4.2.06

Með nýbökuðum...

...stórabróður,


og Huggu móðu.


Þreytta fjölskyldan á leiðinni heim af spíttlanum.

Myndir!

Flunkuný!


Hmmmm?


Borða NÚNA!

3.2.06

Biðst innilega afsökunar

á þessu fréttahléi sem hér hefur orðið. Móðurskipið er bara búið að vera óttalega lasið og rúmfast eitthvað, en missir nú um kíló af lyfjabjúg á dag, er líklega að ná eitthvað upp blóðbirgðum og er allt að skríða saman.

Freygátan hefur líka náð tökum á helstu lystisemdum lífsins, borða og sofa. Og það gerir hún nú án afláts. Hún er líka búin að fara í 5 daga skoðun til barnalæknis og öskra þar svo hátt að hún var tekin fram fyrir í röðina.

Smábátur og Rannsóknarskip héldu norður yfir heiðar í gærmorgun. Skipið þurfti að mæta í skólann sinn og Báturinn fær að heilsa upp á föðurfólkið sitt á meðan. Hinn nýbakaði faðir kemur aftur í kvöld og þykir fjarvistin hafa verið meira en nógu löng, skilst mér. Á meðan er mamma mín hér að passa okkur, gera alþrif á heimilinu og stjana við barnið. Og ég ligg bara eins og prinsessan á bauninni.

Af málum umheimsins: Mikið djöfull svakalega byrja bæði Lost og Desperate Housewifes vel! Ætti að gera góðan skurk í baráttunni við fæðingarþunglyndið. Og svo skilst mér að Hugleikur sé að undirbúa Mánaðarlegt sem verður í Þjóðleikhúskjallaranum á miðvikudaxkvöld, en þar verður m.a. sýndur einþáttungurinn Gegnumtrekkur eftir mig og ömmu mína. Allir ættu að drífa sig sem vettlingi geta valdið, en ég er hrædd um að ég missi af þessu mánaðarlega um sinn. (Hihi... jih... tvírætt maður...)

Fyrir kjeellingarnar...

Ég veit að ákveðinn lesendahópur hefur mikinn áhuga á meginatriðum varðandi fæðingu og heilsufar. Hér ætla ég að reyna að gera þeim lesendahópi til geðs. Viðkvæmar sálir ættu að hætta að lesa hér. Þetta þarf að vera í nokkrum pörtum vegna sérvisku bloggers um færslulengd.

Það var byrjað að gangsetja fæðinguna eldsnemma á afmælisdegi Mozarts. Ekkert fór þó að gerast fyrr en seint um kvöldið og mig minnir að verkir hafi verið komnir á fulla ferð um svona tvöleytið um nóttina. Svo gerðist önnur þróun mjööög hægt. Þegar ég gat loxins farið að fæða eitthvað var ég sem sagt búin að vera með brjálaðar hríðir á 5-7 mínútna fresti, þegar lengst var á milli, í 14 klukkutíma. Það var nú eiginlega stóra vandamálið.

Konan sem ekki ætlaði helst að fá nein lyf fékk þau öll, og undanþágur til að fá meira en ráðlagðan dagskammt af ýmsu. Fékk Phedidín tvisvar (og er mjög morfínskyld síðan) og bætt var á mænurótardeyfingu nokkrum sinnum, en hún virkaði ekki sem skyldi. Það þurfti 4 tilraunir til að koma henni á nokkurn veginn réttan stað, en í ljós kom að ég er ekki hönnuð eins og eðlilegt fólk og hún virkaði aldrei almennilega. Þegar þar var komið sögu var ég hins vegar komin alveg út úr heiminum af verkjum og glaðlofti og fyrra phedidíninu þannig að ég held ég hafi ekki sagt neitt sérstakt við svæfingarlækninn. (Árni segir mér reyndar að þegar sérfræðingur 2 ætlaði að fara að stinga í 4 skiptið í bakið á mér hafi ég sagt: "Mig langar ekki til þess." Sel það ekki dýrar en ég keypti það.)

Fyrir kjeellingar, 2. hluti

Freygátan fæddist klukkan 17:58 en ég held ég muni mjög lítið eftir neinu sem gerðist frá og með ca. hádegi. Og ég held ég hafi öskrað meira og minna allan daginn. Enda raddböndin ekki upp á marga fiska þessa dagana. Hins vegar var ég ekki vond, eða einu sinni ókurteis, við neinn. Enda gat ég voða lítið sagt yfir höfuð. Og hafði ekkert orku í að verða neitt reið. Fæðingin gekk síðan einhvern veginn, ég fann náttúrulega hryllilega mikið til í grindverknum. En svo var stelpan allt í einu komin. Og þá komst ég allt í einu til meðvitundar. Fékk hana í fangið, hún var fjólublá og alveg svakalega hress og vakandi, þrátt fyrir allt dópið.

Þar með var þó dramatíkin ekki alveg búin. Þegar fylgjan var fædd fór ég að missa allt blóð í heiminum. Barninu hent í Árna og fæðingarlæknir kom og eitthvað fleira fólk og maður fékk svona smá ER fílíng. Ég var hins vegar ekkert að fylgjast með því sem var verið að gera við mig, var bara að hlusta á Árna syngja fyrir barnið. Enda reyndist þetta ekki alvarlegt, blæðingin hætti jafnsnögglega og hún hófst, áður en hún varð það mikil að ég þyrfti að fara í sængurlegu. Sem ég ætlaði nú reyndar að gera, en þarna á laugardagskvöldið tímdi ég alls ekki að senda Árna heim þannig að við vorum bara í Hreiðrinu um nóttina og fórum heim kvöldið eftir.

Fyrir kjeellingar, lokaþáttur

Heilsufar síðan er, sem gefur að skilja, búið að vera heldur bágborið. Ég var 80 kíló þegar ég fór á fæðingardeildina en 78 þegar ég kom aftur, afmynduð af lyfjabjúg. Hann er þó allur að renna af, nú missi ég um kíló á dag. Fyrir þær sem hafa verið að velta því fyrir sér þá hef ég ekki þurft að pissa í sturtunni. ;-) Saumaskapur var með minna móti. Enda hlaut nú eitthvað að ganga vel í þessum hörmungum. Og ég er alveg farin að finna fyrir blöðrunni í mér, sennilega fylgifiskur þess að mænudeyfingin tók aldrei almennilega. En ég er með einkenni áfallastreitu, gat t.d. fyrst sofið í nótt, var annars alltaf að hrökkva upp með fæðingarmartraðir. Ég fer í dæmi sem heitir Ljáðu mér eyra eftir mánuð þar sem við förum í gegnum fæðinguna með ljósmóðurinni og ég held það veiti ekkert af. Svo við verðum nú ekki traumatíseruð fyrir lífstíð af þessu. Árni sagði fyrst að ég fengi ekki að eiga fleiri börn. Allavega að það yrði fyrirframpantaður keisari og ekkert rugl. Ég er hins vegar á því að það geti bara ekki annað en gengið betur næst. ;-)

Svo eru náttúrulega ýmsar bólgur, víðar en á geðinu. Legið hætti að dragast saman um daginn og ég þurfti að taka einhver samdráttarlyf. Brjóstagjöfin er búin að vera að fara af stað með tilheyrandi harmkvælum, en nú er framleiðsla orðin á við meðal kúabú og barnið farið að fá eins og það getur í sig troðið og rúmlega það. Svo á ég erfitt með að sitja, vegna þess að það blæddi inn á einhvern vöðva þarna á viðkvæmu svæði þannig að ég er með mar. Hlakka mest til þegar ég get hlammað mér á afturendann þar sem mér sýnist og setið þar svo lengi sem hvur vill.

En bestu fréttirnar: Er komin upp um skálastærð og bumban er á hröðu undanhaldi. Og á henni sést ekki eitt einasta slit. Svo er bara að hanga í voninni um að það sem eftir situr á rassinum á mér sé bjúgur…

31.1.06

Myndir

Eitthvað hafa nú myndatökur ekki verið upp á marga fiska. Mér brá svo hryllilega þegar ég sá heimildir um útlit mitt eftir fæðingu að ég er búin að vera að reyna að finna myndir þar sem barnið sést vel en ég er ekki á. Þetta eru allavega þær skástu, og svo verður reynt að gera betur við fyrsta tækifæri.

Menntun Dúllhildar Frekjan

Jæja. Þá er lyfjaþokunni nú eitthvað að byrja að létta. Við erum búin að vera svaka upptekin af nýja dótinu okkar. Hún kunni ýmislegt fyrir sér strax frá fæðingu. Eins og t.d. að öskra alveg eins og stunginn grís og notar það óspart. Hún virðist hafa þolinmæði móður sinnar, hlutir skulu gerast núna eða strax og engar refjar. Annars ferst heimurinn. Á öðrum degi lærði hún að sofa, en bara að deginum til. Nú er þriðji dagur og verið að vinna í því að kenna henni að vaka á daginn og þá fáum við kannski að sofa í nótt. Það væri nú skemmtileg nýbreytni.

Ég er annars sjálf voðalega eymingjaleg, get lítið hreyft mig ennþá og veit ekkert mikið. Horfir þó allt betur með hverjum deginum. En þeir sem geta hamið forvitni sína mega þó fresta heimsóknum um sinn. Myndir birtast hér um leið og ég get setið við Árnatölvu.

29.1.06

Eins og sjá má

á kommentaflóði við síðustu færslu reyndist Kafbátur vera stúlkukyns. Hún fæddist í gær, þann 28.1. klukkan 17:58. Mældist 15 merkur og 49 cm. Var fjólublá á litinn.

Um fæðinguna væri hægt að skrifa safaríka hryllingssögu. Held ég sé næstum orðin samkeppnisfær við frú Ringsted á þeim vettvangi. Rannsóknarskip stóð sig eins og hetjan sem hann er, og var ljósmóðir mjög impóneruð yfir samlyndi okkar hjónaleysa, ég mælti víst ekki styggðaryrði við hann hverju sem á gekk. Er mér sagt. Ég man ekki mikið. Var undir það síðasta komin í ALLT dópið.

Ég ætlaði að liggja fullt á spíttlanum, en þegar til átti að taka tímdi ég ekki að senda Árna aleinan heim þannig að við vorum bara í Hreiðrinu í nótt og komum svo heim núna í kvöld. Myndir verða birtar á allra næstu dögum. Díteiluð fæðingarsaga verður það ekki. Hún verður ekki höfð eftir fyrr en eftir langan tíma og marga bjóra.