26.1.08

Allt öfugt

Í gær gerðist hið óumflýjanlega. Sundbolurinn minn gafst upp. Á rassinum. Hann var reyndar orðinn á þykkt við kóngulóarvef á köflum, enda búinn að endanst í bumbusund þrisvar í viku í tvær meðgöngur. Í dag var því ekki undan því komist að fara í sundfataferð í Kringluna.

Annars byrjaði ég þennan öfugsnúna sólarhring á að vera andvaka í mestalla nótt. Bara útaf engu. Freigátan vakti okkur síðan með magapínu og skítkasti fyrir allar aldir. En hún er búin að vera að hamast við að jafna sig í dag, enda verða menn að verða frískir þegar líður að tveggja ára afmæli. Sem var einnig annað erindi í Kringluna, finna afmælisgjöf handa dömunni. Móðurskipið hafði nú fyrirfram ákveðið að hafa afmælisgjöfina í hagnýtari kantinum, en missti sig að sjálfsögðu í bollastellin og púslin.

En ég skrópaði sem sagt í jóga og fór í staðinn og þrammaði um Kringluna eins og herforingi. Kom færandi varninginn heim eftir að hafa eytt formúgu. Keypti mér meira að segja kjól. (Á 2000 kall.) Bætti fyrir brot mín með því að taka voða mikið til í eldhúsinu þegar ég kom heim og þrífa baðherbergið niður að hnjám. (Get ekki beygt mig lengra.)

Allt kemur fyrir ekki. Ofurlítil Duggan haggast ekki fet.

Og eftir þessa viku tel ég maklegt og réttvíst að horfa á Spaugstofuna.

25.1.08

Missti af fréttunum

Er ekki örugglega enn sami borgarstjóri og í gær?

Í dag eiga bæði Bibbi (30) og Siggadís (35) sitthvort merkisafmælið. En ekki virðist ég eða hún ætla að halda uppá daginn með fæðingu.

Annars er allt í einu bara galið að gera. Þýðingum rignir inn. Eitthvað ætti ég að vera farin að læra (en er ekki) og svo er víst búið að panta leikrit. En ég er eiginlega hálfónýt í öxlinni minni og veld eiginlega ekki vettlingi, né get ég haldið á neinum spöðum. Allavega ekki lengi í einu. (Veit ekki alveg hvernig maður fer að því að fæða barn þegar maður getur ekki einu sinni hlegið eða hóstað eða hnerrað.) 
Og svo langar mig líka mest bara að hanga og lesa fæðingarsögur og hreiðrast. Og sofa mikið og meira.
Þarf að fara að eignast þetta barn sem þarf síðan að vera af Rannsóknarskipslegum rólegheitakalíber.

Hafði þó af að elda ljómandis kjúkling í tilefni bóndadaxins í kvöldmatinn.

Í fréttum er þetta annars helst:

- Rannsóknarskip er búinn að redda okkur hræódýrum notuðum þurrkara, sem er reyndar ekki kominn í hús, en er væntanlegur.
- Ég var farin að hafa áhygggur af því að feiti sundbolurinn minn væri farinn að þynnast á ýmsum stöðum, enda búinn að afreka tvær meðgöngur með sundi þrisvar í viku. Og í dag gerðist það, það kom gat á rassinn á honum. Sundfatainnkaup fyrirhuguð um helgina.
- Ennfremur á víst litla frökenin hún Freigáta tveggja ára afmæli á mánudaginn, svo í sömu ferð er ætlunin að versla handa henni einhvers konar afmælisgjöf, sem verðu nú líklega í praktískara lagi, huxanlega fatkyns.
- Mig langar að nenna í bumbujóga í fyrramálið...

Veðurógeð

Oj. Tjúllað veður og útlit fyrir annað tjúllviðri fyrir kvöldið. Ég ætla að þykjast vera hrrroðalega fín frú og taka leigubíl í bumbusund. Það er bara ófært fyrir mig að fara fótgangandi í strætó, nema í mesta lagi aðra leiðina.

Það var yndislegt að fara í nudd í gær og ég held ég sé eitthvað ögn hressari í dag. Svo rignir þýðingaverkefnum, sem ég ætti nú kannski að fara að huxa til þess að hafna einhverju af... ég er bara svo gráðug og held eitthvað að þetta barn komi alveg örugglega ekki fyrr en í fyrsta lagi í kringum ásettan dag. Sem eru nú alveg tvær vikur í.

Lenti annars í barnabúð í leiðinni úr nuddinu í gær og fjárfesti í forláta burðarsjali, sem er svona strangi sem maður vefur um sig allan á ákveðinn hátt og er síðan hægt að stinga krílinu inní á nokkra mismunandi vegu. Fékk valkvíða í litaúrvalinu, en hafði það svo grænt. Ætlaði að æfa mig að binda það á mig þegar ég kom heim, en komst að því að ég var of feit til þess.
Ömurlegt að eiga nýtt dót sem maður getur ekki leikið sér að.

Í dag er bóndadagurinn. Einhvern bóndadaginn verð ég að gera eitthvað merkilegt fyrir Rannsóknarskipið. Þetta er fjórði bóndadagurinn sem hann hefur verið minn einkabóndi og ég hef ekkert gert fyrir hann á neinum þeirra.
Í fyrra var heimilið undirlagt í flensu og ekkert gert.
Þaráður var ég miklu óléttari en núna. Örugglega meiraðsegja komin framyfir og alveg þrælfötluð. Ekkert gert.
Þar á undan bjó hann ennþá á Akureyri. Man ekki einu sinni hvort ég heimsótti hann.

Og núna lítur ekki út fyrir að ég geri neitt heldur.

Rannsóknarskip hefur hins vegar aldrei klikkað á konudeginum þó hann hafi stundum þurft að leggja mikið á sig til að koma gjöf eða blómum eða hamingjuóskum með daginn á framfæri.
Einhvern tíma býð ég honum til útlanda um bóndadaxhelgi til að vinna upp alla glötuðu bóndadagana.

Og mér finnst skerí að ég gæti þurft að vera ólétt fram yfir konudag!

24.1.08

Jólamyndir

Þá er ég loxins búin að nenna að setja jólamyndirnar inn í tölvuna. Svo hér kemur smá sýnishorn af jólalegu jólunum á Egilsstöðum:


Aðventukransinn sem ég föndraði með eigin puttum!

Egilsstæðskur jólaköttur

Pabba og mömmu hús í jólafötum

Rannsóknarskip fór út að taka artí jólamyndir

Jólalegt tré

Annað jólalegt tré

Stelpa eða strákur?

Nú skiptast bumbufræðingar gjarnan á skoðunum hvar sem ég kem. Þeim ber saman um að ég sé með frekar staðbundna og fótboltalaga bumbu í þetta skipti. Ennfremur situr hún hærra en sú sem ég hafði á síðustu meðgöngu. Flestum bumbufræðingum ber saman um að Ofurlítil Duggan sé strákur.

Sem, ef mið er tekið af kunningjahópnum mínum, virðist vera algengasta munstrið. Ef ég eignast strák núna, þá er ég meira að segja komin með nákvæmlega sama munstur og Berglind, fóstraðan son, síðan stúlku og þá dreng. Í heimabökuðu er samsetningin stelpa - strákur algengt í genginu. Tveir strákar í röð eru líka alveg til í dæminu og jafnvel strákur - stelpa. Það eru hins vegar hreinlega örfá fordæmi þess, hjá mínu gengi, að menn eigi tvær stelpur í röð. Svo vissulega væri ekki síður spennandi að verða brautryðjandi.

Ég hef ekki neitt kvenlegt innsæi þegar kemur að þessum málum. Sumar konur segjast alveg vissar um kynið ófædds barns síns, nánast frá getnaði. Ég hef engan grun. Rannsóknarskip var svo handviss um að Freigátan yrði strákur að ég var farin að trúa honum alveg. Enda varð hann svakalega hissa þegar Freigátan fæddist og var allt í einu stúlkukyns. Sjálf varð ég mjög hissa á að það skyldi fæðast barn. Var löngu búin að gleyma hvað ég var að reyna að gera.

Í bumbusundinu hafa þau stórmerki gerst að það eru sennilega einhver 10 börn búin að fæðast í mínum "bekk", allt strákar! Samkvæmt líkindastærðfræði ætti þá að koma að stelpuflóðinu fljótlega... nema hvað við erum ekki alveg nógu margar til að vera marktækt úrtak. Getum samt alveg látið flæða mjög rækilega upp úr heita pottinum þegar við komum allar með okkur feitu bumbur og troðum okkur oní, allar í einu.

Við Rannsóknarskip vildum ekki láta gá hvors kyns væri. Ekki af neinni sérstakri ástæðu. Bara til að hafa spennu í þessu. En ég er búin að þvo öll minnstu fötin, nema þau bleiku. Ef ekki þarf að nota þau í þetta skipti verður stofnaður sérstakur "stelpukassi" sem fer í geymsluna og bíður næsta stúlkubarns í stórfjölskyldunni. Og það verður nú til nokkurs að vinna. Freigátunni áskotnaðist nú slatti af flottum prinsessukjólum á fyrsta árinu og að sama skapi fá tækifæri til að nota þá.

Ég er annars bara farin að hlakka til að fá litla krúttið í heiminn. Fyrir fæðingu Freigátunnar kveið ég fæðingarorlofinu og kannski ekki síst einangruninni fyrstu vikurnar og mánuðina. Núna hlakka ég bara til að vera inni fram á vor, krúttast með barnið, glápa á DVD (sem ég get meiraðsegja kalla skólaverkefni) leggja mig eftir því sem Duggan leyfir og ég hef jafnvel augastað á því að reyna að taka til í nokkrum skúffum og skápum, ekki síst skrif-skúffunni, ef anganum þóknast að gefa mér einhverja rólega daga. Með vorinu getum við síðan skriðið úr hýðinu og farið að fara í labbitúra með vagninn. 

Þetta er nú eiginlega ágætis árstími til barneigna.

Eins hef ég ekki nokkrar áhyggjur af fæðingarþunglyndunni, í þetta skipti. Heimurinn hefur ekki farist að neinu ráði síðan ég fór í hina hugrænu atferlismeðferð og hún virðist hafa gagnast mér svakalega vel. Ef undarlegir hlutir fara að gerast uppúr fæðingu þá veit ég bara hvað ég þarf að gera. Og geri það bara. Mikil snilld.

Er að fara í meðgöngunudd á eftir, aðallega til að reyna að láta krumpa öxlinni á mér úr lás.
Meiri snilld.

23.1.08

Gubb og svona

Maður er nú orðinn frekar sybbinn. Svona almennt. Sérstaklega þegar Freigátum dettur í hug að halda vöku fyrir manni með gubbulátum fram á nótt. Henni finnst greinilega tími kominn til að maður venjist því aftur að láta gubba á sig og svona. Og ég er svo gjörsamlega komin úr þjálfun að ég var næstum búin að gubba til baka.

Freigáta og Rannsóknarskip voru síðan bara heima í dag, en Móðurskipið frílystaði sig í meðgöngujóga og -sundi. Það var nú alveg ógurlega gott, en ég huxa að ég meiki ekki jógað nema út mánuðinn, þó það geti verið fullt í viðbót eftir af meðgöngunni. Mig langar dáldið að reyna að fara í skólann á morgun en veit nú ekki hvernig það gengur. Færðin er svona og svona og hreyfigetan svona og svona og svona.

Í dag lyfti ég þó því grettistaki að fara í apótek og kaupa oggubleyjur og fleira, ásamt ýmsu jógadóti til fæðingarbrúx. Í þessari fæðingu verður sko engin mænudeyfing (sem er hvortsemer ekki hægt að koma í gegnum þykku mænuna á mér) eða morfín, heldur bara tjant, óm og lavenderdropar. Hihi.

22.1.08

Heitt - kalt - heitt - kalt

Sjúkraþjálfarinn minn skammaði mig í gær. Ég er eitthvað föst í vinstra herðablaðinu og öll að drepast þeimmegin og mætti í gær og bar mig illa. Var enn að versna, en var samt búin að hnoðast og hamast og jóga og sunda og teygja eins og égveitekkihvað. Sjúkkan sagði að ég væri að gera alltof mikið, svo nú á ég bara að hanga heima í tvo til þrjá daga og hita og kæla öxlina til skiptis. Spennandi. 

Svo var hún fyndin. Hún var eitthvað að spá í hvort væri kalt inni hjá henni en ég sagði henni að það þýddi ekkert að spurja mig, mér væri alltaf heitt þessa dagana. 
Þá sagði hún: Já, þú ert auðvitað með kveikt á ofninum.
Hihi.

En það er rok og Egilsstaðafærð úti svo ég hætti mér ekki útúr húsi. Enda bara gaman að vera heim og hlusta á fréttirnar í dag. Hasar í pólitíkinni og veðrinu og svona.

Annars þarf ég líklega að fara að senda kennurunum mínum ímeila með hugmyndum að sjálfstæðum rannsóknarverkefnum til að klára á þessari önn. Það er líklega bjartsýni að reikna með að ég mæti mikið meira. Er orðin illhreyfanleg og illa boðið til setunnar. Fer að hlakka reglulega mikið til fæðingar. Þrátt fyrir hrakfarir þeirrar síðustu.

Það verður allavega alveg óstjórnlega gaman þegar ég get aftur beygt mig og sveigt eins og mér sýnist, labbað eins og ég vil og sveiflað Freigátunni í kringum mig. Hins vegar er möst að laga axlargerpið áður en ég þarf að fara að brúka það í að halda á ungabarni allan daginn.

Bezt að skipta í heitt.

21.1.08

Blogga!

Hahahahaha!

Maður fer nú alveg að hætta að nenna að læra hver er borgarstjóri.

En þetta er skemmtilegt. Eftir því sem oftar er skipt um meirihluta verða mútuloforðin stærri og meiri. Nýi meirihlutinn ætlar að gera allt fyrir alla. Skiptum nokkrum sinnum í viðbót, og enginn þarf lengur að borga fyrir neitt, flugvöllurinn verður allsstaðar, strætó sækir menn heim og enginn þarf að borga fyrir það, börn, gamalmenni og öryrkjar þurfa ekki lengur að borga fyrir neitt, allir fá félaxleg húsnæði, frítt, Sundabraut verður bæði í göngum, stokk, brú og landfyllingum, öll gatnamót verða mislæg, skólar, leikskólar og elliheimili verða demantlögð og gullslegin troðfull af faglegu starfsfólki á þingmannalaunum og  svo framvegis og svo framvegis.

Borgin á greinilega nóga peninga.

Panikk?

Var eitthvað asnaleg í gær. Lystarlaus og pirruð. Vaknaði svo í morgun með einhverja nýja tegund af bakverk. Ekki að ég haldi að neitt sé að gerast akkúrat í dag, en fékk samt vægt panikkkast.

Það eru ekki til bleyjur eða neitt í þeirri fjölskyldu. Ég á eftir að fjárfesta í öllu sem kemur úr apóteki, nema snuðum. Og það er eftir að sjóða þau. Skiptiborðið er reyndar komið úr geymslunni, en það liggur bara í sturtunni, grútskítugt og það vantar í það skrúfu. Það er reyndar búið að stofna fæðingardeildartösku, en það er ekkert komið í hana nema heimferðarfötin á barnið. Og ég man ekki einu sinni hvað þarf að vera í henni fleira. Nema bókin sem ég er að lesa.

Ætli maður reyni ekki að haska sér í apótek og eitthvað í dag. Var nefnilega að fatta að barnið gæti komið NÚNA! Þó það geti líka alveg látið bíða eftir sér í allt að 5 vikur í viðbót. En samt líklega betra að vera bara við öllu búinn. Ef nýir verkir og krankleikar ætla að halda áfram að fjölga sér í 5 vikur þá fer maður nú ekki að verða til mikils og betra að vera búinn að öllu og geta bara legið og tjillað í mánuð.

Og það allra skemmtilegasta? Heimavinna þessarar annar felst fyrst og fremst í yfirgripsmiklu DVD-glápi! Heppilegt?