19.12.08

Núnú...

Prófið var í gær. Ég skrifaði alveg í tvo og hálfan tíma. Veit að öðru leyti ekki neitt. En hlýt að vita eitthvað bráðum. Alveg takmörk fyrir því hvað er hægt að vera lengi að fara yfir tvær ritgerðir og þrjú próf. En í dag er hins vegar eitthvað frost í duglegunum. Ætlaði þvílíkt að gera allt mögulegt í dag og rúmlega það. En var aðallega að halda á Hraðbátnum og fór svo bara í heimsókn út í bæ með Freigátuna seinnipartinn.

Við fórum að hitta kjeeellingarnar sem voru með okkur í grindkvalasundinu fyrir einum þremur árum síðan. Núna er ekki jafnmikið að gera hjá okkur þegar við hittumst og þegar við vorum að því með nokkurra mánaða kríli en talsvert meiri hávaði. Og mjöööög gaman. Ég dró Freigátuna öskrandi heim um sjöleytið.

Og nú sitja allir á blístri eftir pitsuát. Og við nennum ekki að svæfa börnin eða byrja á nokkru nytsamlegu. Enn er ófært um allt hús og heill haugur af jólagjöfum óinnpakkaður og ósendur út á land. Ekki einu sinni farið að huxa neitt um heimafólk.

Kæruleysið.

18.12.08

Bátur í vatni

Meðan Móðurskip svitnar yfir prófinu sínu ætla feðgarnir Rannsóknarskip og Hraðbátur saman í síðasta sundtíma þess síðarnefnda. Eins og sjá má á myndunum er það ævinlega gríðarlega gaman. Freigátan fór í sinn síðasta tíma í gær en hún var svo oft lasin að hún missti af myndatökutímanum. Svo ætla pestargemlingarnir að taka sér sundpásu fram á vorið þar sem farið er að heyra til undantekninga að þau komist og ekki ætla ég að fara að ímynda mér að einhver breyting verði á því fyrr en kannski í vor.



Etrer

Ég er með prófkvíða. 
Smábátur er á síðasta skóladegi fyrir jólafrí. 
Rannsóknarskip er á næstsíðasta skóladegi fyrir 15. ágúst. 
Freigátan er á jólaballi í leikskólanum með hósta. 
Hraðbátur er með kúkableyju.

Kláraði ritgerð í gærkvöldi. Þarf að prenta hana út og endurlesa eitt leikrit. Mæting í próf klukkan 13.30. Dammdammdammdammm – Hryll. Setur þó hlutina í samhengi að það verður próf í franskri málfræði í sömu stofu. Þegar mér finnst ég vita minna en ekkert um hvað ég er að skrifa ætla ég bara að hugsa um hvað ég er heppin að vera ekki í prófi í franskri málfræði.

Og klukkan 16.30 verð ég fegnasta kona í heimi og get einbeitt mér að jólunum.

17.12.08

Pffff

Ef fólk fer inn í allmennt afgreiðslurými banka og mótmælir spillingunni sem allir vita að er þar við lýði, er það þá að "ryðjast"

Og Reynir Traustason lætur undan þrýstingi. Þá eru nú krosstrén farin að bregðast. Ég hefði nú frekar trúað honum til að birta einmitt helst þær fréttir sem reynt væri að leggjast á hann um að birta ekki, segja í leiðinni frá því að honum hefði verið sagt að birta þær ekki og gefa eigendum blaðsins og öðrum "frammámönnum" í þjóðfélaginu fokkmerki í leiðinni. Við erum að tala um sama manninn og hikaði ekki við að snapa slagsmál við dótturfélag Hells Angels um árið. Ríkukallarnir eru greinilega meira skerí heldur en gaurarnir með hnífana og hnúajárnin. 

Og það sem verra er, þeir halda greinilega ennþá öllum þeim völdum sem þeir vilja og eru með fjölmiðlana í hálstaki. Nú langar mig að vita hvaða fréttir aðrar hafa verið "stoppaðar"

Og þetta gengur víst ekki. Próf og ritgerðaskil á morgun. Best að reyna að halda á spöðum.

16.12.08

Jessssss!

Þá er komið á hreint hvað ég fer að gera eftir áramót. Semsagt verð ég að vinna lokaverkefnið mitt í "starfsnámi" á forlaginu Bjarti! Sem mér finnst þokkalega kúlst í heimi! Var að koma út viðtali og kann mér ekki hóf í upphrópunamerkjunum! Vúhú!

Skemmir hreint ekki fyrir að ég er mikill aðdáandi þessarar útgáfu og hef verið allar götur síðan bóheimlegur náungi sem þá átti þessa spúttníkklegu útgáfu bauð bókmenntafræðinni alltaf í fordrykk fyrir árshátíðir. Sá sýndi síðan einstaka snilld þegar hann hirti útgáfuréttinn af Harry Potter þegar stærri spámenn höfðu hafnað honum. Ekki alvitlaust.

Aukinheldur er skrifstofa þessa útgáfufyrirtækis staðsett í um 30 sekúndna göngufæri frá heimili mínu.

Þannig að svona verður lífið eftir áramót: Eldsnemma á morgnana fer ég með Freigátuna þessa 10 sekúndna leið sem er yfir í leikskólann hennar. Þaðan fer ég skrefin sem ég á eftir yfir í Bjart, eða aftur heim til mín af því að ég verð líka að einhverju leyti að vinna þar. Þar verður líka Rannsóknarskip í sínu fæðingarorlofi, tekinn við sjálfsmorðsvakt Hraðbáts, sem er orðin ærið verk. Þá á Smábáturinn lengst að fara, þessa 3 - 5 mínútna leið í skólann sinn.

Í kreppunni og volæðinu verður allavega gríðarleg hamingja þarna á lófastórum bletti í gamla Vesturbænum.

---

Mér liggur mikið þrum á hjarta varðandi ríkisstjórnina og fjárlögin.
Finnst gríðarlega táknrænt að þau hafi þurft að fara bakdyramegin á ríkisstjórnarfund.
En verrrð bara að fara að læra.

15.12.08

Ljótan

Komin með ljótuna, lötuna... já og ógeðsleguna. Hékk í hlöðu bókanna í marrrrga klukkutíma. Veit ekki hvort ég man neitt af því sem ég las. Enda má ég taka það allt með í prófið.
Veit heldur ekkert hvað snýr upp eða niður á neinu. Jólavesen og prófavesen til skiptis innan um drasl og kúkableyjur. Svo ætti ég að vera farin í bað og að sofa en hangi bara og glápi á 2. seríu af The Wire, í annað sinn, reyndar bara ekki leiðinlegra en í það fyrsta, Rannsóknarskipi til samlætis en hann þarf að fara yfir einhver skólaverkefni fram á rauða.

Vildi óska að ég væri búin að baka. Þá skyldi ég éta á mig fleiri göt en enduðu á ausutetrinu.

Hjúkk

Var alveg að verða megastressuð yfir öllum jólagjöfunum sem þurfa að fara út á land í vikunni. Skólinn að klárast hjá okkur Rannsóknarskipi báðum í vikulokin og ég var ekki alveg að sjá tímann duga... en svo fóru Rannsóknarskip og Smábátur bara út í gærkveldi og redduðu öllum norðurgjöfum í einum grænum. Þá eigum við Friðrik bara eftir að skreppa út og versla eitthvað fátt og smátt. Svo verður dvalið langdvölum yfir skræðunum. Mikið verð ég fegin á fimmtudagskvöldið. Samt pínu hressandi að fá svona eitt próf og eina ritgerð í lokin.

Í gærkvöldi skrifaði ég lannngan lista yfir allt sem ég ætlaði að gera í dag. 
Best að fara að lesa hann.

14.12.08

Draumfarir

Mig dreymdi að ég væri orðin aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Samt ekki aðal-aðstoðarmaðurinn, heldur bara einn af mörgum. Það var nýbúið að sjanghæja mig í þetta starf og ég var ekki farin að gera neitt en það merkilegast við drauminn var kannski að fjármálaráðherra var Björgvin G. Sigurðsson. É'v'tekki fyrir hvurju það er svosem...

Allavega átti ég svo annríkt eitthvað við að undirbúa þetta starf, í draumnum, að ég komst ekki á Hálfvitatónleika. Í alvöru komst ég ekki á tónleika þeirra Ljótu í gær vegna annríkis, veikinda og almenns aumingjagangs á heimilinu. Treysti á að komast með Eló mágkonu fyrir norðan þann 2. jan.

Úbb. Silfur Egils.