29.8.09

Fréttir vikunnar:

- Icesave: Vottever. Reynum að ná þessum peningum aftur af þeim sem hirtu þá. Einhvernveginn. Helst með vöxtum. Annars er meira mál að hrægammarnir eru farnir að koma og reyna að laumast bakdyramegin inn í veitufyrirtækin okkar. Nú er mikilvægt að senda þá heim með öngulinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í rassinum, eigum við að eiga okkur einhverja viðreisnarvon. Og reyna að fá Norðurlöndin til að lána okkur einhverja smá peninga, án þess að AGS komi það nokkuð við.

- Alþingismaður fullur í pontu, í boði banka. Bara eins og maður hafi skroppið ár aftur í tímann...

Yngri börnin héldu annars upp á laugardaginn með því að vakna klukkan hálfsjö. Foreldrar geta sjálfum sér um kennt að hafa drifið þau í svefninn fyrir Popppunkt. Sjónvarpið má hafa ýmislegt á samviskunni.

26.8.09

Magmaðurinn í Kastljósinu...

... ætlaði að slá um sig með stóryrðum um riiiiisafyrirtæki, ofurfjárfesta og kallaði sjálfan sig "player". Ef ætlunin var að vinna hylli almennings held ég að hann átti sig ekki alveg á því hvar hann er...

Reynslan hér af spilagosum, risafyrirtækjum og ofurfjárfestum er ekki beinlínis traustvekjandi þessa dagana. (Fyrir utan að þetta er Útlendingur. Aldrei gott, á Íslandi. Nema kannski sé maðurinn Færeyingur.)

Ég ætla næst að gúggla silfurnámufyrirtækjunum hans. Og tékka á ástandi almennings í þeim löndum sem þær eru starfræktar. Og er til í að éta hattinn minn uppá að það er ekki beisið.

Framhald á eftir.
---
Júpp:
Pan American has eight operating mines in Mexico, Peru and Bolivia.

Allt lönd með lélegt velferðarkerfi, lágt menntunarstig og mikla almenna fátækt. Viljum við slást í hópinn með þessum löndum.

Ég held að hann Ross Beaty sé ekki alveg að átta sig á því að í þessu landi býr þjóð sem bæði kann að gúggla og leggja saman tvo og tvo. Jafnvel þrjá, meiraðsegja. Farðu heim, hrægammur, og taktu Alþjóðagjaldeyrishyskið með þér!

Við erum að hamast við að verða ekki Kúba norðursins. Við viljum heldur ekki verða Bólivía norðursins, Perú norðursins, né nokkuð annað Suður-Ameríkuríki sem Bandaríkjamenn hafa verið að dunda sér við að taka í rassgatið undanfarin ár og áratugi.
So, there.

---

Verð að bæta aðeins við um silfurkompaníið. Þetta er af forsíðu þess (feitletranir mínar):

Pan American Silver Corp. was founded in 1994 with the mission to be the world's largest and lowest cost primary silver mining company and to achieve this by increasing its low cost silver production and silver reserves. Pan American has eight operating mines in Mexico, Peru and Bolivia.

Hljómar eins og eigandinn sé umhverfisverndarsinninn sem hann reyndi að halda fram í Kastljósinu? Ekki beint.

---

Meira af ferli Magma.

Í dag!

Átti með eindæmum afkastamikinn dag í Gimlinum. Komst að því að mig vantar marrrrgar bækur. Sem fæstar hvurjar fást verslaðar á landinu. Fokk.
Og svo taldi ég íslensk ádeiluverk sem framleidd (þ.e., sett upp í frumuppfærslum, í atvinnuleikhúsi sem áhuga-) voru síðustu árin fyrir hrun. Eftir lauslega talningu komst ég að eftirfarandi niðurstöðu (sem er ekki sérlega nákvæm, en samt):
2004 - 13
2005 - 9
2006 - 5
2007 - 4
2008 - 4
Auk þess má nefna að verkin sem sett voru upp fyrri árin voru mun pólitískari og óumdeilanlegri ádeilur en þau sem sett voru upp 2007 og 2008. Þar eru einhver sem eru alveg á mörkunum.
Merkilegt?
Já, það finnst mér.
Gaman verður að skoða sambærilegar tölur næstu ára.

25.8.09

Á morgun!

Í dag bárust mikil tíðindi. Undirrituð fékk í dag afnotarétt af þartilgerðu skrifstofu, einum skáp og nokkrum hillum, í Gimli. (Sem er nýleg, 2007-útlítandi bygging á háskólasvæðinu.) Nánar tiltekið á þriðju hæð, hvar doktorsnemar rannsaka og rannsaka.

Ég fór úteftir í dag, festi mér borð við hliðina á Öddu Steinu, algjörlega að henni forspurðri, og hyxt hefja rannsóknarstörf þegar á morgun. Svo fór ég með tölvuna í sérstaka prentaraaðlögun og beit síðan höfuðið af skömminni og fór inn í eina húsið á háskólasvæðinu sem ég hef ævinlega gengið framhjá. Íþróttahúsið.

Þar verslaði ég mér árskort á krónur 7.000. Hef þar með ótakmarkaðan aðgang að líkamsræktarstöð, jógatímum tvisvar í viku og allskonar. Og ekki síst, sturtum þegar ég er búin að hlaupa í hádeginu! Hreinræktuð snilld, og ég ætla að þjófstarta og hafa fyrsta daginn í doktorsnáminu á MORGUN!

Í öðrum fréttum, frúin er búin að vera hálfsloj síðan á sunnudag. Þar sem stefndi í veiki 2 á 3 vikum ákvað ég að taka ónæmiskerfið í gjörgæslu og tek nú, ásamt öllum Herbalifepakkanum, Omega3-7-9-13, hvítlaukspillur og eitthvað eitt enn, ecth... eitthvað, þrisvar á dag (í samræmi við leiðbeiningar) meðan birgðir endast. Nú skal ónæmiskerfið bústað fyrir heilsusamlega veturinn. Af þessum sökum hefur ekki verið hlaupið eina græna baun síðan á menningardag. Vonandi verður heilsuleysi orðið endanlega afstýrt fyrir næstu helgi.

24.8.09

Zeitgeist: Addendum – Efnahagslífið er ekki eina lífið... frh.

Mikið hroðalega var gaman að hlaupa á laugardaginn. Og íbúar Lynghagans eiga risahrós skilið fyrir þessa frábæru byltingarstemmingu. Þar glumdi við glaðlegt pottaglamur, sem reyndar gerði það að verkum að maður færðist allur í aukana og hljóp hratt framhjá. Sem var synd. Hefði helst viljað stoppa, bara. Ég er búin að athuga hvað er á sölu í Lynghaganum. Tvær íbúðir. Önnur er nokkrum fersentímetrum og lítil og hin er einum 30 milljónum of dýr. Jæjajæja.

For something completely different.
Horfði á myndina Zeitgeist: Addendum í gærkvöldi. Þurfti talsvert átak til þar sem hún var reglulega seint á dagskrá. (Sem er ákveðin vísbending um að nokkuð sé til í samsæriskenningunum í henni. ;) En ekki þurfa menn að láta það á sig fá. Það er hægt að horfa á hana, í heild sinni, ókeypis, á netinu, hér. Reyndar ekki með íslenskum texta.

Andri Snær segir í Draumalandinu að það fái alltaf slatti af fólki sömu hugmyndina í einu. Það var gríðarlega skemmtilegt að sjá að á meðan ég er búin að vera að reyna að synda, ja svona allavega út á hlið við strauminn, í heimspekilegum and-auðhyggjupælingum, eru heilmargir úti í heimi búnir að gera grundigar rannsóknarpælingar á því hvernig og hvers vegna peningakerfið eins og það leggur sig gengur ekki upp. Það grundvallarsamfélag sem þeir sjá fyrir sér í staðinn er líklega full útópískt fyrir flesta en þarna eru svakalega áhugaverðar pælingar. Sem maður þarf heilmikið að spekúlera í til að ná utanum. Ég ætla að horfa aftur á þessa mynd. Og hina myndina, Zeitgeist, the Movie Almennilega vakandi. Sennilega best að taka hana í köflum og taka glósur.

Allavega, ef menn hafa áhuga á að kynna sér þessar hugmyndir held ég að sé best að byrja á að horfa á myndina, og líklega sniðugt að horfa líka á hina myndina, segi ég að óséðu, og svo er hægt að skoða Zeitgeist samtökin og jafnvel Venusarverkefnið ef mönnum svo líst. Svo eru samtökin vitaskuld á Facebook.

Ég er öll rólegri í dag. Kippi mér minna upp við kreppufréttir en venjulega. Hannesi Hólmsteini tókst ekki einu sinni að koma mér í vont skap með frjálshyggjublaðri dagsins. Það er komin risastór hreyfing í málið með risastórar hugmyndir og nokkuð skynsamlega nálgun og framsetningu á þeim, bara.
Líklega klárar peningakerfið nú ekkert að ganga sér til húðar í mínu lífi. Og sennilega kálum við plánetunni og sjálfum okkur áður en almennt verður farið að hugsa um skynsamlegri nýtingu plánetunnar, endurnýtanlega orku og svo framvegis. En mér líður eitthvað svo vel að vita af þessum hugmyndum þarna úti.

Étla þá bara að fara að æf mig gítar og hugsa um doktorsverkefnið mitt. Lallallaaaa...

Kannski þróumst við í gáfulegri áttir og náum okkur út úr úrsérgengna peningakerfinu.
Einhverntíma.
Lallallaaaah!