8.12.07

Kólasveinninn!

Kemur í dag! Það er kóklestardagur! Jafnómissandi hlekkur í jólakeðjunni og aftansöngur á aðfangadaxkvöldi! Hugga móða kom og sótti Freigátuna og þær fóru í bæinn að gá hvort þær rækjust á kólasveinana.

Ég er alltaf að missa einbeitinguna. Það eru hippar í sjónvarpinu. Þeir voru nú merkilegir.

Rannsóknarskip er svakalega duglegur. Hann er að taka til, alveg eins og jarðýta.

Ég er að gera Ekkert. Líklega er ég með einhverja veiki. Í gær var mér skítkalt allan daginn, í dag er ég bara með klikkaðan svima. Vona að það sé bara einhver bjánapest, og ekkert meðgöngutengt.

En það átti nú hvort sem var að vera frekar latur dagur í dag. Ég er svona hálfbúin með ritgerðina sem ég á að skila á miðvikudag, í formi fyrirlesturs, þarf eiginlega bara að lesa smá greinar og raða henni svo aftur. Ef ekki fer þýðingavinnan mikið að káfa uppá það, verður þetta bara allt í sómanum þó ég hangi í ónýti um helgina.

Doors var nú ágætismynd. Ég er hins vegar með þá kenningu að þeir sem tóku Jim Morrison og hetjudýrkuðu hann, séu allir alkóhólistar. Mér fannst Morrison óttalegur bjáni í þessari mynd. En auðvitað hélt maður þeirri skoðun nú fyrir sjálfan sig á árunum kringum útkomu myndarinnar. Hún hefði nú þótt frekar ókúl. Í menntaskóla var kúlið allt.

Heimildamyndir um hippa og negra eru nú ekki beint afsvimandi... Þessi mynd er bara algjört augnlím. Og það verður að segjast. Rappið er nú sennilega það bókmenntalegasta sem hefur verið að ske í heimi dægurtónlistar undanfarna áratugi. En djull finnst mér það nú samt leiðinlegt.

Ég heyri að félaxlíf Freigátunnar er að verða algjörlega þéttskipað í dag. Faðir hennar er að skipuleggja að fara með hana á bæ að horfa á fótbolta, þegar hún snýr aftur úr kólasveinaferðinni. Þá ætla ég að fara að sofa. Þetta kaffi er ekkert að gera fyrir mig. Er enn alveg rangeygð. Er sennilega með örflensu sem hefur aðallega tekið sér bólfestu í öjmingjans innra eyranu mínu.

Endum þetta samhengislausa (aðventu?) rant á smáplöggi.

Jólaprógramm Hugleix
sem árlega slær óskaplega í gegn, verður framið í Þjóðleikhúskjallaranum annað kvöld, sunnudaxkvöld 9. desember og þriðjudaxkvöld 11. desember klukkan 21.00 að staðartíma. Húsið opnar klukkan 20.30 og að venju kostar 1000 krónur íslenskar að hlýða og horfa á herlegheitin.

Dagskráin í ár gengur undir nafninu Aftansöngur jóla og inniheldur meðal annars frumflutning á þremur einþáttungum, skilst mér, og þar af er einn eftir Rannsóknarskip, sem leikritar alveg hringi í kringum Verðlaunaskáldið þessa mánuðina.

Allir mæta.

7.12.07

Jeij!

Það er jólaball hjá foreldrafélagi leikskóla Freigátunnar um helgina. Ég hlakka ógurlega til. Hún veit ekkert um það, líst örugglega ekkert á það og finnst sjálfsagt ekkert eins gaman og ég býst við að henni finnist.

Er annars bara að drepa tímann. Er að bíða eftir Smábátnum heim úr skólanum. Þegar hann kemur þaðan er planið að láta hann pakka niður og koma honum í flug norður á Akureyri. Hvar hann mun eyða helginni.

Í beinu framhaldi ætla ég svo að sækja Freigátuna á leikskólann og Rannsóknarskipið í vinnuna og fara heim með alltsaman. Og svo þarf örugglega að þaulskipuleggja þessi helgi. Ætli maður þurfi ekki að fara að reyna að ná einhverjum fleiri jólagjöfum á hús?
Kannski sérstaklega þeim sem gætu þá fengiðo far með Báru syss austur bílandi á mánudaginn? Það væri nú bara hreint óvitlaust...

6.12.07

Tú dán

End tú tú gó.

Búin að skila ritgerðarfjáranum. Mér fannst hún nú bara alveg ágæt. Ekki er hún nú samt merkileg ef miðað er við fjölda merkilegra og leiðinlegra fræðigreina í heimildaskrá. Hmmm...
Bót í máli að Frú Kennarinn ætlar yfirlýst ekki að gefa okkur einkunnir í þessum kúrsi. Rökin hljómuðu einhvern veginn svona: Þar sem þetta er hagnýtur kúrs.... blablabla... fáum við bara "staðið" að því gefnu að við skilum öllum verkefnum nokkurn veginn skammlaust.

Svona bull á nottla bara ekki skilið betri vinnubrögð. Ég vil fá EINKUNNIR þegar ég er í námi. Ekki bara eitthvað ess sem getur þýtt allt milli 5 og 10. Ég sé ekki hvað er vandamálið við að gefa mér einkunn fyrir útvarpsþáttinn minn. Hann er alveg ljóslega einhversstaðar á bilinu 7,5 til 8,5. Ef kennari leggur ofuráherslu á lengd heimildaskráa, er þessi ritgerð hins vegar bastarður og hortittur. Mér finnst hins vegar vísanir í frumheimildir og eigin rannsóknarvinna bara hreint ekki akademískt ókúlla heldur en að éta upp margumskrifuð fræði eftir milljón öðrum og leggja svo út af þeim hvað sem manni sýnist.

Annars skilgreindi ég fyrir sjálfri mér hvernig einkunnakerfið lítur út í mínum haus. Allt undir 7 eru bastarðar. Ég held að það komi til af því að fyrsta einkunnin sem ég fékk í tölu í barnaskóla var 7. Í lestri í fyrsta bekk, sem nú heitir annar. (Annars fengum við bara einkunnir í einhverjum asnalegum bókstöfum sem pirraði mig ekkert minna þá en nú.) Sennilega finnst mér að eftir það eigi leiðin að liggja upp einkunnastigann en ekki niður. Óháð skólastigi.

Allt milli 7 og 8 er skítsæmilegt. 8,5 er ég hæstánægð með, fer enda sjaldan hærra.

Þegar maður er í svona námi hefur maður síðan aðgang að Uglunni, sem þýðir að maður getur gluggað í tölfræði fyrri háskólanáma. Meðaleinkunnirnar útúr báðum háskólagráðunum mínum eru nú bara ljómandi. BA-ið slefar í fyrstu einkunn, sem reiknar út frá innbyrtu áfengi og almennu þunglyndi, leikfélagi og kjaftæði, verður nú bara að teljast nokkuð gott. MA-ið er hátt í 8. Enda færri bastarðar þar. Og miklu fleiri einingar en ég þurfti.

Og í þessu námi hef ég huxað mér hærra. Helst meðaleinkunn yfir 8 og engar refjar. Og miklu fleiri umframeiningar, ef ég næ að klára allt sem mig langar.

En þessi einkunnasókn gengur væntanlega illa ef allir kennarar ætla bara að gefa manni einhver asnaleg ess. Pfff. Á næstu önn ætla ég að spurja alla kennara sérstaklega að því hvort þeir ætli ekki örugglega að gefa einkunnir í TÖLUM. Og þeir rétt ráða hvort þeir velja að koma bandóðu og kolóléttu konunni úr jafnvægi með röngu svari.

Þá verður þeim tjáð á kjarngóðu alþýðumáli hvað þeir geta gert við öll sín ess.

5.12.07

Báran

Hún er sjaldan ein eða stök. Núna er Bára syss komin til landsins, en ætlar ekki að hefja búsetu hjá okkur fyrr en eftir helgi, sökum gubb-hættu. Hún fær enn martraðir vegna ælupestarinnar sem hún fékk hjá okkur fyrir réttu ári.

Svo eru nokkrar bárur í viðbót sem gefur á allan flotann þessa dagana. Smábáturinn er enn nokkuð slappur og frekar er ólíklegt að hann komist til náms á morgun. Móðurskipið situr við rigerðarskrif og þar að auki rignir þýðingaverkefnum núna. Hætti í nokkuð löngu fríi frá því þann 1.  desember, en venjulega er kerfið nokkuð lengi að muna eftir manni aftur eftir löng frí. Ég fékk fyrsta verkefnið klukkan 9.30 að morgni fyrsta des. og síðan hefur verið nokkuð uppstyttulaust í því. Og ekki veitir víst af að reyna að auka eitthvað fjárstreymi heimilisins. 

Annars heyrði ég að borgarsjóður þættist ætla að eiga 12 milljarða eftir af fjárlögunum sínum eftir næsta ár. Svona fer gífurlega í pirrurnar á mér. Menn virðast alltaf vera ógurlega montnir af því að geta látið almenning borga miklu meiri skatta en þarf. Svo þykist þetta alls ekki hafa efni á að borga kennurum og leikskólakennurum rassgatíbala, félagsþjónusta borgarinnar í skítnum og grenjað yfir hverri krónu, þó skrilljónir megi fara í einhver óljósleg útrásaverkefni sem enn ólósara er hver á að græða á.
Ef menn ætla að vera að monta sig af 12 milljarða afgangnum sínum, þá vil ég í leiðinni heyra montið um hvað þeir ætla að hækka kennaralaunin mikið fyrir þá! 
Plebbar.

Síðasta vígið


Og í dag liggur Smábátur. Hann kvartar reyndar ekkert yfir að fá frí í skólanum til að liggja í rúminu og leika sér í tölvunni og fá kók. Móðurskipið er hins vegar orðið alveg bráðhresst og ætlar aæ hafa M-dag eins og ekkert hafi í skorist.

Ein góð saga af Freigátunni sem ég ætlaði alltaf að segja:
Á sunnudaxmorguninn sat hún í fanginu á mér og var að horfa á barnatímann. Þá kom svaka karatespark frá Ofurlitlu Duggunni, beint í Freigátuna. Sú síðarnefnda hnyklaði brýrnar, renndi sér niður á gólf og skoðaði bumbuna vandlega.
Svo lamdi hún í þann stað sem henni fannst sparkið hafa komið úr.
Ég held að það sé strax komin einhver valdabarátta í gang.

Annars sparkar Duggan miklu meira, nú orðið, en Freigátan gerði nokkurn tímann. Ég hef á tilfinningunni að þetta barn sé með lengri lappir.

Svo var ég að frétta að nú má maður víst fæða í böðunum á Landspítalanum, en það var bannað síðast þegar ég fæddi þar. Í meðgöngujóga rignir yfir okkur voða fallegum fæðingarsögum og jóguðum fæðingarráðum með lavenderlykt og hugleiðslu. Enda læt ég mig mikið dreyma um hvað ég ætla nú að hafa þessa fæðingu ógurlega jógaða og ynnnndislega.

Rannsóknarskip tekur þessum draumórum mínum með mestu vantrú. Enda fékk hann ekkert morfín í síðustu fæðingu þannig að hún er honum sennilega í mun ferskara minni heldur en mér. Ef þörf krefur mæli ég með því að hann fái mænudeyfinguna í næstu fæðingu. Hún virkar hvortsemer ekkert á mig.

4.12.07

Að gubba, eða ekki

Jájá, nógar ástæður til að grenja í dag. Eða aðallega ein. Nú er Móðurskipið lagst í eitthvað gubbuafbrigði. Reyndar alveg án gubbu. En er með lumbru og hita og ét ekkert. Fékk hins vegar þessa fínu símigu síðustu nótt. Ég mé hreinlega af mér svo miklu að ég efast um að Bjúgnakrækir sæki bara nokkuð til mín þetta árið, eins og annars útlit var orðið fyrir. Allt í einu er giftinghringurinn bara laflaus og ég er ekkert svo mikið eins og hamstur í framan lengur.

En þessi jákvæðni gengur nú ekki, þegar maður ætlar að barma sér.

Nei, ég lýg. Hef það fínt. Freigátan er á leikskólanum. Rannsóknarskip lufsaðist í vinnuna, meira af vilja en mætti held ég reyndar, en hann ætlaði að þræla nemendum sínum svo rækilega úr í þessari síðustu kennsluviku fyrir jól að hann gat ekki látið reka lengur á reiðanum.

Ég sit bara í rúminu, með fötu, og skrifa ritgerð um menningarspeglun. Sem er nú alveg gubbuefni útaf fyrir sig. En sýnist ég alveg vera að koma slatta í verk. Jájá.

Afsakið mig meðan ég æli.

3.12.07

Gríptu Augnablikið og Lifðu Núna!

No one told you when to run
You missed the starting gun

Þegar þetta kom í laginu sneri mamma hans Gunna litla sér við í sætinu og sagði okkur, "krökkunum" í aftursætinu, að láta þetta nú ekki henda okkur. Gunni litli var einn af M0nt-sonum mínum og við vorum í hellaskoðunarferð um nágrenni Montpellier. Foreldrar Gunna litla voru í heimsókn og buðu mér að koma með. Þau voru nýbúin að kaupa ofursafn með Pink Floyd. 

Okkur Gunna þótti nú frekar ólíklegt að það myndi einhvern tíma henda annað hvort okkar að standa kjur þegar við ættum heldur að hreyfast úr stað. Og ég hef ekki séð hann Gunna litla síðan við kvöddumst úti í Montpellier. Hann var á leiðinni í eitthvað stórmerkilegt nám í Háskóla Reykjavíkur og hugði á glæstan feril í einhvers konar Evrópumálum. Sjálfsagt er hann núna bara langt kominn þangað. Hann er nefnilega jarðýta.

Ég er hins vegar Þeytingur. Samkvæmt Hver tók ostinn minn? Það segir pabbi minn. Ef einhver tekur minn ost hleyp ég alveg strax af stað að leita að nýjum. Mér er alveg sama hver tók hinn. Enda veit ég alltaf um fleiri osta en ég kemst yfir að sinna. (Eða éta.)

En þetta ömurlega slagorð í fyrirsögninni er alveg snjallt. Maður þarf að grípa augnablikin. Og lifa núna. Mér hættir til að lifa í framtíðinni. Ég á erfitt með að halda mig í nútíðinni og fortíðin er hreinlega ekki til. Þess vegna þarf ég að taka myndir. Og þess vegna var mjög kjánalegt af mér að hætta því í ein 10 ár og ákveða að muna bara hluti. Það þýðir að ég man ekki neitt. Þess vegna er líka mjög nauðsynlegt að ég hafi einhverskonar dagbók. Þá get ég flett upp. Því miður byrjaði ég aftur að taka myndir ekkert löngu eftir að ég byrjaði að blogga. Svo síðustu ár eru vel dokkúmenteruð þó áratugurinn á undan sé meira og minna í dái gleymskunnar.

Og hvaðan koma svo þessar vangaveltur?
Svosem ekki af neinu.

Eftirá að hyggja, þá hefði ég nú samt átt sjá ákveðnar vísbendingar á ákveðnum tímum. Þumalputtareglan er þessi: Ef ég er ekki að minnsta kosti að gera þrennt, og langar að gera svona fjórt í viðbót, á er ég með þunglynduna og þarf að athuga málið. (Og ef ég er að gera þrennt, langar í fjórt í viðbót, en er ferlega syfjuð og lengi á leiðinni allt, þá er ég ólétt. ;-)

Núna er ég aðallega með hormón. 
Á föstudaginn breyttist planið þannig að síðasta heldi Smábáts hjá okkur fyrir jól var allt í einu runnin upp, í stað þess að vera um næstu helgi eins og planið var. Ég fór að grenja í bílnum af því að ég sá ekki fram á að geta bakað piparkökur með honum, eins og ég ætlaði. 
Í gær var Freigátan óþæg og vildi ekki leggja sig og Rannsóknarskip var fárveikur og gat ekkert hjálpað til. Og ég grenjaði heilmikið yfir því. 
Í dag voru lesnar tvær voða fallegar fæðingasögur fyrir okkur í jóganu. Ég átti verulega bágt með mig.

Þetta fer að verða eins og æsispennandi framhaldssaga. Yfir hverju ætli ég grenji á morgun?
Sé til dæmis fram á hroðalega leiðinlegan þýðingafræðitíma... en græt kannski frekar gleðitárum þegar hann er búinn, þar sem þetta er allra síðasti tími þessarar annar.
Jibbí? Ég veit það ekki.
Þetta er nú búið að vera ansi gaman...

Mánó

Freigátan hin ljónhressa fór á leikskólann í dag. Borðaði, svaf, lék sér og hljóp á vegg, alveg eins og herforingi. Henni er sumsé alveg hreint batnað af gubbunni. Rannsóknarskip er hins vegar ennþá með hita og sleppu og lá í dag eins og skata. Og þá er komið nóg af heilsufarsmálum.

Móðurskipið hellti sér í rannsóknarvinnu fyrir ritgerðina sem á að skila á fimmtudaginn og nú sýnist mér lítið eftir annað en að skrifa fyrirbærið. Þrír dagar til þess, og það ætti að sleppa, ef ekkert hræðilega óvænt kemur uppá. Fór líka í meðgöngujóga og -sund, og kom svo heim með færandi hendi með innkaup og Freigátum eftir viðkomu í bókhlöðunni, og er að huxa um að fá örlítið laggningarleyfi hjá hinu örlítið hressara Rannsóknarskipinu núna fram að kvöldmat.

Seinni tíma viðbót: Og hann Öngull er búinn að STELA jólunum!
Ef ég man rétt ætlar hann að senda FÓLIN til Jarðarinnar í staðinn!
Ég óttast það versta.

2.12.07

7 9 13

Freigátan er komin með sæmilega matarlyst og búin að vera meira og minna hitalaus í dag. Þá er bara að krossa putta og vona að það haldi til morgundax svo ég geti farið með hana á leikskólann. Annars verður stóri sjúklingurinn að passa hana. Sem ég veit ekki hvort hann hefur heilsu til. Og ef hann hangir í lappirnar heimtar hann örugglega að fá að fara í vinnuna.

En ég verð bara að fara að byrja á ritgerðinni sem ég á að skila á fimmtudaginn!
Rannsóknarskip segir mér reyndar reglulega að hann hafi skrifað BA ritgerðina sína á 2 dögum. En hann var nú ekki óléttur á meðan.

Nú er ekki tími fyrir meiri veiki á þessu ári. Og hananú.