17.11.07

Syfj

Hefði nú þurft að gera slatta um helgina, en ég er með ógurlega syfju. Meðgöngumælirinn sýnir nú 28 vikur og doktor.is segir að ég geti farið að finna fyrir svefnörðugleikum. Ég finn hins vegar fyrir hinum mestu vökuörðugleikum. Ég á allavega miklu erfiðara með að vera vakandi en sofandi.

Rannsóknarskip og Freigáta drösluðu mér nú samt í Hringluna í dag og þar fjárfesti ég í forláta óléttubuxum sem ég get fitnað fullt í í viðbót. Þær eru meiraðsegja með innbyggðri viðbyggingu sem er hægt að renna frá þegar að fer að kreppa. 
Einnig fann ég sérhannaðan galla til að klæða Ofurlitlu Dugguna í þegar þarf að koma henni heim á fæðingardeildinni. Og þangað aftur í fimm daga skoðun. Djöfull svakalega er maður að skipuleggja yfir sig. 
Svo misstum við okkur aðeins og hófum jólagjafainnkaup. Sem er bara fínt. Syfjugrýlan verður sjálfsagt ekki minni þegar líður á aðventu.

En á morgun gengur þetta ekki lengur. Ég verð að fara að hunskast til að skrifa fyrirlestur fyrir þýðingafræði á þriðjudaginn. Á morgun eftirhádegis gefst til dæmis fínt tækifæri. Meðan Freigátan sefur og Rannsóknarskip fer á höfunda/leikstjórafund fyrir jólaprógramm Hugleix með tvo, frekar en einn, nýskrifaða jólaþætti eftir sjálfan sig í farteskinu. Já, hann er alveg að Ortona hringi í kringum mig. Svo er hann að tala um að fara að blogga meira líka. 
É'v'tekki hvar þetta endar eiginlega.

16.11.07

Koppí!

Ég reikna með því að Freigátan verði ekkert alltaf sátt við mig á unglingsárunum. Þó ekki verði fyrir annað en það sem ég ætla að birta núna í fjölmiðli fyrir sjónum alheims:

Um nokkurt skeið hefur hún tilkynnt þegar hún þarf að "issa og kúka". Þrátt fyrir margar heiðarlegar tilraunir, aðallega af hálfu Rannsóknarskips, hefur þó ekkert lent í koppnum til þessa. Ýmist er allt um seinan þegar þangað er komið eða þá að ekkert skilar sér þrátt fyrir þrálátar zetur og bóklestur ýmiskonar. 
Áðan barst ákveðin viðvörun. Koppur var sóttur og sest við Andrés. 
Og svo gerðust undur og stórmerki!

Dags íslenskrar tungu verður hér eftir minnst öðruvísi en annars staðar á þessu heimili. 
Hann verður hér eftir Kúkadagurinn Mikli í Kopp.
Í tilefni dags íslenskrar tungu er best að hafa ljóð:
(Æfing í ritstjórn og útgáfu.)

Dauðinn gengur eftir veginum.
Hvern skyldi hann ætla að ná í núna?
Hann nær mér ekki því ég er á bíl.

(Höf. Rannsóknarskip, á barnsaldri)

Ég þarf trúlega líka að brúka daginn í þágu tungunnar. Skrifa fyrirlestur í þýðingafræði um byltingar í skjátextun og líklega væri líka snjallt að byrja á að skoða ljóðin Hræ og Til lesandans eftir Baudelaire sem ég lét gabba mig til að gera tilraun til að þýða. Þau eru bæði löng, bæði reglulega ógeðsleg, og ríma a-b-b-a í hverju erindi. Svo eru þau nottla á frönsku, en ég er reyndar búin að finna slatta af þýðingum á ensku til að hafa til hliðsjónar. 
Ég finn svakalega til vanmáttar míns og getuleysis. Nema kannski varðandi viðbjóðinn. Mér finnst þó erfitt að eiga að hafa hann ljóðrænan.

Við Freigáta erum að fara að rölta á leixkólann. Rannsóknarskip er á bílnum í dag þar sem hann fer með Smábátinn í flug norður á meðan ég verð í bumbusundinu. En þangað strætóa ég.

Ég hef alltaf gleymt að segja frá því, en mér finnst umræðan um ómöguleika nýja leiðarkerfisins (sem er nottla ekki lengur neitt nýtt) soldið fyndin. Síðan þetta kerfi kom gengur eini strætóinn sem stoppar rétt hjá mér, allt sem ég get mögulega þurft að fara. Hann gengur langleiðina út á Eyjarslóð þar sem Hugleikur á heima, í Háskólann og í Bumbusundið. Einu sinni þurfti ég síðan að strætóa í partí til Hrefnu Friðrix, og viti menn, hann gekk meiraðsegja þangað. Það eina sem hann gengur ekki er þvert yfir skagann að leikskóla Freigátunnar. En það væri nú líka bara ávísun á jafnvel enn meiri stækkun á þverveginn.

Og svo, þökk sé Villa, á ég núna ókeypis strætókort sem gildir í allan vetur.
Strætó rúlar!

15.11.07

Ammli


Elísabet mágkona mín á afmæli í dag.
Hún er kornung og þar að auki alveg svakalega dugleg að blogga, undanfarið.
Og er líka í háskóla á svipuðum ungs-aldri og ég.
Til hamingju, Eló.
Þessi fjöruga mynd er af téðri Elísabetu og Rannsóknarskipi, sonum hennar, Smábáti og Freigátu, Guðrúnu Mist (dóttur Þórðar Rannsóknarskips- og Elísabetarbróður) og einni stúlku sem ég þekki ekki. Og tekið í brúðkaupi Jóns, bróður þeirra allra.

Á morgun er annað næstum jafnmerkilegt afmæli. Jónas Hallgrímsson hefði orðið 200 ára hefði hann ekki dottið niður stiga.
Hann fann upp sjóndeildarhringinn. Og margt fleira sem ég man ekki í svipinn.
Á morgun er líka akkúrat ár síðan Hugleikur fékk viðurkenningu á degi íslenskrar tungu. Húrrahúrrah!
Menntamálaráðherra ætlar að heimslkja leikskíla Freigátunnar í fyrramálið, en vera farin áður en við komum þangað.
Og ég ætla að birta mjög dramatískt ljóð eftir Rannsíknarskipið í tilefni daxins.

Svo fylgist með í næsta þætti.

Rugggl

Í upphafi þessa dax var ég komin með alveg ótrúlega langan lista af öllu sem ég ætlaði að gera. Þetta átti að verða svona reddingadagur um allan bæ.
1. Ég byrjaði á að senda Rannsóknarskip í vinnuna með eina bíllykilinn í vasanum.
2. Þurfti því að labba með Freigátuna á leixkólann og nálgast lykilhelvítið í leiðinni.
3. Fara svo aftur heim og ná í bílinn.
4. Þá þurfti ég uððitað endilega að setjast niður með kaffið og Moggann.
5. Og gá síðan aðeins í tölvuna.
6. Fór að skoða listann yfir fyrirliggjandi aðgerðir betur, og komst að því að ýmislegt þurfti að gerast í réttri röð.
7. Endurraðaði.
8. Klukkan var komin nálægt hádegi þegar ég loxins druslaðist niður í skóla.

Ætlaði að hitta á kennara sem átti að hafa viðtalstíma milli 12 og 13. Á fimmtudögum. Þegar kom að skrifstofuhurðinni hans sagði hún nú bara eitthvað allt annað. Ég á skrifstofu Hugvísindadeildar. Hún kom af fjöllum.
Ég get rætt við annan kennara um þetta sama lokaverkefni, en hún er með viðtalstíma þegar ég er í bumbusundi. Ég skrópa nú þegar einu sinni í viku til að hlusta á Ólínu Þorvarðar, og er meinilla við að skrópa fyrir viðtalstíma. Í staðinn skipulagði ég hefndaraðgerðir.

Skrifaði báðum þessum kennurum erindi mitt í löhöhöhöngu máli í lengsta og leiðinlegasta tölvupósti sem ég hef nokkurn tíma látið frá mér fara. Í honum var ekki eitt einasta fynd eða skætingur, aðeins fræðilegar staðreyndir ýmissa mála raktar í mikkklum smáatriðum. Flýtti mér að senda áður en ég færi að vorkenna þeim of mikið.
Ef ég fæ einhvern tíma svar við þessum langhundi líður yfir mig.

Þegar öllu þessu er lokið er komið fram yfir hádegi. Ég er búin að komast að því að ekkert af því sem eftir er á listanum er hægt að gera í dag fyrst ég náði ekki í þennan kennara. Og verkefni daxins í Ritstjórn og Hræðileg skrif get ég ekki gert vegna þess að ég á enga gamla námsritgerð aðra en M.A. ritgerðina mína. Og hana legg ég nú ekki á nokkurn mann. Svo ég þarf að fá eitthvað að láni hjá Rannsóknarskipi.

Er þó búin að viða að mér efni til að fara með heim. M.a. tveimur ógeðsljóðum eftir Baudelaire sem ég er allt í einu búin að taka að mér að þýða, og Kóraninum. Sem er búið að þýða. En nú er klukkutími þangað til ég á að sækja Smábátinn og fara með hann í flensusprautun. Það er of lítill tími til að byrja á neinu af viti og of mikill tími til að hanga.

Er í Bókhlöðunni. Kaffið hér er vont.
Kaffið heima er gott. En ég nenni ekki þangað til að fara strax aftur út.

Þessi dagur er greinilega alveg ákveðinn í að fara til spillis.

14.11.07

Jólafýla

Á þessum árstíma fer ég að finna lykt.
Hún er af skítugum diskum. Með sósuleifum svínakjötsafgöngum. Súrum jólabjór sem maður hellir með ógeðsblandinni eftirsjá í skítugan vask. Og rauðum álaborg sem blandast saman við bússjúlei í sama vaski. Og svitalykt og táfýla.
Lyktir sem fylgja því að þjóna til borðs í jólahlaðborðum.

Jólahlaðborðatíminn hafði vissulega sína kosti. Það er auðveldara að vera með hlaðborð. Fólk fær sér sjálft á diskana og maður þarf ekki að vera alltaf að þvælast fram í eldhús og hlusta á kjaftháttinn (og kynferðislegu áreitnina) í fj... kokkunum. Það voru líka alltaf túristamiðuð fiskihlaðborð á sumrin sem voru draumur í dós. Maður þurfti varla að sjá nokkurn kokk og útlendingar tíma ekkert að drekka á íslenskum veitingahúsum. Létt og löðurmannlegt og allir komust yfirleitt snemma heim.

Þar brá hins vegar alltöðruvísi við í jólahlaðborðunum. Fátt er leiðinlegra en vinnustaðahópar, fullir af jólamat, jólabjór og bússjúlei, stundum þangað til þeir gubba. Maður þurfti gjarnan á allri sinni jólagleði og Mariu Carey að halda frá miðjum nóvember til þolláx, hreinlega til að halda geðinu og góða skapinu. Og mikið var maður nú alltaf feginn þegar þollákur rann upp, með skötulykt í staðinn fyrir jólað. Ekki að vita hvernig jólamaturinn hefði runnið niður hefði ekki jafnan komið til sú pása.

Ein tegund jólahlaðborðagesta var þó öðrum erfiðari. Kennarar. Komu jafnan úttaugaðir eftir önnina, undir lok eða í lok kennslu fyrir jól, og peruðu sig. Í sameginlegu spennufalli og ofsakæti yfir að hafa lifað af aðra önn á skítalaunum án þess að enda á geðspítala, urðu gjarnan úr þessu miklar matar- og drykkjuorgíur. Ekkert síður í hádeginu.

Mér datt þetta sisvona í hug.
Ég er að fara í jólahlaðborð með Rannsóknarskipi og samkennurum þann 1. des...
Huxa að ég keyri nú bara.

13.11.07

Get ekki blox bundist

Var á fyrsta Þjóðleikhúskjallaraprógrammi Hugleix. Það var nú algjört æði. 6 fínir þættir og vel úr görðum gjörðir að öllu leyti. Og eins var ógurlega gaman að sjá að félagið fúnkerar alveg bara ljómandi vel þó ég sé í pásu. Ekki að ég hafi ekki alveg reiknað með því, en ég var bara komin með heiminn svo ógurlega á herðarnar yfir þessu í fyrra og orðin illa haldin af leikfélaxþunglyndi. Ég þoli fátt ver en að halda að ég sé ómissandi. Ég þarf að vera... missandi.

Og Rannsóknarskip lék eins og hetja. Mér finnst mikilvægt að taka fram að ég kúka aldrei þegar hann er í sturtu.

Svo hangir maður bara og dinglar sér eitthvað og ætlar aldrei að koma sér í bælið. Sem gengur ekki. Það er skóladagur á morgun.

Ofurlítilli Duggu fannst mjög skemmtilegt í leikhúsi og sparkaði eins og vítleysingur allan tímann. Ég er nú farin að hlakka dáldið til að hitta hana/hann.

Freigátan var á meðan dugleg að sofa á meðan afi og amma Smábátsins pössuðu hana, og Smábáturinn var duglegur að passa þau, lesa fyrir þau Íslendingasögurnar og laga handa þeim kaffi.

Allir duglegir, bara.

Uj

hvað ég nenni ekki að fara að sækja um fæðingarorlof. Því síður að fara í Lánasjóðinn með skuldabréf og sækja um undanþágu til að fara niðurfyrir lágmarkseiningar eftir áramót vegna burðar en fá samt námslán. En til að þetta taki fljótar af er ég að hugsa um að gera bæði í sömu vikunni. Fæðingarorlofssjóðurinn er strax farinn að vera með múður. Heimtar að ég verði skráð í fullt nám eftir áramót til að eiga rétt á fæðingastyrk í næsta september. Þýðir ekkert að reyna að útskýra að ég sé í 20 einingum núna og 10 eftir áramót og líklega 15 næsta sumar sem er samtals 45 einingar sem er fullt nám í heilt árm frekar en hálft, sem það þarf að vera.
Neibb, engin liðlegheit hér.
Og það sem maður myndi gera í stöðunni væri að fara á staðinn með haug af pappírum og útskýra og ibba sig.
En skrifstofan er á Hvammstanga.
Ætli ég verði ekki að gá hvort háskólinn getur logið einhverju fyrir mig.
Þarf líka að kjafta eina konu þar inn á að leyfa mér að gera lokaverkefnið eins og ég vil.

Held ég leggi mig bara.

12.11.07

Aldrei

bjóst ég við að láta hafa eftir mér eftirfarandi setningu:
"Mikið var ég nú fegin að komast í bókhlöðuna í dag."
En þannig er það nú samt. Freigátan fór nánast óhóstandi í leikskólann og án þess að úr nefinu á henni hafi runnið horlufsa frá fyrriparti gærdags. Enda urðu fagnaðarfundir og það var sko ekkert mál að skilja við Móðurskipið í dag.

Svo skaust ég í Hlöðuna að gera allt sem ég er búin að trassa um helgina.

En það er einhvern veginn þannig að sé maður búinn að hrúga upp nógu miklu, þá er eins og manni sé skotið úr teygjubyssu og spýtist í gegnum verkefnin. Enda held ég að viðskiptum okkar Baudelaires sé nú bara svei mér þá lokið, og klukkan ekki nema rétt 11.

Sem er eins gott. Ég á að halda fyrirlestur í þýðingafræði í næstu viku og hann er ekkert byrjaður að undirbúast. Svo ekki sé nú minnst á Kóraninn, sem ég hef ekki enn lesið stafkrók í. Ég þarf reyndar ekki að skila honum fyrr en í lok mánaðar... en það er bara allt í einu svo asskoti langt liðið á þennan mánuð. Og ég held ég eigi líka að skila einhverri ógurlega heimspekilega þenkjandi ritgerð um menningarspeglun þann 28. Svo þetta er eiginlega að verða svolítið... ja ég má allavega ekki vera að fleiri veikjum fyrr en kannski í desember. Annars er óvenjulegt að vera í námi og vera eiginlega búinn að öllu þegar desember byrjar. Í þeim mánuði þarf ég bara að skrifa eina ritgerð. Reyndar tvisvar.

Jæjah. Bezt að fara þá bara niður á kaffistofu og fá sér kaffi og eitthvað alvarlega gott meððí, hunskast svo í búð og versla rækilega og fara svo heim og panta flugfar handa Smábátnum, setja í eins og eina þvottavél og fara í bumbusund.

No rest for the wicked.

11.11.07

Plögg og fleira

Maður er nú ekki að standa sig.

Fyrsta Þjóðleikhúskjallaraprógramm Hugleix er í kvöld. Húsið opnar kl. 20.30, Sýningin byrjar kl. 21.00. 6 einþáttungar eftir og leikstýrt af félaxmönnum á boðstólnum. (Rannsóknarskip leikur í einum.) Skitinn þúsundkall inn. Seinni sýning á þriðjudaginn. Ég fer á hana, Smábátur fer í kvöld ásamt afa sínum og ömmu, en hann er þar í láni síðan í gær, en það gengi passar síðan Freigátuna á þriðjudaginn.

Annars er allt á uppleið. Ég var að huxa um að leyfa Freigátunni að kíkja aðeins út í dag, en svo er hún aðeins að hora og hósta svo ég ákvað að fresta öllu sollis þangað til í leikskólanum á morgun. Hún fékk hins vegar að fara í bað og er þess vegna hvorki með gamalt hor eða svita í hárinu lengur, móður sinni til mikillar gleði. Og virðist ekki hafa orðið meint af, heldur hefur dregið úr horfossi ef eitthvað er.

Og við erum að horfa á Barbapapa á frönsku.
Ég er löngu búin að sjá hvaðan Vinstri grænir hafa alla sína hugmyndafræði.
Ætli Steingrímur J. geti breytt um lögun?

Við erum annars búin að eiga frekar lata helgi. Rannsóknarskip og Smábátur fóru í Kringluna í gær og keyptu sér föt. Þar ber helst til tíðinda að nú vill drengurinn helst hafa öll föt svört. Ég sé unglingsaldurinn nálgast óðfluga.

Móðurskipið er nú farið að verða aðeins latara og feitara, sprettur kannski ekki lengur upp eins og stálfjöður, við hvert tækifæri, til þjónustu reiðubúin, en samkvæmt teljaranum eru víst núna 90 dagar eftir af óléttunni. Sem þýðir að þeir eru samkvæmt sónar 89 (ég nennti ekki að leiðrétta hann á sínum tíma) og eru örugglega í verunni eitthvað allt annað. Duggan er orðin ansi fyrirferðarmikil og sparkar þannig að það sést. Og Móðurskipið er eitthvað svo sybbið að ég frestaði öllu sem ég ætlaði að gera um helgina fram á mánudag, með einu kötti og peisti.

Enda eins gott. Við Freigáta þurfum að sjá um okkur sjálfar allan seinnipartinn. En á svona innidögum með litlu lasi verða eftirmiðdagarnir oft ansi geðvondir og kryddaðir með nokkrum frekjuköstum. Í augnablikinu er þó alveg dúnalogn. Barbapapa rúlar.