27.5.05

Merkilegt

hvað allt í einu er komið gott veður, sól skín í heiði, fuglarnir syngja, annríkið um helgina er allt í einu bara allt af því ljómandi skemmtilega og allt sem nýtt. Allt er dáindisgaman og skemmtilegt, framundan er splunkunýtt og ilmandi sumar og þvílíkt gaman að lifa.

Skyldi þessi hamingja tengjast því að ég endurheimti Rannsóknarskip í gærkvöldi og fæ bráðum að sjá Smábát? Skyldi þó aldrei vera?

Og sólin skín á ruslatunnurnar úti í porti og um helgina fæ ég m.a. að sjá Sambýlinga, uppsetningu Leikfélax Húsavíkur sem mig er búið að langa að sjá lengilengilengi.

Íbúðin mín skoðast og skoðast, enginn friður heim hjá mér og ég hef ekki við að fela óhreinan þvott og þykjast að alltaf sé fínt heimahjámér. Sennilega sel ég einhvern tíma áður en sumarið er úti. Huxa ég.

Lallallah!

26.5.05

Eftir að hafa skitið uppá bak

í deildinni heimahjásér í vetur, sneru skásarar bara við blaðinu og unnu meistaradeildina. Ætli maður óski ekki til hamingju, með semingi þó, það sem nú er hætta á að þeir stingi meistaradeildarsætinu undan mínum mönnum næsta vetur. Eins og menn hafa séð ástæðu til að tjá mér minnst einu sinni í viku í allan vetur.
Get því ekki sagt að ég samgleðjist nema að tæplega hálfu.

Fyrir þá sem ekki skildu þessa málsgrein, hún fjallaði um fótbolta.

Í gær kom kona að skoða íbúðina mína. Hanabjálkinn er nefnilega kominn hér og greinilegt að eftirspurn ætlar ekkert að láta á sér standa. (Einhver hefur reyndar fokkað mjög rækilega upp uppsetningunni á fasteignavefnum þannig að myndirnar af húsinu eru HUGE.)

Svo er allt brjálað í skipulagningu á öllum skrattanum. Leikstjórnarverkefnið mitt fer að verða tilbúið til örsýningar sem á að fara fram á aðalfundi Hugleix á sunnudaginn. Svo er Árni að koma í bæinn og helgin verður gjörsamlega undirlögð af leikhúsum og skírnarveislu og allskonar látum. Leiðinlegt þegar allur heimurinn hrúgast á eina helgi og ekki er almennilega tími til að njóta neins af því almennilega þar sem maður er alltaf að verða of seinn í eitthvað annað.
En svona erðetta bara.

Ég var að uppgötva mér til mikillar kæti að utan vinnu á er þetta sumar óskaplega lítið skipulagt. Ég hef ekki huxað mér út fyrir landsteinana og ætla ekki að "gera" nokkurn hlut. En ætla bæði austur og vestur, mér til skemmtunar og yndisauka, og vera m.a. alveg heillengi á Egilsstöðum í beinu framhaldi af leiklistarhátíð og hluta af þeim tíma lítur út fyrir að ég verði alein að passa tvö hús og vera og sólbaði.
Huxa mér gott færi á að heimsækja fólk!
Er búin að panta gott veður.

Jámmjámm.

25.5.05

Samviskuspurningar

Eftir að hafa rantað og lýst svona líka almennu frati á fjár- og dótasöfnun bara rétt í gær, er rétt að játa soldið. Mig nefnilega langar ógurlega í dáldið sem er bæði einstaklega dýrt og ópraktískt, auk þess sem ég á annað fyrir sem er til sömu hluta nytsamlegt.

Þannig er að ég á fartölvu. Hreint ágæta. Sem ég fékk á góðum afslætti vegna útlitsgalla sem mér hefur ekki enn tekist að finna. Hún er PC og er með breiðskjá. Og ég þarf að eiga PC fyrir forritin sem ég þarf að nota í þýðingavinnunni minni. Við höfum bara ekki tengst neitt sérstaklega sterkum böndum. Hún er of stór til að ég nenni með hana út að labba að neinu ráði og, já, við erum ekki að konnekta. En tölva er bara tölva, ekki satt?

En samt, en samt. Dett ég annað slagið alveg óvart inn á Apple vefinn og horfi löngunaraugum á tólftommu ibook sem mig er búið að langa hryllilega lengi alveg ógurlega í. Og svo er greinilega um fleiri þar sem hún hefur ekki verið til á landinu lengilengi. En ég hef hitt svona tölvu. Í eigin persónu. Og fallið algjörlega í stafi. Hún er ógurlega pen og fögur og kemur í íðilfagurri tösku. *dreym*

Samviskuspurningin er þessi: Ef maður á eina tölvu, er þá ekki hálfkjánalegt að fá sér aðra, bara af því að hún er falleg? Vera með eina tölvu til að þýða á og aðra til að skrifa leikrit? Er þetta ekki komið út í tóma vitleysu? En það er þetta með langið. Stundum hefur maður enga stjórn á því.

24.5.05

Í fréttum er þetta helst

Nú er víst algjörlega búið að finna upp sláttuvél sem getur slegið grasið sjálf.
Við skulum bara vona að hún láti trén í garðinum hans Ágústar við hliðina vera.
Þetta þykir engum fyndið nema fáum útvöldum.

Til að forðast frekari heimspeki...

...í bili, idjótískt próf sem kom út einmitt eins og ég vildi. Það er nefnilega óhollt að huxa oft á dag.

You scored as Phoebe. You're Phoebe. You come across as a bit weird and ditzy but you're fun loving.

Phoebe

65%

Ross

55%

Joey

45%

Monica

35%

Chandler

25%

Rachel

25%

Which Friend are you?
created with QuizFarm.com

Peningarnir og lífið

Nú er það svo að mér hefur oft og gjarnan verið legið á hálsi fyrir að eiga alltaf péning, og það meiri en flestir samferðarmenn mínir. Í gegnum allar mínar skólagöngur gat ég djammað eins og skrattinn, reykt eins og strompur og stundað hvaða dægradvalir eða pizzuát sem mér sýnist. Þetta hefur mönnum þótt undarlegt og jafnvel farið í pirrur sumra. Þessi endalausa ljómandi fjárhagsstaða hefur líka satt best að segja vakið sjálfri mér furðu, þar sem fjármunasöfnun hefur aldrei nokkurn tíma verið mitt áhugamál. Upphaf að þessum vangaveltum mínum núna er spurning sem ég fékk í kommenti hér 2 færslum neðar um hvort ég hefði ekki áhyggjur af því að fasteingahaukarnir ætli að svindla á mér, eða græða á mér. Svarið er nei. Á meðan ég á nokkurn veginn í mig og á er mér alveg sama hver er að svindla eða græða á mér. Sé þeim bara velkomið. Né heldur hafa peningar nokkurn tíma verið mér hvati til neins. (Eins og að fara í arðvænlegt nám, til dæmis.)

Kannski er ég búin að komast að því hvernig í þessu liggur.

Ég held ég hafi aldrei átt neitt meiri peninga heldur en aðrir. Veltan á mínum reikningum er sennilega með þeirri minnstu sem þekkist hjá einkaaðila sem ekki er á eftirlaunum eða örorku. Mér er hins vegar alveg sama. Mig langar sjaldan að gera neitt dýrt. Og þegar mann langar sjaldan að gera neitt dýrt, er óskaplega lítil ástæða til að kvarta yfir blankheitum. Kannski er málið einmitt það að mín blankheit eru ekki minni en annarra, mér er bara meira sama um þau. Og hef líka yfirleitt efni á flestu sem mig langar að gera. Eins og að fá mér kaffi með Nönnu niðri á bæ suma eftirmiðdaga.

Ég held að flíkurnar sem ég hef fjárfest í um ævina sem hafa kostað meira en 5.000 krónur séu teljandi á fingrum annarrar handar. Enda kaupi ég mér föt af illri nauðsyn, en sjaldan af neinni ílöngun. Innbúið mitt í heild sinni er sennilega ekki hundraðþúsundkalls virði. Aftur, nauðsynjar frekar en ílanganir. Enda kemur heimili mitt og fataskápar alltaf til með að líta út eins og bás í Kolaportinu. Og það böggar mig ekki neitt.

Það eina sem mig langar oft og mikið til er að fara á allskyns námskeið eða leiklistarhátíðir. Jafnvel í útlöndum. Ef mig langar ógurlega, gæ ég hvort ég get haft efni á því án þess að steypa mér í meira en 200.000 króna skuld, með öllu. Ef ég hef það, þá get ég farið. Ef ég hef það ekki, get ég það ekki. Útrætt mál. Þetta er bara spurning um að vera ekki að reyna að redda sér fyrir horn hlutum sem maður hefur ekki efni á. Mig hefur til dæmis sjaldan langað jafn mikið á nokkurn viðburð og leiklistarhátíð í Mónakó í sumar. Bláköld staðreynd málsins er hins vegar sú að Mónakó er dýr staður að vera á og burtséð frá uppihaldi og ferðum hef ég ekki efni á að fara þangað eða vera þar í 8 daga. Þó ég sé kannski að fara að græða eitthvað uppí yfirdráttinn minn á fasteignabraski.

Galdurinn er sá að láta sér í léttu rúmi liggja þó maður hafi ekki efni á einhverju. Hversu mikið sem mann "langar". Galdurinn er líka sá að koma sér þannig fyrir í lífinu að það sé bara svo ljómandi skemmtilegt á daglegum basís að maður þurfi ekkert sérstaklega á tilbreytingum að halda. Ég geri það viljandi að vinna bara hálfan daginn, svona oftast, nema þegar ég er alveg að fara á hausinn og fæ mér smá aukaverkefni. Og í vinnunni minni er ævinlega gaman og hún er líka með innbyggðar tilbreytingar.

Eftir klukkan 13.00 á daginn er ég hefðarfrú. Þá fer ég í freyðiböð, stunda kaffidrykkjur með námsmönnum og öðru hefðarfólki, dunda mér við heimilis- eða ritstörf. Eða spila bara Mahjong í tölvunni allan daginn ef mér svo sýnist. Og, já, 100.000 kallinn á mánuði dugar auðveldlega fyrir öllu sem ég þarf. Ég versla í bónus, geng í sömu fötunum áratugum saman, á ekki bíl og sjaldan brennivín. Og allt árið er ég í sumarfríi hálfan daginn og sinni hugðarefnum mínum 12 tíma á dag. Á samt fjármuni til stöku bjórsamsætis eftir leikæfingar eða þannig mannsoll.

Jú, mikil ósköp, annað slagið er ég búin að hlaða upp slatta af yfirdráttarheimild. En ég hef líka alveg svigrúm til að vinna stundum aukavinnur. Yfirleitt þarf ekki margra mánaða törn til að borga upp dellurnar.

Mér finnst tími meira virði en peningar. Og þá meina ég tími til að gera lítið sem ekkert, prjóna, eiga heimspekilegar vangaveltur og gera almennt hluti sem maður fær ekki borgað fyrir í peningum. Og þegar fram líða stundir, ala upp börnin og kannski skúra oftar en einu sinni á ári. Ekki það að ég GÆTI ekki gert þetta alltsaman meðfram fullri vinnu, ég segi það ekki, margir gera það, en ég nenni því ekki, langar ekki til þess og sé ekki tilganginn með því. Þegar ég verð hundraðogáttatíu ára vil ég geta litið til baka á lífið og huxað: "Þetta var nú gaman" en ekki "Hei, hvert fór tíminn? Ég var bara alltaf í vinnunni..."

Einhverjir hafa verið að reyna að segja mér að þetta breytist þegar ég eignist börn. Þá VERÐI ég allt í einu að eiga 2-3 bíla og börnin þurfi að fá að ganga í merkjavöru og eiga raftækjaverslun í herberginu sínu, annars verði þau lögð í einelti. Ég hef hins vegar ekki trú á að minn þankagangur breytist mikið við barneignir. (Mig dreymir reyndar um að þá verði ég alltíeinu þessi fyrirmyndarhúsmóðir sem ryksugar á laugardögum og bakar í frystinn, sé það samt ekki gerast.) Huxanlega þarf að gera eitthvað í fjármunaöflun þegar þar að kemur, víst er um það, svona til að eiga í alla og á, en því verður haldið í lágmarki. Líklega verða þá líka námskeið og hátíðir að sitja á hakanum um nokkurra ára skeið. Enda eru þær ekkert að fara neitt. Börn fara hins vegar að heiman með tímanum. Hugsjónamanneskjan í mér stendur algjörlega í þeirri trú að samverustundir fjölskyldunnar séu mikilvægari en hvort fyrstu föt barnsins komi frá Ralph Lauren eða hvort það eigi ýkt dýrt dót til að kaupa sér vini með. Vinir sem þarf að kaupa með dóti eru hvort sem er ekki þess virði að eiga þá.

Þetta er orðinn mjög langur hundur.
Bottomlænið er þetta:
Auðlegðin kemur innan frá og blankheit eru sálræn.
Lífsnauðsynjar eru matur og húsaskjól (og í sumum tilfellum, eins og mínu, skjáreinn). Fyrir utan það þýðir lítið að langa í fleira en það sem maður getur/nennir að vinna fyrir.
Og það held ég sé nú allur galdurinn á bakvið mína óþrjótandi auðlegð, ef einhver hefur verið að pælíði.

23.5.05

Græðg!

Þá er loxins formlega búið að verðmeta dásamlegu íbúðina mína og setja hana á sölu. Hún er formlega metin á 9.9 milljónir. Þann eitthvaðasta október verslaði ég þessa sömu íbúð á kr. 8 milljónir. Skemmst er frá því að segja að ég hef gert nákvæmilega EKKERT fyrir hana, enda er ég smíðkona engin.

Í dag er eitthvaðasti maí þannig að síðan ég keypti eru um... reiknreikn... 7 mánuðir. Með því að eiga íbúð í 7 mánuði er ég búin að eignast 1,9 milljónir. Það er samsvarar einhverjum 250.000 kalli sem ég hef fengið á mánuði með því að eiga hanabjálkann. Þetta er eins og að borga and-leigu.

Þetta er allt ógurlega sniðugt. En tekið skal fram að þetta er alltsaman að gerast fyrir helbera tilviljun. Það er ekki eins og ég hafi viðskiptavit eða neitt. Hreint ekki baun. Enda má nú bara þakka fyrir ef ég kem út á sléttu þegar ég verð búin að borga verðbæturnar, fasteignasalagjöldin, uppgreiðsluhvaððanúheitir og svo skatt af öllu saman. Verða nú sennilegast engar hrúgur eftir af afgangi nema maður fari út í alvarleg skattsvik.

En, nú er bara að gá hvernig þetta kemur út á fasteignavefnum á morgun og sjá svo til hvort einhver bítur ekki á.

Þjónustan!

Jahám. Enn einu sinni hefur mér tekist að vanmeta þjónustusamfélgið sem ég bý í. Ég hélt maður þyrfti að fara með íbúðina sína á sölu. (Eða, semsagt, allavega fara á fasteignasöluna, eitthvað.) En, nei, fasteignasalan kemur til manns. Og það samdægurs. Sem þýðir að ég þarf að hlaupa heim eftir vinnu og gera allt eins og perrinn og hexið sem voru í sjónvarpinu í gær séu nýbúin að koma í heimsókn. Sjitt.

Fasteignasalan kemur nefnilega með alla pappíra til að fylla út, söluverðmætismetur, tekur myndir og gerir bara allt. Svo sé ég fram á martraðarkennt ástand hreinlætis næstu mánuði á meðan einhver gæti huxanlega komið að skoða. Sjittsjitt.

En gott verður að losna við afborganirnar og fá að borga bara einhverja lúsarleigu í staðinn. Það var nefnilega alveg eins og ég hélt. Það er bara vesen að eiga dót.

Ætli ég gæti gabbað skattstofuna til að koma heim til mín og gera fyrir mig blaðið sem vantar í framtalið mitt? Hmmm?

Oj

Tek aftur allt hugsjónarant um að Júróvísjón snúist eitthvað um tónlist. Þegar það var skrifað var ég tímabundið búin að gleyma að Evrópanar hafa víst hvorki húmor né tónlistarsmekk. Ég var alveg VISS um að toppbaráttan yrði á milli Moldavíu og Norex. En nú held ég að sé kominn tími til að leggja niður þessa vitleysu.
Skandall.

Og þessutan er náttlega skítakuldi og ég horfði mjög gaumgæfilega á sjónvarpið í gærkvöldi og sá ekki betur en sá viðbjóður ætti að halda áfram eitthvað fram í júní.

Svo er ég að leikstýra. Það er alveg gaman... en ég veit ekki hvort ég er að geraða rétt. En það kemur þá bara í ljós. Jámmjámm.