7.7.07

Freigátusögur


Freigátan er greinilega fegin að vera komin heim. Hún er búin að vera svakalega þæg og góð og skoða dótið sitt. Áðan var hún að endurnýja kynni sín við Músahús Mikka, í morgunbarnatúmanum, og dansaði músadansinn af mikilli innlifun.

Annars eru gífurlegar framfarir að eiga sér stað þessa dagana. Í morgun gerðist tvennt í málheimunum. Hún sagði Einn, algjðrlega rétt, líka með nn hljóðinu sem útlendingar kunna ekki að segja, og svo held ég að hún sé farin að kalla sjálfa sig Diddu. Sem Elísabet fö verður sjálfsagt mjög ánægð með. En hún heitir það einmitt líka, innan fjölskyldunnar.

Freigátunni Diddu fer líka mikið fram með fínhreyfingar. Hún er mikið að teikna og er orðin mj'g flink að borða sjálf. Uppáhaldsdótið þessa dagana eru kubbar til að raða upp á prik. Stundum bilar reyndar þolinmæðin ef það gengur ekki alveg strax. Svo er líka gaman að klæða sig úr sokkunum og reyna svo að fara í þá aftur. Sem text aldrei. Eða reyna að klæða mig í þá. Sem er vísindalega ómögulegt, en alltaf jafnspennandi.

Svo hefur hún lært listina að fleygja sér í gólfið og orga, þegar þannig stendur á. Því er nú bara tekið með stóískri ró, og Móðurskipið gætir þess vandlega að það beri aldrei árangur. Vonandi átta menn sig með tímanum á tilgangsleysi aðgerðanna. Enda standa frekjuköstin nú sjaldan lengi yfir. Minnið er ekki orðið það gott, ennþá.

Ekki höfum við enn frétt hvenær húnn fær að byrja í leikskólanum. En nú er laugardagsmorgunn og um að gera að finna yfirgefinn leikskóla til að djöflast aðeins á.

6.7.07

Ofurpían

Um hádegi sást í gólfið. Við Freigáta vorum búnar að vera talsvert duglegar þegar við fórum að taka á móti gestum. Vala vinkona og pabbi hennar komu í heimsókn og þær léku sér af gífurlegum krafti, gáfu hvor annarri kringlur og hnoðuðust. Alltaf jafngóðar vinkonur. Á meðan borðuðu móðir annarrar og faðir hinnar bakkelsi, og töluðu um líkamsrækt og megrun.

Síðan fór Móðurskipið á fund, en Hugga móða kom til að passa. Ekki lét hún sér duga að passa eins og hetja, heldur SKÚRAÐI HÚN NÆSTUM ALLA ÍBÚÐINA! Það er náttúrulega ekki hægt að láta hjá líða að monta sig af svona barnapíum. Og það með hástöfum. Þess vegna sit ég núna í tandurhreinni stofu og horfi á Battsjelorinn. En er ekki að skúra. Það er nú frekar skemmtilegt.

Og áfram um sjónvarpið. Hreinustu dásemdir að gerast. Gat ekki farið sérlega snemma að sofa í gær, þar sem Law & Order SVU var allt í einu komið á daxkrá. Þurfti að sjálfsögðu að skoðast á plúsnum á eftir DH. Búin að vera miður mín yfir að hafa náð að missa af þremur þáttum í Americas Next Top Model, en viti menn, sá næsti er upprifjunarþáttur! Til að fullkomna hamingju mína endanlega er Dr. Phil að byrja, klukkan 18 alla virka daga. Eftirmiðdagar hafa öðlast tilgang að nýju. (Annars finnst mér það almennt frekar tilgangslaus dagtími.)

Á mismenningarlegri nótum er síðan heill haugur af óáhorfðum (smygluðum) DVD-myndum í stórum stafla á eldhúsborðin. M.a. fyrsta sería af Ally McBeal, slatti af Shakespeare í ýmsum útgáfum og It. (Svo á ég reyndar líka Miss Marple. Gömlu krappí BBC útgáfuna með vondu leikurunum. Gjörsamlega elska þá. Reyndi að horfa á þá úti, en held ég hafi reyndar sofið yfir þeim flestum.) Vonandi er ekkert af þessu bara á frönsku. Við reyndum að tékka vel á því... en Frakkar hafa einstakt lag á því að blekkja mann.

Við Freigáta erum að jafna okkur af franska lystarstolinu. Það er góð lykt á Íslandi. Nema rétt á meðan maður labbar framhjá nokkrum börum á Laugaveginum.

Jæja, best að einbeita sér að því hvort stelpan sem ætlar ekki að gera dodo fyrr en hún er gift fer með ítalskættaða slepjugaurnum í honnímúnsvítuna.

5.7.07

Hinar beinu, breiðu villigötur

Í mörg herrans ár hef ég flækst um löndin stór og smá. Ráfað fram og tilbaka um flugstöð Leifs Eiríkssonar, oftar en ekki í annarlegu ástandi sökum áfengisneyslu kvölds áður og lyktandi eins og öskubakki. Ýmist ein míns liðs eða í fylgd með fólki í síst skárra ástandi. Í gegnum allan þennan flæking hefur mér aldrei nokkurn tíma dottið í hug að smygla svo miklu sem tómum tyggjópakka inn í landið. Ég man eftir að hafa hent hálfum sígarettupakka, þar sem hann var fram yfir hámarks pakkafjölda. Og í öll þessi ár datt aldrei neinum tollverði í hug að gjóa á mig svo miklu sem einu auga.

En það er margt skrítið í höfðum tollvarðanna. Mér finnst nú ekki liggja alveg ljóst fyrir að grandvarlegar húsmæður úr vesturbænum með þreyttar fjögurra manna fjölskyldur í farteskinu séu grunsamlegri en þunnir og einhleypir heimshornaflakkarar. (Sem er reyndar algjörlega tilfellið þegar ég á í hlut.) Tölvan mín, hin nýkeypta, var grafin upp úr farangrinum á Keflavíkurflugvelli og upptæk ger. Nema hvað? Ekki nóg með það, heldur skyldu allar eigur mínar á himni og jörðu sem ég ekki gæti sannað með skjölum að væru eignir mínar, fara sömu leið, auk þess sem ég skyldi hýdd og tekin af lífi og börn mín brennimerkt sem glæpalýður. Eða þannig hljómaði það allavega í sómakærum eyrum mínum, sem aldrei hef lent upp á kant við eitt einasta lag. Mér segir svo hugur um að þetta verði endirinn á mínum örstutta, en þyrnum stráða, glæpaferli.

Mér var uppálagt að hringja í fyrramálið, og faxa kvittunina (sem ég fann auðvitað ekki í svipinn). Eftir að ég hafði eytt nóttinni andvaka af sálarangist yfir að hafa ætlað að vera svo ósvífin að snuða keisarann um helvítis fimmtíuþúsundkallin, eða hvað það nú var, hringdi ég til Suðurnesja, með sætblíðustu hunangsröddina á yfirsnúningi. Hitti á morgunhressan tollvörð sem sagði: "Æ, æ. Hvaða vandræði?" Og var hinn blíðasti á manninn. Sagði þetta nú ekki vera neinn heimsendi, og klykkti út með því að segja í afsakandi tón: "En líklega færðu ekki tölvuna fyrr en í næstu viku." Ég var búin að búa mig undir að sjá gripinn í fyrsta lagi aftur um jól, ef þá nokkurn tíma.

Það kom sem sagt að því að eitthvað fór að standa á sakaskránni minni. Tölvusmygl. Enda auðvitað fáránlegt að vera komin á fertugsaldur með hreint sakavottorð, eins og kjeeeling. Hefði svosem alveg mátt vera eitthvað kúlla. Í smá stund í gærkvöldi lá til dæmis við að hægt væri að skrifa MÁT (Morð Á Tollverði.)

En ég hugga mig við það að ég var þó allavega að reyna að smygla Makka. Ef PC-smygl væri á sakaskránni minni myndi ég hengja mig.

Af öðru:
Í dag, eftir umpakkningar, fara Rannsóknarskip og Smábátur norður yfir heiðar. Freigátan og hið glæpahneigða Móðurskip verða eftir heima að taka upp smyglvarninginn sem slapp í gegn. Verið er að vinna sig í gegnum tölvupóstflóðið, hægt og sígandi. Þeir sem eiga erindi gætu þurft að vera örlítið þolinmóðir í viðbót, þar sem glæpastarfsemin hefur tekið nokkurn Toll af framvindu morgunsins.

2.7.07

Enn uti

Íslenska lyklaborðið mitt virkar alveg. Fyrir utan að það vill alls ekki skrifa lítið Ú. Og hvers vegna franskar konur fitna ekki? Tja, mig hefur allavega gripið sama lystarleysið og ég átti við að stríða síðast þegar ég var hér. Nú skil ég og man hvers vegna ég fór niður í 50 kíló þá. Hef allavega ekki haft lyst á helmingnum af því sem ég ætlaði að troða í mig hér.

Áðan, um hádegisbil, ætluðum við aldeilis að fara að versla. Brá svo við að það er mánudagur, en þá nenna Frakkar ekkert að opna búðir fyrr en einhverntíma mjög seinnipartinn. Ég furðaði mig í augnablik á því hvers vegna ég vissi það ekki. Áttaði mig svo á því að ef ég hef verið komin út á meðal manna fyrir tvö á mánudegi á Montpellier-árinu, hefur það nú verið mjög alvarleg undantekning.

Svo ég svari Jóni, neim við hefðum alveg viljað sjá aðeins meiri hitabylgjur. Eiginlega er búið að viðra best til verslanaferða... sem hafa reyndar verið stundaðar óspart. Svo erum við búin að skreppa og skoða Avignon og fara á ströndina í Grande Motte og leika okkur ýmislegt fleira um nágrennið.

Jenný, ég var að skoða minn póst áðan, Rannsóknarskip skoðar sinn á eftir, en menn verða að halda áfram að eiga vantalað við okkur, allavega fram á fimmtudag, og sennilega fram yfir næstu helgi, þar sem Rannsóknarskip siglir beina leið norður til söngs í brúðkaupi þegar við komum heim.

Varðandi sjónvarpsgláp þá fær Freigátan nú minnst að horfa á eitt eða neitt. Fjölskyldan hefur farið þvílíkum hamförum í DVD-innkaupum að á hverju kvöldi er slegist um hvað skal vera á dagskrá. Barbapapa er helst hafður í hávegum á morgnana, þegar aðrir heimilismenn reyna að freista þess að fá að sofa örlítið lengur, en hann heldur nú sjaldan í neinar 20 mínútur, þrátt fyrir góðan vilja og mútur í kexformi.

Í örðrum fréttum er það helst að í borginni þar sem ég hélt ég þekkti engan lengur er bókstaflega ekki þverfótandi fyrir fólki sem ég þekki. En mig minnti endilega að allir hafi verið á leiðinni burt, stuttu í kjölfarið á mér. Sumir eru farinir og komnir aftur. Og enn eru allir á leiðinni burt. En maður veit nú ekki alveg hvort maður á neitt að trúa þessu lengur. Flestir eru auðvitað orðnir giftir og meira eða minna óléttir. Sá faraldur virðist hafa gengið víðar en á Íslandi.

En nú fer að líða að lokum þessa sumarleyfis hér. Á miðvikudag siglum við heim, eyðum reyndar mestum hluta dagsins í Lundúnum og komum seint heim, í stóru íbúðina okkar, í landinu sem ilmar ekki af hundaskít, þar sem allir tala almennilegt tungumál, og það verður nú bara aldeilis ljómandi.

Og nú er best að boða Rannsóknarskip á svæðið og bjóða honum að gá í póstinn sinn.

Bonsjornei.