18.7.08

Guð í Upphæðum

Ætlaði alveg að fara að fá eitthvað stresskast yfir að sumarið og sumarfríið væri að verða búið. Fattaði svo að enn er líklega um mánuður í að ég komi aftur heimtilmín í höfuðborginni. Og alveg.. hvað? tvær vikur í verslunarmannahelgi? Svo ég er í ágætismálum.

Sem er eins gott. Ekki verður mikið unnið um helgina. Von er á ríjúljongenginu að norðan svo helgin verður líklegast lögð undir menningarlíf, gönguferðir og póker, ef að líkum lætur. Og með í för er nýjasta svilkona mín sem aldrei hefur komið á Austurland, er þar að auki útlendingur og atvinnuferðalangur, svo eitthvað verður að sýna henni af merkilegum stöðum náttúruperlum. 

Svo þá er bara að vona að veðrið hagi sér. Annars er það búið að vera hið undarlegasta í sumar. Rjómablíða í norðlægum áttum og rigningar í suðvestan. Allt öðru vísi en við eigum að venjast hér fyrir austan. Kannski eru pólskipti.

En. Ætla að reyna að vinna fram að hádegi áður en ég fer að undirbúa gestakomurnar ógurlegu.
Spýt í lófana.

17.7.08

Kjaftamyllustræti*

Nú búum við í íbúðinni þar sem amma hennar Ásu Heiðar bjó þangað til í vetur. Þar búum við með ýmsan borðbúnað og innanstokksmuni sem amma mín átti. Í tilefni alls þessa höfðum við ömmukaffi í gær. Það var æði.

Rannsóknarskip skellti í pönnukökur og ég keypti svampbotna og smurði með Bettí Krokker kremi. (Ókei, ekkert mjög ömmó. En vinnandi konan nennti ekki að baka.) En útkoman var hin allra besta. Haugur af fólki kom í kaffi, ekkert allir á sama tíma svo þetta varð svona dáldið rennirí. Og mikill og skemmtilegur kjaftagangur við eldhúsborðið. Svo komu aukabörn á eigin vegum að leika við Freigátuna sem síðan fóru með henni út, yfir í næsta garð og svo þarnæsta garð (þar sem býr hundur) og tveggja og hálfsárs barnið var bara heillengi eftirlitslaust að leika við fólk í grenndinni. Það var opið uppá gátt allan daginn og norðanáttin hafði sig svo hæga að það var algjör rjómablíða úti.

Mér líður þessa dagana talsvert eins og ég búi í bók eftir Astrid Lindgren, eða álíka. Ég þekki nágrannana sem ég hef átt hér í mánuð talsvert betur en ég hef nokkurn tíma þekkt nágranna í Reykjavík. Krakkahjörðin í hverfinu þvælist hérna um alla garða, algjörlega án nokkurra aðgangshamlana og enginn þarf að hafa áhyggjur af þeim. Menn kallast á og segja brandara yfir götuna og limgerðið. Með öðrum orðum þá hefur mannlífið hér lítið breyst frá því að ég var lítil. En það var auðvitað best að vera barn þá.

Ég er farin að segja við Rannsóknarskip (í hálfgríni) að ég sé að huxa um að fala húsið af honum Jóni á Keldhólum og fara ekki rassgat. Ég á allavega eftir að sakna búskaparins okkar hérna við Kjaftamyllustræti.

*Kjaftamyllustræti er hálfraunverulegt nafn á þvergötunni sem hús foreldra minni, núverandi íverustaður minn og nokkur fleiri hús standa við. Þetta nafn held ég að sé komið frá merkilegum karakter sem hét Kormákur Erlendsson og var einn frumbyggjanna hér á Egilsstöðum. Honum þóttu víst kjeeellingarnar eiga til að stansa fullengi á kjaftatörnum í þessari götu. Og það gerist enn í dag. Ég huxa að ég sé búin að eyða samtals nokkrum klukkutímum á kjaftatörnum úti í Kjaftamyllustræti í sumar.

16.7.08

Sumar?

Myndskreytti Papeyjarferðasöguna. Og í tilefni þess að ég var að dæla myndum inn í tölvuna eru hér nokkrar sem sýna sumarið eins og ég hef huxað mér að muna það. Annars hefur þetta nú verið meira svona "beðið eftir blíðunni" og svo hefur hún valdið vonbrigðum, þá sjaldan sem sunnanþeyrinn hefur látið finna til sín. Svo verð ég að fara að vinna. Allt í einu er ekkert að verða eftir af þessu sumri. Það hjálpar kannski líka til við þá skynvillu þetta ljómandi haustveður sem ætlar að ráða ríkjum fram yfir helgi, samkvæmt síðustu fréttum. Menn eru reyndar eitthvað að reyna að spá sunnanátt á sunnudag en ég er nú eiginlega að verða búin að missa trúna á hana. Tauta bara "húmbúkk" ofan í undirhökuna á mér og held áfram að þvo vetrarföt. Eins gott að ég tók margar myndir á góðviðrisdeginum eina.

Systkinin í sólinni, við "okkar" hús.

Freigátan með uppstillingu.

Yfirlýst Rannsóknarskip.

15.7.08

Familí Átíng

Um helgina braust út múgæsing hérna á stórheimilinu. Allt í einu stefndi í að öll systkini mín yrðu á sama stað á sama tíma með tengdabörnum og næstum öllum barnabörnum. Og svo átti í ofanálag að bresta á með þessari líka brakandi blíðu. En bara í þrjá daga.

Það var rokið þvílíkt upp til handa og fóta við skipulagningar á daxferð að þess var ekki alveg gætt að allir væru mættir á svæðið. Svo á laugardaginn var þrusað út í Papey, þrátt fyrir að Ba frænka væri ekki ennþá nema á leiðinni á Hornafjörð, sunnan að.

Lagt var af stað í skítsæmilegu, svosem, en tvær grímur fóru að renna á menn þegar komið var upp á Öxi og farið að rigna. Á Djúpavogi rigndi meira, en létu menn það ekki á sig fá, allir skyldu í bátana! Það var mikill veltingur á leiðinni. Svo mikill að Rannsóknarskip og Freigáta báru bátnefnin frekar illa og voru orðin frekar græn í framan þegar út í eyju var komið. Hraðbáturinn bar sig best og steinsvaf báðar leiðir. Móðurskip gat líka alveg setið niðri í káetu hjá honum, sæmilega hress.

Úti í Papey var ætlunin að fara einn gædaðan hring (í sólskininu) og helst ná nokkrum myndum fyrir Gletting. Skemmst frá því að segja að skyggni var ekkert, það hellirigndi og vindaði þannig að það endaði með því að við litla fjölskyldan yfirgáfum gönguferðina og forðuðum okkur inn í kirkju með krílin. En Freigátan var svo eftir sig eftir sjóferðina að það þurfti að halda á henni líka, og Hraðbáturinn saup hveljur í bumbupokanum, í rokinu. Freigátan var annars manna þurrust eftir volkið, enda var hún sú eina sem hafði tekið með sér regngallann og stígvélin. Aðrir höfðu séð fyrir sér meira og minna sól, allavega þurrt, svo menn voru sérlega illa skóaðir og allir voru orðnir blautir upp að hnjám undireins.

Lox valt gönguhópurinn inn til okkar, eins og fokinn kamar, og blauta nestið var borðað í kirkjunni.


Á leiðinni til baka höfðu menn vit á að standa í bátnum. Og sumir bara úti á dekki, sem var þó ekki allskostar næs í rokinu og rigningunni. Hraðbáturinn svaf bara í bumbupokanum undir björgunarvesti Móðurskips og öðrum tóxt að komast nokkurn veginn heilir til hafnar.

Ég veit ekki með þau í hinum bílnum, en litla fjölskyldan ók til Egilsstaða á brókinni. Mikil heppni að við vorum ekki stoppuð á leiðinni. Og þegar við vorum að læðast inn sáum við okkur til óyndis að barnavagninn, sem hafði verið skilinn eftir úti í blíðviðrinu, var orðinn fullur af rigningu og allur hundblautur.

En, semsagt, allir komu þeir aftur og enginn þeirra fékk kvef. Svo þannig fór um sjóferð þá.

Í gær átti að gera aðra tilraun og fara inn á Kárahnjúka. Í nágrenni við stífluna var skítviðri. Bóxtaflega. Moldrok og ógeð. En svo fórum við lengra inn eftir og þar var þessi líka blíðan og hægt að taka flottar myndir í átt að Snæfelli, Kverkfjöllum og Brúarjökli. En það var komin rigning þegar við komum heim. Og þetta átti líka að vera blíðviðrisdagur, samkvæmt veðurspá.

Og nú er kominn norðan viðbjóður. Nákvæmlega eins og var spáð. Og hann á að standa fram að helgi. Vonandi skánar veðrið nú eitthvað aðeins þá, þar sem þá ætla systkini Rannsóknarskips að koma í heimsókn. Vonandi skánar þó ekki of mikið, því þá gæti Sverrir mágur þurft að vera heima að heyja.

En við förum ekki með þau í Papey.