23.6.09

Vinnumálastofnun og komandi sjálfsmorðahrina

Í dag fór ég á undarlegan fund. Þannig er að nú er ég hamingjusamlega atvinnulaus í tvo mánuði.

Þegar ég skráði mig var mér tjáð að ég þyrfti að mæta á þennan "fund", eins og hann er kallaður. Semsagt, eitthvað 30 - 40 atvinnuleysingjum hrúgað saman í eina stofu þar sem fallbyssað er í gegnum "úrræðin" í illa unnu Power-point sjói þar sem hálfvitaleg atriði eru látin ráða uppröðun efnis (hver heldur hvaða námskeið, t.d., frekar en efni þeirra).

Fólki er ekkert skipt niður í mismunandi hópa. Ekkert væri auðveldara en að láta menn gera örstutt krossapróf um hvort það hefði áhuga á námi, starfsþjálfun (í hverju þá) eða atvinnuleit. En, nei. Klukkutíma hraðferð í gegnum alltsaman fá menn. Gögn sem maður fær á pappír passar ekki við það sem powerpointið segir og þriðju útgáfu af upplýsingunum að finna á vef Vinnumálastofnunar).
Næsti hópur inn klukkan 11, eins og gyðingarnir í næsta járnbrautavagn.

Einstaklingsviðtöl við fyrstu skráningu eftir atvinnumissi eru ekki í boði. Menn geta (svosem) fengið sálfræðiaðstoð ef menn "telja sig þurfa." Konunni sem kom með spurningu varðandi biðtíma eftir að hafa misst vinnuna í fæðingarolofi var svarað með hálfgerðum skætingi. Það var ekki boðið upp á að "fundargestir" spyrðu spurninga.

Viðkvæðið var "þið getið reynt" og "þið getið prófað". En látið að því liggja að öll þessi námskeið og "úrræði" væru alltaf stappfull og erfitt í að komast. Auk þess sem einhver þeirra á að leggja niður. Eins og heimasíðugerð. Það eru víst ekkert SVO mörg störf við það. (WHAT?)

Bótaþegum var síðan vísað í einum haug út í rigninguna. Ekki veit ég hvort margir voru einhverju nær. Engum leið betur. Ég sá rautt og langaði mest niður í Ráðhús og berja einhvern af handahófi. Ég sjálf get alveg fundið út úr þessum frumskógi. Og rifið kjaft ef ég þarf. En ég er nú líka með tvær mastersgráður og að hroka yfir mig þessa dagana. Fólk með lágt sjálfsmat á ekki séns. Það litla sem eftir er hirða skössin á Vinnumálastofnun.

Í borginni er tómt atvinnuhúsnæði úti um allt. Fullt af fólki á atvinnuleysisskrá hefur allskonar þjálfun í mannlegum samskiptum. En er hægt að ráða hæfa einstaklinga inn á Vinnumálastofnun og stækka hana eins og ástandið krefst?
Nei. Byggjum heldur tónlistarhús.

Þetta leysir sig sjálft.
Það stórfækkar á atvinnuleysisskrá í fjöldasjálfsmorðunum um jólin.

22.6.09

Skólinn

í Svarfaðardalnum var strax búinn, bara. Eins og venjulega. Fyrir ókunnuga: Bandalag íslenskra leikfélaga heldur á ári hverju 10 daga skóla að Húsabakka í Svarfaðardal. Þar eru haldin námskeið í leiklistartengdu. Í ár var ég á leikritunarnámskeiði hjá Bjarna Jónssyni þar sem hugmyndin var að vinna með lengri leikrit.

Þrennt ósamrýmanlegt gerði ég.
- Vann meira en nokkru sinni fyrr á skólanum. Fór líklega langt með að "klára" leikrit sem eru búið að vera í einhverri þróun í svona sjö ár. Ljómandi árangur.
- Fór alltaf fyrr að sofa en nokkru sinni á skólanum. Oftast sofnuð um miðnætti, nema þegar skriftir héldu fyrir mér vöku. Af sem áður var, myndi ég segja.
- Í þversögn við það, hef aðdrei stútað öðru eins magni áfengis á einum skóla. Ætla hvorki að telja rauðvínsflöskur né bjórkassa en skriftir yfir glasi voru stundum stíflulosandi.
- Æfði mig geðveikt mikið á gítar og hlakka til að hefja nám í Tónheimum í haust.

Svo. Í betra formi en oft áður líkamlega en frekar sveitt á heilanum og pínu búin í andleginu.

Rannsóknarskip sótti mig og í fyrstu atrennu fórum við bara hingað í Eyjafjörðinn. Höldum suður á bóginn uppúr hádeginu. Svo er ég viss um að ég á að gera eitthvað næstu daga... Man bara ekkert margt í dag.