27.5.06

Gottgott

Freigátan iðkaði sitt fyrsta lýðræði í dag. Fékk að fara inn í kjörklefann með Rannsóknarskipinu og allt.

Ég er að drekka minn fyrsta bjór í meira en ár. Mmmmmmikið er hann góður.

Kjör

Mér finnst kjördagur alltaf vera mikil hátíð. Þessari iðkun lýðræðis var jafnan fagnað mikinn á mínu heimili. Gjarnan með því að halda kosningaskrifstofu í kjallaranum. Á meðan Alþýðubandalagið, heitið, var og hét. Á kjördag voru allir á ferð og flugi um allan bæ, og jafnvel víðar. Maður gat allt í einu fengið að fara með í bíltúr upp á Jökuldal, enginn huxaði um matartíma (en það voru tertur í kjallaranum) og að sjálfsögðu var ekkert spáð í hvenær krakkarassgötin fóru að sofa. Þetta var næstum skemmtilegra en jólin!

Ég veit ekki hvernig við gerum okkur glaðan dag í dag. Kannski kíkjum við á einhverjar skrifstofur og gáum hverjir eru með bestu kökurnar...

Og í dag skilst mér að Nanna hafi átt að fá að koma heim með litlu Úlfhildi Stefaníu. Ég huxa að ég láti þær nú samt alveg vera þangað til þær hafa samband að fyrra bragði. Sennilega brjálaður gestagangur hjá þeim, núna í bili. Ég ætla bara að leika við þær þegar hann er búinn.

26.5.06

Fynd gerðist

Þannig var að ég þurfti að fletta upp í bæklingi með Jólaævintýrisdiski Hugleix, til að botna í skilaboðum sem ég var að fá að handan. (Þ.e.a.s., handan Volgu, þar sem Hamarshópurinn úr Hugleik er.) Að sjálfsögðu gerir maður ekki svoleiðis án þess að fá einhvern Bibbskan hroða á heilann. Og því var það að þegar ég var að skipta á Freigátunni fór ég að raula Víkivakann úr Jólaævintýrinu. Skipti engum togum að Freigátan ætlaði að sleppa sér úr kæti. Rifjaðist þá upp fyrir mér að þetta var uppáhaldslagið hennar þegar hún var Kafbátur. Og hún er greinilega ekki búin að gleyma því.

Mikið er annars góð lykt úti. Við löbbuðum í kringum tjörnina. Það var blautt. En gaman.

Og svakalega hlakka ég til þegar kosningarnar verða búnar, svo það verði einhverntíma eitthvað annað en skoðanakannanir í fréttunum.

25.5.06

Af tómri hógværð...

Er alvarlega stolt af eigin snilld í kveld.

Fyrst svæfði ég Freigátuna í sínu eigin rúmi á mettíma. Þetta kemur uððitað allt þegar mar gerir öfugt við það sem bækurnar og fræðin segja. Og ekki er verra að vera mótíveraður af yfirvofandi skemmtilegheitum í sjónvarpinu.

Svo kom "gat" í sjónvarpsdaxkrána að mínu skapi og þá datt mér í hug að glíma við löngu þarft verk, þ.e., barnavagninn var farinn að boða komu mína um hálfan bæinn með gnístandi ískri. Og ég fann út úr mekanismanum við að ná hjólunum af honum, og komst að því að útrunnið brjóstakrem er fínasta vagnhjólasmurning.

Nóg komið af snilld í kvöld, þá eru það hinar Aðþrengdu Eiginkonurnar.

Uppstigning

Gleðilega hátíð.

Hélt stjórnarfund með þeim hluta stjórnar sem ekki er að éta baunir og sveskjudjús austan Volgu. Við átum kaffi og bakkelsi og huxuðum til þeirra með vorkunn. Og skipulögðum skipulag.

Freigátan er búin að fatta að ef maður öskrar nógu hátt að næturlagi þá fær maður strax að drekka. Hún var hætt að vakna á nóttunni, en í nótt vaknaði hún þrisvar. Nú spyr ég allar mæður í lesendahópnum, hvað er til ráða? Ég er með augnlokin á hælunum og verð farin að þurfa sterkari geðlyf eftir nokkrar svona nætur. Og það er erfitt að láta hana grenja aðfaranætur skóladaga hjá stóra bróður hennar. Hmmm...?

Og nú er Rannsóknarskip nokkurn veginn að komast á flot eftir löngu og erfiðu sjúkraleguna sína þannig að ég ætti trúlega að fara að hrækja í lófana og reyna að fara að skrifa. (Þ.e.a.s., draga kúkaleikritið út úr félaxheimilinu á mér...)

Annars fer maður nú bara að verða kominn með hugann hálfa leið norður í dal Svarfaðar. Það er víst ekki nema einhver hálfur mánuður í það, allt í einu.

24.5.06

Krúttídúll!

Búin að sjá litlu Úlfhildi Stefaníu NönnuogJónsGeirsdóttur. Hún er alveg oggupoggulítil. Og allt í einu er Freigáta orðin risastór og fullorðin. Og öjmingja Nanna fær öll samúðarstig daxins, liggur eins og pönnukaka uppi á sængurkvennadeild með gat á maganum og er á fyrstu dögum brjóstagjafapíningar. Úffpúff. En við Nanna getum ekki beðið eftir að láta þær hittast, setja þær hlið við hlið og taka myndir, og vera saman að leika okkur í dúkkó með stelpurnar okkar úti á palli. En til þess þarf nú veðrið víst eitthvað að skána.

Oj. Rétt í þessu flatti Rannsóknarskip hrossaflugu út á stofuglugganum.

Alltaf spennandi þegar öll fjölskyldan safnast saman í stofunni á miðjum degi í tilgangsleysi. Núna erum við bara að hanga. Amma og afi Smábáts ætlar að koma og sækja hann bráðum. Hann ætlar að leika við þau allavega fram á morgundag í tilefni þess að það er frí í skólanum.

Við Freigáta fórum í jóga í morgun og síðan er hún búin að vera sofandi úti í vagninum sínum, hvað sem ölli kvefi líður.

Og við erum búin að fá bústað Árna Hjartarsonar í Svarfaðardalnum, Reiðholt, til afnota á meðan Rannsóknarskipið verður á Leiklistarskóla bandalaxins að læra að leikstýra. Þá ætla ég að vera þar að skrifa leikritið sem verður komið ansi nálægt deddlæni. Rannsóknarskip er hins vegar búinn að hóta því að vera alltaf fullur úti í brekku. En ég fæ ekkert að brekkumellast. Segir hann. En það verður nú gaman að vera svona næstum á skólanum. Ég ætla alltaf að fara niðreftir í hádeginu og svoleiðis. Jeij!


23.5.06

Púff...

Er að reyna að koma aftur einhverri svefnreglu á dóttur mína. En það er hægara ort en gjört þegar hún er enn með hor og úti er þvílíkur manndrápskuldi að ég er ekki almennilega farin að þora að láta hana sofa úti á daginn. Hún kann ekkert að sofa inni á daginn. Þó hún sé í vagninum sínum. Hún þarf að heyra í höggbornum í næstu götu.

Ég er að blogga eins og vindurinn í ferðadagbók Hugleix. Það mætti halda að ég væri í Rússlandi.

Í dag komu báðar systur mínar í heimsókn, í einu. Það gerist mjög sjaldan að ég hitti aðra hvora þeirra, hvað þá báðar. Þannig að þetta var mjög sniðugt. Sú kjaftforri dissaði reyndar muffinsin sem ég bakaði um helgina, en... issss... Freigátan var reyndar frekar slöpp og stúrin, þannig að það hefur nú oft verið skemmtilegra að heimsækja hana.

Og á morgun ætla ég að missa stjórn á mér í barnafatabúð og kaupa sængurgjöf og einsárs afmælisgjöf, hvorutveggja á stelpur. Ji hvað það verður nú gaman! Það er fátt krúttlegra en föt á litlar stelpur. Hún Nanna lenti víst í keisaraskurði, eftir meira en hálfs sólarhrings barning, og liggur því á sængurkvennadeild næstu daga. (Enda kæmist hún ekki neitt upp stigana heima hjá sér.) Hún hringdi aðeins í mig í dag, bar sig ágætlega en var frekar sybbin.

Og nú er Rannsóknarskip farin að reyna að svæfa Freigátuna, sem er búin að sofna... og vakna... og sofna... og vakna. *andvarp* Öjmingja Nanna og Jónki. Þau vita ekki hvusslax barning þau eiga fyrir höndum. ;-)

Fréttir verða næst sagðar... bara á morgun... eða eitthvað.

Í nótt

Fæddist þeim Jóni Geiri og Nönnu dóttirin Úlfhildur Stefanía. Hún fæddist kl. 01.09, vó 3450 grömm og mældist 52 cm á lengd. Meira veit ég ekki, en vona að öllum heilsist vel.

Þá er semsagt sú ólétta handan Norðurstígs orðin léttari og Freigáta búin að eignast vinkonu. En föður hennar fannst hún ekki skilja fréttirnar alveg...

Og ég er orðin milliliður fyrir blogganir frá þeim hluta Hugleix sem er í leikferð í Rússlandi. Hvað á þeirra daga drífur má lesa hér.

22.5.06

Í dag

er hálfsystir Smábáts á Akureyri 1s árs. Og í dag átti Nanna að eiga barn. Og ég veit ekki hvort hún gerði það. Ég vona allavega að henni gangi betur en mér, hvenær sem hún mæðrast.

Freigáta svaf í fyrsta skipti í dag eins og almennilegt barn síðan kvef, móðurskipinu til óstjórnlegrar gleði. Enda var ég að niðurlotum komin eftir að hafa þurft að halda á henni í allan gærdag. En nú er Rannsóknarskip kominn til meðvitundar og allt orðið auðveldara. Flensuskrímslið vonandi farið í sumarfrí. Og talandi um sumarfrí, hvurn andskotann á þessi manndrápskuldi eiginlega að þýða?

Og ef einhver á landinu er svo mikill yfirmátafáviti að kaupa sér svona Da Vinci síma segi ég mig úr íslensku þjóðinni.

21.5.06

Finnland!

Aldeilis óvænt úrslit í Júró í ár. Og ég sem þorði ekki að halda alveg af heilum hug með Finnlandi. Í fyrra hélt ég nefnilega svo svakalega með Moldavíu að ég var fullkomlega miður mín mánuðum saman eftir að þeir unnu ekki. Og í fýlu við Evrópu eins og hún lagði sig. En þetta var nú gaman. Jájá.

Hér var haldið uppá Júróvísjón með miklu áti á grillmat, með þeim afleiðingum að Skip og Bátur eru báðir vondir í maganum. En það er allt í lagi með okkur Freigátu, enda urðum við bara pínu fullar.

Núna er ég búin að afmá mestöll ummerki eftir átið ógurlega í gær, og er mest að spekúlera í að baka eitthvað með kaffinu. Þetta húsmóðurkast er nú bara alveg að steinhætta að vera fyndið.