15.10.04

Lallalllah!
Við faðir minn settum í spíttgírinn í gær, tókst að koma einum pappír austur og í gegnum þinglýsingu á mettíma. Sem þýðir aftur að nú get ég skrifað undir kaupsamning á miðvikudag! Lallalllah! Og það er verið að finna tíma hjá fasteignasölunni. Lallallah! og þá er bara að vona að seljandi verði búinn að skrúfa skáphurðirnar á og pakka saman afgangs skrúfunum sínum á föstudag eftir slétta viku! Lallallah!

Finnst best að hlutir gerist annað hvort núna, eða strax. Ætla í gönguferð fram hjá húsinu mínu á eftir og reyna að ímynda mér hvernig sófi kemst í pínulitlu stofuna mína. Eins, mynda mér skoðun á því hvernig leirtau hæfir mínum persónuleika. Og prjónakarfa. Einhverntíma ætla ég síðan að komast í Rúmfatalagerinn og Ikea.

Boy, hvað ég er fullorðin í dag!

Skömmu síðar:
Endanlega staðfest að gerð kaupsamnings verður framin á miðvikudag.
Lallallah!

14.10.04

Fór að lesa bloggið mitt lengst aftur í tímann. Þar kennir ýmissa grasa. Og margt fyndið, sem og dramatískt. Og á köflum má Bridget Jones hreinlega vara sig. Svo hafa menn jafnvel kastað fram stökum í kommentakerfinu og hvaðeina.

Allavega datt mér í hug að fara að vista þessa heimild einhvers staðar í "bakköpp". Jafnvel spurning um að leggja einhvern tíma í að prenta allt heila draslið út, og kommentin líka, og setja í möppur. Ég er mjög hrifin af möppum. Sé fyrir mér heila hillu eftir nokkur ár. Eina fyrir hvert ár og svo mismunandi lit aðgreiningarspjöld fyrir mánuði... Jesús hvað það væri gaman. Röðunarröskunin er alveg að fá byr undir alla vængi.

Strúmm.
Fór að leita að Leiðarvísi í ástarmálum eftir Ingimund gamla og maddömu Tobbu sem á að vera til heima hjá okkur stöllum.

(Ætlaði reynar að finna þessa bók í síðustu viku til að maður vissi nú hvernig maður ætti að bera sig að við mannaveiðar, en það reyndist... ónauðsynlegt. Þarna er hins vegar líka að finna hvernig hin fullkomna eiginkona á að haga sér þannig að það er þá kannski bara hægt að fara að glugga í það.)

Við fundum hins vegar ekki þá ágætu bók, en í staðinn rakst Ásta á bókina "How to spot a B*stard by starsign."

Það er skemmtileg og aðvarandi lesning. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að allir karlmenn eru bastarðar og aðeins er áherslumunur eftir stjörnumerkjum. Gott að hafa mismuninn á hreinu, samt sem áður. Maður er sem sagt alltaf í vondum málum, en rétt að vita á hvaða hátt.

Blanda því saman við hollráð maddömunar þegar hún finnst og þá hlýtur þetta að verða allt eins og blómstrið eina...

13.10.04

Er komin með kvíðaröskun vegna frestunar á undirritun kaupsamnings.

Vaknaði í taugaáfalli í morgun eftir að hafa dreymt að Snorra Emils og einhverjum hafi verið seld íbúðin mín. Held það geti verið að ég sé að missa vitið.

Og ég held að rafkerfið í bílnum sé að gefast upp. Rafmagnsljósið blikkar oft, sérstaklega í rigningu, sem er oft, og ljósin lýsa ekki hálfa sjón. Veit ekki hvenær í skratt ég á að komast með hann á verkstæði. Veit ekki einu sinni um verkstæði. Garg!

Ókei... anda... huxa zen og feng shui...

12.10.04

Það einmanalegasta sem ég geri, nokkurn tíma, er að þurfa að fara út í 10-11 um kvöldmatarleytið og kaupa mér plastbakkamat til að borða alein á skrifstofunni minni. Mér finnst allt í lagi að þurfa að kaupa plastbakkamat á bensínstöð sem ég þarf svo að borða á leikæfingu. Það er allt annað. Eins finnst mér allt í lagi að borða ein heima hjá mér. Treysti mér alfarið til að elda eina kjötbollu eða búa til eitt salat. Ekki málið.

En að borða einn á skrifstofunni sinni er bara vont.

Þá er maður einn í heiminum.

Best að skrifa eitthvað einstaklega einmanalegt í leikritið.
- Geðraskanir af krónískri syfju.
- Þarf að skrifa eins og hálft leikrit í dag og þar með halda mér vakandi alveg uppá eigin spýtur.
- 10 dagar í afhendingu íbúðar minnar, sem allt í einu er algjörlega strangnauðsynlegt að gerist á réttum tíma, af óprenthæfum ástæðum.
- Pappírar vegna lántöku eru á ferðinni á milli Egilsstaða og höfuðborgar, ekki ljóst hvenær undirritun kaupsamnings gerist.

Þar sem bloggið mitt er óskablogg væri kannski ekki úr vegi að óska eftir því að öll þessi skipulagsatriði gangi nú eins og blómstrið eina og gott betur. Vil samt ekki óska eftir meiri tíma þar sem ég hef grun um að næstu 10 dagar verði nokkuð lengi að líða, þrátt fyrir allt annríki.

Já, og svo náttúrulega óska ég líka eftir heimsfriði, nýjum forseta í Bandaríkin, farsælli lausn á deilu vegna launamála kennarra og nægs skotsilfurs til handa öllum sem ég þekki.

11.10.04

Dömur mínar og herrar, þetta er galdrablogg.

Ef ég skrifa á það að mig langi í eitthvað, þá kemur það beinustu leið upp í hendurnar á mér, og það STRAX. Nýlegt dæmi er íbúðin mín. Ennþá nýlegra dæmi er uppskriftin að manninum sem ég setti fram í fíflagangi, haldandi að svoleiðis væri ekki til, í þarsíðustu færslu. Það reyndist vera svakalega rangt. Þessi er ekki bara til, heldur er líka heilum haug af öðrum mannkostum búinn og var á glámbekk. Málið er í athugun og verður útlistað betur síðar.

Er annars alvarlega búin áðí eftir þennan stórskemmtilega haustfund á Akureyri. Þarf samt að vinna algjörlega tvöfalt í dag og fara síðan á Memento æfingu. Veit ekki hvað ég heiti, hversu mörgum puttum neinn heldur upp fyrir framan mig eða hver er forseti.

Er líka eiginlega með samviskubit. Veit ekki alveg hvers vegna alheiminum finnst allt í einu svona sjálfsagt að ég fái alltaf allt sem ég vil...
Það hlýtur að koma að skuldadögum...