Síðan ég eignaðist fjölskyldu (og jafnvel lengur) hefur jólafasta jafnan farið í einhverja stressgeðveiki hjá mér og lítið farið fyrir jólaskapinu fyrr en kannski eftir jól. En nú er ég bara komin í þetta rokna jólaskap, akkúrat á tíma, í upphafi desember og jólaföstu. Þetta hefur gerst fyrir talsverða tilviljun og hefur átt dágóðan aðdraganda.
Ég held þetta hafi byrjað fyrir tæpum tveimur vikum þegar ég var að fara eitthvað, ein míns liðs, og ætlaði að díddjeija eitthvað skemmtilegt að hlusta á. Og mundi þá að ég var ekki ennþá búin að skipta um tónlistarúrval í bílnum, eins og ég hafði ætlaði í ár eða tvö. Raxt þá á Pottþétt jól 2, disk 2. Skellti honum í og gerði sjálfri mér óvart það sem gerist á hverju ári. Fyrsta jólalagið sem ég heyri er nefnilega alltaf og ófrávíkjanlega Last Christmas með Wham. Einhverra hluta vegna. Svo jóladiskurinn hefur fengið að malla í spilaranum í bílnum síðan og sogast inn í undirmeðvitundina.
Í síðustu viku setti ég síðan upp aðventuskreytingar, hvað sem tautaði og raulaði. Gaf skít í allt annað sem ég hefði átt að vera að gera, sérstaklega skítinn heima hjá mér, og tyllti niður aðventuljósum og kransi, innan um draslið. (Það verður tekið til og þrifið. Eftir 18. desember. Þá verða allir komnir í jólafrí.)
Svo var það þessi fína aðventu-brúðkaupsafmælisveisla sem við héldum foreldrunum í gærkveldi. (Og heppnaðist ljómandi vel, bæðevei.) Hún varð til þess að ég sauð hangikjöt á laugardagskvöldið og húsið er enn ilmandi og angandi. Svo æfði ég mig líka á waldorfsafbrigði (og komst af því að létt-mæjónes er bara ekki málið) og múltítaskaði á við milljón manns alla helgina og rúmlega það.
Afraksturinn er þetta fína jólaskap.
Ofan á alltsaman eru allir hraustir og komust í leikskóla/skóla í dag. Reyndar með talsverðum harmkvælum. Bæði Smábátur og Freigáta vildu meina að þau væru nú hreint allt í einu orðin svona líka sultuveik í morgun. En hinu harðbrjósta Móðurskipi varð ekki haggað. Fólk sem nauðaði í allan gærdag um að fá að fara í BT/fór niður í bæ að sjá jólatréð, og skemmti sér svo við matarboð fram eftir kvöldi, kæmist vel í skólann/leikskólann. (Bara vonandi að ég fái liðið ekki í hausinn fyrir hádegi, með hita.)
Ég er búin að komast að því að besta ráðið til að komast í jólaskap er flatur niðurskurður á leiðindaverkum auk þess sem það borgar sig alveg að gefa sér tíma í að gera skemmtilegt og jóló. Þó svo að tæknilega séð gæti maður alveg verið að gera "gáfulegri" hluti en að slást við grenigreinar og vír eða sjóða hangikjöt í nóvember. Skítt meðða, bara. Ritgerðin mín í harmleikjunum verður bara betri ef ég verð jólaglaðari við að skrifa hana.
Og ég er að fara að byrja að lesa fyrir prófið... alveg rétt bráðum.
Og til hamingju Ísland!
Fullvalda þjóð í 90 ár!
Og akkúrat búin að sýna og sanna að við ráðum ekkert við það!
Göngum í Færeyjar!