11.3.06

Í rúminu

Já, ég er þar enn. (Lýg reyndar smá, er búin að fara frammúr síðan í gær.) Er enn karlmannslaus, reyndar ekki búin að hringja í marga, og ná í færri, komin með svooo mikinn höfnunarkvíða. Á meðan en Rannsóknarskipið með leikæfingu með leikaranum sínum í stofunni, sem er búinn að læra textann sinn! Gaaah!

Nú eru góð ráð dýr... Best að láta skilaboð liggja fyrir öllum allsstaðar.

10.3.06

Stræk

Komin í verkfall a la Lennon og Ono. Ætla ekki frammúr rúminu fyrr en ég er búin að ná mér í karlmann. Til að leika í einþáttungnum mínum. Reyndar náttlega smá séns að þá þurfi ég að liggja hér alla helgina, en það er ekki verra. Fyrsta konan sem ég spurði sagði já, og nú er ég að bíða eftir hvort ég hef haft erindi í fyrsta símtali báðumegin! (Og nú öfunda mig sjálfsagt nokkrir.)

Átti annars gott spjall við dóttur mína í morgun. Hún sagði agú og ónei og fleira spaklegt. Getur ekki beðið eftir að læra að tala, en þá ætlar hún ekki að samkjafta. Virðist sumsé ætla að hafa málbeinið frekar frá Hallgeirsstöðum í Jökulsárhlíð en Brekku í Eyjafirði. Fyrir þá sem vita hvað það þýðir... sem er sennilega enginn nema ég.

9.3.06

Er... hmmm?

Er að prófa nýtt dót sem gerir bloggun vissulega auðveldari, ef virkar. Væri vissulega talsvert gaman.

Og, er búin að hringja í 2 leikara! Jeij!

Hmmm... hvernig pubblisjar...?

Val- og Verk-

Er haldin val- og verkkvíða. Ætla að leikstýra þætti sem á að frumsýna eftir hálfan mánuð sléttan. Er ekki farin að hringja í huxanlega leikara. Hvers vegna? Tja... góð spurning. Rannsóknarskip er með styttri þátt en ég, er búinn að finna sér leikara og gera æfingaplan, bæði með hvar og klukkan hvað allar æfingar eiga að vera!

(Afsaka það með því að hann sé nú bara með einn leikara... ég er með heila TVO.)

Nei, ég veit ekki alveg hvað ég er að hanga með þetta. Þetta er ekki flókið verkefni. Bara hringja í fólk og spurja: Hurru, viltu leika?
Og vonandi segja allavega einhverjir tveir: Já.

Vona að ég geri þetta í dag. Jájá.

8.3.06

Svikogprettir!

Það hefur verið þvílíkt logið að mér. Mér er sagt að ungabörn sofi næstum alltaf. Allavega fyrstu vikurnar. Jafnvel mánuðina. Tölfræðin segir 15-16 klst. á dag. Freigátan fylgir þessu bara alls ekki. Hún virðist vera komin með munstur. Vakir alltaf fram yfir miðnætti. Vaknar um 9 á morgnana (þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir foreldranna til að halda morgunkomu leyndri) sefur 1-3 tíma í vagninum eftir hádegi... og lítið meira. Nema eina og eina smákríu. samtals um 8-12 tímar á sólarhring, þeinkjúverrímötsj. Þess á milli er hún auðvitað of lítil til að hafa ofan af fyrir sér nema örskamma stund í einu og erum við hjónaleys því að æfa upphandleggsvöðvana mjög mikið.

Og áðan kom ljósmóðirin okkar og fór með okkur í gegnum fæðinguna, skref fyrir skref. Ljómandi hrollvekjandi að endurupplifa það alltsaman... örugglega mjög hollt samt. Og núna veit ég allt sem ég mundi ekki eftir. Og það var alveg slatti.

Og ég veit ekki alveg hvort ég ætla að horfa á Fyrstu skrefin í kvöld, en þar ku verða boðið uppá fæðingu. Úgh.

7.3.06

Maður er manns...

Stundum er hægt að leysa öll heimsins vandamál með því að kjafta aðeins við fólk og fara á smá námskeið. Í gær og dag var ég eiginlega alveg komin með taugadrullu yfir öllum heiminum, aðallega leikstjórnarverkefninu mínu og skattframtalinu. Seinnipartinn í dag fékk ég síðan "krass-kors" í öðru, og þykja nú allir vegir færir varðandi hvurutveggja. Er meira að segja að huxa um að reyna að finna út úr skattframtalinu mínu sjálf, þó ég hafi nú eiginlega verið búin að ráða föður minn í það verkefni. Ætla meira að segja að byrja á að leiðrétta framtalið frá í fyrra svo ég fái kannski vaxtabætur! Ætli þetta séu kannski innst inni afsakanir fyrir erindum sem nauðsynlegt er að stunda barnlaus? Ekki að það þurfi neinar afsakanir til að fá Rannsóknarskip til að sigla um með Freigátuna. Ef ég hefði ekki einkayfirráð yfir mjólkurbúinu sæi ég hana sjálfsagt ekki nema svona tvisvar í viku. ;-) (Ekki að ég sé NEITT að kvarta!)

Ég er annars búin að vera að huxa soldið um lífsstíl. Þetta orð finnst mér vera allsstaðar. Og í hálfgerðu tilgangsleysi. Slagorðið "Nám er lífsstíll" fær mig til dæmis alltaf til að setja spurningarmerki í andlitið á mér og segja: Só? Mér finnst þetta svona óþarfahugtak. Mér er einhvern veginn alveg sama um allt sem heitir lífsstíll. Getur líka ekki hvað sem er verið lífsstíll. Eins og til dæmis tímarit og þættir sem fjalla um lífsstíl. Mér finnst það vera eins og að segja að leikrit fjalli um samskipti fólks, eða sammannleg vandamál. Á við um öll leikrit. Og mér finnst allt vera lífsstíll.

Og blogger er enn með lengdartakmarkanir. Andskotinn.

Þögn

Nú held ég að ég sé búin að fjarlægja langhundahemilinn af blogginu mínu, en þá bregður svo við að mér dettur ekkert í hug að langhunda um.

Ég er líka búin að bíða mikið eftir því að Freigátan sofi einu sinni lennngi í vagninum sínum, nú virðist hún ætla að gera það, en ég er búin að gleyma öllu sem ég ætlaði að gera þá.

Er að reyna að kasta í einþáttung, en gleymi hvað ég er að huxa jafnóðum.

Svo er ég búin að gleyma hvað ég gerði við alla pappíra sem þarf að nota við gerð skattframtals.

Held ég leggi mig bara.

5.3.06

Sunnudagur

og Rannsóknarskip fór með Freigátuna í Kolaportið. (Ekki til að selja hana.) Og á meðan ætlaði ég að tjilla og leggja mig og allskyns. Í staðinn skúraði ég eldhúsið og borðstofuna og allt þar á milli. Af því að mig LANGAÐI til þess.

Ég varð ekki bara mamma. Ég varð mamma MÍN!