Byrjum á byrjuninni.
Fyrirlesturinn var í morgun tilbúinn í tölvunni, en eftir að gera lokayfirlestur og prenta út.
En.
Freigátan reyndist hafa hita og þurfa að vera heima og Hraðbáturinn var í geðvonskukasti allan morguninn, svo fyrirlesturinn flutti ég óyfirlesinn, illa lyktandi og úldin. Talaði í hálftíma, mest um Hugleik, í samtímaleiklistarkúrsi, þar sem yfirlýst markmið er að sjá sem flest nýsamin íslensk leikrit, og gleymdi algjörlega að agitera fyrir sýningunni sem er í gangi, eða þeirri sem er eftir. Fáviti.
Spýttist að því loknu heim til að hleypa Rannsóknarskipi aftur í vinnuna og tóxt fyrir eitthvað kraftaverk að svæfa báða ormana og halda þeim þannig á meðan ég fundaði með leikstjóranum á óskrifaða leikritinu (sem á að verða tilbúið eftir 20 daga) (og er búið að selja nokkrar sýningar á.) (Íks!)
Að því loknu tók við að halda ormunum ógrenjandi þangað til Rannsóknarskip kæmi heim. Sem gekk ekki vel. Stofan var bakarofn og við fluttum út á svalir. Púllaði þó eitt megauppeldi. Freigátan hefur tekið uppá þeim leiða ávana að væla voða mikið ef allt er ekki nákvæmlega að hennar skapi. Í dag setti ég hana inn í rúm í einu vælukastinu og sat síðan þar hjá henni og útlistaði að ef menn vældu svona væru þeir þreyttir og þyrftu að fara að sofa. Eftir það þurfti ég ekki nema að minnast á það til að sú stutta steinhætti við að væla og biði þæg og góð eftir að ég hefði tíma til að sinna henni. En það þarf gjarnan aðeins að bíða eftir því þegar maður á lítinn og geðvondan bróður.
Heim spýttist Rannsóknarskip síðdegis, og ég í búð, ekkert var til. Fattaði reyndar í miðri búðarferð að ég var barnlaus í verslun, líklega í fyrsta sinn síðan einhvern tíma í fyrra, svo ég gat virt fyrir mér hillur, skoðað tilboð, og líklega munað eftir öllu sem vantaði. Endaði með að eyða formúgu (í kreppunni) og nú er allt til svo verðbólgan má koma.
Svo var kvöldmatnum troðið í börnin og ég, ennþá illalyktandi og með gubb og hor á báðum öxlum, upp í Möguleikhús í miðasöluna fyrir 39 og 1/2 viku.
Geðveiki lokið? Eður quað?
Múgur og margmenni mætti til sýningar. Þegar vér miðaseljur vorum farnar að tjilla. Töldum sýningu hafna, kom annað í ljós. Einhver fjárinn hafði hlaupið í hljóðið, eða hlaupið með það, allavega heyrðist bara ekki baun í bala. Stórskotalið leikara og tæknimanna öthugði og öthugði og ljóst varð fljótlega að miklar aðgerðir þurfti og allt í einu var andfúla miðaseljan bara aftur komin með fullt anddyri mispirraðra áhorfenda sem veita þurfti skemmtan og upplýsingu eftir því sem við átti. Og bjór.
Af stað komst sýningin þó um síðir, eftir merkilega fáar endurgreiðslur. Eftir hlébjórsöluna skaust Móðurskipið heim, eins og elding, til að taka kolbrjálaðan Hraðbátinn af Rannsóknarskipi sem nú situr og fer yfir próf.
Sú andfúla getur hins vegar ekki hætt að múltítaska, horfir á sjónvarpið, bloggar og hefur ofan af fyrir Hraðbátnum sem er venju fremur ör og skrafhreyfinn, líklega af allri stressuðu mjólkinni sem hann hefur fengið í dag.
Vonandi sofnar hann þó fljótlega. Sú gamla ætlar þá að hitta tannburstann sinn og fara í LangÞráð bað.
Árangur daxins:
- Leikritið sem þarf að skrifast á næstu 20 dögum þarf að skrifast talsvert betur, en þó ekki jafnmikið og ég bjóst við. Sem er gott. Þó vantar í það nokkur stuð.
- Ritgerðin sem skila á uppkasti af eftir 20 daga og endanlegri eftir 35 hefur tekið á sig einhverja stefnu. Sem ég man vonandi ennþá næst þegar ég má vera að því að vinna í henni.
Á morgun heldur nefnilega belunin áfram. Fyrramáls fer Rannsóknarskip með Freigátuna á Barnaspítala Hringsins þar sem á að skafa úr eyrunum á henni og skoða nefkirtlana. Eftir skóla hjá Smábátnum á síðan að skulta honum í röngtenmyndatöku þar sem hann meiddi á sér fótinn um síðustu helgi og hefur verið eitthvað skakklappandi síðan.
Og við Rannsóknarskip finnur bæði fyrir byrjunareinkennum flensu.
Ef ein helvítis pestin enn er komin í hús er séns að ég missi restina af vitinu.