gróa fö lesi mig.)

25.8.05

Litlan

Þá er litlasta systir mín hún Bára flogin út í heiminn. Nánar tiltekið til Norex þar sem hún hyxt nema tónsmíðar við lýðháskóla í vetur. Ekki illa tilfundið finnst mér. Hún hefur hlotið allar aðvaranir varðandi norskan mat og þunnt kaffi og ætti því að vera fær í flestan sjó. Ekki veit ég hvað hún hyggur á af heimferðum, en eitthvað var hún svartsýn á að hún myndi sjá verðandi systurbarn sitt fyrr en um fermingu.

Ég lagði nokkuð að henni að gera sér blogg. Af ýmsum ástæðum. Ég alveg drepsé nefnilega eftir því að hafa ekki átt svoleiðis í minni útlegð. Maður var nefnilega alltaf annað slagið að fá tölvupósta frá fólki sem spurði: "Hvað er að frétta?" og svo mundi maður náttlega aldrei hvað maður sagði hverjum. Fyrir svo utan það að þennan tíma man enginn með mér sem ég hef ennþá samband við, að ráði. Þannig að 1 og 1/2 ár úr mínu lífi er týnt og það eina sem eftir stendur af tímabilinu er einþáttungurinn "Þegar Grýla stal jólunum." Ég tek aldrei myndir, og ekki hún heldur.

Ég allavega vona að Bára verði með blogg. Ég held hún sé orðheppnari en bæði ég og systir mín hin kjaftforri til samans og ég hef mikla trú á að hún geti tjáð sig um Noreg, þarlenda og allt mögulegt af mikilli snilld.

Þetta er sumsé áskorun, Bára, ha?

24.8.05

Tímasvarthol?

Sá á Ylfubloggi að hún var að tjá sig um skyld mál og þau sem hafa verið að valda mér heilabrotum undanfarið. Nú er komið á dásemdarástand á mínu heimili, síðan flotinn flutti inn. Er sá ráðahagur mér til stanslítillar gleði og hamingju. Nú eru þeir líka báðir einkar sjálfbjarga einstaklingar og sjá gjarnan vel hvor um annan, enda vanir því.

Þess vegna er ég ekki alveg að skilja hvað í veröldinni verður um tímann minn þessa dagana. Nú eru þeir feðgar ævinlega til þjónustu reiðubúnir í hvívetna ætti ég þess vegna að vaða í tíma til allskyns, en ég bara geri það ekki. Það er eins og allir í heimilishaldinu séu staddir í tímasvartholi og dagurinn endist okkur hreint aldrei til alls sem við ætlum að gera. Stundum þarf ég meira að segja mikið að vanda mig ef ég ætla að ná því að næra mig og Kafbát oftar en einu sinni á dag. En það ku vera skylda.

Heimilið er enn meira og minna ofan í kössum, þvottur hangir á snúrum vikum saman þar sem enginn má vera að því að taka inn, og allt kaffihangið sem ég hugði á þegar ég yrði komin í nábýli við Nönnu og Nornabúðina hefur lítið látið á sér kræla. Og leikárið ekki einu sinni byrjað af viti.

Og ég er engan veginn að skilja hvert tíminn minn fer. Ég meina, það er meira að segja UPPÞVOTTAVÉL á heimilinu. Lúxus sem er nýr í mínu lífi. Þetta óskilgreinda "heimilishald" virðist bara vera allt í tímasvartholum sem gleypa tímann sem maður áður eyddi í að leika sér allan daginn og hanga á kaffihúsum með vinum sínum og þyrfti þessa dagana að eyða í að taka upp úr kössum.

Þarf bókstaflega að taka mér sumarfrí í næstu viku til að taka til í eldhúsinu mínu. (Þar er t.d. hamar á gólfinu. Sem er búinn að liggja þar lengi. Af því að enginn hefur mátt vera að því að taka hann upp.) Kem aldrei til með að skilja hvernig fólk í fullum vinnum fer að þessu. Ekki skrítið að Íslendingar sé allir á þunglyndislyfjum með bauga niður að hnjám.

Er allavega helst á því að hleypa Rannsóknarskipi bara hreint ekkert út á vinnumarkaðinn. Hvað sem tautar og raular. Enda situr hann myrkranna á milli inni í skáp og þýðir og þýðir, allur í verkefnum upp fyrir haus. Ég ligg í sófanum og prófarka og prófarka og svo skiptumst við á upplýsingum um málfræði og stafsetningu.

Draumalíf, svona fyrir utan tímasvartholin.

23.8.05

Spádómar

Nú hafa menn undanfarið spáð mér ýmsu og ekki öllu skemmtilegu. Eftir því sem ég kemst næst verð ég næstu árin frá og með janúar:

-Illa eða ósofin.
-Ævinlega á barmi taugaáfalls.
-Gleymandi að gera bráðnauðsynlega hluti.
-Eigandi engin hrein föt.
-Ekki að gera neitt jafn vel og ég ætla.
-Einangruð frá mannlegu samfélagi.

En þetta ku alltsaman vera þess virði.

Þetta hljómar kunnuglega. Reyndar svo kunnuglega að svona hefur meirihluti lífs míns verið frá 16 ára aldri. Þetta kallast á mínu heimili æfingatímabil.

Óskalistinn...

Eins og alþjóð veit er hann Sævar Sigurgeirsson óttalegt óbermi. Nú stríddi hann frú Ringsted svo mikið um daginn, að hún er að huxa um að hætta að skrifa kúkusögur á bloggið sitt. Mér er einkar sárt um að missa téðar sögur úr lífi mínu, þær hafa verið mér mikil andleg upplyfting og valdið mér ófáum hlátursköstum.

Til að hughreysta eftirlætis-kúkusagnahöfundinn minn ætla ég að birta soldið sem hún bað mig um fyrir nokkru, ég var búin að fikta eitthvað með, en síðan eiginlega búin að ákveða að henda af því að mér fannst það ekki nógu fyndið.

En nú verður farið niður óskalista sem frúin gerði handa mér um umfjöllunarefni. Reyndar eiginlega í yfirlitsformi. Gjörsovel, Ylfa mín:

Öryggishlið í stigaopum: Þarf örugglega að fá mér svoleiðis. Allavega ef ég verð ennþá í hinu stigamikla Imbu-Skjálf. Eins og mýmarga aðra hluti sem ég nenni engan veginn að huxa neitt um. Hólí krapp.

Keisaraskurðir: Alltaf þegar ég heyri minnst á fyrirbærið verður mér þó huxað til lýsinga Rannveigar vinkonu minnar á sínum fyrri sem drap þá litlu rómantík sem fyrirfannst í mínum huga varðandi barneignir. Ekki var það fallegt, en mjög fyndið. Innihélt m.a. grafískar lýsingar á hljóðunum sem heyrast "...þegar maður er ristur upp eins og hvert annað kjötflykki."

Mænudeyfingar:
Ég hef aldrei upplifað fæðingu, nema náttlega mína eigin. En ég hef fengið nál í mænuna. Ef ég ætlaði að ákveða að fá svoleiðis fyrirfram þá myndi ég trúlega kvíða því meira heldur en að reyna að ýta kjötflykki á stærð við hangikjötsrúllu út um leggöngin á mér. Sem mér finnst þó talsvert áhyggjuefni.

Þurrmjólk – Sárar geirur: Verði hið síðarnefnda til vandræða verður mjólkurbúi lokað og skipt yfir í það fyrrnefnda á samstundis. Hvað sem allar kjeeellingabækur segja.

Athyglisbrestur – Ritalín: Vona að alheimurinn gefi að ég fái ástæðu til að fjalla um hvorugt, nema kannski sem álitsgerð í þjóðfélaxlegu samhengi, í mesta lagi. Eða náttúrulega til að útlista hveru mikið framar öðrum börnum mín standa.

Uppeldissálarfræði: Kem ég til með að fjalla um, setja útá, betrumbæta og vangavelta um hér í akkorði, eftir því sem ég fæ ástæðu til. Er strax farin að glugga í bækurnar úr þróunarsálfræði frá mínum stutta ferli í kennaranámi og farin að huxa mér gott til glóðarinnar í tilraunastarfsemi. Þó ekki kannski í þeim mæli sem gert er í Koddamanninum.

Gyllinæð: Þó ég fái svoleiðis þannig að ég geti hvorki setið né skitið árum saman verður trúlegast lítið minnst á það á þessum vettvangi. Einhverra hluta vegna. Hef ekki orðfærni frúarinnar Ringsted í kúktengdu og held það yrði bara vandræðalegt ef ég reyndi.

Líberó: Veit ég ekki hvað er.

Þetta var nú... áhugavert.

22.8.05

Datt allt í einu í hug...

Mér þótti það einkar vel til fundið á sínum tíma þegar þau Hildur og V. Kári, sem kynntust í Hugleik, eignuðust sitt fyrsta barn á degi aðalfundar Hugleiks. Og það er alveg sama hvað barnið heitir í kirkjubókum, í Hullkreðsum heitir drengurinn Aðalfundur Hugleikur, hvað sem tautar og raular.

Var að átta mig á að jólafundir Hugleix eru jafnan haldnir um miðjan janúar.

Tilviljun?

Mikið er gaman

hversu margir muna eftir honum Catalano og því dæmi öllu saman. Rannsóknarskipinu varð reyndar ekki alveg um sel, sérstaklega þar sem ég mundi ekki einu sinni eftir persónunni sem hann ædentifæaði með í þessum þáttum. Í sárabætur fékk hann að taka seinnivakt á menningarnótt og djamma um kvöldið meðan ég var heima hjá lösnum Smábát.

Menningarnóttaði sjálf að deginum til og sá t.d. Báru spila sniðuga hljóðskák á útitaflinu. Þar voru lúðrasveitarmenn í gerfi taflmanna sem gerðu hávaða eftir því sem þeim var leikið. Skemmst frá því að segja að litla systir lenti í þeim óskunda að vera hrókur, þ.e.a.s., vera færð tvisvar og svo drepin. Svo tapaði liðið hennar líka. En það var gaman að sjá þetta. Flugeldasýningin sást best úr stofuglugganum mínum. Það var hentugt.

Og það er hætt að vera hola við hliðina á vinnunni minni! Mennirnir sem vinna þar eins og byggjarnir í Búrabyggð eru komnir langleiðina með að byggja hús. Hins vegar er búið að taka Laugaveginn fyrir framan vinnuna mína og setja þessa fínu holu í staðinn þar. Ekki veit ég hvað þeir ætla að byggja uppúr henni, á miðri götu.

Jæja.
Jæjajæja.