7.4.11

Kjördagur!

Stuð í nýja húsinu. Gamla húsið orðið nánast tómt var alþrifið í gær. Ég og mamma mín erum nú ekki lengi aððessu. Bara eftir að flytja geymsluna.

Og danssýning hjá Freigátunni í Kramhúsinu í dag. Og tiltekt hjá Hugleik seinnipartinn. Og mamma eldar kvöldmat handa stórfjölskyldunni í kvöld. Rannsóknarskip er norðan heiða.

Reynt verður að æfa einþáttung í næstu viku.

Af hverju er alltaf svona mikið að gera?

6.4.11

Útsýni!

Útsýni hefur aldrei skipt mig neinu máli. Ég ólst upp á neðri hæð í skógivaxnasta hluta Egilsstaða og sá í uppvextinum bara inn um eldhúsgluggann hjá afa og ömmu í næsta húsi. Tja, þegar það var ekki lauf á trjánum. Síðan hef ég oftast búið við eitthvað svoleiðis. Útsýni út á götu eða yfir í næsta hús. Út um eldhúsgluggann í Ellahúsi sé ég sjóinn og Esjuna. Og allt þar á milli. Í bakgarðinum syngur fugl í ljósaskiptunum. Hann er annaðhvort svartþröstur eða starri að herma eftir svoleiðis. Hraðbátur kom sér upp kvefi á sunnudaginn þannig að við erum ekki mikið farin að skoða umhverfið. Ég hef ekki sagt þeim litlu frá því, en ég hef grun um að fólkið á neðri hæðinni eigi hund. Um leið og það uppgötvast flytur Freigátan niður.

Annars er allt að komast á sína staði, hægt og rólega. Verið er að setja saman húsgögn og setja inní þau, taka upp úr kössum. Klóra sér í hausnum yfir drasli sem enginn notar... þetta venjulega. Enn er ekki búið að tæma geymsluna eða klára að þrífa gamla staðinn. Líklega verður gerður skurkur í því um helgina, þegar amma-Freigáta kemur í þrælkunarvinnu.

Íbúðareigandi kemur á eftir. Ég þarf að spyrja hann um allskonar. Svo ætlum við að reyna að koma einhverju af dótinu hans eitthvurt.

Það er nú skemmtilegt að flytja. Sérstaklega þegar maður fer í svona +35 fermetra...

Og svo glápir maður bara á Esjuna.