á þessu fréttahléi sem hér hefur orðið. Móðurskipið er bara búið að vera óttalega lasið og rúmfast eitthvað, en missir nú um kíló af lyfjabjúg á dag, er líklega að ná eitthvað upp blóðbirgðum og er allt að skríða saman.
Freygátan hefur líka náð tökum á helstu lystisemdum lífsins, borða og sofa. Og það gerir hún nú án afláts. Hún er líka búin að fara í 5 daga skoðun til barnalæknis og öskra þar svo hátt að hún var tekin fram fyrir í röðina.
Smábátur og Rannsóknarskip héldu norður yfir heiðar í gærmorgun. Skipið þurfti að mæta í skólann sinn og Báturinn fær að heilsa upp á föðurfólkið sitt á meðan. Hinn nýbakaði faðir kemur aftur í kvöld og þykir fjarvistin hafa verið meira en nógu löng, skilst mér. Á meðan er mamma mín hér að passa okkur, gera alþrif á heimilinu og stjana við barnið. Og ég ligg bara eins og prinsessan á bauninni.
Af málum umheimsins: Mikið djöfull svakalega byrja bæði Lost og Desperate Housewifes vel! Ætti að gera góðan skurk í baráttunni við fæðingarþunglyndið. Og svo skilst mér að Hugleikur sé að undirbúa Mánaðarlegt sem verður í Þjóðleikhúskjallaranum á miðvikudaxkvöld, en þar verður m.a. sýndur einþáttungurinn Gegnumtrekkur eftir mig og ömmu mína. Allir ættu að drífa sig sem vettlingi geta valdið, en ég er hrædd um að ég missi af þessu mánaðarlega um sinn. (Hihi... jih... tvírætt maður...)