20.4.07

Ég er að fara úr bænum...

...en það þýðir hreint ekki að lítið sé um að vera hjá mínu fólki. Látum oss sjá.
Síðasta sýning af Eplum og eikum var í gær. Hí á þá sem misstu af því.

Annað kvöld verður miðnætursýning á Bingó. Hefst klukkan 23.00. Stuð.
Miðapantanir á hugleikur.is
(Annað kvöld eru líka tónleikar með Túpílökum og Ljótu hálfvitunum í Þjóðleikhúskjallaranum, en þeir geta nú plöggað það sjálfir. ;-)

Einnig verður Bingó sýnt á sunnudagskvöld. Klukkan 20:30. Fyrir þá sem þurfa endilega að fara í leikhús á skikkanlegum tíma.

Á sunnudagskvöld er svo Þetta mánaðarlega hjá Hugleik í Þjóðleikhúskjallaranum. Að þessu sinni verður boðið upp á einþáttunga og leiklestra úr eldgömlum Hugleixverkum í bland. Húsið opnar kl. 20.30, sýning hefst kl. 21.00
Önnur sýning á því verður á fimmtudag, 26. apríl. Miðaverð kr. 1.000

Menn spyrja sig kannski hvort ofvirkni Hugleixins ætli engan enda að taka?
Ég fer að efast stórlega...

18.4.07

Ég þoli ekki að það skuli alltaf kvikna í Rósenberg!

Einu sinni var fjarskalega góður skemmtistaður í miðbæ Reykjavíkur. Hann var lítil og subbuleg kjallarhola þar sem gjarnan var lifandi tónlist og ég gat jafnan gengið að því að þekkja einhvern þar, dytti í mig að detta þar inn og detta jafnvel íða. Annað hvort á sviðinu, utan þess, eða bæði.
Svo brann hann til kaldra kola. En enginn tók eftir því, vegna þess að öllum fannst merkilegra að ógeðsteknóstaðurinn Tunglið brann í leiðinni.

Og undanfarið hefur verið að þróast mannlíf og menning á Rósenberg Hinum Nýrri. Hann er í grennd við þann gamla, þó ofanjarðar. Og undanfarið hefur þar gjarnan verið lifandi tónlist og ég get jafnan gengið að því að þekkja einhvern þar, detti í mig að detta inn og kannski detta íða, á sviði og/eða utan, framan bars og/eða aftan.

Og hvað gerist? Þetta er óþolandi!

Undarlegheit

Ég er orðin alveg vön því að vera að jafnaði ekki að gera neitt sem mig langar. Eða allavega ekki jafnmikið og mig langar. Eða að ég þyrfti að gera meira af öllu sem ég er að gera áður en ég get einu sinni hugsað um að skipuleggja að gera meira af einhverju sem mig er búið að langa lengi til. En svo er þetta nottla bara alltsaman bull og spurning um forgangsröð.

Eftir arfavonda tarottspá sem internetið gaf mér og hótaði mér hverskonar ömurlegheitum og djöfuldómi ef ég færi ekki að hætta að stressa mig og gera eitthvað af viti, gerði ég fernt í gær.
- Spilaði á gítar.
- Fór út að leika við Freigátuna.
- Fór í leikhús.
- Skrauf leikrit fram að miðnætti.

Er ekki frá því að geðstrop undanfarinna vikna sé örlítið á undanhaldi.
Nú langar mig bara að gera það sem mig langar... og setja í þvottavél.

17.4.07

Dauðinn og mörgæsin

Sumt hélt ég að kætti mig undantekningalaust. Þar á meðal eru mörgæsir. En ég gleymdi að taka eitt með í reikninginn. Frakka.

Frakkar eru þjóð sem lætur einstaklega vel að vinda skemmtunina úr öllu sem þeir koma nálægt. Eins og til dæmis mörgæsum. Þetta sá maður mjög greinilega á hörmungans Mörgæsadramanu sem sýnt var um páskana. Ojbarastabara.

Sosum ekkert að myndatökunni. Enda hef ég ekkert vit á því. En þessi óbjóðslegi ofdramatíski textahroði sem klæmt var yfir alltsaman.

Þegar við Bára syss vorum búnar að hlusta á þá smeðjulegustu væmni sem við höfðum heyrt í bland við "En það lifa ekki allir ferðina af." og "Sumar mömmurnar koma aldrei aftur." og "Þarna liggur einn mörgæsarungi með innyflin úti um allan ís." þá slökktum við á sjónvarpinu og settum Jesus Christ Superstar á. Það var meira upplífgandi.

Má ég þá frekar biðja um Pingu.

16.4.07

Yndi

Undanfarið hef ég verið uppá mitt alstressaðasta. Síminn minn hefur aldrei áður hringt jafnoft á jafnfáum dögum og heilabúið á mér hefur verið í stanslausu óverlódi. Og ekki veit ég á hvaða geðdeild ég hefði endað ef ekki væri fyrir Rannsóknarskipið mitt og mömmu.

Mamma mín kom spes til Reykjavíkur til að vera au-pair hjá mér um helgina. Hún er búin að sjá um börnin og búið og núna er alveg ótrúlega hreint heima hjá mér, miðað við að ég er búin að eyða helginni í símanum og á fylleríum. En nú fer hún heim á eftir og verður sjálfsagt fegin að hvíla sig.

Rannsóknarskip er búinn að standa sig hreint eins og hetja undanfarna mánuði. Og hitti endanlega í mark í gær þegar hann brá sér á geisladiska og DVD markað í Perlunni. Þannig er að ég er búin að vera að leita að einum diski, svona þegar ég man eftir því, í ein 19 ár. Frá því hljómplatan seldist upp í Kaupfélaginu á Egilsstöðum fyrir jól 1988.

Vegna þess að maðurinn minn er minnugur og sniðugur, þá er ég nú orðinn stoltur eigandi hljómdisksins Sunshine on Leith með skosku ljótpoppurunum í Proclaimers.

15.4.07

Sybb

Annað kvöld verð ég heima hjá mér.
Ég ætla að horfa á allt sem er í sjónvarpinu.
Ég ætla ekki að reyna að svæfa Freigátuna. Ég man ekki einu sinni hvenær ég sá það gert síðast.
Og eftir vinnu ætla ég í ræktina. Í vinnunni ætla ég að vinna. Og vera með allan heilann við það.

Það eru samt ennþá tvær frumsýningar eftir hjá Hugleik á þessu leikári.

Bæðevei, í kvöld voru sennilega tímamót hjá honum Hugleiki. Allavega veit ég ekki til þess að við höfum áður sýnt tvær sýningar á sama tíma.
Frekar kúl.