Nú skiptast bumbufræðingar gjarnan á skoðunum hvar sem ég kem. Þeim ber saman um að ég sé með frekar staðbundna og fótboltalaga bumbu í þetta skipti. Ennfremur situr hún hærra en sú sem ég hafði á síðustu meðgöngu. Flestum bumbufræðingum ber saman um að Ofurlítil Duggan sé strákur.
Sem, ef mið er tekið af kunningjahópnum mínum, virðist vera algengasta munstrið. Ef ég eignast strák núna, þá er ég meira að segja komin með nákvæmlega sama munstur og Berglind, fóstraðan son, síðan stúlku og þá dreng. Í heimabökuðu er samsetningin stelpa - strákur algengt í genginu. Tveir strákar í röð eru líka alveg til í dæminu og jafnvel strákur - stelpa. Það eru hins vegar hreinlega örfá fordæmi þess, hjá mínu gengi, að menn eigi tvær stelpur í röð. Svo vissulega væri ekki síður spennandi að verða brautryðjandi.
Ég hef ekki neitt kvenlegt innsæi þegar kemur að þessum málum. Sumar konur segjast alveg vissar um kynið ófædds barns síns, nánast frá getnaði. Ég hef engan grun. Rannsóknarskip var svo handviss um að Freigátan yrði strákur að ég var farin að trúa honum alveg. Enda varð hann svakalega hissa þegar Freigátan fæddist og var allt í einu stúlkukyns. Sjálf varð ég mjög hissa á að það skyldi fæðast barn. Var löngu búin að gleyma hvað ég var að reyna að gera.
Í bumbusundinu hafa þau stórmerki gerst að það eru sennilega einhver 10 börn búin að fæðast í mínum "bekk", allt strákar! Samkvæmt líkindastærðfræði ætti þá að koma að stelpuflóðinu fljótlega... nema hvað við erum ekki alveg nógu margar til að vera marktækt úrtak. Getum samt alveg látið flæða mjög rækilega upp úr heita pottinum þegar við komum allar með okkur feitu bumbur og troðum okkur oní, allar í einu.
Við Rannsóknarskip vildum ekki láta gá hvors kyns væri. Ekki af neinni sérstakri ástæðu. Bara til að hafa spennu í þessu. En ég er búin að þvo öll minnstu fötin, nema þau bleiku. Ef ekki þarf að nota þau í þetta skipti verður stofnaður sérstakur "stelpukassi" sem fer í geymsluna og bíður næsta stúlkubarns í stórfjölskyldunni. Og það verður nú til nokkurs að vinna. Freigátunni áskotnaðist nú slatti af flottum prinsessukjólum á fyrsta árinu og að sama skapi fá tækifæri til að nota þá.
Ég er annars bara farin að hlakka til að fá litla krúttið í heiminn. Fyrir fæðingu Freigátunnar kveið ég fæðingarorlofinu og kannski ekki síst einangruninni fyrstu vikurnar og mánuðina. Núna hlakka ég bara til að vera inni fram á vor, krúttast með barnið, glápa á DVD (sem ég get meiraðsegja kalla skólaverkefni) leggja mig eftir því sem Duggan leyfir og ég hef jafnvel augastað á því að reyna að taka til í nokkrum skúffum og skápum, ekki síst skrif-skúffunni, ef anganum þóknast að gefa mér einhverja rólega daga. Með vorinu getum við síðan skriðið úr hýðinu og farið að fara í labbitúra með vagninn.
Þetta er nú eiginlega ágætis árstími til barneigna.
Eins hef ég ekki nokkrar áhyggjur af fæðingarþunglyndunni, í þetta skipti. Heimurinn hefur ekki farist að neinu ráði síðan ég fór í hina hugrænu atferlismeðferð og hún virðist hafa gagnast mér svakalega vel. Ef undarlegir hlutir fara að gerast uppúr fæðingu þá veit ég bara hvað ég þarf að gera. Og geri það bara. Mikil snilld.
Er að fara í meðgöngunudd á eftir, aðallega til að reyna að láta krumpa öxlinni á mér úr lás.
Meiri snilld.