22.7.05

Stríðum - gegn stríði

Skrattans. Þegar kvarnirnar fara í gang þá er ekki alltaf hlaupið að því að stoppa. Eins og Cordelia Chase segir í einhverjum Buffy-þættinum:

„Oh, great. Now I'm gonna be stuck with serious thoughts all day.“

Til þess að reyna að stemma stigu við þeirri ógn að fara inn í helgina í þungum þönkum ætla ég að reyna að ryðja út því sem ég er að huxa, svo það fari.

Það sem festist í kvörnunum og varð allt í einu seigt undir tönn var eitthvað á þessa leið:
„Hvað er þess virði að berjast fyrir því?“

Þegar umræðan snýst í þá átt að menn fara að segjast vera að berjast fyrir frelsinu þá fæ ég ævinglega sömu línurnar úr sama laginu á heilann. Það er annaðhvort af Egó í mynd eða Das Kapital.

„Stríðum - gegn stríði.
Berjumst - fyrir friði.“

Stundum hefur hann Bubbi nú hitt naglann aðeins á höfuðið.

Pælingin sem ég fékk í framhaldinu er eitthvað á þessa leið:
Er rétta leiðin að berjast?
Er það að skila einhverjum árangri?
Er líklegt að við náum að kenna miðausturlöndum eins og þau leggja sig að taka upp vestræn gildi, með vopnavaldi?
Og ætli þeim þyki líklegt að við leggum niður okkar vestrænu ef þeir sprengja nógu margar byggingar?
Höldum við að þeir hætti að sprengja okkar ef við sprengjum fleiri af þeirra?
Og ef þetta lítur ekki út fyrir að leiða til neinnar lausnar, hver vinnur þá?
Sá sem drepur fleiri?
Sá sem drepur fleiri per höfðatölu?
Eða er þetta eins og ólympíuleikarnir?
Ekki málið að vinna heldur að vera með?
Er göfugt að drepa fólk ef maður trúir á málstaðinn?

Einu sinni stóð ég með nokkrum öðrum úti í Nimes og við vorum að horfa á leifar af tvöþúsund ára gömlu vatnsveitukerfi. Kerfi sem var til á tímum Rómarveldis, en síðan gleymdist í ein 1500 ár hvernig átti að gera svoleiðis. Við veltum þessu dáldið fyrir okkur. Hvað þyrfti að gerast til þess að við gleymdum hvernig ætti að gera rafmagn? Eða lyf við lungnabólgu? Þetta var u.þ.b. mánuði eftir 11. september. 2001.

Núna er ég alveg farin að sjá hvernig þetta getur gerst. Við erum í stríði. Við höldum að við séum að berjast fyrir tilvist vestrænna gilda. Múslimar halda að þeir séu að berjast fyrir tilvist múslimskra gilda. Engin lausn er í sjónmáli. Og enginn virðist einu sinni vera að leita að lausn. Menn setja bara fram kassann og belja:
Málstaðurinn er þess virði að berjast fyrir! Fyrir Frelsið! Og skjóta svo fyrst og spyrja svo.
Almennir borgarar eru bara svona egg sem þarf að mölva til að gera þessa fínu eggjaköku vestrænna/múslimskra gilda. (Fer eftir hver horfir hvaðan hvort er.)

Eins og málin standa í dag lítur út fyrir að þesu stríði ljúki ekki nema með gereyðingu menningararfs vesturheims eða miðausturlanda, nema hvorutveggja sé.

Og þegar við verðum búin að breyta miðausturlöndum í stóra holu og sitjum sjálf í miðjum kjarnorkuvetri með enga borg uppistandandi og búin að brjóta og týna menningararfinum og þekkingarþróun aldanna,
verðum við þá búin að vinna?


Málsvari skrattans...

Nú var ég að lesa á Varríusi mikinn pistil um hver hinna vestrænu gilda séu þess virði að fyrir þeim sé barist. Ég huxaði dáldið, og þó ég sé í grundvallaratriðum sammála, þá get ég ekki annað en að vera málsvari andskotans í smá stund. Mér þykja þessi 4 atriði, sem Varríus hefur eftir ágætri skilgreiningu Egils Helgasonar, ekki vera alltaf svo klippt og skorin. Og stundum er ekki laust við að þau rekist á.

Trúfrelsi: Er gott, auðvitað. Menn eiga að fá að ráða því á hvað þeir trúa. En trúfrelsi eins og það er stundað á vesturlöndum felur það líka í sér að til mega vera söfnuðir þar sem menn stunda að gifta 14 ára dætur sínar fimmtugum frændum sínum og halda þeim ómenntuðum og óupplýstum í afmörkuðum samfélögum um öll norðvesturríki Bandaríkjanna. Þarna rekst trúfrelsið óneitanlega á kvenfrelsið, ekki satt? En leiðtogar safnaðanna trúa því að þeir séu að gera rétt og þjóna guði sínum, og mega það, samkvæmt trúfrelsi sínu, ekki satt?

Kvenfrelsi: Jú, satt er það, hér á vesturlöndum ku réttarstaða vor vera ögn skárri en búfjár. (Ja, ef maður er ekki að rýna um of í refsilöggjöf við kynferðislegu ofbeldi.) Á hinn bóginn er það löngu orðið lýðum ljóst að líkamar og sjálfsvirðing kvenna er nú víða til sölu... vissulega má segja sem svo að það sé algjörlega okkar mál hvernig við högum lífum okkar, hvort við rökum lappirnar, eyðum pening í að láta stækka hitt og þetta á okkur eða græðum morðfjár á klámi. Og vissulega eru síðan réttindi lýðfrelsisins að geta þessa áratugina keypt hvað sem er, dautt eða lifandi. Vissulega hafa verið sett lög á ýmislegt, eins og vændi. Þau virðast bara eiginlega ekki halda, og svo eru líka ótal leiðir fram hjá þeim. Og svo höfum við mannsalavandamál á vesturlöndum.
Mér sýnist eiginlega vera nokkuð víða pottur brotinn í hugsunarhætti vesturlandabúa varðandi mannréttindi kvenna. Ekki það að lagaumhverfið reynir að gera vel, sem og menntakerfið. En samt, en samt. Af hverju er ég alltaf að heyra á samtöl karlmanna á milli, söngtexta, og ýmislegt annað sem þrífst í skjóli tjáningafrelsis sem gerir það að verkum að maður veltir fyrir sér hvort menn viti að konur eru fólk?

Tjáningar- og lýðfrelsi:
Er vissulega af hinu góða. En hvernig á að bregðast við þegar hvað káfar uppá annað? Þegar lýðfrelsi eins káfar uppá tjáningarfrelsi annars? Þegar kvenfrelsið rekst á trúfrelsið? Eða þegar kerfið skaffar mönnum ekki þær upplýsingar sem þeir þurfa til að átta sig á eigin frelsi og réttarstöðu?

Mér finnst barátta heittrúaðra Múslima og Kristinna manna vera í pattstöðu. Þeir ætla ekki að sætta sig við klámvæðinguna. Og við ætlum ekki að sætta okkur við Talebanismann. Og báðar hliðar virðast ætla að berjast til síðasta manns. Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn þar til allur heimurinn stendur eftir blindur og tannlaus.

En er það endilega besta lausnin?

21.7.05

Meiri gervivísindi

Samkvæmt kínverskri stjörnuspeki er ég tígrisdýr. Mér hefur alltaf þótt það kúlsta stjörnumerkið, utan dreka. En, þú hefur komið í ljós sú skemmtilega staðreynd að mánaðarstjörnumekið mitt er einmitt dreki, allavega í Japan. Rannsóknarskipið er ekki eins heppið, hann er svín og rotta. Nánar tiltekið vatnsrotta.

Ég fór að fletta upp á elementisma afkomandans og komst að því að hann verður trúlega tréhani. Sem þýðir að hann verður sérvitur, á til að móðga fólk með því að vera hreinskilinn og þetta veit ég að Rannsóknarskipinu þykja miklar fréttir og góðar:

They love bookshops with strong espresso and offbeat music groups, particularly modern jazz or chamber work.

Tilviljun? Algjörlega!
Og svo kemur hann til með að geta talað út í hið óendanlega. Semsagt ákveðin blanda af eiginleikum foreldranna, myndi ég segja.

Mikið svakalega dreymir mig

þessa dagana. Í nótt vorum við Rannsóknarskip að huxa um að versla okkur gistiheimili útí sveit. (Sem var ýmist staðsett uppi á Fjarðarheiði, í Fellunum eða einhvers staðar í nágrenni við Freyvang. Semsagt, eitthvað eff.) Ekki vorum við nú heldur aldeilis ein í þessu braski heldur ætluðu að vera með Inga Lára Smábátsamma, Guðlaug systir hennar og móðir Rannveigar minnar og Elísabet mágkona. Þetta var mikil athafnasemi, og stundum var ég í þessu umrædda húsi, en það virtist skipta um lögun í hvert skipti. Stundum var eins og starfsemin væri komin í blússandi gang, en stundum vorum við bara að undirbá að fara að skoða. Þetta var hreint ekki neitt í réttri tímaröð. Ætli þetta sé fyrir einhverju? Kannski við eigum fyrir okkur framtíð í Ferðaþjónustu Bænda?

Fékk auðvitað hjátrúarkast í framhaldi af þessum draumförum. Skoðaði ýmsar draumaráðningar sem segja nú lítið um hús nema að þau eigi að endurspegla lífið manns, sérstaklega ef mann dreymir að maður býr í þeim. Um drauma atvinnurekstur segir lítið og virðist það fara mest eftir því hvort vel gengur eða illa. Og það bara kom ekki fram.

Svo fletti ég dáldið í japanskri stjörnuspeki, fann þar m.a. leitarvél sem gat spáð sérstaklega fyrir mínum fæðingardegin og fæðingartíma. Þar kom fram að heppnin yrði nú aldeilis með mér eftir þrítugt. Miðað við aðalstjörnumerkið mitt sem er tígrisdýr. Miðað við tunglmerkið mitt sem er dreki verður heppnin með seinni hluta ævi minnar. Þannig að það lítur vel út með framhaldið, þó mér finnist ég nú reyndar hafa verið nokkuð heppin hingað til. Og miðað við dagstímamerkið mitt, sem er svín, er rauður happaliturinn minn. Tilviljun? (Hummar Nallann.)

20.7.05

Og þá kom sumarið

Auðvitað. Þegar ég var búin í sumarfríi. Og á ekki svalir. Er komin með nýtt dót, farin að sauma út. Mynd af þremur feitum kellingum á baðfötum sem ég ætla að hengja upp á baðherberginu mínu svo mér finnist ég alltaf mjó næstu mánuði. Hefur semsagt meðferðargildi. Svo er þetta líka geðveikt gaman. Ég finn að það er að bresta á með útsaums-æði. Það boðar ekki gott fyrir ákveðið verkefni sem bíður samningar.

Og eftir ritræpu undanfarinna daga er brostið á með andleysi.
Vona að þetta sé ekki greindargliðnunin að láta á sér kræla.

19.7.05

Frumburður?

Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera tungumálsnasisti. Nú er ég búin að vera að reyna að lesa mér til um ráð við grindverk og er orðin nett pirruð. Mér finnst nefnilega að það ættu að vera lög gegn hvers konar líkingamáli nema það sé snjallt og/eða fyndið. Þess vegna liggur mér við ælu þegar mér er ráðlagt "að hlusta á líkama minn". Væminn viðbjóður sem þjónar engum tilgangi nema að valda manni velgju. Af hverju ekki bara að segja manni að "vera ekki að gera það sem er vont"?

Í því samhengi datt mér frumburður minn í hug. Þ.e.a.s., ekki sá sem nú er í ræktun, heldur sá sem gerði tilkall til þess titils fyrir mörgum árum síðan. Það vita það kannski fáir, en um nokkurt skeið var ég einstæð 7 barna móðir í Montpellier. Þá veitti ég nokkrum íslenskum stúdentum móðurlega umhyggju í hvívetna og enn heilsa þau mér með "Salut maman" á msn, þau sem ég held einhverju sambandi við. Þar er nú aðallega maðurinn sem kynnir sig ævinlega sem Frumburð. Hann Aðalsteinn.
Hann á einmitt tvær góðar línur sem ég kem aldrei til með að gleyma.

Önnur kom þegar við vorum einhvern tíma á gangi og vorum bæði búin að verða illa úti á markaðnum, eins og gengur. Sem við göngum og ræðum ógæfu okkar segir Frumburður, í mæðutón:
„Það borgar sig ekki að fjárfesta með tilfinningum sínum í hjörtum annarra.“

Hin kom þegar hann sagði um konu sem honum var illa við:
„Ég fyrirlít jörðina sem hún gengur á!“

Ég er enn að bíða eftir að mér verði nógu illa við einhvern til að geta notað þetta orðatiltæki. Báðar á ég örugglega eftir að nota í leikrit.

Beðið eftir Pott.air

Ég gerði ægilega skyssu. Var einhvern tíma í vetur að panta mér dót af Amazon, og fékk þá þessa snilldarhugmynd að fyrirframpanta nýju Harry Potter bókina í leiðinni. Það sem ég huxaði ekki útí var að ég var að panta frá Ameríku. Þetta verður til þess að nú er Potterinn minn einhvers staðar á leiðinni og ég vona bara að ég fái hann í hendur fyrr en um jól.

(Tekið skal fram að titill þessarar færslu er stolinn úr athugasemd á Varríusi sem skrifuð er af Sævari Sigurgeirssyni sem ennfremur vill ekki kannast við að bera nokkra ábyrgð á skemmtiatriðum í brúðkaupi hjónanna Ringsted. Bara svo það sé á hreinu.)

En, það er ýmislegt að gera á meðan maður bíður. Ég seldi til dæmis íbúðina mína í gær. Bara sisvona. Verst að fasteignasalinn fékk eitthvað anal-kast og komst að því að það væri ekki til "lögformlegur" eignaskiptasamningur um draslið. Þannig að ég þarf að láta gera sollis og ég veit ekki hver veit um neinn sem kann það og það getur víst tekið nokkurþúsund ár og kostar grilljónir. Fyrr getur ekki farið fram afsal. Helvítisandskotans. En, var samt í góðu stuði á þegar ég labbaði heim eftir að hafa undirritað kaupsamning, í hippalegu sólinni, raulandi lagið "Aint got no..." úr Hárinu. Mikið finnst mér nú gott að vera eignalaus.

Og svo er það mál manna að það sé ýkt geðveikt skemmtilegt að vera óléttur. Vinkonur mínar sumar meiraðsegja nýbornar hafa haft orð á öfund. Ég verð að segja að ég er ekki alveg að skilja. Nú finnst mér ég vera búin að vera í þessu ástandi frá því að ég man eftir mér, eða þarumbil. Það eina sem ég hef orðið vör við hingað til er bindindi í áfengi og tóbaki sem er yfirleitt bara meira og minna hvimleitt. Fyrir mér er að vera óléttur sem sagt bara alveg það sama og að vera venjulegur, bara meira edrú. Allavega enn sem komið er. Eða var það þangað til mjög nýlega.

Og svo fékk ég glaðninginn Grindverk. (Ég neita að nota orðið grindargliðnun þar sem það er ógeðslegt, eins og reyndar flest læknisfræðiheiti sem tengjast þessu ástandi. Ég veit hins vegar að margar konur fá greindargliðnun sem fylgifisk barneigna og ég vona nú að ég sleppi við hana.) Nú er allavega svo komið að ég þarf að fara í sjúkraþjálfun og ég fram á að þurfa að gera lítið og takmarkað og vera hálfgerður öjmingi, allavega út meðgöngu. Og ég er ekki farin að finna fyrir tilvist eintaklingsins sem málið snýst um.

Gaman? Hmmm... Mér gætu nú fyrr dottið í hug ýmis önnur orð. Fæst hafandi eftir...
Ætla bara rétt andskotann að vona að orðrómurinn sé sannur um að þetta verði alltsaman vesenisins (og bindindisins) virði á endanum. Og áður en maður gengur undir manns hönd í kommentakerfinu til að sannfæra mig er rétt að taka fram að ég veit að ég get ekki vitað það fyrr en hálfu ári eftir fæðingu, eða svo. Sama hvað hver segir.

18.7.05

Í dag

dregur til tíðinda. Norðan heiða sem sunnan. Ég er að fara á kaupsamningsfund á eftir og losa mig þar við jarðnesku eiguna mína. Og Rannsóknarskipið er að gera slíkt hið sama með sína heimahöfn. Þá verðum við bæði heimilislaus og algjörlega komin upp á náð og miskunn Ragnars Skjálfta og Ingibjargar frá Tjörn uppá þak yfir höfuðin næstu mánuði eða ár. En það eru nú sjálfsagt margir staðir verri til að búa á en Tryggvagatan, svona á meðan maður bíður eftir hruninu á fasteignamarkaðnum sem DV spáði um daginn.

Enda er ég orðinn forfallinn áhorfandi þáttanna Þak yfir höfuðið á skjá einum og villurnar sem mig langar í verða dýrari með hverri vikunni. Þannig að það er eins gott að ávaxta gróðann af fasteignabraskinu mínu vel. (Mér finnst annars alveg snilld hvað hann er mikill.

Þegar ég keypti íbúðina mína, bara fyrir örfáum mánuðum, þá ætlaði ég nú bara að pipra í henni fram á efstu ár. Prjóna og hræða börnin í nágrenninu með fordæðuskap. Svona geta nú skipast ógurlega skjótt veður í lofti. Innan við ár síðan og ég búin að græða á fasteignabraski og að fara að stofna stórfjölskyldu. Hefði einhver reynt að segja mér þetta daginn sem ég skrifaði undir kaupsamninginn hefði ég nú bara sagt viðkomandi að taka pillurnar sínar.

The Ringsteds

þá er búið að gifta þau Ylfu og Harald og varð veislunni margtí. Gaman að koma á Ingjaldssand við Önundarfjörð, hitta margt mis-ókunnugs fólks og svo alveg framvegis og framvegis. Hugleikarar fjölmenntu nokkuð og stóðu fyrir mis-viðeigandi skemmtiatriðum undir stjórn Sævars Sigurgeirssonar. Þar kenndi ýmissa grasa, en ekki var laust við að nokkrar grímur rynnu á fjölskyldur brúðhjónanna af eldri kynslóðinni þegar Bibbi flutti 2 lög um limlestingar og dauða, eða þegar Bjössi Thor sagði söguna af því þegar hann sá brjóstin á Ylfu. En þess ber auðvitað að minnast í því samhengi að Halli var auðvitað einu sinni mikill pönk-rokkhundur og ekki annað við hæfi en að minnast örlítið á brjóstgæði brúðarinnar við téðar aðstæður.

Óska brúðhjónunum enn og aftur til hamingju og góðrar ferðar til Prag.
(Já, og auðvitað Tótu líka.)

Varð hins vegar nokkuð huxi yfir eigin seinþroska. Nú vill svo til að við brúðurin erum næstum nákvæmlega jafnöldrur. Og á meðan mér er rétt að takast að gabba einn mann til að barna mig, þá er hún búin að ná tveimur og meira að segja búin að véla þann síðari til að kvænast sér. Svo er ég heldur ekki búin að mynda mér neina skoðun á því hvernig eigi að baka pönnukökur, en ég heyrði á umræðum við brúðkaupsundirbúning að trúlega er ég ein kvenna á Íslandi um að kunna það ekki einu sinni.

Þarf greinilega að fara að halda á (pönnuköku-) spöðunum.