11.7.08

Sprettur

Mikið ógurlega finnst mér gaman.
Ritstjórnarstöffið er algjörlega að taka á rás og ég er að fá fyrirferðarmeiri hugmyndir í samvinnu við ýmsa greinahöfunda (þarámeðal sjálfa mig) um sífellt metnaðarmeiri vinnu, aðallega myndatökur, í hann Gletting. Í kvöld er ég til dæmis búin að skipuleggja þvílíkt fótósessjón niðri í Sláturhúsi til að mynda manninn sem ég ætla að viðtala og verk hans. Hef náð í alla og fengið leyfi og látið vita... nema fórnarlambið. Mar ætti kannski að gera fleiri tilraunir til að ná í kallinn?

Í þetta verkefni stekk ég væntanlega nokkuð beint úr götugrilli sem fyrirhugað er að halda á Laufásnum síðdegis. Við fáum að vera með þó við búum ekki á Laufásnum, þar sem inngangurinn að íbúðinni okkar snýr samt þangað. En við nennum ekki að mæta með skemmtiatriði. Verðum bara með sæt börn til sýnis.

Um helgina ætla ég svo að vera svakalega dugleg að vinna. 

Í næstu viku gerist síðan sá fáheyrði atburður að við systkinin verðum öll stödd hérna í nágrenni við föðurhúsin, samtímis. Um næstu helgi er síðan viðbúið að eitthvað að systkinum Rannsóknarskips bætist í hópinn. Þetta verður sumsé líklega stærsta ríjúljonið til þess og eins gott að veðrið hagi sér. Svo þarf nú að fatta uppá einhverju til að skemmta liðinu með. Eitthvað fara á rúntinn niður á firði og kannske langar einhverja á tónleika með Bjartmari Guðlaux og fleiri gömlum rokkjöxlum í trjásafni Hallormsstaðaskógar á sunnudeginum. 
(Hann segir dojojojojong)

Af börnum og buru er það að frétta að Smábátur lýkur væntanlega reiðnámskeiðinu sínu í Eyjafirðinum í dag og við þurfum nú endilega að heyra í honum hvernig það hefur verið. Svo er spurning hvort við sjáum eitthvað framan í hann áður en hann fer í viku úti í sveit með afa sínum og ömmu, en það ku hefjast um næstu helgi. Og eftir hana fer að styttast í að hann fari með föðurfjölskyldunni sinni til Danmerkur hvar hann verður næstum fram að skóla. Ævintýralegt sumar hjá Smábát.

Þau litlu eru að verða mikil Egilsstaðabörn. Sú regla hefur komist á að fara í sund ca. annan hvern dag og þeim finnst það báðum algjört æði. Enda eru þau orðin kaffibrún. Hraðbáturinn hefur reyndar verið að taka sín fyrstu öskurköst. Í gærkvöldi gekk meira að segja svo langt að Rannsóknarskip hringdi Móðurskipið út úr vinnunni. Og er þá langt gengið þar sem sá kallar nú ekki allt ömmu sína. Hraðbáturinn er pirraður yfir tönn 2 sem er rétt að skríða upp á yfirborðið. Og það þarf alvarlega að fara að kenna honum á pela svo hann verði ekki með stanslausum hljóðum í viku í ágúst meðan Móðurskipið verður fjarverandi. Freigátan er hætt að sofa á daginn nema stundum og er orðin fjarskalega dugleg að brúka salernisaðstöðuna, þegar þannig stendur á.

Svo eru tvö hús á sölu við Selásinn. Eitt við Hörgsás.
Bara svona... bæðevei.

9.7.08

Að vinna í júlí

Stöku sinnum dettur mér í hug að ætla að "redda" aðeins. Oftar en ekki fara reddingar fram með sendingu tölvupósts. En þessa dagana svarar enginn neinum tölvupósti frekar en hann sé ekki til. Og ég er löngu búin að gleyma öllum póstunum sem ég er búin að vera að senda frá mér. Allir eru í sumarfríi nema ég. Ekki er algjörlega ólíklegt að svör við þeim öllum komi á mínútunni þriðjudaginn eftir verslunarmannahelgi, þegar ég verð einmitt farin til útlanda og nenni örugglega ekki að gá í póstinn minn í viku.

Ekki nóg með það, bankakerfið virðist vera í fríi, eins og það leggur sig. Allavega kemur bara "1" á öryggislykilskvikindið og netbankinn segist vera með villu. Þetta er greinilega bara asnalegt. Maður ætti bara að vera úti að sleikja sólskinsleysið eða renna fyrir lax.

Réttupphend sem er líka í vinnunni!

8.7.08

Getur VIRKILEGA verið að það sé EKKI TIL frosinn saltfiskur?!

Spurði kona úti í Bónus í gær. Djúphneyksluð.

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvað gerist þegar tæknivæðing nútímans verður fyrir áfalli.

Ég hugsa að saltfiskkonan verður ein þeirra fyrstu til að svelta í hel. Ásamt öðrum þjónustufrekjum sem finnst bara ALVEG SJÁLFSAGT að það sem MANN VANTAR sé TIL!
(Brot úr öðru samtali, líka úr Bónus.)

Ef siðmenningin líður nú undir lok, svo sem eins og hún hefur gert áður og getur alltaf gert aftur, hvernig ætla menn að fara að því að lifa af ef þeir geta ekki einu sinni hnikað kvöldmatnum til ef það sem þeir voru búnir að ÁKVEÐA er ekki til? 
Kannske verður bara EKKERT til!

Ég ætla svo að skrifa leikrit sem gerist eftir endalok siðmenningarinnar. Þ.e.a.s, ekki stórslysaleikrit um hvað gerist. Mér er alveg sama um það. Heldur hvernig menn hafa það þegar lífið verður aftur orðið "venjulegt" á eftir. Þegar rafmagnið verður ekki lengur aðgengilegt. Olían búin og samgöngur engar. Afturhvarf til einfaldari tíma. Allar nútímagræjur verða orðnar gagnslaust drasl. Eða kannski nýttar til allt annars en upphaflega var ætlað.

Spennandi tímar... en kannski verða nú einhverjir pirraðir og gamla fólkið mun tala fjálglega um gömlu góðu dagana sem aldrei fyrr.

Ætti kannski ekki að láta þessa hugmynd liggja svona fyrir hunda og manna fótum, en Andri Snær segir að margri fái hvort sem er alltaf sömu hugmyndina í einu. Og þegar einhver annar verður búinn að skrifa þetta leikrit, get ég flett upp í blogginu mínu og SANNAÐ að ég fékk hugmyndina FYRST. 

Hihi.

Margt glepur

Jæja. Þá er maður kominn í "vinnuna". Loxins. Búið að vera mjög erfitt að hunska sér hingað niður í einangrunarklefann þó ekki hafi svo sem verið blíðunni fyrir að fara. Rannsóknarskip brá sér norður með Smábátinn á sunnudag svo ég var grasekkja (einu sinni enn) í rúman sólarhring. Svo er ég búin að klára að lesa Pál. (Ljóðin sem sett eru í þriðja "tímabil" bókarinnar nýútkomnu þykja mér fallegust, enda eru þar flest þeirra frægustu. Eitt og eitt er svo ágætt í þeim síðasta, þó þar sé líka talsverð sjálfsvorkunn yfir því að skáldið skuli eldast eins og aðrir menn. Kettlingavæl.)

Að Páli loknum tók ég síðan til við nýja bók sem Rannsóknarskip færði mér eftir írskan höfund sem ég held mikið upp á, Marian Keyes. Þetta er óvenjuþykk bók, meira að segja fyrir hana, og ég er algjörlega dottin íða og kem engu í verk.

En er þó loxins búin að mjaka mér hérna niður og er búin að lesa yfir alveg helling af stöffi í morgun. Ætla í framhaldinu að hringja smá og jafnvel skrifa eina ritfregn. (Um Pál.) (Sem fjallar bara um bókina og útgáfuna og huxanlega kveðskapinn en ekkert hvað mér, persónulega, finnst um hann, persónulega.) (Það segi ég bara hér, persónulega.)

Annars er mig farið að langa óskaplega að skreppa út um allar sveitir og firði og leika mér. En góða veðrið ætlar víst að láta bíða eftir sér fram á föstudag svo það borgar sig víst að vinna ærlega alla þessa viku. Er annars merkilega lítið stressuð yfir þessu blaði, þó ég sé að fara til útlanda eftir þrjár vikur og 6 daga! 
Vá hvað ég þarf að fara að kenna Hraðbátnum á pela...

6.7.08

Sumarhundur

Er í vinnunni, "eldsnemma" á sunnudagsmorgni. Og er að kóróna vanhelgunina á hvíldardeginum með því að hringja í annað fólk! Reyndar hefur enginn svara mér ennþá, svo kannski tekst það bara ekki. En ég er þó allavega með messuna í útvarpinu.

Drottinn sé með yður.

Í gær var brjáluð blíða og ég tók fullt af myndum. Svona ef þetta skyldi vera eini góðviðrisdagurinn í sumar, þá þurfum við ekki að muna neitt annað.

Annars þarf ég að fara að passa geðið í mér núna. Smábátur hafði orð á því að honum þætti sem við værum komin aftur til Frakklands. Og þá áttaði ég mig á því að ég hef tilhneigingu til þess að flytja með fjölskylduna á sumrin og dvelja langdvölum einhversstaðar, hérlendis eða erlendis, við frekar frumstæðar aðstæður.

Með fimm manna fjölskyldu í þrengslum og uppþvottavélarleysi er auðvelt að týna sér í húsverkunum. Nú er ég farin að vera þannig að ég næ ekki upp í hárið á mér yfir öllu sem mér finnst ég alltaf þurfa að vera að gera til þess að allir séu hreinir, étnir og sæmilega í fötum. Og get hreint ekkert notið hvíldarstundanna á milli vegna þess að ég er alltaf farin að hugsa um næsta verk, matartíma, pissubleyju, eða eitthvað. Og þegar ég á pásu get ég alls ekki farið að gera eitthvað skemmtilegt, því ég þarf svo mikið að hvíla mig.

Þetta gengur alls ekki lengur. Nú ætla ég með liðið út að borða í hádeginu þar sem Smábáturinn yfirgefur okkur á eftir. Svo ætla ég að láta allt draslið liggja þar sem því sýnist og leika mér við litlu krakkana það sem eftir er í dag. Og reyna svo að gera allavega eitt skemmtilegt á dag það sem eftir er sumarfrís.

Og með mínum anda. 
Amen.