13.1.07

Fárveður

Auðvitað ákvað Hugleikurinn að halda árlegan Jólafund sinn (sem er dulnefni á partíi) á fárviðriskvöldi. Ég fór úteftir áðan til að taka til (slökkva ljósin) og fór svo heim þegar aðrir byrjuðu að hafa gaman. (Eins og alvarlega meðvirkt fólk gerir.)

Neinei. Mig og lappirnar á mér, sem enn eru slasaðar eftir fylleríið um síðustu helgi, langaði bara að fara heim áður en það yrði ófært. En útlit er fyrir að partífólk verði bara að vera þarna út vikuna. Það er bara fínt, þá þarf ég kannski ekki að fara til að taka til eftir partíið. ;-) Vona bara að allir séu með nóg brennivín.

Núna erum við, allar þrjár, ég og lappirnar, að bíða eftir að Rannsóknarskip komi úr sturtu svo við getum farið að glápa á Angel og haldast í hendur í sófanum. Og hlusta á hríðina.

Það er gaman að vera giftur.

12.1.07

Lífsbreytandi ákvörðun

Það er ekkert sérstaklega kúl að vera hamingjusamur.
Þannig að:
Fokk ðe kúl.
Ég er hamingjusöm.

Hamingjusamlega gift, finnst gamana að eiga börn og vera búin að hanna þvottafrágangskerfi fyrir heimilið. Og dauðlangar að taka til í fataskápunum og verð hamingjusöm þegar ég finn matvörur á góðu tilboði.

Auðveldasta leiðin til að virka gáfaður er líka að vera fúll yfir því hvað allir séu mikil fífl. Tala niðrandi um og til sér heimskara fólks og setja sig á háhest flókinna skoðana og rökfærslna um hitt og þetta. Það stendur líka í gagnrýninni huxun að það eigi maður að gera.

Kannski ég ætti bara að reyna að finna einhverjar aðrar leiðir til að reyna að ljúga því að heiminum að ég sé greindari en annað fólk? Keypti mér til dæmis dragt um daginn...

Eða gefa kannski bara skít í þetta með gáfið og vera bara hamingjusöm?
Já, þetta er hvort sem er bara einhver meinloka í mér. Síðan ég var lítil og ljót. Þá fór ég að ríghalda í þennan mannkost. Núna gerir hann eiginlega ekkert fyrir mig nema að skapa mér samviskubit þegar ég er ekki að gera eitthvað gáfulegt. Eða hef ekki gáfulega skoðun á einhverju. En ætli það breyti svosem nokkru þó ég hætti að nöldra yfir öllu sköpuðu og ósköpuðu? Mér er það til efs.

Best að henda þessu bara öllusaman á bakvið sig.
Það myndi Zen og Dalai Lama segja.

Ég er hamingjusöm.
Og finnst það bara... kúl.

Langanir og þrár...

Mikið obbslega er nú gott að það skuli vera föstudagur. Þó vinnuvikan mín sé bara síðan á miðvikudag. Ég er samt komin með innilokunarkennd heima hjá mér og leið á biluðum löppum, hori og snjó.

Í gær var samlestur hjá Hugleik á verkinu Epli og Eikur eftir Þórunni Guðmundsdóttur sem verður sett á svið í Möguleikhúsinu og fumsýnt um miðjan mars. Var það skemmtan hin bezta. Og verður gaman að gaufast í því. Ég er annars að bræða með mér að leikstýra heldur í þorraprógrammi Hugleix (sem verður um miðjan febrúar, svo maður plöggi) og verða síðan frekar á kantinum í Eplunum í seinni hálfleik. Svo langar mig líka að vera á sama kanti við uppsetningu á leikritinu Bingó sem Hugleikur sýnir í samstarfi við Leikfélag Kópavogs í apríl.
Nóg að gera á kantinum.
Já, og svo er Hugleikur líka með Mánaðarlegt í apríl. Bezt að leikstýra kannski líka þá. Einhverntíma langar mig á leikstjórnarnámskeið. Já, og svo fékk ég allt í einu flugu í höfuðið í gær og held mig langi kannski að læra táknmál...

En svo held ég líka að mig langi einhverntíma kannski að prófa að leika í svona einþáttungi...
Og ég fór að skrifa leikrit í gær, sem er að verða einhver sambræðingur úr ýmsum hugmyndum og er að verða marghöfða skrímsli. Ég vissi ekki alveg hvort það er kúl, svo ég fór í staðinn í tölvuleik, að drepa skrímsli.

11.1.07

Hor og hitt

Rannsóknarskip og Freigáta liggja enn í slipp, hvort um annað þvert, með hor niður á höku og hóstandi eins og berklasjúklingar.

Frökenin var samt nógu hress til að byrja að labba í gær!

9.1.07

Vaaaaá!

Núna að nýliðnum fyrstu jólunum sínum er Freigátan full aðdáunar á öllu sem hún sér. Vaaaaá, er uppáhaldsorð. Enda heyrir maður það nú oft þegar maður er orðinn svona sætur:

Vaaaaaá!

8.1.07

Karma

Ef maður fer og eyðir allt of miklum peningum á útsölum í Kringlunni í föt sem mann í mesta lagi "vantar" og fer síðan í matarboð um kvöldið sem endar með dúndrandi fylleríi, þá kemur nú sko Alheimurinn og refsar manni.

Alheimurinn beit mig í fótinn á laugardagskvöld svo ég er hálffarlama eftir og dreifði síðan drepsótt yfir heimilið. Rannsóknarskip og Freigáta eru bæði fárveik og ég haltra á um á annarri og reyni að sinna þeim. Smábátur virðist, 7 9 13, ætla að sleppa.

Uj.

Annars var hroðalega gaman í umræddu matarboði. Takk fyrir okkur, Hjörvar og co. Fórum líka í tveggja ára afmæli í gær, svona 10 mínútum áður en drepsóttir tóku völdin. Eins gott. Þá þurfum við kannski ekkert að borða meira í vikunni.