25.2.11

Skortur á einbeitingarleysi

Einbeitingin er ekkert heima þessa dagana. Enda er svo mikið að gerast að maður veit ekki hvernig neitt snýr. Auk þess sem allt fyrirliggjandi er einhvernveginn alveg ferlega margt smátt... eða allavega fljótgert. Eða tiltölulega. Eins og að panta hótelgistingu í Osaka í samfloti við fólk í Danmörku, Bandaríkjunum og Íran, sem tók nú dágóðan part úr gærdeginum, en er frágengið.

Annars gáði ég á stjörnuspána mína í dag á stjörnuspeki.is, sem ég man aldrei eftir nema þegar einbeitingin er farin úr landi. Hún var ferlega sniðug.

Hugsun þín er jákvæð og móttækileg og andrúmsloftið einkennist af bjartsýni. Þér bjóðast ýmis tækifæri og hlutirnir hreyfast vel áfram. Þetta er góður dagur til að ferðast eða byrja á máli sem þú vilt að verði stórt. Nú er gott að læra og pæla, m.a. í útlöndum og framandi málum.

Japan held ég sé nú reyndar afgreitt, þannig, þannig að útlönd eru svo sem búin í bili. En ýmislegt var ég með sem ég vildi að yrði stórt... hvar setti ég nú Hugmyndabókina?

Annars er ég búin að gera langan lista af einhverju sem byrjar allur á: Athuga, og skoða, og fletta upp, og senda tölvupóst... Jú, svo er eitt föndra. Ég hugsa að ég komi því í verk.

Íbúðin er svo gott sem seld. Búið að samþykkja tilboð sem hljóðar uppá staðgreiðslu sem nemur uppgreiðslu láns auk umboðslauna til fasteignasala og einhverjum hundraþúsundkalli betur. Góða fólkið ætlar síðan að leigja okkur íbúðina fram á vorið, flytjum í síðasta lagi 1. júní. Ég ætla að byrja á að bíða átekta, apríl er mánuðurinn þegar í ljós kemur hvað losnar á Stúdentagörðunum fyrir næsta vetur. Og ef við fáum ekkert þar fyrr en í haust NEYÐUMST við líklega til að vera á Egilsstöðum í ALLT sumar. Æjæjæjæjæj.... (Eða hittó!)

Góða fólkið ætlar ennfremur að versla af okkur allar græjur, ísskáp, uppþvottavél, þvottavél og þurrkara. Sem er ljómandi þar sem það er leiðinlegast í heimi að flytja svoleiðis drasl og það fylgir oftast með leiguíbúðum og Stúdentagörðum.

Það bætti ekkert einbeitinguna að reyna að lesa grein um stjórnarhætti og sögu Líbíu í morgun. (Og mér finnst það eigi að vera ufsulon í því... en ruv.is stafsetur það svona.) Allavega. Flókið land. Allt í ættbálkum. Og ótal rasshausar slást ævinlega um völdin. En að leyfa fólkinu að ráða hvaða rasshaus það kýs sýnist mér óneitanlega vera skref í rétta átt. Ja, þá eru menn komnir í sama skítin og við hér fyrir vestan, betur sjá fleiri augu en færri og þá getum við spekúlerað í afrasshausun valdaklíknanna, öll saman.

Jæja. Ætti maður að föndra?

23.2.11

Um tækni dauðans og djöfulsins og hvernig eitt leiðir af öðru

Menn velta kannske fyrir sér hvort ég sé ekkert að vinna? Bara ybba mig á blogginu og svona? Jú, þannig er að gengið hefur á með samskiptum við fasteignasöluna í dag. Tilboð hefur borist í íbúðina góðu, sem sléttmaukar okkur uppúr skuldunum, eftir gagntilboð og gagn-gagn.

Nú er komið að því að hinkra aðeins og gá hvort einhver býður betur. En ég á svo sem ekkert endilega von á því. Þó eru einhverjir að koma að skoða í dag.

Allavega. Í ferðinni var fjárfest í ípotti hinum þriðja. Ípottasaga mín er orðin ansi margslungin og leiðinleg. Ípottur hinn fyrsti kostaði eina evru árið 2007 og kom í kaupbæti með tölvunni minni. Hann lést í þvottavélarslysi. Svosem eins og síminn minn hefur mögulega gert einnig, eftir smá ævintýri í gær. Ípottur fyrsti var oggulítill shufflari. Af gömlu gerðinni. En þegar hann lést var hætt að framleiða hann, komin önnur og asnalegri týpa í staðinn. Hann hafði stjórntækin á snúrunni og heddfónunum, og nokkuð fyrirséð var að þau yrðu mjög fljótlega ónýt.
Eftir nokkurn tíma af alvarlega leiðinlegum og tónlistarlausum útihlaupum fjárfesti ég nú samt í svoleiðis. Og eyrnavesenið eyðilagðist fljótlega. Og nýtt kostaði svipað og nýr ípottur.

Það næsta sem gerist er að gaurarnir hjá Apple ákveða að fara aftur að framleiða "gamaldags" shufflara. Þá fyrst varð ég nú nokkuð pirruð á þeim. En fjárfest var í slíkum núna í þessari ferð. (Þar sem við hann má brúkað hvaða heyrnartól sem hvurvill.)

Sem sagt, ípottur þriðji kominn í hús og hrakfarir á enda, eður hvað?

Óekkí.

Í dag ætla ég að fara að hlaða kvikindið. Tölvan tilkynnir mér samviskusamlega að iTunes sé of gamalt til að höndla hann. Ég sæki nýtt iTunes. Sem aftur tilkynnir mér að stýrikerfið mitt sé of gamalt til að höndla það.

Í ljós kom að um tveimur mánuðum eftir að ég verslaði þessa ágætu tölvu, árið 2007, var gefið út nýtt stýrikerfi. Og nýja iTunes getur ekki lengur talað við það gamla. Og nýir ípottar geta ekki lengur talað við gamalt iTunes.

Stýrikerfið get ég ekki öppdeitað í án þess að borga fyrir það vænan skilding, og hætta síðan á að týna doktorsritgerðinni minni og öllu öðru sem í móðurborðinu leynist, við uppfærsluævintýr.

Andskotinn, amma hans og allt þeirra hyski.

Búin að fjárfesta í "White Leopard" (vegna þess að skítlegasta peningasog heitir alltaf einhverjum ubernáttúrulegum nöfnum) og bið áfram til Mammons að íbúðin seljist áður en vísarekningurinn kemur.

Rohypnol!

Það er ekki eins og ég hafi verið lengi í fríi. Svona rúma viku. En samt er eins og vatnaskil hafi orðið.

Nú er "kvennavefurinn" bleikt.is búinn að vera mikið í umræðunni. Ég verð að játa að ég fylltist ekki sama hryllingi og margir þegar hann var kynntur til sögunnar. Reyndar var hann kynntur full-rækilega. Ég minnist þess varla að hafa fengið jafnmiklar upplýsingar um fyrirbæri sem ég hef engan áhuga á síðan 2007 þegar allt logaði í fréttum af því með hvaða hendi útrásarvíkingar skeindu sig... í hvaða átt sem maður horfði.

Núna hafa orðið eigendaskipti á Eyjunni. Heldur betur. dálkurinn "Fréttir af Facebook" er til. Og Eiríkur Jónsson er líka kominn þangað og uppfyrir strik. Allt í einu eru "fréttir" mest áberandi þar sem ég hef litla lyst á að lesa.

Svo er eitthvað Ví Æ Pí partí sem ég hef engar forsendur til að vita neitt um... en veit þó alveg nóg.

Og svo, jú, Æseif. Dropi í skuldahaf Íslendinga sem öllum sem kunna að reikna er skítsama hvort við borgum eða ekki. Nú á að þrefa um það.

Fjórða valdið er í eigu Hrunverja. Og tekur þátt í öllu sem afvegaleiðir frá nokkru sem skiptir raunverulegu máli af öllum kröftum. Forsíður breskra dagblaða, sem þó eru fræg fyrir ví æ pískt og skrítið fréttamat, voru fullar af arabísku byltingunni. Framvindu, pólitískum afleiðingum, Túnis, Egyptalandi, Líbýu... Mögulegum afleiðingum fyrir Vesturlönd... Að sjálfsögðu. Svo varð svakalegur jarðskjálfti á Nýja Sjálandi. En til að fylgjast með björgunarstarfi þar þarf maður að lesa erlenda fréttamiðla.

Svo við lítum okkur nær, hvað varð af máli málanna? Hvar eru útrásardólgarnir með peningana okkar? Eru þeir kannski að leka þeim aftur inn í landið, til dæmis í gegnum eignarhald sitt á fjölmiðlum? Erum við að vinna aftur fyrir þýfinu, sem við vorum áður búin að borga í skatta?

Er mögulega verið að gefa okkur Rohypnol í formi 2007-miðlamennsku til að hægt sé að halda áfram að taka okkur í ósmurt?

22.2.11

Staðan...

Það er verulega mikið að gerast. Svona fyrir utan hamfarir í Nýja Sjálandi, Arabísku byltinguna og... já, Icesave... gaman að fá að þrasa um það nokkrum sinnum í viðbót...

Þá fór íbúðin okkar á internetið í gær. Fyrsta fólkið hringdi í okkur þegar við vorum á flugvellinum í Glasgow og kom og skoðaði 10 mínútum eftir að við ultum inn heima hjá okkur. Tveir í viðbót komu í hádeginu og einn kemur á morgun. (Og ég hef komist að því að ég er fasteignasali dauðans, á tveimur tungumálum. Og ég veit ekki hvort er komið tilboð þar sem ég setti símann minn í þvottavélina áður en ég fór í vinnuna. Smart.)

Á meðan ég var utan var líka ákveðið að blása til aukasýningar á Helgi dauðans. Hún verður á laugardag. Kl. 20. Miðapantanir á hugleikur.is.

Annars var skemmtilegt í Edinburgh. Við náðum að fara í Edinburgh Literary Pub Tour, á föstudagskvöldið, sem var æði (og á eftir datt þetta ekkert í sig sjálft). Á laugardag í hádeginu fórum við í hádegisleikhús í Traverse Theatre (tilboðið hét A Play. A Pint and a Pie. Afar skemmtilegt tiltæki sem ætti að taka upp á Rósenberg) og sáum fínasta kommúnistastuttverk frá Venesúela sem hét í enskri þýðingu The Company will Overlook a Moment of Madness. Ferlega gott stykki um hvernig óþægilegum starfsmönnum er breytt í verkalýðshetjur. Og vel gert.
Um kvöldið fórum við svo á frumsýningu í Royal Lyceum Theatre á kanadískt súffragettuverk sem hét The Age of Arousal. Sem var ekki nærri því eins klámfengið og titillinn gefur til kynna. En alveg ljómandi fyndið og skemmtilegt á köflum. Reyndar með ótal skiptinum... en það leystist ágætlega.

Svo leikhúsborgin Edínar stóð sig ágætlega.

Svo löbbuðum við út um allt, leituðum uppi allt of marga allt of góða veitingastaði (enda fékk megrunin á baukinn) náðum að borða franskt, indverskt og ítalskt... ekkert skoskt nema morgunmatinn. Svo vorum við líka dugleg að leita uppi pöbba með tónlist.

Svo versluðum við eins og fábjánar í góðæri. Eins gott að íbúðin seljist áður en vísareikningurinn kemur...

En afslöppun varð ekki úr þessu. Við erum Úrvinda. Heppilegt að Rannsóknarskip skuli líka vera í vetrarfríi í dag, til að jafna sig. Ég ætla bara í jóga.

Og þá er að taka aftur til óspilltra málanna. Ótal deddlæn eru yfirvofandi og ég veit ekkert hvað ég er að gera hérna. Sennilega þarf að skrifa hluti niður núna...