22.6.07

Onlæn!

Hefi fjárfest í heimsins fegurstu tölvu, oggolitlum makka, og fékk hulstur utan um hann í kaupbæti. Svo græði ég líka i-pod shuffle á eina evru, þar sem ég tók í rælni við miða sem einhver miðakrakkinn var með úti á götu. (Svona miðafólk er alltaf úti um allt hérna, og hefur aldrei fyrr rétt mér neitt sem ég hef getað notað.) Lyklaborðið er að vísu allt á frönsku að utan og íslensku að innan, svo enginn stafur er þar sem hann þykist vera. En það er nú bara fínt. Núna sit ég á veröndinni á O'Carolans, litla pöbbnum "mínum" en restin af flotanum fór í Virgin Megastore að athuga hvort við getum ekki klárað að ýta fjölskyldunni almennilega inn í gjaldþrotið.

Við höfum það annars alveg ljómandi. Íbúðin okkar reyndist framar okkar björtustu vonum og konan sem á hana er einstaklega almennileg. (Enda hef ég hana grunaða um að vera ekki alfarið frönsk.) Ferðin hingað var löng og ströng, sérstaklega fyrir litlar Freigátur sem harðneituðu að sofa á Stansted flugvelli, en við erum nokkurn vegin búin að sofa úr okkur núna. Í gærkvöldi lentum við í smá erfiðleikum við að komast heim, en þá lömuðust allar samgöngur vegna Fete de la Musique, sem þá gekk í garð. Mér fannst reyndar takmarkað varið í það sem ég heyrði í gærkvöldi, of mikill hávaði og of lítil tónlist, en ég er nú líka gömul. Og, talandi um það, franskar konur eru hreint ekki jafngeðvondar við mann þegar maður er með krakkahrúgu, eiginmann, giftingahring og feitu, eins og þegar maður er ungur og brúnn og mjór. Núna eru þær ekkert nema hjálpsemin og almennilegheitin. Og franskir karlmenn eru hreint ekkert dónalegir lengur. Ég held ég sé búin að fatta málið. Og Frakkar eru skemmtilegri héðan frá séð.

Það var líka fjárfest í myndavél og ég reyni að urla hérna inn einhverjum myndum, ef mér text t.d. líka að stela interneti í garðinum við íbúðina okkar.

Farvel frá Frans

P.S. Verst að í þessari tölvu er bloggið mitt á frönsku... vona bara að ég reynist sleipari í frönskunni en Toggi í Kóreskunni...

19.6.07

Útlönd!

Við erum að fara til útlanda. Það er kvenréttindadagurinn, ekki kvennafrídagurinn. Það þýðir að ég fæ ekki að halda á engu alla leið til útlanda, heldur að ég hafi rétt til að halda á nákvæmlega jafnmiklu og Rannsóknarskipið. Það er nú... frábært.

Verið er að leggja síðustu hendur á niðurpakkningi, og ég er eins og lítil, óþæg stelpa, gat eiginlega ekkert sofið í nótt fyrir spenningi. (Og fyrir stelpunni á efri hæðinni sem datt í hug að einmitt í gærkvöldi væri góð hugmynd að tjalda úti á trampólíni og halda vinkonum sínum uppi á snakki og píkuskrækjum þangað til ég klagaði í pabba hennar og hann dró hana inn, á hárinu. Mér til mikillar hamingju.) En allt kom fyrir ekki, þrátt fyrir að uppeldi hafi verið framið á efri hæðinni, ætlaði ég aldrei að geta sofnað. Fyrst pirraði ég svolítið áfram á unglingnum á efri hæðinni (eins og ég hafi allldrei haldið vöku fyrir neinum á þeim aldri...) svo hafði ég áhyggjur af því að ég væri ekki sofnuð... og þar fram eftir öllu.

Ég er nú samt bara merkilega brött í dag. Enda eins gott, næsti svefn verður ekki framinn fyrr en úti í Montpellier, annað kvöld.

Fyrirhugað er að blogga frá útlöndum, hvernig sem gengur að standa við það.

18.6.07

Vúhú!

Rannsóknarskip hefur verið endurheimt úr skólanum, sem fór algjörlega fram án minnar nærvistar í fyrsta sinn síðan ég sótti hann fyrst, utan ársins sem ég bjó utan. (Áttaði mig á þessu þegar einhver undarleg tilfinning um að ég væri að gleyma einhverju fór að gera vart við sig á Lokadegi.)

Og nú er það bara ferðin til Mont sem hefst á morgun. Í dag er rigning þar ytra, en það er nú gott að menn hreinsa hana úr veðurkortunum áður en við komum. Það sem eftir er vikunnar á að vera brjáluð sól og 27-28 stiga hiti. Sem er ljómandi passlegt. Við lendum í Montpellier á miðvikudagsmorgun, væntanlega syfjuð og mygluð eftir nótt á flugvöllum, en ég veit samt ekki hvort maður getur eitthvað farið bara að sofa. Það er svo margt sem mig langar STRAX og ég kem þangað, að borða.

Er annars orðin á áttunda tug kílóa og þarf virrrrkilega að fara að gera eitthvað í málunum. Keypti mér flík númer 18! á Egilsstöðum. Það var nú athygliverð tilfinning. Reynt verður að leysa málið með átminnkun og fara-í-ræktina og hjóla-í-vinnuna átaki þegar heim verður komið, en í Frakklandi lætur maður sig sennilega bara hafa að vella út úr bikíníinu, og fara svo og fá sér pizzu með eggi á Saint Anne pizzum og geðveikan brunch með á Pervertinum. (Sem heitir reyndar í alvöru Le Pré Vert.) Fínt bara. Reikna reyndar með því að ganga mikið og svitna meira, svo það vegur kannski eitthvað upp á móti þessu skipulagða ofáti sem ég hyggst stunda.

Núna er ég aðeins í vinnunni, svo ætla ég að fara að sækja sam-evrópska ökuskírteinið mitt, annars er listinn yfir það sem þarf að gerast í dag bara merkilega stuttur. Og aldrei slíku vant, svo stuttu fyrir ferðalög, þá hlakka ég bara alveg helling til og held að það verði bara þrælskemmtilegt alla leiðina og allan tímann. Sem minnir mig á, best að hringja og láta trekkja yfirdráttinn í botn...

17.6.07

Dagur Blóms og svo flugu svín

Ætlaði að blogga í gær. En gleymdi því, því miður. Allavega, gleðilegan Blómsdag í gær, fyrir þá sem hafa lesið Ulysses. Eða frétt af henni.

Í dag var síðan Þjóðhátíð Íslendinga. Og best að ég ljóstri nú upp raunverulegri ástæðu ferðar minnar austur. Ég var að taka við árlegri viðurkenningu Rótarýklúbbs Héraðsbúa, sem veitt er árlega, fyrir: (Svo ég vitni í viðurkenningarskjalið) "Framúrskarandi störf að leiklistarmálum."

Þar með er ég komin í hóp með ýmsu merkilegu fólki sem hefur hlotið þessa viðurkenningu, svosem eins og Arndísi Þorvaldsdóttur og Kristrúnu Jónsdóttur (Dísu og Dúrru) og er það nú bara einn mesti heiður sem mér hefur hlotnast. Svo fékk ég sma péning, sem ég ætla að brúka til tölvukaupa.

Svo mundi ég að formaðurinn minn var á svæðinu. Átti að vita það, en ég ætlaði ekki að vera þar, svo ég var búin að gleyma því. Skrambans. Freigátan hefði nú haft gaman af að klappa henni Gróu Sigurlaugu aðeins.

Og nú er bara djöflast við að pakka niður í næstu ferð. Ekki nema einn og hálfur sólarhringur í útför. Sjitt hvað ég veit ekki hverju ég er að gleyma. En öll smáatriði í sambandi við ferðatilhögun eru frágengin niður í fínustu smáatriði. Sem er nú gott. Þá er bara að lifa tilhögunina af.