29.5.10

Kjördagur!

Gleðilegar sveitastjórnarkosningar. Alltaf gaman á kjördag. Ég sé fyrir mér rjómatertur í kjallaranum heima á Selás.

Sveitastjórnarkosningar þýða líka að á morgun á ég leikafmæli. Meiraðsegja frekar merkilegt. Á morgun eru nákvæmlega 5 kjörtímabil síðan ég mætti á mína fyrstu leikæfingu. Það gera 20 ár!

Þetta var æfing þar sem ég var að koma sem íhlaupagítarleikari inn í sýningu á Sölku Völku fyrir einhverja leiklistarhátíð einhvers Bandalags... eitthvað. Var ferlega spes samkoma. En í kjölfarið fylgdi leikhúsbaktería af svo svæsinni gerð að öll vötn hafa síðan runnið til Dýrafjarðar. Tökum bara sumarið. Eftir vetur af massívum leikhúsrannsóknum, einu skrifuðu stuttverki og tveimur litlum leikstjórnum, er ég að fara á Leiklistarskóla Bandalags... þarna eitthvað, í júní. 10 dagar. Ætla reyndar að læra að syngja. (En námskeiðið heitir röddin í leikhúsinu, þannig að...) Síðast í júlí er ég að fara á massíva leikhúsrannsóknaráðstefnu í München... 8 málstofur í einu, 4 sinnum á dag í 4 daga. Jamm. Og í ágúst er leiklistarhátíð Bandalags... þarna eitthvað, hvar ég hyxt stjórna upplýsingamiðstöð af skörungsskap. Í 3 skipti sem ég geri sollis.

Svo eins og sjá má markar dagurinn á morgun 20 ára afmæli gríðarlegra vatnaskila í mínu lífi. Ég veit ekki baun hvað ég væri annars að gera við líf mitt. Pólitík, kannski? Gubb?

Annars ætlaði ég að skrifa eitthvað um pólitík en ég kann ekki við það.

Í dag er kosningarétturinn og skoðanarétturinn alheilagur. Hvað sem menn kjósa og hvort. Allir verða að vera sammála um að vera ósammála og vonandi kemur hinn allrabesti grautur útúr öllu saman.

26.5.10

Ósökkvanleg skip

Það eru að verða 100 ár síðan Titanic sökk. Það sem mér finnst alltaf merkilegast er að menn töluðu um, algjörlega kinnroðalaust, að þetta væri ósökkvanlegt skip. „Unsinkable Ship.“ Hvorki meira né minna. Hljómar frekar fáránlega í dag.
Einhversstaðar í ætti við óbilanlegar vélar og lifni-við-pilluna.

Mér datt þetta bara svona í hug þegar ég var að lesa í DV um fyrrverandi starfsmenn Kaupþings sem ætluðu að hagnast á „áhættulausum fjárfestingum.“

Ég fæ alltaf smá ósökkvanlega lifni-við tilfinningu þegar ég heyri þetta orðalag. Alveg síðan fyrirtækið sem, skv. hæpinu, gat ekki gengisfallið á hlutabréfamörkuðum, Íslensk erfðagreining, fór úr genginu 50 niður í 7, eitthvað sirkabát, á skömmum tíma síðsumars 2001.

Hefðu menn ekki strax þá átt að sjá ljósið með "áhættulausar fjárfestingar"?

25.5.10

Grikkland núna – Serbía fyrir 3 árum?

Er með hálfgerðu óráði og ætla þessvegna bara að leggjast í táknsæislegan samanburð á milli Eurovisionlaga. Sennilega er það áðurnefnt óráð, sem orsakast að alveg hryllilegri flensu, sem ég sá einhver ógurleg líkindi með framlagi Grikkja til Eurovision í ár og serbneska laginu sem vann... var það ekki 2007? Nenni ekki að fletta því upp. Allavega, lesbían í jakkafötunum og allt það.

Og hvar eru líkindin? Annars vegar eru eintómar konur á sviðinu sem hreyfa sig lítið og flytja ballöðu. Hins vegar eru eintómir kallar á sviðinu sem dansa eins og Grikkinn Zorba og nota allt sem hefur verið að virka síðustu árin. (Til dæmis bæði fiðlu og trommur, sem var nú hálfgert óverkill.)

En. Bæði lög sungin á "frummálinu." Annars vegar konur í jakkafötum, hins vegar kallar í pilsum. Og allt með ferlega öfugum formerkjum, hvort við annað.

Miðað við þetta verða Grikkir í efsta eða neðsta sæti á laugardaginn. (Ef það gengur ekki eftir get ég afsakað mig með óráðinu.

Annars rifjaðist upp fyrir mér undir OPA-brjálæðinu að ég stofnaði Eurovision-bandalagið Þjóðir-á-hausnum með grískum fangelsislækni (sem ég var svo lánsöm að kynnast á leiklistarhátið 2002) um daginn á Fecebook. Eftirá að hyggja einkar ógáfulegt... Ísland og Grikkland líklega verandi þau lönd í Evrópu sem síst hafa efni á að halda eitthvað geðbilað útsendingapartí...

En, ðenn agenn, þetta lið kæmi væntanlega með haug af útlenskum peningum inn í "hagkerfið".

Þetta gengur ekki. Þarf að fara að verða meðvitundarlaus. Þarf nefnilega að rífa mig uppúr óráðinu í fyrramálið og messa í fjórar kennslustundir samfleitt um gríska lesbíu frá 7.-6. öld f.Kr. uppí Háskóla.

Þaldég verði vit í því...

24.5.10

Gosið búið?

Og bráðum klárast kosningar, hvernig sem þær fara.

Og kannski klárast einhverntíma að gera upp hrunið? Þegar búið verður að lögsækja og dæma hrunverja, hvernig sem það nú fer?

Og kannski hætta spilltir pólitíkusar einhverntíma að hanga eins og hundar á roði og segja af sér?

Ætli verði einhverntíma hægt að upplifa svona dásamlega gúrkutíð aftur, þegar ekkert er í fjölmiðlum nema fréttir af nýfæddum lömbum og einhverju sem gerist í útlöndum?

Ég er komin á þá skoðun að best sé að búa í löndum sem komast sjaldan eða aldrei í heimspressuna.

Kanada!