24.10.11

„Fréttir“ ?

Ég er búin að vera að hlusta mikið á sjálfstæða fréttamiðla í útlöndum, undanfarið. Og svo fyrirlestra, fréttaskýringar, umræður og allskonar dót. Og heimildamyndir. Þvílíkan aragrúa að ég er ekki frá því að ég hafi loksins fundið kvikmyndaform sem ég endist til að horfa á. Um fjármálakerfið og framleiðsluhætti hvers konar, mótmælin í Bandaríkjunum, og núna síðast um Líbíu.

Þar eru nú aldeilis maðkar í mysunni, maður. Haldiði að Gaddafi hafi ekki ætlað að innleiða gullmynt fyrir arabaríki og Afríku? Og fara að gera heimamönnum kleift að draga fram lífið á olíugróða? Bara eins og Saddam Hussain! Þjóðnýta auðlindirnar! Að hugsa sér!!! PAKK!!!!!

Það liggur við að það sé hægt að gefa sér það, nú orðið ef það var ekki alltaf þannig, að ef NATO eða Bandaríkin vaða af stað með hernaðaríhlutun, þá snýst það um að halda olíuverðinu niðri. Og fjölmiðlarnir spila með, allir éta upp eftir þeim stærstu og fjármögnuðustu. Og ef fréttamenn ætla að fara að segja sannleikann eru þeir úthrópaðir sem "samsæriskenningamenn" og hvurveithvað. (Og í Líbíu voru þeir nú bara settir í stofufangelsi.) Wikileaks hefur þó verið betra en enginn þegar kemur að því að afhjúpa sannleikann í ýmsum málum. Og þeir eru alltaf að birta eitthvað....
(Bíddu... en það hefur ekkert verið í fréttunum!!!)

Annars eru fréttir, yfirhöfuð, miklu próblematískara fyrirbæri heldur en ég hef alltaf haldið. Hálftími þar sem sagt er frá öllu sem er að gerast í heiminum? Meira og minna því sama (af erlendu) og stjórnað er af „hagsmunaaðilum“ og peningapúkum sem geta þaggað niður hvað sem er. Og íslensku fréttirnar trufla engan sem á pening heldur. (Enda eins gott fyrir þá, þeir eru kærðir og dæmdir af hæstarétti mafíunnar til að borga þeim sem eiga peningana og hæstarétt allt sem þeir eiga ekki...)

Ég frétti hvað er að gerast í gegnum fésbók, þessa dagana. Democracy Now, hinar og þessar greinar sem poppa upp annað slagið, hér og hvar. Stöku viðtal í Silfri Egils (ekki hálftíma hálvitanna í upphafinu, samt.) Ef ég heyri upphrópun eða fyrirsögn sem virðist fela í sér einfalda lausn á öllu í heiminum verð ég tortryggin og fer að skoða á bakvið... Venjulega er þetta ekkert nema framhliðin.

Fyrst og fremst veit ég þó, eins og Sókrates, að ég veit ekki neitt.
En er þó orðin þess vísari að síðasti staðurinn þar sem staðreyndir er að finna er í „Fréttum“.