10.7.04

Staður: Vinnan
Staðartími: 09.32 á laugardagsmorgni.

Mikill dugnaður í gangi. Úthlutunarfundur hófst í gær, að honum loknum fóru stjórnarmenn (flestir) og vinguðust. Fundi skal fram haldið bráðum, er að bíða eftir þeim þar sem ég get ekki beðið eftir að sýna einhverjum morgunverk mitt, sem má ekki segja hér, vegna þess að það er leyndó gagnvart ákveðnu upprennandi ammælisbarni. Fór líka í mjög áhugaverða ferð í gær, en ekki hægt að skýra frá henni fyrr en síðar út af fyrrnefndu. Þetta er mjög erfitt líf. Ég þoli ekki að þurfa að halda mér saman.

Útvarpsþáttur er í smíðum, ekki skal ég þó alveg segja fyrirfram hvort hann verður jafn mikið "af viti" og faðir minn er búinn að panta. En það verður pólitík og mannfélagsádeila. Ójá. Verð samt annað slagið huxi. Hvað heldur maður sosum að mar sé, að þykjast geta endalaust verið að hnýta í hvernig fólk lifir... Það er bara svo margt sem þarf að segja, hálfgert skítverk en mér finnst einhver verða að gera það. Get ekki samþykkt að pólitískar þjóðfélagsádeilur séu, eða verði, "úreltar". Og hananú.

Og, ég ætla rétt að vona að ef alþingi ætlar að samþykkja aftur nánast sömu lögin, að herra forseti hafi þá bein í nefinu til að neita aftur að skrifa undir. Píhí. Það væri nú skemmtilegt. Allavega eitthvað í fréttunum á meðan. Þetta fer að verða eins og þegar Árni Jonsen bjargaði sumargúrkunni.

8.7.04

Í gær eldaði ég grjónagraut í fyrsta skipti á ævinni.
Í dag tók ég til á skjáborðinu mínu í fyrsta skipti í laaaangan tíma.
Á morgun er stjórnarfundur og það verður eitthvað lítið af helgi.

Og, mér sýnist stjórnarskráin vera úrelt. Það á greinilega að hafa af okkur réttinn til að kjósa um fjölmiðlafrumvarp með öllum tiltækum. Held ég fari að leggjast í að semja mína eigin. Kannski hef ég hana bara sem undirstöðu í útvarpsþáttinn minn! Spurning um hvort byltingarboðskapur má vera í ríkisútvarpinu, útvarpi allra landsmanna, í landinu þar sem er málfrelsi.

5.7.04

Strandir eru skemmtilegar. Þar er m.a. sundlaug með útsýni og ekkert símasamband. Og þegar ég kom heim aftur var heimurinn allur á hvolfi. Grikkir orðnir evrópumeistarar og hvur veit hvað.

Og forsætisráðherra vor fattaði loxins að hann var búinn að kúka á sig og hamast nú við að láta eins og lyktin sé af einhverjum öðrum.

Úr tónlistarheiminum: Upplifði ball með eðalgrúppunni Hraun. Er ennþá með stimpil á hendinni sem á stendur: Félagsheimili Trékyllisvíkur. Eignaðist líka bol með áletruninni "Ég er rebell, sjáðu mig dansa" fyrir vel unnin störf sem grúppía. Einnig hlýddi ég á tónlistarflutning í lýsistönskunum við gömlu verksmiðjuna í Djúpuvík. Það er með því flottara sem ég hef heyrt. Og Dóri minn að fara að leika karlrembusvín í tónlistarmyndbandi.

Og ég hef ekki ennþá hugmynd um hvað ég ætla að segja eða spila í útvarpsþættinum mínum eftir 3 vikur.
Fussumsvei og kæruleysi.