6.12.08

Úgg

Með mér er að magnast enn einn góðæris/kreppukjaftæðis-pistillinn. Ég má bara ekkert vera að því að skrifa hann. Svo hann verður líklega orðinn fullkomlega endalaus þegar og ef ég nenni og kemst til.

Annars er helst í fréttum að litlu ormarnir voru dugleg við að halda vökum í nótt. Freigátan að veikjast og Hraðbáturinn enn með magapínu af pensillíni, sem ég þori ekki að láta hann hætta á fyrr en allt er búið, fyrst Freigátan er að fá nýtt kvef. Þessvegna er ég hér að geðvonskast ein með barnafjöldina á meðan Rannsóknarskip er á leiklistarnámskeiði. En næturvökur þeirra litlu eru þó að skila því að þau eru grjótsofandi núna. Smábátur er kominn úr aukatíma í tónfræði og er að undirbúa að fara í afmæli á eftir. Í millitíðinni ætlar einn vinur hans að koma til hans og hefur fengið ströng fyrirmæli um að hringja í allllls ekki dyrabjöllunni þegar hann kemur.

Móðurskipið eipar endanlega ef ró litlu sofandanna raskast fyrr en bráðnauðsynlegt er.

Er farin að láta mig dreyma um og sjá í hillingum allt sem ég ætla að gera þegar Rannsóknarskip kemur aftur. Ætla allavega að fara í lannnnngt bað. 
Og reyna að afgeðvonska mig.

5.12.08

Ljótir hálfvitar gegn Fljótsdalsdalshéraði?!?

Þetta er nú bara... svindl.
Veit ekki í hvaða fót ég á eiginlega að stíga.
Held líklega bara þeim sem tapar. Hef tilhneigingu til þess.

---

Helvítið hann Roy Orbison.
Hef samt fulla trú á að Hálfvitar meiki það áfram á stigafjölda.
Svo er auðvitað bara tímaspursmál hvenær nafni Norðurþings verður breytt í Hálfvitasveit.

4.12.08

Tölur

Hraðbátur fékk þessa fínu skoðun í morgun.

Lengd: 72 cm
Þyngd: 9,365

Engin eyrnabólga lengur og engin sprauta. Svo fórum við í sund. Sundkennarinn hafði orð á því að Hraðbáturinn væri greinilega búinn að jafna sig þegar hann var búinn að skvetta og öskra af hamingju allan tímann.

Móðurskipið er alltaf úrbrætt og geðvont á fimmtudagskvöldum eftir tvö smábarnasundnámskeið á innan við sólarhring. En til vill að sjónvarpið er ljómandi á fimmtudögum svo ég þarf bara að geðvonskast yfir auglýsingunum.

Glettingurinn minn kom út í dag.

Á morgun ætlum við Hraðbátur að versla í þrotabúinu af Next.

11!

Nei, djók.

Tjúllaður dagur. Við Hraðbátur erum búin að fara í foreldrakaffi á leikskóla Freigátunnar og gæða okkur á þessum líka fínu piparkökum sem krakkarnir bökuðu. Það var svaka gaman (þangað til við kom að kveðjustund með gráti og gnístran.) Hraðbátur skemmti sér svo vel á leikskólanum að hann var alveg búinn á því og fór bara aftur í náttfötin og að leggja sig klukkan hálftíu.

Eftir hádegið er Hraðbáturinn að fara í 10 mánaða skoðun og vonandi verða eyrun orðin ljómandi þannig að við getum drifið okkur beint í sund. Svo þarf ég að bruna í prentsmiðjuna og kippa einum kassa af Glettingum til að senda hinum og þessum.

Og líklega eins gott að drífa sem mest af öllu í heiminum af í dag. Bæði börnin vöknuðu með splunkunýtt hor í morgun. Reyndar engan hita ennþá, en ég bíð spennt. Ég sem var farin að láta mig dreyma um pestarlausa helgi. :-(

3.12.08

10!

Hraðbáturinn er 10 mánaða í dag. Hann er ennþá mjög rólegur og duglegur að dunda sér en er líka kraftmikill og er farinn að skríða og hífa sig upp við allt sem fyrir verður. Svo gengur hann út um allt og ýtir stólum, dótakössum, þvottabölum og öðru á undan sér. Ég á nú samt ekki von á að hann fari að labba fyrir jól. 

Hann kemur alltaf á fleygiferð ef uppþvottavélin er opin og reynir að komast inn í hana. Honum finnst fátt skemmtilegra en að fikta í hurðum og öðru sem hann getur klemmt sig á. Svo teygir hann sig upp á píanóið og spilar oft heilmikið á það. Eitt af því allra skemmtilegasta er að ná í DVD-myndirnar og dreifa þeim út um allt og stundum eru bækurnar úr bókahillunum á ganginum líka komnar út um allt gólf. 

Hraðbátur er mikill bókaormur eins og hann á kyn til og getur setið langtímunum saman og flett bókum. Þá ekkert endilega barnabókum. Og frá því að hann var pínulítill hefur verið eitt besta huggunarráðið að standa með hann fyrir framan bókahillurnar. Hann var farinn að brosa og hjala framan í bækurnar eins og hann væri að tala við fólk, mjög snemma.

Hraðbátur er mjög hændur að systkinum sínum og þau Freigátan eru oft mjög dugleg að leika sér. Stundum veit maður ekkert af þeim, lengilengi. (En veit þá um leið að verið er að rusla vel og rækilega til einhversstaðar.) Þeim Smábáti kemur líka mjög vel saman og þeir eru alltaf tveir heima á morgnana á meðan ég skrepp með Freigátuna yfir götuna, á leikskólann.

Ég er að fara með hann í 10 mánaða skoðun á morgun. Vonandi koma eyrun vel út úr henni, en stúfurinn er á síðustu dögum pensillínkúrs tvö á mjög stuttum tíma. Hann hefur sofið svolítið illa undanfarna daga og ég held að honum sé illt í maganum út af meðalinu.

Til hamingju með afmælið, Friðrik Hraðbátur.

2.12.08

9!

Fékk níu fyrir Glettinginn minn. Hann kemur reyndar ekki úr prentun fyrr en á fimmtudag en kennarinn sá síðustu prófarkir og þurfti að flýta sér. (Huxanlega á fæðingardeildina.) Þá er meðaleinkunnin mín komin aftur upp í 8. Gaman.

Annar er ég löt í dag. Hraðbáturinn var eitthvað vondur í maganum í nótt og hélt mér alveg við efnið. Og ég er ekki að nenna að byrja að læra. Fyrir prófið. Og ritgerðina. Sem skulu takast/skilast eftir rúman hálfan mánður. Jæks, kæruleysi. Reyndar gefur litli bröltormurinn manni svo sem ekki mikinn lærfrið. (Núna gengur hann um allt og ekur stólum og öðru lauslegu á undan sér. Alllveg að fara að labba.) En að mér heilli og lifandi skal ég hunzkast í bókhlöðuna þegar Rannsóknarskip kemur heim.

Og letikastið er ég að nota til að gera lista yfir allt sem ég þarf að fara að hunskast til að gera. Og hann lengist bara og lengist. Ísskápur hinn nýrri er farinn að haga sér eins og sá gamli gerði undir það síðasta og farinn að safna ís í sig, innst. Mikið svakalega er hér hrædd um að kælikerfið í honum leki líka. Og niðursturtunarkerfið í klósettkassanum er svo innilega á síðasta snúning. Hraðbáturinn að fara í 10 mánaða skoðun á fimmtudaginn og ég hef ekki grun um hvað ég gerði við heilsufarsdagbókina hans og bólusetningaskírteinið.

Er að huxa um að gefa skít í þetta alltsaman og endurskoða heldur 2. þáttinn af The Wire.

1.12.08

Og amma

Þegar ég var lítil var frí í skólanum á 1. des. Ég hélt lengi vel að það væri vegna þess að amma mín á afmæli þá. Hún er 86 ára í dag. Svo á hún Mæja mammans Aðalbjörns líka afmæli. Og Anna G. sem var besta vinkona mín um 5-6 ára aldurinn en ég veit ekkert um í dag þar sem hún fluttist til Kanada uppúr því.

Þjóðfundurinn var annars fínn. Dáldið kaldur.
Get ekki gert að því brosa ævinlega útfyrir eyru þegar ég hitti byltingaröflin í þjóðfélaginu. Trúi varla ennþá að ég sé að lifa að sjá fyrir endann á góðæriskjaftæðinu.
Mar er náttúrulega óttalegur afturhaldskommatittur.

Og í tilefni dagsins:

Hér er komin ritstjórnarstefna dagblaðsins Nei.

Ekki víst að menn nenni að lesa allan langhundinn. Hann er sumsstaðar tyrfinn. Ég lá yfir honum lengi morguns og var næstum farin að grenja úr sammáli á köflum. Ekki bjóst ég við að litla kommahjartað mitt fengi að lifa að lesa svona dásemdir. Og það í fjölmiðlaumhverfi samtímans.

Hef eina sál með kommaritinu Nei.

Jólaskap!

Síðan ég eignaðist fjölskyldu (og jafnvel lengur) hefur jólafasta jafnan farið í einhverja stressgeðveiki hjá mér og lítið farið fyrir jólaskapinu fyrr en kannski eftir jól. En nú er ég bara komin í þetta rokna jólaskap, akkúrat á tíma, í upphafi desember og jólaföstu. Þetta hefur gerst fyrir talsverða tilviljun og hefur átt dágóðan aðdraganda.

Ég held þetta hafi byrjað fyrir tæpum tveimur vikum þegar ég var að fara eitthvað, ein míns liðs, og ætlaði að díddjeija eitthvað skemmtilegt að hlusta á. Og mundi þá að ég var ekki ennþá búin að skipta um tónlistarúrval í bílnum, eins og ég hafði ætlaði í ár eða tvö. Raxt þá á Pottþétt jól 2, disk 2. Skellti honum í og gerði sjálfri mér óvart það sem gerist á hverju ári. Fyrsta jólalagið sem ég heyri er nefnilega alltaf og ófrávíkjanlega Last Christmas með Wham. Einhverra hluta vegna. Svo jóladiskurinn hefur fengið að malla í spilaranum í bílnum síðan og sogast inn í undirmeðvitundina.

Í síðustu viku setti ég síðan upp  aðventuskreytingar, hvað sem tautaði og raulaði. Gaf skít í allt annað sem ég hefði átt að vera að gera, sérstaklega skítinn heima hjá mér, og tyllti niður aðventuljósum og kransi, innan um draslið. (Það verður tekið til og þrifið. Eftir 18. desember. Þá verða allir komnir í jólafrí.)

Svo var það þessi fína aðventu-brúðkaupsafmælisveisla sem við héldum foreldrunum í gærkveldi. (Og heppnaðist ljómandi vel, bæðevei.) Hún varð til þess að ég sauð hangikjöt á laugardagskvöldið og húsið er enn ilmandi og angandi. Svo æfði ég mig líka á waldorfsafbrigði (og komst af því að létt-mæjónes er bara ekki málið) og múltítaskaði á við milljón manns alla helgina og rúmlega það.

Afraksturinn er þetta fína jólaskap.

Ofan á alltsaman eru allir hraustir og komust í leikskóla/skóla í dag. Reyndar með talsverðum harmkvælum. Bæði Smábátur og Freigáta vildu meina að þau væru nú hreint allt í einu orðin svona líka sultuveik í morgun. En hinu harðbrjósta Móðurskipi varð ekki haggað. Fólk sem nauðaði í allan gærdag um að fá að fara í BT/fór niður í bæ að sjá jólatréð, og skemmti sér svo við matarboð fram eftir kvöldi, kæmist vel í skólann/leikskólann. (Bara vonandi að ég fái liðið ekki í hausinn fyrir hádegi, með hita.)

Ég er búin að komast að því að besta ráðið til að komast í jólaskap er flatur niðurskurður á leiðindaverkum auk þess sem það borgar sig alveg að gefa sér tíma í að gera skemmtilegt og jóló. Þó svo að tæknilega séð gæti maður alveg verið að gera "gáfulegri" hluti en að slást við grenigreinar og vír eða sjóða hangikjöt í nóvember. Skítt meðða, bara. Ritgerðin mín í harmleikjunum verður bara betri ef ég verð jólaglaðari við að skrifa hana. 

Og ég er að fara að byrja að lesa fyrir prófið... alveg rétt bráðum.

Og til hamingju Ísland! 
Fullvalda þjóð í 90 ár!
Og akkúrat búin að sýna og sanna að við ráðum ekkert við það!

Göngum í Færeyjar!

30.11.08

Fer tugt

Í dag er annríki. Foreldrin mín hafa verið gipt hvoru öðru í fjóra áratugi, akkúrat núna, að staðartíma. Svo voru þau líka að koma frá Víetnam og Kambódíu í gær. Í tilefni þess verður meiriháttar bjóð heima hjá bróður mínum í Hafnarfirðinum í kringum kvöldmatarleytið, með öllum og haug matar. En fyrst ku eiga að fara með Freigáturnar yngri og eldri niður í bæ og sjá Báru móðu spila á lúðurinn sinn áður en kveikt verður í Trénu.

Man varla eftir öðru eins annríki. Búin að múltítaska á við hundrað manns, elda hangikjet, búa til valdorfsalatsafbrigði, versla, baða, klæða og guðmávitahvað. Nú er síðasta lognið fyrir síðasta storminn. Hraðbátur og Rannsóknarskip að leggja sig (síðarnefndur dáldið þunnur eftir kennaradjamm í gær) Smábátur í tölvunni og við Freigáta búnar að öllu. Eða næstum. Egilsstaða-afinn nýfarinn og amma-Freigáta rétt ókomin. Brúðkaupsafmælisdeginum ætla þau semsagt að eyða í að fara á mis.