28.10.06

Og meira

Blogger ræður ekki við neitt sérstaklega margar myndir í einu. En við höldum áfram.


Um daginn kom síðan tækifæri til að montast í öðrum frænkukjól þegar öll fjölskyldan brá sér á bekkjarkvöld hjá Smábáti. (Ath. að hún situr á cajuni. Það er svona trommusett sem lítur út eins og kassi)

Þar var boðið upp á ýmislegt skemmtilegt, m.a. nokkur hroðalega fyndin leikrit um ábyrgð. Ég held minn bekkur hafi hreint ekki verið svona hugmyndaríkur og fyndinn þegar við vorum 10 ára. (Hér átti að koma líka mynd af Smábátnum að spila á trommu. En þá sagði nú blogger bara aldeilis hingað og ekki lengra þannig að hún verður að bíða aðeins betri tíma.

Annars er horið búið að ná mér. Enda var það nú bara tímaspursmál. Smábátur er batnaður, Freigátan er orðin hitalaus en er enn eins og lítill horköggull. Horið náði mér í gær, og ég er að huxa um að fara að kalla Rannsóknarskipið Herra Horfoss. (Alltaf jafnsætur og fallegur og sexí, samt.)

Ég var í náttbuxunum í allan dag.

Á morgun verður lánið okkar vonandi afgreitt formlega án frekara múðurs. Þá er nú líklega óhætt að fara að huxa til þess að pakka. (Tók reyndar pólitíska ákvörðun um að raða ekki aftur í bókahilluna sem Freigátan hreinsaði niður úr í gær...)

Til lukku

Það er komin laugardagur. Og sól, meiraðsegja. Fyrir akkúrat 9 mánuðum síðan hef ég ekki hugmynd um hvernig veðrið var. En þá öskraði ég stanslaust í heilan dag. Í dag, þegar klukkuna vantar tvær mínútur í 6, síðdegis, verður Freigátan 9 mánaða.
Í tilefni af því skulum við hafa myndir:



Freigátu finnst ógurlega gaman að vera úti. Ég er að vonast til að það endist henni eitthvað fram á aðeins efri ár þannig að ekki þurfi að draga hana með valdi frá tölvunni, dax daglega, eins og suma ónefnda Smábáta. ;-)


Og talandi um Smábáta, svona voru þeir nú smáfríðir, hann og Eiríkur vinur hans, þegar þeir voru á leið í "Draugaafmæli" á föstudaginn 13. október.

27.10.06

Ókei...

Þetta fer nú að verða svolítið ruglandi.

Bankinn er búinn að hringja. Hann vill ekki lána okkur pening nema hann fái að lána okkur meira en við báðum um. Það er alveg sjálfsagt af okkar hálfu. Bankinn segist vera byrjaður að "undirbúa lánið" en að það verði ekki "samþykkt formlega" fyrr en á mánudag.

Hvað þýðir það?

Fáum við lán eða ekki?

Ég er ekkert miklu nær... þori allavega ekkert að fara að fagna strax.

En nú er allavega staðar nem í þessu öllu fram á mánudag. Pfff.

Hjartað í buxunum

Erum ekki enn búin að heyra frá Rannsóknarskipsbankanum um hvort hann ætlar að lána okkur péning. Veit ekki hvort það er góðs eða slæms viti. Fasteignasalan er farin að hringja og njósna hvernig gengur. Það er stressandi.

Krakkaormarnir eru báðir heima með hor.

Og svo er bara rigning.

Þetta er að verða eins og í upphafinu á Dickens-sögu.

Sem væri nú aldeilis ágætt, þar sem þær enda alltaf vel. Reyndar aldrei fyrr en eftir miklar hremmingar.

26.10.06

Glæta...

Viðskiptabanki Rannsóknarskips virðist öllu liðlegri en minn. Virðist allavega vera til í að lána okkur þennan péning ef við stöndumst greiðslumat. Og það ætlum við að reyna að gera í dag. Búin að vera að finna hvern einasta bleðil sem getur litið út eins og tekjur. Og grafa upp allar vel földu milljónirnar. Þetta er soldið eins og fjársjóðsleit.

Annars tókst mér nú að nurla mínum viðskiptabanka aðeins upp í gær, en ekki nógu hátt. Svo rölti Rannsóknarskip sér nú bara niðrí bæ og talaði við aðstoðarútibústjórann. Og hann var nú bara ekkert nema elskulegheitin. En til öryggis erum við nú samt komin með plan b.

Í öðrum óspurðum fréttum er það helst að í gær var gert mikið átak hér á skrifstofunni minni og um tonni af drasli úr geymslunni hent á haugana. Í áframhaldandi hreingerningaræði er ég að taka útstillingargluggann okkar í gegn í dag.

Er að fara að sjá Purpura eftir Fosse í Verinu í kvöld, í hlutverki gagnrýnanda Leiklistarvefjarins. (Það er hvortsemer ekkert í sjónvarpinu og Rannsóknarskip þarf að þýða eins og vindurinn.) Langt síðan ég hef rýnt eitthvað. Ætti nú að gera meira af því. Það er nefnilega svo gaman.

Og, leitin að dularfullu atferlismeðferðarkonunum heldur áfram. Læknirinn minn reyndist hafa hringt í þær. En þegar ég ætlaði að hringja í hann í gærmorgun var hann nú kominn í frí fram að jólum eða þar um bil. Í staðinn fékk ég að tala við annan lækni sem er frændi minn. Það gekk að sjálfsögðu betur. Hann gat leitt mig í allan sannleikann um stöðu mála. Atferliskonurnar eiga semsagt að hringja í mig. Og ég gat hringt í þær, sagði hann, en hvar eða í hvaða númer virtist vera hernaðarleyndarmál. Tóxt lox að grafa upp númerið eftir afar flókið hlerunar- og njósnaferli. Það svarar ekki þar. Fékk líka netfang. Það virkar ekki.

Að ætla að afla sér meðferðar gegn þunglyndi, utan pilla, er sem sagt ekki aldeilis heiglum hent. Ef minn sjúkdómur væri á alvarlegra stigi væri ég líklega búin að kála mér svona tíu sinnum, bara undanfarna daga.

Svona er nú skilvirkni heilbrigðiskerfisins okkar.

25.10.06

Morgunfýla

Ég er ennþá alveg hreint arfafúl út í bankann minn. Var búin að skoða upplýsingar um öll íbúða- og fasteignalán einstaklega gaumgæfilega, einmitt með þetta atriði í huga. Og hvergi á öllum vef KB-Banka er minnst einu orði á brunabótamat. Svo slengir ævilangur viðskiptabanki mann, sem hefur haft út úr manni milljónatugi undanfarin 32 og hálft ár, í alls konar skítagreiðslur, þessari skítugu gólftusku bara framan í mann eins og ekkert sé. Rannsóknarskip ætlar að athuga með sinn banka í dag og gá hvort hann er liðlegri.
Vonandi er það allavega einhver, því annars erum við bara í djúpum skít. Maður á náttlega aldrei að hlusta á neitt sem manni er sagt. Fasteignasalinn okkar sagði að "sumir" væru svegjanlegri og færu ekki eftir brunabótamatinu þegar um svo góða staðsetningu væri að ræða. (Enda gamli vesturbærinn huxanlega eina landsvæðið í landinu sem verðfellur líklegast aldrei að neinu gagni.) En hvað er hann var bara að ljúga, svosem eins og sölumenn gera?
Ég er algjörlega að huxa mig niður í hyldýpið með þetta.

Að auki komu skilaboð frá truntulega ungbarnasundkennaranum sem Habbý mælti með í gærkvöldi. Hún bauð Freigátunni að vera með á námskeiði sem er eftir kvöldmat þegar hún er venjulega sofnuð. Ég er kannski klikk, en ég ætla ekki að fara að halda krakkanum vakandi fram undir miðnætti, þvælast með hana úti í kulda og myrkri með blautt hárið, til þess að hún komist í sund. Konan tjáði mér (truntulega) að annar tími kæmi ekki til greina. Við vorum búnar að vera á biðlista frá í september.

Er búin að taka ákvörðun um að Freigátan sleppi formlegu ungbarnasundi. Enda stóðum við okkur mjög vel í því í sumar, á eigin spýtum. Og höfum ekkert efni á því.

Og ég er bara að drepa tímann, svona snemma morguns, af því að ég er að bíða eftir að viðtalstíminn hjá lækninum mínum byrji. Það myndi jú laga ástandið talsvert ef ég vissi eitthvað um hvernig mál stæðu með þessa þunglyndismeðferð sem ég er ekki byrjuð í, en heimilislæknirinn minn hefur ekki enn séð ástæðu til að gera það sem hann lofaði fyrir hálfum mánuði síðan.

Það er sennilega bara ég, en það eru óvenjumargar truntur í lífi mínu í dag. Vona bara að Karma sjái til þess að allir fái makleg málagjöld.

24.10.06

Zzzzzzz

Hleranir í gamla daga. Beinar útsendingar frá hvalveiðum.... Siiiiríuslí. Er gúrka eða hvað?

Enging gúrka á þessum bæ, samt. Er að bíða eftir Rannsóknarskipinu heim úr skólanum til að ég komist á lestur tveggja flunkunýrra leikrita hjá Hugleiki. Bankinn minn er með múður. Þykist ekki veita íbúðalán yfir brunabótamati. Ég hótaði að fara burt úr bankanum með allt mitt hafurtask. Og reikna með að þurfa að standa við það. Þá er bara að gá hvaða banki vill eiga allar milljónirnar sem ég á eftir að borga í vexti næstu 40 árin.

Er sybbin. Eins gott að leikrit kvöldsins séu skemmtileg. ;-)

Og, gaman hvað margir kvittuðu! Greinilega eins gott að standa sig.

23.10.06

1001 blogg

Gerðum tilboð á föstudaginn. Gagntilboð var gert og við tókum því núna rétt áðan. Erum á góðri leið að verða íbúðareigendur. Slotið er vestarlega við Ránargötuna, nýlegra en títt er um húsnæði í þessum bæjarhluta, og ekki líklegt til að setja okkur alveg alla leið á höfuðin. Þá er bara að vona að bankinn verði góður við okkur. Verði hann það verður gerður kaupsamningur og afhending mun fara fram jafnframt. Það lítur sumsé ut fyrir flutninga í nóvember.

Austurferð var annars hin ljómandasta. Leikritið mitt virðist ætla að líta ljómandi vel út í meðförum Odds Bjarna og Leikfélax Fljótsdalshéraðs. Leikritið reyndist tilbúnara en ég hélt, þannig að þessi helgi varð nú bara hin frílistugasta. Út að borða með leikhópnum og svona. Frumsýning er einhverntíma um helgina eftir þrjár vikur, þannig að einhversstaðar í flutningunum fer ég bara austur á frumsýningu eins og fín frú. Verra mál að búið var að setja framkvæmdadag á húsnæði Hugleix þessa sömu helgi (frumsýning átti sko upphaflega að vera viku fyrr) þannig að það lítur út fyrir að ég þurfi að skrópa í tiltektardag í annað skiptið í röð. Síðast var ég á fæðingardeildinni. Fólk fer að fatta að ég skipulegg þetta allt svona viljandi...

Og þar sem þetta er nú færsla númer 1001, stórfréttir og svona, er ég að huxa um að vera með forvitni. Ég er nefnilegaalltaf að hitta fólk sem les bloggið mitt. Bara svona einhversstaðar. Á ættarmótum og úti á götu. Og mig langar til að spurja hvort menn nenna nú kannski að svala forvitni minni oggulítið, og skrifa komment við þessa færslu, allir sem mögulega lesa þetta og nenna. Svo ætla ég nefnilega að telja þau...

Við Freigáta ötlum út að labba, og leiðin liggur að sjálfsögðu vestur Ránargötuna.