28.11.08

Síður

Er á leiðinni í síðustu kennslustund fyrir jól. Ef ég átti að gera eitthvað fyrir hana þá man ég það allavega ekki. Þá á ég ekkert eftir í þessum kúrsi nema... allt. Próf (svona týpískt skriflegt) 18. des. Tvær spurningar. Aðra semur kennarinn en hin er einstaklingsbundin og við semjum hana sjálf. (ar. Allar 4 sem erum eftir í þessum kúrsi.) Og svo ritgerð. 8 - 12 blaðsíður er reyndar svo oggulegt að gvuðmávita hvenær maður nennir að byrja. En þarf samt að fara að bara... geraða.

Meðan ég man, fékk einhver lánað hjá mér greinasafn sem heitir Tragedy? Ég man að ég lánaði þessa bók einhverjum, en man ekki hverjum. Og held ég gæti notað eitthvað úr henni í þessa ritgerð.

Í gær var ég jólaleg og keypti greni í aðventukransinn. Og drullusokk og stíflueyði. Notaði í fyrsta samlegu Blómavals og Húsasmiðjunnar. Keypti líka úlpu á fimmþúsundkall sem ég ætlaði að bjóða Smábáti, en stæðist hún ekki töffaraprófið ætlaði ég að eiga hana sjálf. Unglingnum fannst hún flott og hirti hana og núna er ég að prófa að vera í hans úlpu, sem var orðin þrautin þyngri að koma honum í þótt úti væri brunagaddur. Hún er soldið lítil. Og rifin. Spurning hvað maður á að ákveða að sé mikil kreppa...

Ein málþroskasaga af Freigátunni: Hún er eiginlega orðin hitalaus, en þó rýkur hún upp í einhverjar kommur þegar hún og Hraðbátur hafa hamast mikið. Í morgun var búið að vera mikioð fjör með þvottabalann (sem var sundlaug, eða eitthvað) og ég spurði hana hvort hún þyrfti ekki að fara að hvíla sig aðeins. Og fékk svarið: 

–Nei, nei. Ég held nú síður!

Úr munni tveggja ára er þetta einstaklega ofvitalegt.

27.11.08

Vissum Harróví!

Það happ henti að um svipað leyti og veikindi hófust duttu inn allar heimsins stöðvar á sjádæmið. Gerist annað slagið, sennilega til að menn gerist húkkt og fái sér áskrift í framhaldinu. Litlu sjúklingunum hefur þess vegna verið hægt að halda kjurum stund og stund fyrir framan Baby-TV. Þar er ofureinfalt barnaefni meira og minna á lúppu. Áðan datt mér í hug að bjóða hinni sófaföstu Freigátu upp á eitthvað annað. Eins og til dæmis mynd. Hún hélt nú það! Vissum Harróí!

Fyrir einhverjum vikum var ég búin að læra Hoodwinked og báða Shrekkana sem við erum með í láni utanað, svo ekki sé minnst á Ísöld 1 og 2 og ákvað að sýna henni eitthvað nýtt. Ákvað að athuga hvernig henni litist á Nightmare before Christmas. Hún vakti svo svakalega lukku að í marga daga mátti ekki horfa á neitt nema "Ojamyndina." Rannsóknarskip bauð síðan upp á tilbreytingu einn daginn og sýndi henni Ghost Bride. Hún fékk viðurnefnið Hin Ojamyndin og varð mjög vinsæl í svo sem tvo sólarhringa.

Einn daginn var síðan pöntuð "Hin myndin." Ég set Ghost Bride í en Freigátan vissi strax og fyrstu stafirnir birtust að maðkur væri í mysunni og misskilningur hefði átt sér stað. Hún sagði: "Nei, ekki þessa. Ég vil horfa á" (og söng svo) "Vissum, harróví, vissum harróví..." (This is Halloween.)
Ég vissi ekki hvert móðurhjartað ætlaði. Dóttir mín, tveggja ára, er ekki aðeins komin með einstakt dálæti á einni uppáhalds myndinni minni heldur farin að syngja upphafslagið úr henni!

Þá er það bara að kenna henni að svara spurningunni "Hverjir eru bestir?" rétt.

26.11.08

Töttögö!


Um daginn heyrði ég sagt frá því, sem algjörri hörrrrmungarfrétt, að einkaneysla Íslendinga myndi líklega dragast saman um heil 20% bara á næstu mánuðum.

Drottinn minn almáttugur. Kannski kaupir sér bara enginn Hömmer úr kassanum á næsta ári. Og kannski selst bara ekkert úr á yfir milljón fyrir þessi jól. Ekki veit ég hvernig við eigum nú að lifa þetta af!

Heilmikill kostur er að við erum að sigla út úr svo mikilli neyslugeðveiki að það þurfa ekki nema þrír eða fjórir flottræflar að fara á hausinn og þá eru þessi töttögu prósent bara komin.

Svo er maður náttúrulega góðu vanur. Við erum búin að lifa meira og minna á námslánum, fæðingarorlofum og kennaralaunum undanfarin ár (og alveg án neyslulána) og ég held samt að við getum alveg örugglega dregið saman um 25% bara af hreinræktuðum óþarfa. Og skipt samt um klósett á næsta ári.

Horfréttir

Það er nú orðið aumt þegar horfréttir heimilisins eru það jákvæðasta sem maður skrifar. Og eru þær þó frekar leiðinlegar. 

Freigátan er búin að vera veik nánast samfleytt í fimm vikur eða þarumbil. Síðan fyrir helgi er hún búin að liggja í flensu og er enn með talsverðan hita. Rannsóknarskip fór með hana til læknis í gær en hann sagði bara að þetta væru endalausir vírusar og ekkert við þeim að gera. Eyru og lungu í fínu formi, enda er hún á pústi. Mikið og margt að ganga á leikskólum þessa dagana. Ég reyni að vera dugleg að troða í hana lýsi og allskyns þrælhollum mat en hún er orðin óttalega föl og aumingjaleg, greyið. Hún var heima næstum alla síðustu viku og ég er farin að efast um að hún komist á leikskólann í þessari. Allavega liggur hún bara í sófanum og mælist enn með fimm kommur.

Hraðbáturinn virtist bara ætla að sleppa með smá kvef en fór svo að verða órólegri og um þverbak keyrði í gær á meðan Freigátan var hjá lækninum. Þá fór hann að gráta alveg óstöðvandi og Rannsóknarskip var sendur beinustu leið til baka á læknavaktina með annað barn þegar hann kom aftur. (Og lenti á sama lækni... hallærisleeeegt.) Seinna barnið reyndist þó vera hægt að laga. Hraðbáturinn semsagt aftur kominn með eyrnabólgu, aftur kominn á pensillín og á að klára birgðarnar í þetta sinn. Hann svaf svakavel í nótt og hefur snúið aftur til síns pollrólega persónuleika.

Móðurskip byrjaði að verða lasin í síðustu viku, druslaðist nú samt á haustfund Bandalaxins á laugardaginn en ákvað á síðustu stundu að skrópa í djammið um kvöldið, þó það væri nú fúlt. Er síðan búin að vera að drepast, þangað til í dag, allavega er ég farin að taka til. Reyndar ennþá ill í öðru eyranu og get ekki andað.

Smábátur og Rannsóknarskip sluppu með stutta slæmsku í síðustu viku. Enda voru þeir báðir flensusprautaðir.

Nú er ég að hugsa um að reyna að finna upp á einhverju til að láta Freigátuna síður hirða upp alla vírusa sem hún rekst á. Hún tekur lýsi og fjölvítamín og annað sem mér hefur dottið í hug að gera er að 
- þvo henni alltaf vel í framan og um hendurnar þegar hún kemur heim af leikskólanum og skipta jafnvel um peysu.
- reyna að skreppa með hana í smá labbitúr á leiðinni heim úr leikskólanum og viðra hana.
- setja hana í bað á hverju kvöldi og skola hárið vel.

Kann fólk annars einhver kerlingabókaráð við leikskólapestum? Önnur en að láta barnið bara hætta að vera á leikskóla?

(Nú virðist leikskólabarnið þó vera að fá matarlystina, liggur í sófanum og pantar hafrakex og ost.)

25.11.08

Grrrr...

Nú segir Geir að ef verði skipt um ríkisstjórn... ja bara nokkurntíma, séu öll lánamál í uppnámi, hvorki meira né minna. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ALLIR eru semsagt bara til í að lána Geir peninga, persónulega. Ekki íslensku ríkisstjórninni, hver sem hún er. 
Bara þeim sem settu landið á hausinn.

Mér þætti nú gaman að fá að heyra hvað forsvarsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og lánveitenda segja um það. Ætli fréttamenn séu ekki til í að hringja í þá og spurja?

Og svo.

Maður lánar sjálfum sér milljarða af almannafé til að kaupa sjálfan sig út úr sjálfum sér, sjálfum sér til handa. Stingur svo sömu upphæð skuldlausri í hinn vasann.

Og aðalmálið er brot á einhverri fokkíng bankaleynd?
Ég næ ekki einu sinni hálfa leið upp í nefið á mér lengur.

Ég fer að hallast að því að það eina sem dugi sé almennileg bylting. Kannski ekki með hengingum, ríkisstjórn og eftirlitsstofnanir hafa svo sem ekki látið drepa neinn... svo við vitum. En tökum af þeim peningana, gefum þeim svona nokkra milljarða af skuldum í þrotabúið af sér og setjum allt pakkið á atvinnuleysisskrá eða í atvinnubótavinnu þar sem menn geta þrælað fyrir einhvern hundraðþúsundkall á mánuði það sem eftir er. Það er maklegt og réttvíst.

Að sætta sig við staðreyndir

Við Freigáta erum síst skárri í dag. 14 dagar sagði Habbý að þessi veiki tæki. Svo það er best að gera bara ráð fyrir að við verðum í þessu í eina og hálfa viku í viðbót. Verðum bara að vera duglegar að henda Rannsóknarskipinu út með Hraðbátinn þegar hann er búinn að vinna. Annars er sá stutti ótrúlega duglegur að dunda sér. Og vonandi hef ég einhver ráð til að koma honum á sundnámskeiðið á fimmtudaginn. Þá skal ég liggja eins og pönnukaka eins lengi og hver vill.

Þyrfti auðvitað að vera að gera allan skrattann. Ekkert við því að gera.
Svo er bara að hanga á þessum huxunarhætti fram í rauðan dauðann ellegar feisa geðbólgur.

24.11.08

Skilaboð?

Meira en 10.000 manns mótmæla á Austurvelli á hverjum laugardegi. Það er ekki nóg. 1500 manns (eða eitthvað) fara á opinn borgarafund í Háskólabíói. Þó fundurinn sé sýndur beint í sjónvarpinu. Sollu þykja skilaboðin ekki nægilega skýr. 
(Og svo fannst mér hún frekar truntuleg í tilsvörum. Er að verða alvarlega afhuga Samfylkingunni í ríkisstjórn. Þá eru eiginlega bara eftir Steingrímur og félagar, og Ómar og félagar. Grænt án þess að Framsókn komi nálægt?) 

Það er örugglega búið að hrinda af stað 50 hópum og hreyfingum sem eru með mismunandi aðferðum að reyna að koma stjórninni frá. Menn eru að reyna að stöðva lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjónum til þess að það endi ekki einhversstaðar uppi í stóra félagsheimilinu á Seðlabankastjóra. Það er búið að bera upp vantrauststillögu á ríkisstjórnina.

En, nei. Skilaboðin eru ekki nógu skýr.

Verðum við ekki bara að kjósa sjálf? Spurja alla og gá hvort það er meirihluti fyrir kosningum í vor? Jafnvel hægt að gera það bara á fésbókinni? Og tala svo við þá sem ekki eiga útibú þar?

Ég er lasin. Líkami minn hafnar Ástandinu og er með furðufuglaflensu.

Beinar

Af beinum útsendingum dagsins hugsa ég að borgarafundurinn í kvöld vinni. Er búin að vera að reyna að fylgjast með umræðum á hinu háa Alþingi í dag. Og ekki hef ég heyrt svo mikið sem stafkrók sem ég hef ekki heyrt svo oft áður að ég er farin að óska þess að eyrun detti af mér. Held helst að brúka hefði þurft borgarafundareglurnar á umræður um vantrauststillöguna. 
2 mínútur á mann. Alveg nóg. Hrjót, hvað það þarf að senda allt þetta lið á einhvers konar... áhugaverðu-í-ræðumennsku-námskeið.

Og spennandi að sjá hve margir úr ríkisstjórn og af alþingismönnum láta svo lítið að mæta á fundinn í kvöld. Sjálfstæðisfélögin og Heilbrigðisráðherra eru allavega búin að boða einhvern annan almennigsfund í Gerðubergi á sama tíma. Tilviljun? Sennilega álíka mikil og handtaka Hauks hennar Evu um daginn. Fokkíng banana-fasistalýðræðiskjaftæði alltaf hreint. Ég vona bara að einhverjir taki að sér að mæta á fundinn í Gerðubergi, leggja til að honum verði frestað og bjóði svo ráðherranum far niður í Háskólabíó.

Það segir auðvitað sína sögu um þessa handónýtu ríkisstjórn að hún þori ekki að mæta þjóðinni milliliðalaust og svara nokkrum laufléttum spurningum. Það var mögnuð stemming á fundinum síðasta mánudagskvöld. Ef Alþingismenn eru með sitt á hreinu geta þeir komið mjög vel út úr svona fundi. Það að þeir sjái ekki sóma sinn í að mæta gefur hins vegar mjög skýr skilaboð um að þeir þori hvorki né nenni að tala beint við þjóðina og/eða að norski herfræðingurinn hafi bannað það þegar hann gaf leiðbeiningar um hverju og hvernig ætti að ljúga í þjóðina við aðstæður sem þessar.

Svo er ég komin með leið á þessu björgunarleiðangurskjaftæði. Mig minnir að Baggalútur hafi sagt einhversstaðar í upphafi hruns að ríkisstjórnin ætli að tækla kreppuna með lélegum myndlíkingum. Sem hún er einmitt búin að gera svakalega mikið af. Við erum jú bókmenntaþjóð, en kommon. Fyrr má nú rota en fótbrjóta. 
Enda er mun líklegri björgunarlíking svona:
Það varð sjóslys og stjórn björgunarsveitarinnar tók peningakassann og ólöglega bókhaldið og flúði til fjalla. Húkir þar og reynir að bjarga eigin skinni meðan hún öskrar í gjallarhorn úr öruggri fjarlægð að einhverjir aðrir hafi líka stolið og svikið og spillst.


Drepsótt

Við Freigáta erum alveg hreint hundveikar en Hraðbátur virðist sleppa enn sem komið er. 

Fúlt að missa af borgarafundinum í kvöld.