7.1.05

Ég varð fyrir nokkru aðkasti um jólin. Hafði það með frammistöðu minna manna í enska boltanum að gera og var mér nokkuð núið um nasir 5-2 ósigri gegn ófétunum í Tottenham. Enda var ég að miklu umkringd Liverpool-fjölskyldunni ógurlegu. Í hefndarskyni ætla ég að setja link á Jón Mág svo alþjóð geti séð hvernig stafsetningin hans er. Merkilegt að maður sem á í kunningsskap við Berglindi Steins skuli komast upp með annað eins...
Ég sé svolítið eftir horfna kommentakerfinu mínu. Þar var talsvert af fyndi, einhverjar stökur eftir Sævar og fleiri sem ég vildi að ég hefði haft vit á að halda til haga. Og vissi svosem að ég hefði átt að gera, á sínum tíma, en var náttúrulega ekki búin að, áður en 2005 vandinn tók völdin. En, þetta innbyggða ætti nú að duga betur, vonandi.

Annars, veit ekki hvernig þetta ár ætlar eiginlega að verða, áramótin rétt horfin fyrir hornið og strax búin vika. Líklega rétt að ákveða strax hvað maður ætlar að gera á þessu ári, áður en það verður búið.

Ég ætla til dæmis að fara í klippingu. Alveg ákveðin í því. Og setja í þvottavél. Og reyna að útrýma rússneskum ljósakrónum af heimili mínu.

Er annars hálfsofandi í dag. Alls ekki tilbúin til að snúa sólarhringnum rétt og fara að lifa eðlilegu lífi eftir allt þetta jól. Rannsóknarskipið er horfið norður yfir heiðar. Nú þarf ég sjálf að vaska upp heima hjá mér og hef engan til að stjana við mig. Held það geti verið að ég sé svolítið ofdekruð eftir þessi jól. Ætla að eyða helginni hálfsofandi, enda er í mér einhver lurða, og ímynda mér að ég búi enn við stjanþjónustu.

6.1.05

Langhundur um Óliver.

Sagan, og ekki síður söngleikurinn, um Ólíver Twist hefur verið að valda mér nokkrum heilabrotum.

Nú hef ég ekki lesið upprunalegu söguna eftir Dickens, en hef lesið og séð nokkrar matreiðslur á henni. Og slatta af öðru eftir Dickens. Hann hefur svolítið gaman af því að láta aðalpersónur sínar verða leiksoppa örlaganna (sbr. Great Expectations), þróast og þroskast mikið í gegnum söguna (sbr. Chrismas Carols) og enda í allt annarri aðstöðu en þær byrjuðu, en þó eiginlega fyrir röð tilviljana. Þetta á ekki síst við um Óliver Twist. Hann byrjar söguna á munaðarleysingahæli, lendir í alls konar hremmingum og hjá alls konar fólki, og að síðustu sem erfingi auðæfa. Allt fyrir tómar tilviljanir. En gott og vel með það.

En Óliver er vandræðabarn. Þar sem sagan fjallar um barn hafa margir verið haldnir þeim misskilningi að hún sé fyrir börn. Til þess er hún hins vegar eiginlega of dramatísk, langdregin og... ja bara fullorðins. Þegar mönnum dettur síðan í hug að skrifa upp úr þessu barnvænan söngleik verður ekki hjá því komist að útkoman verði nokkuð... misþroska. Sagan er upprunalega löng og flókin og hefur milljón útúrdúra. Þegar síðan á að sjóða hana niður í eina sviðsetningu þurfa menn að vanda sig vel og reyna að fylgja einum þræði og einni miðlægri persónu, helst. Það gera smiðir söngleiksins ekki. Þeir fara út um víðan völl. Þvælast inn í alls kyns hliðarsögur og þó tónlistin sé flott og grípandi þá er framvinda í henni lítil og fæst hafa lögin nokkuð með söguna að gera. Stundum finnst manni eins og tónlistin sé eiginlega annars staðar frá og hafi verið borað inn í leikritið. Tilgangur þessa er þó nokkuð óljós.

Lögin eru líka jafnmisjöfn og þau eru mörg. Mörg þeirra eru einföld og stuðhvetjandi, eru áheyrileg og höfða alveg eins til barna. Setja stemminguna og bjóða upp á trúðsskap leikara, kannski frekar en að þjóna einhverjum tilgangi í leikritinu. Síðan skjóta upp kolli ballöður. Eins og til dæmis meðvirknissöngvar Nancy um Bill Sykes, sem gefur mér gæsahúð, en ca. tvær línur inn í þá söngva missa börn hins vegar áhugann og upphefja hrókasamræður. Ákveðin atriði í sýningunni eru heldur alls ekki við hæfi barna.

Persónur eru líka mjög misjafnlegar skrifaðar. Þ.e.a.s. í mismunandi stíl. Sumar eru trúðslegar og bjóða upp á trúðslegan ofleik á meðan aðrar verða að leikast af einlægni ef þær eiga að virka. Það er því erfitt að ná einhverjum heildarsvip á leikstíl þessarar sýningar.

Og hann Óliver litli er því miður bara hálfónýt aðalpersóna. Við fáum litla mynd af hans persónu. Jú, hann biður um meiri mat á munaðarleysingahælinu og verður bálvondur ef einhver talar illa um móður hans heitna... Þess á milli er hann eiginlega eins konar leikmunur, sem áhugaverðari persónur verksins sækjast eftir að "hafa". Hvers vegna er illa undirbyggt. Hann hefur ekki næstum því nógu mikinn texta eða vigt í verkinu til þess að áhorfendur kynnist hans persónu upp að einhverju marki. Á hinn bóginn fær þjófapabbinn Fagin hvert einsöngsnúmerið á fætur öðru og er vafalaust best teiknaða persónan í verkinu, án þess þó að hann sé þungamiðjan. Eiginlega ætti verkið að heita Fagin! og vera um hann

Það verður þó að segjast að mér finnst Magnús Geir og Leikfélagar á Akureyri komast eins vel á þessu annars hripleka verki eins og kostur er. Persónur sem bjóða upp á trúðleik eru leiknar þannig. Þær sem þarf að leika af einlægni eru settar þannig fram þannig að persónurnar eru gerðar eins heilsteyptar og kostur er, hver fyrir sig, þó óneitanlega sé á köflum eins og þær komi sín úr hverju leikriti. (Jafnvel sumar úr teiknimynd.) Hópsenurnar eru skemmtilegar, þó þær þjóni takmörkuðum tilgangi, og lausnir og útfærslur skemmtilega unnar. (Ekki skemmir heldur fyrir að í þeim er fallegasti leikari í heimi og hann er meira að segja látinn fara úr að ofan!)

Mörg spurningarmerki verður þó að setja við verkefnavalið. Eins finnst mér fyndið þegar menn eru að státa sig af því að vera með 47 manns á "ekki stærra sviði", þar af 18 börn. Ég verð nú að segja að ég hef oft séð fleiri manns á minni sviðum, með fleiri börn innanborðs með jafnvel betri útkomu. Hvers vegna ætli það komist fleira fólk fyrir á sviðum áhugaleikhúsa en atvinnuleikhúsa? Mér hefur einmitt þótt það ljóður á ráði nokkurra atvinnuuppfærsla að hópsenur verða stundum frekar strjálar og vesældarlegar þar sem "hópurinn" er stundum fámennur nær engan veginn upp því stuði sem á að vera á sviðinu. Það á þó alls ekki við um þessa sýningu, en mér detta t.d. í hug kráaratriðið í Fiðlaranum á þakinu í Þjóðleikhúsinu um árið og eins hópsenur í Rocky Horror í Loftkastalanum. Óttalega klént, eingöngu vegna sparnaðar á aukaleikurum.

En, 47 manns á sviði samkomuhússins á Akureyri finnst mér ekkert neitt svo sérstaklega mikið, oseiseinei. Hef séð 50 manns á sviðinu í Valaskjálf, þar af 32 börn. Ekki fyrir svo margt löngu voru 70 manns á því sama sviði. Allt börn. Þannig að þessi fjöldi finnst mér nú ekkert til að missa legvatnið yfir, svona per se...

Ég vona að ég eigi ekki yfir höfði mér bölbænir galdramannsins Júlíusar fyrir þennan langhund. Vil taka það fram að mér þótti sýningin eins og best verður á kosið, miðað við efniviðinn, og Júlli sætur.

5.1.05

Og síðan síðast...

...er margt og mikið búið að gerast. Þann 27. des. fór ég til Akureyris og sá generál af Ólíveri hjá Leikfélagi Akureyrar. Sá líka frumsýningu daginn eftir og þá var líka partý. Var síðan fyrir norðan í góðu yfirlæti fram á gamlársdag, sá reyndar minnst af Árna mínum þar sem hann þurfti ógurlega mikið að leika og vinna og allt mögulegt, en við smábátur, mótorskip Róbert, höfðum það náðugt og fórum m.a. í fjölskylduboð hjá Eló minni ásamt með öllum flotanum. Var það einkar skemmtilegt og endaði með singstar-keppni. (Flotinn er nefnilega hálfgerð Von Trapp fjölskylda. Allir syngja.)

Á gamlársdag brunuðum við Árni síðan austur og vorum heima hjá mér um áramótin. Það held ég hafi happnast ágætlega. Nú brá svo við að við Bára héldum ekki áramótapartý, en fukum þess í stað heim til Halldóru í gleðskap upp úr miðnættinu. Það var alls ekki verra, nema síður sé. Svo var púlsinn tekinn á áramótaballinu, það var eins og venjulega.

2. jan. var síðan haldið aftur norður þar sem 2 sýningar áttu að vera á Ólíveri. Við festum okkur aðeins í snjóskafli, en ekki fór þó svo vel að við mættum hafa vetursetu á Mývatnsöræfum og Árni rétt náði sýningu. Planið var svo að keyra suður 3., en það var ekki hægt, allt ófært landleið sem flugleið. Í staðinn eyddum við deginum í Brekku. (Sem sagt, uppvaxtarstað Árna, ekki þeirri sem undirrituð er stundum kennd við...) Við góða skemmtan, ég hlaut m.a. uppfræðslu í uppáhaldshljómsveit þeirra Brekkubræðra, They Might be Giants. Skemmtilegt.

Við komum í bæinn í gær, með flugi, og ég fæ að hafa hann Árna minn hjá mér þangað til á morgun. Upphefst eftir það mikil sorg, grátur og gnístran tanna, þar sem hann þarf að leika og leika, ég er að aðstoðarleikstýra og aðstoðarleikstýra og Skrattinn veit hvenær við sjáumst næst. Fjandans. Á meðan hann dvelst hér verður hann við nám í því sem allir mínir menn þurfa að þekkja, Buffy the Vampire Slayer. (Honum var nær að gefa mér 1. seríuna á DVD í jólagjöf...)

Og núna er sem sagt komið á eðlilegt kerfi hversdaxlífs, svona nokkurn veginn. Ég þarf að fara að upphuxa aukatekjur. Lallallah. Samkvæmt greiðsluþjónustunni minni þarf ég að borga 75.000 kall á mánuði í hvers konar kostnað við tilvist mína. Það er fyrir utan líkamlega og andlega fæðu og neyslu. Hmmmm... Ekki víst að það sé alveg... hægt. Miðað við núverandi innkomu.

Og svo þarf ég nauðsynilega að tjá mig um tilvist söngleixins Ólívers. Hann veldur mér heilabrotum. Huxa að ég skrifi grein, annaðhvort hér eða þar.
Vesalings bloggið mitt hefur fallið í vanhirðu og ákveðið að losa sig við kommentakerfið í mótmælaskyni. Ekki veit ég hverju sætir en setti inn svona "innbyggt" í staðinn.

Hér kemur allavega áramótauppgjörið, seint og um síðir.

Áramótasamantekt.

Um síðustu áramót bulluðum við pabbi minn upp spádómi um að þetta yrði líklega frakar leiðnlegt ár. Tilbreytingalítið og flatt. Enda 2004 slétt tala og gott ef ekki er hægt að taka kvaðratrót af henni líka. Í tilefni þess verður áramótapistill þessa árs í þurrprumpulegu skýrsluformi.

Búsetur: 3.
- Á Egilsstöðum í 1 og hálfan dag.
- Hjá Ástu í 10 og hálfan mánuð.
- Í eigin fínerísíbúð í 1 og hálfan mánuð.

Eiginmannsefni: 2.
- Ágætismaðurinn sem kom mér í kynni við al-anon en nennti mér svo ekki lengur. Þakka honum samstarfið.
- Indælisdásemdarmaðurinn sem er ekkert hræddur við skuldbindingar. Býð hann velkominn til starfa og vina að hann geri mér þá gleði að þiggja æviráðningu þegar fram líða stundir.

Vinnur: 1 gegnumgangandi og nokkrar lausbeislaðar.
- Bandalagið, allt árið.
- Smá þýðingar hjá Philip.
- 2 útvarpsþættir á Rás 1
- Prófarkalestur hjá DV á tímabili.

Leikhúsdót, margt:
- Lék konu blinda hnífakastarans í Sirkus hjá Hugleik í vor. Í flottasta búningi ever.
- Einn einþáttungur eftir mig frumsýndur á einþáttungahátíð á Húsabakka í vor. Innihélt m.a. þrjár hoppirólur fyrir fullorðna og upphafssetninguna "Djöfull er ég búin að skíta á mig núna..." sem varð líka fyrsta setning sem áðurnefndur blindur hnífakastari fékk að láta út úr sér hjá Hugleik. Spes.
- Lék lesbískan fatahönnuð hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar í haust. Kynntist lesbíska fatahönnuðinum í sjálfri mér.
- Tók þátt í þróunarvinnu ofurverksins Memento Mori með Hugleik og leikfélagi Kópavogs í beinu framhaldi. Gerði lítið og fátt, sem gerði það að verkum að sýningin sú varð hin mesta snilld.
- Skrifaði einþáttunginn "Gegnumtrekkur" upp eftir ömmu minni fyrir Westan sem ég gaf henni á áttræðisafmæli hennar.

Gráður 1:
- Varð Meistari í Bókmenntafræðum! Loxinsloxins! Það breytti engu!

Utanlandsferðir 3: Vegabréfið í endurgildingu í maí.
- Hálfsmánaðar námskeið í leikritun í Allihies á Írlandi í júní. Stórskemmtilegt. Þar þróaðist t.d. framburðurinn á enskunni minni í enn fleiri áttir. Var fyrir einhvern veginn ensk-skoskur. Var eftir hálfan mánuð á Írlandi með eintómum könum orðinn... athygliverður.
- Leiklistarhátíð í Eistlandi í ágúst. Hrein dásemd. Hugleikur synti í maukinu. Það var hlýtt og notalegt og ég keypti mér fagran kjól.
- Skrifstofumót NAR í Færeyjum í október. Komst að því að ég get talað skandinavísku eins og vindurinn. (Til að byrja með kom reyndar allt út á frönsku, mér til mikillar furðu þar sem ég hélt ég hefði aldrei náð neinum almennilegum tökum á því tungumáli.) Segir sennilega sitt um að mér er auðveldara að tala en að halda mér saman, sama á hvaða tungumáli.

Almenn kátína: Nánast stanslaus.

Sem sagt, ef þetta var viðburðalítið ár þá vil ég eiginlega ekki vita hvernig þau viðburðameiri verða. 2005 er t.d. oddatala og ætti þess vegna að verða mikið um sviptingar. Ég verð nú samt eiginlega bara syfjuð við tilhuxunina. Sviptingar eru ágætar út af fyrir sig, en ég held þetta hafi kannski eitthvað með aldurinn að gera. Hérna megin við þrítugt er ég allavega alveg til í að sviptingar haldi sig í lágmarki og að engar fleiri u-beygjur verði teknar á næstunni.
Er alveg til í að sitja sem mest fyrir framan sjónvarpið, prjóna og geispa á ári komanda.