18.12.09

Frasar hruns og kreppu

Guð blessi Ísland.

Þið eruð ekki þjóðin.

Einhliða Evra.

Maybe I should have.

Byltingin lifi

Vanhæf ríkisstjórn.

Og svo:

Er ekki sama hvaðan gott kemur?

Og örugglega margt fleira. Ætli einhversstaðar sé ekki orðræðunjörður að safna þessu?

Jólafrí frá „ástandinu.“

Helst ætla ég ekki að stökkva aftur upp á nef mér fyrir jól. Ekki svo að skilja að valdastéttin komist upp með neinn moðreyk... þetta reyndu þáverandi stjórnvöld líka að gera í fyrra. Keyra á allskonar vitleysu fyrir jól og vona að það gleymdist síðan yfir steikinni... En menn sneru bara fílefldir og hugdjarfir til baka og veltu ríkisstjórninni í janúar.

Nú er hins vegar í ljós að það er alls ekki nóg. Það þarf að velta stjórnkerfinu. Og líklega garga á þessa ríkisstjórn nonnstopp svo hún geri eitthvað í því að kasta af stjórnkerfinu og þjóðinni allri oki auðmanna. En ég hef trú á að þetta takist. Í janúar, með mallann fullan af hangikjeti og rakettureyk.

Ég er samt ekki komin í jólafrí í vinnunni. (Eða á maður að segja „vinnunni“?) Ætla að átlæna einn fínan kafla um nokkrar mismunandi aðferðir við orðræðugreiningu, í dag og eftir helgi. Það verður nú bara fínt.

Fór í gær og keypti næstum allar jólagjafir, nema í þá allra nánustu. Við hjónin ætlum að skreppa í smá ferð eftir. Unicef-búðina og svona. Klárum kannski bara dæmið. Hingað til hefur mér allavega tekist að sneiða alfarið hjá öllum mafíum. Jólamaturinn verður svo verslaður hjá Kaupásmafíunni, en ekki Baux, vegna þess að af tvennu illu fylgir nokkur alvara.

Frá og með deginum í dag eru Rannsóknarskip og Smábátur komnir í jólafrí. Þar sem þeir fá að sofa út fram að jólum fá þeir til tevatnsins alla seinniparta og verða settir í að klára allt sem ekki hefst um helgina.

Ég veit ekki hvort nokkuð verður nennt að baka. Með oggulítið eldhús sem ekki er hægt að loka, lítil börn sem ekki eru enn gjaldgeng í að hjálpa til, (en góð í að sulla og líkleg til að brenna sig) og aðeins 3 daga heima um jólin, (þar af jóladaginn alfarið í jólaboðum úti í bæ) virðist eitthvað svo lítill tilgangur með því. Ég kaupi kannski einhverjar kökulufsur og skammast mín ekki baun. Ef ég baka eitthvað verður það líklegast einhver tilraunamennska úr Silfurskeiðinni.

Mig langar miklu meira að þrífa bara og skreyta á morgun (og kannski eitthvað hinn) og vera svo bara í einhverju tjilli fram að jólum. Kannski verði meira að segja eitthvað úr því að mæta í Friðargöngu á Þollák. Sem ég hef ætlað að gera síðan ég flutti í bæinn, en aldrei komið í verk.

Kannski verður þetta þessi rólegi og skemmtilegi jólaundirbúningur sem maður sér alltaf í jólaauglýsingunum en aldrei heima hjá sér?

Lítið stressað hjá okkur, held ég bara.

17.12.09

Andskotinn!

Djöfull er leiðinlegt að verða svona fúll rétt fyrir jól.

En Bjólfur T. Hor er á leiðinni á fullu inn í atvinnulífið á Reykjanesi. Og iðnaðarráðherra veitir honum ívilnanir og undanþágur. Og aðstoðarmanni forsætisráðherra er sama hvaðan "gott" kemur. (Gott verandi peningar, off course.)

Ef gaurinn sem stal evrunum af hinum gaurnum í fyrradag myndi nota þær til að kaupa húsið af þeim sem stolið var frá... væri það gott? Er alveg eðlilegt og sjálfsagt að Bjögginn komm bara með peningana sem hann stal frá hérlendum sem erlendum (og við erum að skuldsetja okkur til helvítis til að borga) og fái að fjárfesta með þeim í vitrænum framkvæmdum hér á landi sem gætu meiraðsegja skilað hagnaði, og fitni svo eins og púkinn á fjósbitanum á öllu saman? Og fá dæmið þar að auki á brunaútsölu?

Árum saman fengu þessir menn lán á lán ofan, ívilnanir og undanþágur hvar sem þeir komu, út á fésin á sér. Almenningur naut þess ekki að geta fengið nokkurra milljarða lán til að kaupa banka, síðan fullt í viðbót og láta síðan ríki og þjóð borga.

Og nú er komið að skuldadögum, eða ætti að vera það, og þá fá menn að koma með þýfið og kaupa atvinnulífið! Er ekki kominn tími til að "mismuna" gegn, þó ekki væri nema, lykilmönnum í þjóðargjaldþrotinu?

Mig langar að gubba og grenja, ekki búa hérna lengur og fer beinustu leið niður á Austurvöll eftir áramót og kveiki í helvítis jólatrénu.

Hefur eitthvað breyst á spillta Íslandi? Mér líður allavega bara nákvæmlega eins og á sama tíma í fyrra.

16.12.09

Aumur blaðamaður... en hver skeit?

Bjarni Ben fer ekki vel út úr orðræðugreininguni í dag.

Einu sinni sagði einn sjálfstæðismaður sem ég þekki við annan, sem ég þekki líka: Þegar þú ert búinn að skíta á þig verðurðu að hafa vit á að láta eins og lyktin sé af einhverjum öðrum.

Bjarni er greinilega að reyna að tileinka sér þetta, í þessu viðtali.
Hvernig honum gengur fer síðan alveg eftir því hvern maður talar við...

Af gríðarmikilli akademískri leti í kjölfar stórsigurs

Kem mér hreint ekki að verki. Er búin að fá mér kaffi, lesa allt sem stendur á internetinu. Nenni samt hreint ekki að halda áfram með annars stórspennandi bók Normans FairClough um pólitíska orðræðugreiningu. (Sem er samt ekkert eins leiðinleg og hún hljómar.)

Sennilega eitthvað með það að gera að ég er búin með öll verkefni sem er "formlega" búið að segja mér að gera á þessari önn og ég er að fara að hitta leiðbeinendurna mína seinna í dag og veit ekkert hvað þeir ætla að segja.

Svo er ég bara montin. Fékk mína fyrstu einkunn í doktorsnámi. Hún var 9,5. Ég sit og horfi dáleidd á tölfræðiútreikningana úr doktorsnáminu mínu. En þar stendur: Meðaleinkunn: 9,5. Ég ætla að horfa reglulega vel á hana áður en næsta einkunn kemur og eyðileggur þetta. En þessi einkunn var nú í Brechti. Sem ég hef nú eiginlega enga afsökun í heiminum fyrir að fá lægra í.

Ég er enn ekki farin að undirbúa jólin. Eiginlega neitt. Gleymdi að kveikja þremur kertum á, á sunnudaginn. Er reyndar að fara í jólakaffi á leikskólanum hans Hraðbáts á eftir. En jólagjafir, jólatiltektir, jólabakstur... ekki einu sinni farið að pæla íessu. Kæruleysi? Líklegast.

Vonandi jólnar yfir mannskapnum um helgina. Svo verða tveir virkir dagar þar sem allir verða í jólafríi nema litlu ormarnir. (Og hugsanlega ég. Eftir því hvað menn segja á eftir.) Þá kemst vonandi eitthvað í verk.

Geeeeisp! Það endar með því að ég fer bara út að hlaupa í myrkrinu.

15.12.09

Sjallar! Vakna!

Í pólitík er ég einhversstaðar talsvert vinstra megin við VG. En ég hef áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum. Undanfarna daga hef ég verið að lesa, hér og hvar (man ekki einusinni hvar) að stefnubreyting hafi orðið hjá sjöllum á landsfundinum síðasta, þegar skýrslu svokallaðs endurreisnarhóps hafi verið kastað fyrir róða og ákveðið að halda bara áfram, einhvernveginn. Bísness es júsjúal.

Það getur vel verið að þessi skýrsla hafi verið "vond" og illa unnin, eins og einhverjir segja en að stilla upp (meintum) stórfyrtækjabröskum og kúlulánafólki í fremstu víglínu getur bara ekki talist sérlega klókt, á þessum síðustu og verstu tímum.

Ég sé algjörum ofsjónum þessa dagana yfir stóru verslanakeðjunum og risafyrirtækjunum sem eru meira og minna í eigu þeirra sem settu þjóðina á hausinn með braski. Þeir virðast eiga allt, í gegnum endalausa vafninga og eignarhalds- eignarhalds... eitthvað. Og þeir eiga greinilega bara að fá að halda áfram að braska. Eins og vindurinn. Og fá fyrirgreiðslu frá ríkinu til að taka þátt í að stofna fleiri fyrirtækja, sbr. Bjólfurinn sem ber beina eða óbeina ábyrgð á þriðjungi allra skulda ríkisins í dag.

Ég man þegar Sjálfstæðismenn voru málsvarar smáfyrirtækja. "Lítilla" kaupmanna og útgerðarfyrirtækja sem reyndu að standa í samkeppni við stóru vondu Samvinnuhreyfinguna og útgerðarrisana. Þá sá maður fyrir sér feita og gráðuga svíðinga sem voru að reyna að fara illa með sjómenn og bændur. Núna er allt annað í gangi. Íhaldið (orð sem maður heyrir of sjaldan) gæti auðveldlega tekið sér stöðu sem vinur litla viðskiptamannsins og gegnt lykilhlutverki í því að leiðrétta samkeppnisumhverfi í íslenskum viðskiptum. Nokkuð sem liggur í eðli flokksins, grundvallarstefnu og sögu.

En það gerir hann aldrei með góðærisplebbana fremsta í flokki.

Er ekki nóg að ríkið sé að hlaða undir gosana þó sjallar geri það ekki líka? Skýtur ekki nokkuð skökku við að djöflast á Samfylkingu fyrir (meinta) hliðhylli Baugs og vera síðan með hinn tvíburaturninn undir verndarvængnum? Eru stjórnmál Íslands kannski líka komin í einkaeign Baugs og Bjólfanna og koma okkur skrílnum þess vegna ekki við?

Þetta síðastnefnda óttast ég að sé rétt, í hugum stjórnvalda og hinnar fámennu valdastéttar á Íslandi. Þess vegna spái ég róttækri, og líklega blóðugri, byltingu ekki síðar en á vordögum.

14.12.09

Jóla Jólajóla

Liðin er fyrirjólunarhelgin ógurlega. Farið var í sumarbústað Ingömmu og Ólafa og laufabrauð steikt á mettíma. Allir krakkar fengu að fara í pottinn með ömmum, öfum og pöbbum og skemmt sér var í hvívetna. Étin hrefna og svona. Svo var drullumallað rækilega úti í stórum polli áður en heim var haldið.

Á öðrum vígstöðvum var síðan Jólahrun Hugleiks frumsýnt í Hugleikhúsinu að Eyjarslóð. Ég held það sé alveg óhætt að mæla meððí. Heilmikið sungið, dáldið leikið og fíflast.
Síðasti sjens í kvöld klukkan 20.

Þegar öllu þessu er lokið fer nú að verða kominn tími til að undirbúa sjálf jólin. Á heimilinu hefur ekki verið bökuð svo mikið sem ein kaka. Keypt í mesta lagi ein og ein „random“ jólagjöf, húsið væri enn í rúst ef heimilisgesturinn Bára hefði ekki tekið geðveikt vel til á meðan við vorum í bústað (og svo fór hún bara austur án þess að við næðum að þakka henni fyrir eða neitt. Hún verður að fá eitthvað voða fallegt í þrítuxafmælisgjöf á milli jóla og nýjárs.)
Og allt eftir þessu.
Líklega þarf eitthvað að taka á honum stóra sínum í jólaundirbúningsmálum heima fyrir á kvöldin í vikunni.

Annars er syndróm sprunginnar blöðru eitthvað að gera vart við sig. En það gengur víst ekki. Ég ætla að gera eitt rannsóknarverkefni í vikunni. Um orðræðugreiningu. Held ég.
Já, og svo er hlaupaveður sem ég ætla að nota rækilega, þennan klukkutíma sem nokkurn veginn dagbjart verður um hádegisbilið.