8.7.06

Hor og slef og gubb

Freigáta með 39 stiga hita, eitthvað sambland af tanntöku og kvefi auk þess sem hún gubbaði meira en líkamsþyngd sinni í morgun. Mikið stuð í okkar bekk. Hún er líka búin að gráta í dag meira en hún hefur grátið frá því að hún fæddist, samanlagt. Litla skinnið. En, náttlega sniðugt að ljúka þessu svona öllu af í einu. En ég reikna kannski ekki með miklum svefni alveg næstu nætur, frekar en síðustu tvær.

Smábátur fór aleinn í sund í dag og uppskar mikið lof allra viðstaddra. Hann þarf að vera duglegur að leika sér sjálfur, greyið, á meðan við Rannsóknarskip skiptumst á að vera á Freigátuvakt og kasta mæðinni. Svo hefur víst eitthvað þurft að þýða líka. En ástandið lagast nú vonandi á allra næstu dögum. (Áður en Móðurskipið fer á taugum.)

Og það var búið að lofa skítaveðri og norðaustan alla helgina. Í dag var síðan bara brjáluð blíða. Aldrei neitt að marka neinn.

Ég var aldrei búin að tjá mig um hvernig Tengdadóttirin endaði fyrir mér. Ég náði reyndar ekki að klára hana alveg, en ég held að Tengdadóttirin sem við er átt nái reyndar aldrei að verða tengdadóttir á heimilinu. (Bókin ætti því að heita "Tengdadóttirin".) Hún kemur bara annað slagið og frekjast og allir eru of kurteisir til að segja henni að hætta því. Ég sveiflast alveg á milli hvort mér finnst hún belja eða heimilisfólkið vera lyddur og vesalingar. Eiginlega sennilega bara bæði. Annars ætti sagan eiginlega að heita Faðirinn, eða Sonurinn, eða Faðirinn og sonurinn sem allar kjeeellingar voru vitlausar í. Vegna þess að um það er hún.

Best að hætta að fela sig í kjallaranum og fara aftur upp í vælið og ælið.

7.7.06

Aust

Þá erum við mætt í uppgangsplássið Egilsstaði þar sem góðærið drýpur af hverju strái, ásamt rigningunni sem lét sjá sig í dag, ofnæminu mínu til mikillar gleði. Á leiðinni var hins vegar fínasta veður, svona seinnipartinn, en það var svo mikil þoka fyrir norðan að við nenntum ekki Melrakkasléttuna. Hins vegar fórum við gömlu Möðrudalsleiðina og komum við í Sænautaseli. Það var ógurlega gaman, þar voru hundar og hænur og eitt geitakið og við fengum kakó og lummur og fórum í hjólabát. Allt hið ljómandasta.

Í dag er planið að fara í sund, í rigningunni, og heimsækja ömmu á spítalann og Önnu (sem heitir ekki lengur Sólveig) og fá lánaðan hjá henni barnavagn og hókuspókusstól. Þá verður nú hægt að hefja búskap hér austantjalds fyrir alvöru. Freigáta er búin að vera voða óróleg í gær og í nótt, enda sést nú glitta í eina tönn! Öllum á heimilinu þykir þetta það almerkilegasta sem gerst hefur lennngi.

Svo er það bara að drífa í að gera listann yfir alla sem þarf að heimsækja. Það er nú slatti.

5.7.06

Myndir

Fann loxins tíma til að nenna að finna út úr þessu. Hér koma nokkra myndir af fröken Freigátu. Í sumarfríinu er hún m.a. búin að:


Borða tær...


...borða gulrótarmauk...


...og vera í sólbaði.

Og svo auðvitað ótalmargt annað. Hún kann líka að velta sér af bakinu á magann, en hefur enn ekki séð ástæðu til að fara í hina áttina. Núna sefur hún úti í sveitasælunni, sennilega í síðasta sinn. Í kvöld á að halda hér gífurlega grillveislu og á morgun leggjum við í hann austur. Erum að spekúlera í að fara "hina leiðina", (Húsavík-Þórshöfn-Bakkafjörð-Vopnafjörð) jafnvel fyrir Melrakkasléttu (bæta Raufarhöfn við), ef veður verður sæmilegt. Já, nú ætlum við að byrja að pirra börn okkar með því að fara útúrkróka. Vegna þess að það fannst mér svo einstaklega "gaman" þegar ég var lítil. Hef farið ótal sinnum frá Egilsstöðum til Patrexfjarðar en aðeins einu sinni beinustu leið. Og það var ekki með foreldrunum.

Og þetta mun vera síðasti góðviðrisdagurinn á okkar slóðum í bili. Svo verða víst höfuðborgararnir að fá smá. Ofnæminu mínu finnst það nú bara aldeilis fínt. Þessa dagana er verið að binda gamalt hey í hlöðunni hérna þannig að ég hnerra eins og biluð ef eitthvað af karlhluta flotans kemur nálægt mér í hlöðufötunum. Ég er svo algjörlega með ofnæmi fyrir Norður- og Austurlandi á sumrin. Þannig að nú vil ég bara fá almennilega norðaustanátt!

3.7.06

Júríka!

Held ég sé búin að finna útúr hver tengdadóttirin er. Það sýnist mér vera þessi fjáða eldri kona sem foreldrarnir vilja að erfinginn giftist. Hún virðist nú vera alveg ógurlegur myndarkvenmaður, en mér þætti nú ekki ólíklegt að hún hefði eitthvað óhreint í pokahorninu. (Tja, annars veit ég ekki hvað þetta eina og hálfa bindi sem eftir er ætti að vera um.) Og sonarrolan virðist bara ætla að láta sig hafa hana, og vera ekki að huxa meira um sætu kotstelpuna uppi á heiði sem hann var búinn að barna. Fuss og svei.

Freigátan gubbaði í allt gærkvöld. Er búin að læra að hún getur ekki borðað kartöflur. Ég nýbúin að komast að því að líklega get ég kannski sett inn myndir hér í sveitinni, en á eftir að finna út úr hvernig ég fer að því... Hins vegar er hægt að sjá Freigátu (og mér og Rannsóknarskipi og mörgum fleirum) bregða fyrir í síðasta þætti af Út og suður þar sem Leiklistarskóli Bandalaxins var heimsóttur. (Og ég steingleymdi að plögga.) Þessir þættir eru alltaf endursýndir offft auk þess sem ég gæti trúað að hægt væri að nálgast hann á RUV vefnum. (Ef mar býr til dæmis í útlöndum.)

Nú fer að styttastí austurför. Huxum okkur að fara þangað eftir undanúrslit, eða á fimmtudaginn. Og nú ber svo við að fjarlægasta landið sem eftir er í HM er Ítalía. Það er nú heldur lélegt. Og 50% þeirra sem eftir eru voru öxulveldi hins illa í seinni heimsstyrjöld. Þetta er nú aldeilis spennandi.