7.10.05

Fyrir réttu ári


sat ég einmitt á sama stað og nú. Reyndar alveg örugglega að reykja og búin að drekka svona 14 sinnum meira kaffi en í dag. Þá var ég að undirbúa haustfund á Akureyri. Algjörlega meðvitundarlaus um örlög mín. Við Vilborg fífluðumst með að þetta yrði nú eitthvað tíðindalítil samkoma. Gáðum á skráningarlistann. Þótti þar ekki úr miklu að moða. (Tekið skal fram að Rannsóknarskip var ekki á honum. Hann var sörpræs-element á hátíðarkvöldverði með skemmtandi Freyvengjum.) Freyvengir naga sig líklegast í handarbökin í dag, fyrir að hafa sleppt honum í Bandalagið þessa kvöldstund. Það varð þeim nú aldeilis að mannsmissi.

Hefði nú einhver örlaganorn bent mér á gripinn á þessari kvöldskemmtan, og sagt sísvona:
Heyrðu gæskan, eftir árið verður þú nú barasta alveg bandólétt eftir hann þennan!
Er ekki víst að mér hefði nú orðið um sel... en svona er oft framvinda lífsins undarleg. Þetta er ástæðan fyrir því að raunveruleikinn er gjarnan lítt nothæfur í skáldverk. Hann er sjaldnast trúverðugur.

Það er þetta með muninn á possible og plausible.

PS: Þessi dásamlega og heiðríka mynd er úr einleiknum "Hefur einhver sagt þér hvað þú ert líkur Róbert Redford?" eftir Jón Guðmundsson sem Rannsóknarskip leikur þessa dagana í leikstjórn Hrefnu Friðriksdóttur. Er hann á meðal þess efnis sem flutt verður í Þessu mánaðarlega hjá Hugleik í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld og annað kvöld, klukkan 21.00 bæði kvöldin. Miðaverð kr. 1.000.
Missið ekki af þessari einstöku upplifun.

6.10.05

Grilljón göslandi grindhvalir

Já, ég er búin að vera að lesa Tinna.

Áðan var ég hins vegar í aðstöðu hvar þessi setning átti vel við.

Og nú hef ég séð hvernig 20 óléttra kellinga hópur í sundbolum lítur út.

Það er nú meiri viðbjóðurinn.

Er hreint að drepast ofan í

klofið á mér. Eða kannski heldur að detta niður í gegnum það.

Þarf að sætta mig við tvennt:
a) Ég stend útúr næstum öllum fötunum mínum.
b) Ég get ekki lengur labbað í vinnuna.

Ræð bara við Laugaveginn niður á við. Ligg annars mest eins og afvelta grindhvalur. Sem er reyndar mjög skrifhvetjandi og samhöfundar mínir eru farnir að óska mér sem mestrar gliðnunar.

Í kvöld ætlar Rannsóknarskipið mitt að taka Smábát með sér á kynningu starfsvetrarins í Þjóðleikhúskjallaranum til að ég komist í grindkvalasund. Fyrst hafði ég samviskubit yfir því að ég skyldi vera að verða til þess að barnið lenti á öldurhús, en svæfði samviskuna síðan með þeim rökum að þetta yrði snar og góður þáttur í menningarlegu uppeldi Drengs. Enda má ekki við svo búið standa í heilsufari húsfrúarinnar, eigi hún ekki að verða farlama innan ótrúlega skamms.

Annars er svosem margt verra til í heiminum heldur en að verða kyrrsettur með tölvuna á bumbunni í nokkra mánuði. Og Hugleikur á hjólastól til að koma mér á æfingar... Einhvertíma hefði manni nú þótt þetta draumastaða... Ég treysti bara ekki Ármanni til að taka við vinnunni minni á meðan hann er enn staðsettur á Sauðárkróki, þó hann sé nú fjölhæfur.

Best að gluða einhverjum fyndbjóði í leikritið góða.

5.10.05

Og plögg

Af hinu mánaðarlega, Rannsóknarskipið var í Íslandi í bítið, að leika til kynningar. Stóð sig eflaust með sóma. Nú er einnig komið á hreint að miðapantanir á dæmið eru í síma 551 2525 eða á midasala@hugleikur.is og miðaverð er kr. 1.000 fyrir óbreytta en 500 fyrir Hullara og þeirra slekti.

Og sýningar hefjast, eins og áður sagði, kl. 21.00 (húsið opnar 20.30 og barinn er opinn) föstudaxkvöldið 7. og laugardaxkvöld 8. okt, eða semsagt á hinn og hinnhinn.

Sýndir verða 5 þættir eftir 4 höfunda og í leikstjórn fólks. Spennandi.

Svo eru æfingar hafnar á Jólaævintýri Hugleix. Æfingadagbók má lesa hér.

Enn af ástandinu

Já, mann ku eiga að dreyma skrítnar þegar maður er óléttur en ella. Ég las það einhvers staðar. Hef hins vegar ekkert tekið eftir því að mig hafi dreymt neitt meira en venjulega. Það sem mann dreymir, þegar maður man það, er yfirleitt ekki sérlega vitrænt. Hins vegar er spurning hvort maður man ekki frekar drauma sína þegar maður vaknar til að míga 785 sinnum á nóttu.

Ég held að þetta með auknar draumfarir séu ein þeirra bábilja sem tilkomin er vegna samþættunar svefntruflana og sjálfhverfu sem ólétt fólk fær gjarnan. Það hljómar bara rómantískar hinsegin. Og rómantísering óléttna er síst að fara minna í pirrur mínar nú en þegar ég henti fyrstu óléttubókinni yfir stofuna mína í geðvonskukasti á 10. viku meðgöngu.

Og svo þetta sem maður les. Myndtexti í einni óléttubók situr í mér:
Margvíslegar hugsanir þjóta gegnum hugann eftir því sem líður á meðgöngu(!)

What?! Huxanir mínar eru ætíð æði "margvíslegar". Hef ekki orðið vör við að þær séu nokkra baun "margvíslegri" nú en áður. Hvern djöfulann sem það á nú að þýða. Þetta eru bara einhverjir svona... orðaleppar sem geta þýtt hvað sem er. Það er eins og menn taki bara hvað sem hljómar væmið og klíni því á ástandið. Er þá að furða þó menn verði þunglyndir þegar þeir eru allt í einu ekki lengur miðdeplar einhvers ljósbleiks ólétturaunveruleix og þurfa að takast á við raunveruleikann í sauðalitunum með grenjandi, ælandi og drullandi krakka hangandi í brjóstunum.

Ég held því fram að þetta sé óhollt og geðskemmandi.

Í beinu framhaldi, mikið var ég glöð þegar ég heyrði að það ætti að fara að byrja á einhverri vitundarvakningu um uppeldi. Huxaði "...ekki veitir nú af, agaleysið í þjóðfélaginu..." og þar fram eftir... Svo sá ég þetta sem fíflin sem standa á bak við hálvitafyrirbærið "Verndum bernskuna" kalla "Heilræði". Fullt af fallegum setningum. Sem segja manni andskotann og ekki neitt.
Hvað þýðir til dæmis: "Leyfum barninu að vera barn"?
Ég spyr nú bara, eins og fávís kona, hver er hin leiðin?

4.10.05

Sýnishorn

Það er miður dagur og allt eðlilegt fólk í heiminum er í vinnunni.

Í einni skrítinn íbúð í Vesturbænum er þó annað uppi á teningnum. Inn kemur níu ára drengur og kveðst hafa verið í Nornabúðinni. Eins og ekkert sé sjálfsagðara. Þetta tilkynnir hann manni sem stendur á miðju stofugólfi, undarlega til fara, og æfir eintal. Eftir stutt samtal sest sá minni niður við eldhúsborðið og fer að skrifa sögu sem gerist úti í geimnum og fjallar um plánetuna Kók-Læt.
Í skáp undir stiganum situr kona fyrir framan tölvu, undarleg í laginu, skrifar einhvern fíflagang og raular fjörugt og glaðlegt lag fyrir munni sér. Ef grannt er hlustað er hins vegar ekki hægt að heyra betur en að textinn byrji eitthvað á þessa leið: Nú er hann dáinn, dáinn...
Á efri hæðinni situr kona fyrir framan aðra tölvu með næstum fullskrifaða skáldsögu á skjánum og skeggræðir deddlæn og bókarkápur við Forlagið.
Stór og skeggjaður maður kemur af ráðstefnu í útlöndum hvar hann var að snapa styrki í rannsóknarverkefni um jarðhræringar.

Þegar þetta fólk má vera að því að tala saman er gjarnan rætt um leikrit, sýningar og kvikmyndahátíðina. Raunveruleikann ber sjaldan á góma.

Ekkert af þessu er einu sinni lygi.
Þetta er heimilislífið mitt.
Held ég hafi loxins náð lífstakmarki mínu og heimili mitt er artí og menningarlegt.

Horngrýtis!

Nú hefur einhver fækkað klukkutímum í sólarhringnum eina ferðina enn. Hvorki vinnutíminn né annar tími endist til þess sem ég þarf. Og Rannsóknarskipið hefur enn meira að gera en ég, og rétt maður plöggi það sem hann er einn máttarstólpanna í þessa dagana:

Hugleikur verður með

ÞETTA MÁNAÐARLEGA

Í Þjóðleikhúskjallaranum 7. og 8. október kl. 21.00

Fyrir þá sem ekki þekkja til eru þessi mánaðarlegu jafnan sýning nokkurra einþáttunga, saminna, leikstýrðra og leikinna af Hullurum sjálfum. Rannsóknarskipið verður þarna á hverju strái, þannig að fyrir þá sem enn hafa ekki barið verðandi barnsföður minn augum er þarna komið Einstakt Tækifæri, lesendur góðir, aldrei að vita hvenær hann verður næst sýndur.

3.10.05

Bleikjur...

Dreymdi í nótt draum sem eiginlega hlýtur að þýða eitthvað. Þannig var að við Rannveig vorum úti á einhverju vatni, á sitthvorum bátnum. Við vorum að veiða, en vorum ekki með stangir, bara girni með öngli. Hún veiddi fjórar litlar bleikjur, en ég bara eina stóra. Það var hins vegar mjöög auðvelt að draga mína upp, og það var eins og hún væri eiginlega hálfdauð þegar ég náði henni um borð. Þurfti samt aðeins að rota hana.

Og þá spyr ég, spekingar, fyrir hverju eru bleikjur?
Öðru en að maður hafi leyndar hvatir til ferskvatnsfiskveiða?

Sá framan á DV

að einhver grúppan hafi verið að kaupa Tolla fyrir 650 milljónir.

Áður en ég réði við það var ég búin að huxa:
"Halda menn nú virkilega að það sé góð fjárfesting...?"

Mikil synd

hvernig maður er farinn að fara með helgarnar sínar í seinni tíð. Eyddi minn í að þýða aukaefni dauðans, reyndar fyrir ágætis péning. Sem er eins gott vegna þess að áðan tók ég mjög rækilegt neyslulán. Flokkast reyndar undir hagræðingu, þar sem það var tekið til að borga upp sýndaryfirdrátt sem ég var næstum búin að taka... Semsagt, endurfjármögnun á fyrirsjáanlegri eignatilfærslu... eða eitthvað.

Enn eitt stórt skref hefur verið tekið í átt til foreldrunar. Við hjónleys pöntuðum pláss á foreldrunarnámskeiði. Vegna þess að það, eins og svo margt annað, er alveg bráðnauðsynlegt svo maður viti nú hvað snýr upp eða niður á óléttunni eða krakkanum. (Ókei, ég er aðallega að þessu út af fyndnu sögunni hann Björns M.)

Allavega, í boði var annars vegar 3 skipti og hins vegar 6. Tímasetning er ekki fyrr en eftir frumsýningu Jólaævintýris þannig að ég sagðist hafa allan heimsins tíma og tjáði Rannsóknarskipinu að hann réði bara hverju hann tímdi af tíma. Og þar með kom auðvitað tilsvar:

R: Ég yrði nú lélegur faðir ef ég tímdi ekki 6 x 2 klukkutímum...

Ég var ekki búin að huxa forgangsröðina svona og fannst hreint ekki að því að vera að nenna ekki að læra undir fæðingu fyrr en eftir frumsýningu... Held það sé alveg á hreinu hver er og verður Aðalforeldrið á þessu heimili. Og það finnst mér snilld.

Og talandi um snilld. Í kvöld fáum við að heyra enn eina snilldartónsmíðina eftir snillinginn Snæbjörn á Jólaævintýrisæfingu! (Já, og líklega fá menn að vita hvað þeir eiga að leika. Asnalegt að vera hérna megin borðsins með það.)