13.3.10

Af dokt horinu

Hér hefur verið lítið að gerast undanfarið en það stendur til bóta.
Það sem af er þessum mánuði hefur farið í að vinna tvær styrkumsóknir og það hefur sett alvarlegt strik í frétta- og skoðanamyndanafíkn sem hefur verið nokkuð viðvarandi frá hruni.

Eiginlega ágætt að fá pásu. En eftir mikla yfirlegu á ég nú verkefnislýsingar, rannsóknaráætlanir, heimildaskrár og CV af öllum tegundum á tungum tveim, auk meðmælabréfa, afrita af skírteinum yfir allt sem ég hef nokkru sinni afrekað og fer að verða fær í langflestan sjó. Enda á að skila öllu galleríinu á mánudag, svo hann fer í útprentanir á sumu, pdf-anir á öðru og að eltast við fólk um allan bæ til að fá undirskriftir.

Það bar annars nokkið til tíðinda... einhverntíma í vikunni. (Hún rennur öll saman í mínum huga.) Ég hef annað slagið síðan í haust verið að gúggla random leitarorðum til að vita hvort ég finn einhverjar ráðstefnur sem ég get sagst ætla að fara á. Eitthvað hefur svosem alveg fundist um orðræðugreiningu... misspennandi... en leikhúsmegin hef ég fundið fátt spennandi, svoleiðis fólk er einhvern veginn meira fyrir að halda leiklistarhátíðir heldur en ráðstefnur. Og ólíklegt að ég geti notað rannsóknina sem afsökun við að fara á svoleiðis, nema þá innanlands.

En allt í einu fann ég þetta. International Federation for Theatre Researh, takk kærlega og pent. Þetta samband heldur ráðstefnu einu sinni á ári og reyna að stefna saman fræðimönnum og leikhúsfólki til að ræða og kynna rannsóknir á leikhúsi, eins og vindurinn. Ráðstefnan í sumar verður í Munchen (sem er vel sloppið staðsetningarlega séð, síðustu ráðstefnur eru búnar að vera á Indlandi og í Kína og eitthvað). Or ekki er yfirskriftin algjörlega minni rannsókn óviðkomandi, Cultures of Modernity. Og starfshópur um pólitískt leikhús er starfræktur innan þessara samtaka. Ég er reyndar orðin of sein að sækja um að vera með fyrirlestur, því miður, en líður samt eins og tvenn jól og nokkur afmæli hafi komið í einu og ætla þvílíkt að sækja þessa ráðstefnu í júlílok. Ekki nóg með það heldur gefur þetta ágæta batterí út ritið Theatre Research International sem kemur út þrisvar á ári. „Fyrirhugað er að rannsakandi leiti birtingar á hlutaniðurstöðum í því.“ Og kæmi það nú heldur en ekki vel út í lista yfir útgefnar greinar á ritrýndum (eða semí-ritrýndum) vettvangi. (Listi sem veldur mér alltaf miklum vandræðum og heilabrotum... hvor greinin ætti að vera á undan?)

En talandi um Kína, það gjörsamlega rignir ráðstefnum. Í gær fékk ég svona auglýsingu eftir fyrirlestrum á einhverja alveg yfirgengilega merkilega orðræðugreiningarráðstefnu. Nýjar aðferðir og allt um það. En hún er bara tveir dagar. Í Kína.

Það væri svalt að senda inn, ef maður væri nú kominn með eitthvað frambærilegt. Ég veit svosem ekki hvort ég er það. En það sem vegur eiginlega þyngra er að ef ég er að fara til Þýskalands í júlí, halda síðan stórmerkilega leiklistarhátíð á Akureyri um miðjan ágúst er ekki séns í helvíti að ég nenni til f**** Kína í lok ágúst.

Er maður kannski orðinn ferlega aldraður þegar maður er farinn að láta smá ferðalög þvælast fyrir sér?

Best að nenna samt ekki að pæla í þessu fyrr en styrkumsóknir verða í höfn. Þá verður aftur hægt að fara að gera eitthvað af viti.

8.3.10

Fór í bústað um helgina og ætlaði aldeilis að skrifa leikrit. En það bara var ekki að gerast. Allt sem ég reyndi að fatta uppá var andlaust og leiðinlegt. Og ég þurfti alltaf ótæpilega að fara að leggja mig, lesa Agöthu Chistie og sofa slatta. Entist ekki nokkurn skapaðan hlut á kvöldin heldur. Gerði sem sagt hreint ekki neitt, til gagns né ógagns.

Í gær var sunnudagssíðdegið í óvenjumikilli röð og reglu, eitthvað. Ég nennti að pakka í leikskólatöskur og íþróttatösku fyrir sjálfa mig snemmsíðdegis, í stað þess að vakna upp við vondan draum klukkan 11, eins og er orðin lenska. Mætti síðan með fítonskrafti í vinnuna í morgun og hreinsaði upp allan fjárann af tiltölulega einföldum málum sem ég var búin að vera að ýta á undan mér ótrúlega lengi. Mætti í leikfimi í hádeginu, bara almennt í góðu stuði.

Er sumsé orðin of stjúpid til að fatta þegar ég er þreytt.