27.5.04

Íha!
Búin að senda 2/3 af ritgerðinni til lokayfirlestrar og einkunnargjafar. Síðasta hlutann þarf ég svo að laga og senda einhvern tíma um helgina, þegar Lærifaðir vor hefur kunngjört oss sínar athugasemdir. Þetta flóknaði allt saman örlítið vegna annríkis hjá honum. Núna á ég sem sagt eftir eina skorpu, sem ég veit ekki ennþá hvenær verður, og dótið þarf að vera komið, útprentað, niður í skóla eldsnemma á þriðjudagsmorgun. Ég verð nú eiginlega bara ekki neitt róleg fyrr.

Svo er frumsýning á Hamskiptunum hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar á morgun.

Svo held ég kannski að ég þurfi að reyna að sofa slatta um helgina. Það er farið að vanta frekar mikið, og verður væntalega ekki mikill friður til þess næstu vikur. Ætla ekki að treysta á svefnfrið á Írlandi. Og ég held kannski að mig vanti risastóran bakpoka. Á einhver?

26.5.04

Komnar umfjallanir um einþáttungahátíðina fyrir norða á leiklistarvefinn og gaman að því. Lárus Vilhjálmsson sakaði mig um kvenrembu og býst í framhaldinu við morðtilraun af minni hálfu, og Júlíus Júlíusson er þeirrar skoðunar að ef ég gríp einhvern tíma réttri hendi í rassgatið á mér gæti ég orðið nokkuð lunkinn höfundur. Nefndi reyndar í því samhengi Þorvald Þorsteinsson, og þótti mér það ógulega mikið og gott lof.

En Júlli hefur alveg gjörsamlega rétt fyrir sér. Ég verð að fara að gera eitthvað í þessu. Nú er ég þó að verða búin með leikritunarbannið sem ég setti sjálfa mig í þangað til meistaranám væri í höfn. (Það var reyndar bara til að ég hefði gulrót til að klára þann fjanda, alls ekki vegna þess að ég haldi að ég verði eitthvað betra leikskáld sem master í bókmenntafræði.) En mig er farið að langa mikið til að klára leikritið sem ég byrjaði á í skólanum í fyrra og ýmislegt fleira og jafnvel gera eitthvað nýtt, í fyrsta skipti árum saman. Vonandi verður ritgerðarklárun og námskeiðið á Írlandi mér til írassspörkunar. Mér skilst að verkefnavalsnefnd Þjóðleikhússins sé næstum öll búin að lesa hálfkláraða leikritið mitt, heyrði aðeins í þeim um daginn, en bað þau vinsamlegast að vera ekkert að stressa sig, hef hvort sem er ekki alveg tíma til að gera meira fyrr en eftir svona mánuð. Í fyrsta lagi.

Annars er ótrúlegt hversu miklu maður getur komið í verk þegar maður byrjar á annað borð. Mér finnst hafa verið miklu minni vinna eftir í ritgerðinni en ég hélt. (Náttlega að hluta til vegna vöntunar á tvöföldu línubili.) Og nú er þetta alveg, alveg að verða búið!

Hverju á ég þá að pirrast yfir á blogginu mínu?!?
Pixies er alls ekki verri hljómsveit núna heldur en hún var fyrir 14 árum þegar ég kynntist henni. Hún sendi mig allavega niður skemmtilegt tripp niður minningagötu á tónleikunum í kvöld og mér svifu fyrir hugskotsjónum hin ýmsustu herbergi á heimavist Menntaskólans á Egilsstöðum. Svo voru tónleikarnir heldur ekkert það langir að ég fengi alvarlegt samviskubit. (Nema svona rétt á meðan ég sá að Prófessorinn Ógurlegi var búinn að vera að reyna að hringja í mig.) Svo er Kim Deal líka flottust í heimi.

Kom allavega heim algjörlega endurnærð og kát og var að klára að skrifa ógurlega fínar vangaveltur í niðurlagið á niðurlaginu á ritgerðinni minni, núna rétt um tvöleytið.

Þá er bara að vita hvað Lærimeistari vor segir á morgun, og hvort hann fellst á drastískar hugmyndir mínar um að skera niður um eins og eina þýðingu til að fyrirbærið verði ekki alveg eins mikið of langt, og til að ég þurfi ekki að fá alveg jafn mikið taugaáfall.

Dammdammdammdammdamm...
Outside there's a...

Nú fá allir sem hafa þokkalegt uppeldi ákveðið lag á heilann.

24.5.04

Þetta var einna mest upplífgandi fundur sem ég hef farið á niður í Háskóla. Taugaáfallið lengist reyndar fram á föstudag, en vinnuálagið minnkaði allt í einu til muna.

Leiðbeinandi minn furðaði sig á því að það sem hann hafði af ritgerðinni minni endaði eiginlega ekki, heldur hætti bara. Ég furðaði mig á móti því að hann sæi ekki að ég ætti eftir að skrifa fullt, enda sýndist mér ég ekkert vera komin í næstum nóg í blaðsíðum talið. Í ljós kom að ég var búin að gleyma hinni plebbalegu reglu akademíunnar um tvöfalt línubil (regla sem ég þverskallaðist við að nota á meðan ég var í skóla og komst upp með) auk þess sem það sem ég ætlaði að nota í viðauka telur inn í þann fjölda. (Það eru þýðingar sem ég gerði úti í Montpellier og liggja makindalega í tölvunni minni, á einföldu línubili!!!)

Ritgerðarófétið hefur sumsé tekið þvílíkan vaxtarkipp og telur nú 124 blaðsíður, þarf ekki að vera nema 87. Ég kem út sem mjög alvarlega þenkjandi vísindamaður og kemur það til af alveg svakalega heimskulegum mistökum.

Kennarinn minn gerir sér líka greinilega alveg grein fyrir því að ég er plebbi, og píndi uppá mig frest fram á föstudag, hvað sem ég tautaði eða raulaði. Get sumsé gert alls konar lagfæringar og krúsidúllur og verið með smámunasemi sem mér datt aldrei í hug að ég næði.

Veit eiginlega ekki hvort ég á að vera glöð eða fúl, hlæja eða gráta, æla eða drulla. Einangrun verður allavega lengri en ég hélt og Leikfélag Hafnarfjarðar verður eiginlega bara að vera án mín fram að frumsýningu á Hamskiptum. Bæti þeim það upp með þeim mun óhemjulegri lesbíugangi á næstu mánuðum.
Góðir Íslendingar.
Er snúin heim úr útlegð í Svarfaðardal hvað við héldum árlegt aðalþing Bandalags íslenskra leikfélaga þetta árið. Var þar mikið um dýrðir, haldin fínasta einþáttungahátíð það sem m.a. var frumsýnt nýtt verk eftir undirritaða, haldinn aðalfundur og hvurveithvað. (Meðal annarra orða, mynd úr mínu nýjasta stórvirki er á vef El Toro.) Gagnrýnendur skildu ekki um hvað leikritið mitt var, og lái þeim hver sem vill, ekki hef ég hugmynd og ég skrifaði ekki eitt einasta upphrópunarmerki í fundargerð aðalfundar og er það nýmæli. Kúkogpissograss-húmor sveif yfir vötnum, mörgu var logið. Það er ennfremur endanlega staðfest að orðið "félagsheimili" hefur hlotið nýja merkingu. Ennfremur var svo mörgum logið uppá mig að mitt félagsheimili virðist algjörlega bera nafn með rentu. Skilji menn eins og þeir vilja.

Kom altént heim úr þessari "legð" og uppgötvaði að það er ískyggilega stutt í þá næstu. Írar skulu sóttir heim eftir eina 12 daga. Er það von mín að Útlendingastofnun láti ekki hjá líða að senda mér ilmandi og nýbakað vegabréf fyrir þann tíma. Þegar ég kom í vinnuna í morgun biðu mín mörg og taugaveikluð meil frá þeim þar sem þeir voru að leita eftir upplýsingum (sem ég var uððitað löngu búin að senda þeim) og ég hef ákveðinn grun um að símtalið frá honum "anonymusi" sem ég missti af í símanum mínum í gærkvöldi hafi verið frá þeim. Hebbði nú verið gaman að ná því og heyra í þessu fólki, svona pínu. Svo lítur út fyrir að ég þurfi að treysta á Ésús og lukkuna með það að geta komist frá Cork flugvelli á rútubílastöð borgar þeirrar á klukkutíma. Þetta verður spennandi ferðalag. Náist það ekki, tjah. ætli ég verið ekki bara að fara fótgangandi, með vasaljósið mitt...

Svo bárust mér þær fréttir til eyrna að allar líkur eru á því að ég fari að leika lesbískan fatahönnuð að Írlandsdvöl lokinni. Það verður nú aldeilis ljómandi skemmtilegt, en þetta er ógurlega krefjandi og stórmeiriháttar hlutverk. Hef ákveðið að hefja samt ekki taugaáföll yfir því fyrr en þann 21. júní, stundvíslega. Á sama tíma hefjast áföll vegna útvarpsþáttar míns, sem verður á öldum ljósvakans þann 24. júlí, ef allt gengur að óskum.

Það voru náttlega skipulagðar fleiri útlegðir, eins og einn haustfundur á Akureyri í byrjun október og huxanlega önnur útferð í ágúst, en hún fer eftir því hvað leikstýrið mitt leyfir, svo nánar um það síðar ef af verður.

Núna bíða fleirihundruð meilar í öllum hólfum, fundargerð sem eftir á að hreinskrifa, og fundur með mínum eðal prófessor vegna ritgerðar sem á að skilast á morgun. (Semsagt, sólarhrings taugaáfall coming up.) Að því loknu hyggst ég taka upp fasta búsetu í húsi Leikfélags Hafnarfjarðar, en þar er frumsýning á Hamskiptunum um komandi helgi og ýmislegt eftir, segja menn.

Sem sagt, nú er best að finna spaðana og halda svo á þeim.