27.1.05

Það er blessuð blíðan.

Farin útá land.
Líklega óverendát fram á mánudag.
Heilsist.

26.1.05

Jeij! Ætla til Akureyrar á morgun! Og verður það mikil gleði.
Vænti þess að geta heimsótt hana Rannveigu mína á fæðingardeildina þar, þar sem hún dvelur í góðu yfirlæti (vona ég) með flunkunýja barninu sínu sem reyndist vera drengur, öllum að óvörum. Best að færa þeim eitthvað blátt.

Nýr prentari er að flytja inn á skrifstofuna mína. Viðbúnaður er slíkur að halda mætti að við Vilborg værum líka eignast erfingja. Komum allavega til með að sýna hann af jafnmiklu stolti næstu daga og slíkur væri.

Og í morgun hringdi maður á skrifstofuna sem kallaði mig "heillin". Það er gott orð. Næstum jafn indælt og "gæskan".

Síðan ég hlustaði á fólk kveða rímur í gær er ég búin að vera að reyna að rifja upp rímurnar um ómennin sem hún Jonna hóf Sálir Jónanna á um árið:

Hann var flár og fjöllyndur
firða rétt ei virti
orðljótur og önugur
ei um vinsemd hirti.


er það eina sem ég man. Þetta voru allt skemmtilegar rímur
Man einhver meira? Ég man að ein endaði á: ...var oft seinn á fætur.

24.1.05

Ólíkt hafast menn að. Tvær embættistökur eru nýafstaðnar.

Annars vegar var það hann Bush, sem toppaði sjálfan sig í undarlegum frösum. Hann ætlar að frelsa heimsbyggðina. Það minnti mig pínulítið á Simpson-þátt þar sem allir tóku sér Bart Simpson til fyrirmyndar og höguðu sér eins og þeim sýndist. Vandamálið við frelsi einstaklingsins er nefnilega það að það rekst stundum á við frelsi annarra einstaklinga. (Frelsi hermanna til að pynta fanga í Írak rekst til dæmis harkarlega á við frelsi Íraka til að láta ekki pynta sig...) Svo er nú kannski ráð að athuga aðeins ástandið í þeim löndum sem Bandaríkjamenn eru búnir að "frelsa". Eftir því sem manni sýnist frá Afganistan og Írak eru menn nú ekkert að sleppa sér í friði og velmegun og öðru því sem Bush vill meina að frelsinu fylgi... Og næst sýnist manni eiga að sprengja hús í Íran. Mikið held ég að Íranir verði nú hamingjusamlega frjálsir yfir því. Mesta firra og ófrelsi að búa í húsum alltaf.

Svo er það náttlega hann Júsjenkó sem var að sverja embættiseið í Úkraínu. Hann ætlar að einbeita sér að því að uppræta spillingu og fátækt heima hjá sér. Nokkuð sem náttlega fyrirfinnst ekki í hinum snarfrjálsu Bandaríkjum, eða hvað?

Það vantar fleiri Júsjenkóa. Taka til heima hjá sér, áður en menn fara að vaða offari annars staðar.
Nú eru þeir alveg að sleppa sér í grunninum við hliðina. Það eru reyndar búin að heyrast þaðan höggborahljóð og sprengingar nokkuð stanslaust síðan ég hóf störf hér, en í dag er þetta eins og maður sé með helv... höggborinn í rassinum. Ég er reyndar að vona að það fari nú að hrynja duglega úr loftinu, svo við getum látið byggja nýtt handritasafn, Bandalaginu að kostnaðarlausu.

Annars er nokkuð tíðindalítið af vesturvígstöðvunum þessa dagana. Í gang er farið æfingaferli sem þegar lítur út fyrir að verða eitt hið alskemmtilegasta sögunnar, hlutverk mitt sem aðstoðarleikstjóra felst í því, enn sem komið er, að hella uppá kaffi og hlæja mig svo vitlausa yfir tilþrifum leikara og leikstjóra. Hef alveg séð það svartara. Annars er haldin æfingadagbók á Hugleixvefnum, vilji menn vita meira.

Svo er mig farið að langeygja talsvert eftir Rannsóknarskipinu mínu. Langtímasamverur yfir áramót gerðu ekki annað en að æsa upp hungur eftir fleiri slíkum. Og gerfifrjóvgun vakti óvænta ílöngun í alvöru. Og allt þetta hefur síðan afleiðingar í endalausu símavæli. Mig langar allavega til Akureyrar. Sem straxast. Annars er ég líka að vonast eftir Árnanum mínum í snöggt viðlit upp úr næstu helgi. Verður þá Kátt í Höllinni.

23.1.05

Alheimsleti náði sögulegu hámarki. Svaf meira og minna til seinniparts. Og gerði síðan... ekkert. Og enginn til frásagnar, einu sinni.

Hvaða asni fann líka upp á því að maður þyrfti alltaf að vera að gera eitthvað?