16.7.04

Meiri innkaup!

Keypti mér 3 feitar buxur í Vero Moda á samtals 3.470 krónur. Vel sloppið og búin að gera ráð fyrir áframhaldandi offitu.

Er að fara austur á eftir, þar á að vera skítaveður um helgina, eins og við var að búast.
Jeihó.

14.7.04

Gleymdi að segja frá Degi Áhugaverða Innkaupa um daginn.

Þannig er að allt í einu, einhvern tíma í síðasta mánuði, átti ég "umfram" peninga. Svosem eins og hundraðþúsund kall sem ég sá ekki fram á að eyða, að öllu eðlilegu. Velti fyrir mér í smá stund hvort ég ætti að nota tækifærið og lækka yfirdráttarheimildina, eða hvort ég ætti að hækka nýlega endurstofnaðan "höfuðstól".

Allavega, örlögin (og nýja gasgrillið hans Dóra) höguðu því þannig til að á mánudagseftirmiðdag lenti ég í Hagkaup í Smáralind. Mín eigin fíkn leiddi mig að DVD sjónvarpsþáttahillunum, nánar til tekið þar sem búið var að stilla upp ÖLLU 6 & the city. Það þarf náttúrulega ekki að orðlengja það að út fór ég tveimur seríum ríkari, og sem því nam í fjármunum fátækari.

Svo er lagersala í Vero Moda.

Er sem sagt búin að finna þriðju leiðina til að koma fyrir óvæntum afgangi af fjárlögum mánaðarins. Verkefnið gengur undir vinnuheitinu: Að Eyða Í Vitleysu. Ef einhver afgangur verður til næsta mánaðar má hann fara í eistneskan bjór og túristaglingur.

Jájá, búið að skipuleggja þetta alltsaman.
Loxins alminilega vöknuð eftir maraþonfund síðustu helgar, ekki seinna vænna. Höfundafundur hjá Hugleiki í kvöld, er ekki "með" neitt, en mikil lifandis skelfingar ósköp verður nú skemmtilegt að vita hvað hinir eru búnir að vera að bardúsa. Á von á að það reitist vel saman fyrir einþáttunga-eitthvað í haust.

Útvarpsþáttur að verða til. Petra að verða dramatúrguð. Fundargerð Aðalfundar skal á netið í dag, með góðu eða illu. Þó ég þurfi að vinna í ALLAN DAG!!! Vil geta farið heim í heiðardalinn á föstudag með einstaklega góðri samvisku.

Og svo held ég að það sé að koma sól.
Hurray for everything!

12.7.04

Og allir saman nú:

Hann á afmælídag... (o.s.fr.v., með hvaða lagi sem menn vilja, "Ég vil elska mitt land" eða upphitunarsöng Hugleix.)

Nú á ég 37 ára gamlan kall. Jahjarna hér. Nýtt máltæki; tímarnir eldast og mennirnir með... Annars er hann Dóri minn nú svo mikið spriklandi unglamb á alla kanta að lífaldur kemur ekkert að sök. (Skiljist eins og menn vilja.)

Þá er úthlutunarfundi aflokið (áréttist, ég er ekki búin að gá hvað nein leikfélög eru að fá í styrk, enda kemur það allt í ljós bráðum) og fer vonandi að verða kyrrt og hljótt í vinnunni til að fara að vinna úr "þaðsemþarfaðgera" haugnum sem hefur verið að hlaðast upp allt í kringum mig. Svo á að eyða næstu helgi í faðmi fjölskyldunnar fyrir austan og það verður nú aldeilis ljómandi.

Mikið er mar nú annars orðinn gamall, var eiginlega alveg snarónýt eftir maraþon stjórnarfund á föstudaxkvöld og laugardag og svaf mest á bæði mín grænu í gær. Hérna áður fyrr hefði maður nú tekið svonalagað í nefið, og helst djammað það sem eftir væri helgar.

Vaknaði nú samt aðeins í gær, og tók m.a. hið nýstofnaða lífríki kóngulóa á svölunum hjá Dóra til bæna. Rakst á ýmsar tegundir sem voru ekki einu sinni til í kóngulóabúskapnum á Laugarnesveginum um árið. Oj og bjakk. Vona að ég hafi svælt ófögnuðinn í burtu, með sápu og rúðupússi.