19.6.08

Jább

Það er ennþá geðveikt að gera bara. Rannsóknarskip fór í hálsskurðinn í dag. Getur víst eitthvað takmarkað af neinu. En ég á von á honum austur einhvern tíma í næstu viku, en þarf að fara vel með hann. Líklega eins gott að ég er að fá aðra duglega vinnukonu á sunnudaginn, í viðbót við Báru syss, sem er komin og hefur verið reglulega iðin við að hafa ofan af fyrir Freigátunni.

Já, við erum semst komin austur aftur. Keyrðum í gær og höfðum Rannsóknarskip meðferðis og sendum hann svo með flugi héðan. Hann gat þá aðeins gáð inn í íbúðina sem við verðum líklega flutt inn í þegar hann kemur.

Og, síðasta sýningin af Soffíu mús á Egilsstöðum verður á sunnudaginn. Eftir það verður hún á einhverjum bæjarhátíðum... veit ekki hvenær eða hvar. En nú er ég orðin svo reglulega fátæk að ég ætti kannski að fara að byrja að semja um hvað ég ætla að fá fyrir hana... já mar er rólegur.

Og þegar ég verð nú búin að fá allt þetta vinnufólk og Rannsóknarskipið í kaupbæti get ég líklega farið að sinna verkefni sumarsins og boða Glettingsfund. Og fara að vinna í honum. Ég hef huxað mér að hafa hann svona bara eins og hverja aðra vinnu og vera í honum fyrir hádegi. Nema það sé geðveikt gott veður. Sem ég sé nú ekki fram á að gerist í sumar. Það er haugarigning til skiptis við slyddu og hitinn þetta rétt uppúr frostmarki. 
Veðurblíðan á Egilsstöðum er oftast alveg sönn... nema á fimm ára fresti. 
Eins og 1993... og 98. Og 2003... maður hefði nú kannski átt að byrja á að reikna aðeins, áður en tekin var ákvörðun um sumarsetu?

15.6.08

Eins gott að það er sumar

og enginn nennir að lesa blogg. Er að standa mig þvílíkt illa. Og nú koma aðeins punktar.
- Soffía mús á tímaflakki var frumsýnd í gær og líkaði okkur höfundum forkunnarvel. Og höfum vér þegar lagt drög að frekara samstarfi... sem reyndar var áformað áður en þetta samstarf kom til. Fórum út að borða á Seyðisfirði með FrúNormu-fólki og tókum Hraðbátinn með. Það var ljómandi gaman.

- Ók í dag sem leið lá í Brekku í Eyjafjarðarsveit til fundar við Rannsóknarskipið og hans fjölskyldu. Höfum heimt hann af bandalaxskólanum með belaða tá en hressan í anda. Er búin að horfa á upptökur af leikritunum sem hann skrauf og leikstýrði og ætla að sjá hitt við tækifæri. Er ennfremur búin að skipuleggja ferð á 6&The City með mágkonu minni annað kvöld og hlakka gífurlega til.

Og nú er ég þvílíkt að njóta þess að láta föðurfólkið huxa um gemlingana mína fyrir framan fótboltann á meðan ég sit fullkomlega úrbrædd við tölvuna. Skil ekki hvernig einstæðar mæður halda geðheilsunni. Höndla varla 10 daga grasekk þó ég hafi eina þrjá til aðstoðar.
Dreymir um langt bað og svona 8 tíma svefn. Bið ekki um meira. Svo ég sofni nú ekki í bíóinu.

En Adam verður ekki lengi í þessari paradís. Á miðvikudaginn förum við aftur austur í grasekkið og Rannsóknarskip suður í hálsskurð. Hann verður í um viku að jafna sig. Það liggur við að ég panti Sissú frænku bara austur strax þegar hún kemst... En hún er hroðalega dugleg fjórtán ára frænka mín að vestan með barnfóstruduld sem ætlar að koma til mín í smá "orlof" og passa gemlingana mína einhverntíma í lok júní.

Jæja, bezt að fara að láta Freigátuna telja kindurnar sem Sverrir fö neitar að reka úr túninu, og vita hvort hún sofnar ekki.