19.1.12

Don't you want me babe? (Or ELSE!)

Undanfarið hef ég verið að lenda í því að heyra aftur tónlist sem mér þótti rómantísk, í æsku. Með batnandi enskukunnáttu og vaxandi reynslu af lífinu hefur síðan ýmislegt... annað komið í ljós.

Byrjum á Police.

„Every breath you take,
every move you make,
every bond you brake (!)
every step you take,
I'll be watching you.“

Hallóóó, eltihrellir... og mögulega mannræningi. Ég hef ekki enn getað litið fjölskyldumanninn og jógaiðkandann Sting réttu auga eftir að ég áttaði mig á merkingu þessa texta. Undir engilblíðri raust og fagurri melódíu hljómar bara: „Oh, can't you see? You belong to me!“

Sæll! Minnir mann á gaurinn sem tjaldaði í garðinum hjá Eivöru og skildi ekki að hún var ekki kærastan hanns. *hryll*

Önnur rómantíks perla féll af stallinum í september. Þetta kom í útvarpinu þegar við hjónin vorum á leið til London í haust. Í fyrstu varð ég harla kát og rómantísk. Svo fór ég að hlusta:

„Follow me, everything's all right,
I'll be the one to tuck you in at night,
and if you wanna leave I can guarantee
that you won't find nobody else like me.“ !!!!!

Hallóóóó, geðsjúki megalómeiníak með föðurkomplexa.

Hlustið á allan textann, þeir sem þora.
Og takið eftir því að betri maður er ekki til... og hún er með samviskubit yfir einhverju... sem þessi mikilmennskubrjálaði yfirráðaseggur myndi fyrirgefa henni, einn manna! (En þá er nú líka eins gott að hana fari ekki einu sinni að LANGA burt!)

Um daginn hrundi enn ein eitís-perlan.
Don't. Don't you want me?
You know I can't believe it when I hear that you won't see me. (!)
Don't don't you want me?
You know I don't believe you when you say that you don't need me. (!)
It's much too late to find,
so you think you've changed your mind?
You better change it back or we will both be sorry! !!!!!!!!!

Halllóóóó, allt ofantalið plús líklega morðingi!

Mammamía.
Eitís: Ekki sérlega góður áratugur fyrir konur. (Allavega ekki ef þær ætluðu að voga sér að dömpa einhverjum... lífshættulegt, mögulega.)

En sem betur fer er þetta nú ekki allt í voða. Alphaville hefndi sín bara á dræsunni sem dömpaði þeim með því að slá í gegn í Japan.
Ekki dýpst í heimi, en allavega nokkurn veginn laust við hótanir og kúgun.
Sjúkk.



17.1.12

Mikið lifandi skelfingar óssköp er gaman...


Það er dáldið að gera. En það er nú bara best. Nú kenni ég. Og þegar maður ætti að vera að skrifa niður það sem rétt væri að segja í næsta tíma er best að hanga á feisbúkk, skrifa leikrit, Youtuba af sér félagsheimilið og þegar maður finnur sér ekki fleira til? Jú, einhversstaðar átt'ég blogg.

Ekki laust við samt að það sé horft ofurlitlum löngunaraugum til síðkvöldanna eftir viku af febrúar þegar fer að verða ráðrúm til að gleyma sér í hyldýpum sjónvarpsdagskrárinnar, æfa sig á úkúlele og vera ekki stöðugt samviskubit yfir vanrækslu á fjölskyldu og heimilishaldi.

En það skal þó upplýst að gríðarlega hefur nú verið gaman í félaxheimilinu hjá Hugleiknum með henni Ágústu Skúla. Við erum búin að ryðjast um dæmisögur Bifflíunnar eins og naut í flagi, rífa allt úr sambandi og samhengi og búa til eitthvað allt annað. Og eins og segir í gömlu Legó auglýsingunni: „What it is is beautiful.“
Það gengur nefnilega vel.
Og þetta verður mergjað.
Afkvæmið heitir „Sá glataði“ og verður frumsýndur 3. eða 4. nóvember. Nánari upplýsingar fara bráðlega að birtast á hugleikur.is.

Svo mörg voru þau orð.

Af öðrum vígstöðvum er það helst að frétta að sá elsti er nýkominn frá Flórída, er í prófum og er spekúlerar í framhaldsskólum. Ýmsir hafa verið nefndir, talsvert um heimavistir. Mér heyrast Laugar vera jafnvel að breytast í Laugavatn, en það er nú bara janúar ennþá og margar hugmyndir gætu átt eftir að fæðast fyrir vorið. Ég skil þessa heimavistarlöngun afar vel. Það sem var ekki horft augum öfundar til þeirra sem voru svo heppnir að eiga ekki forfeður á Egilsstöðum eða nágrenni, á sínum tíma. Það er kannski vegna þess að mér auðnaðist aldrei að prófa það, en ég er haldin þeirri bjargföstu sannfæringu að heimavistarbúskapur sé í senn skemmtilegur og þroskandi.

Yngstu börnin tvö greindust með streptókokka á dögunum. Hraðbátur var í alvöru lasin, Freigátan var bara einkennalaust. Bæði fengu pensilín, og hann að auki eyrnameðal og astmalyf og nú hressast allir óðfluga. Enda eru þau byrjuð á sundnámskeiði í Kópavogslaug og þá er nú vissara að vera við hestaheilsu.

Annars horfi ég nú til himins á hverjum morgni og er farin að leyfa mér að hlakka til hækkandi sólar með allskonar útivistargúmmilaði. Brostið hefur á með líkamsræktaáráttu á nýjan leik og í bland við áframhaldandi kólestrólleysi er ég að vonast til að skríða niður fyrir efri mörk kjörþyngdar fyrir vorið.
Og svo er bara komið nóg af þessu myrkri.

Eitt það góða við svona fáránlega annasama tíma er að hlakka til þegar um hægist. Síðan kemur alltaf eitthvað annað í staðinn og það hægist aldrei neitt um neitt. Þó er farinn að pirra mig tíminn sem ég eyði í afþreyingargláp og Facebook. Það er bjánalegt að vera ósofinn og illa hvíldur og eyða svo tímanum og orkunni í eitthvað svona húmbúkk, sem skilur ekkert eftir sig en er samt ekki hvíld. Ætti maður ekki frekar bara að nota tímann og vera meira sofandi? Eða glápa útí loftið og spila á úkúlele?

Ég spyr nú bara sisvona
eins og fávís kona.

En nú þarf að gera eitthvað.