4.5.04

Á eitthvað erfitt með skipulagið þessa dagana, veit einhvernveginn aldrei hvað ég á að vera að gera, á daglegum basís... er örugglega að gleyma einhverju, ætti að vera ég veit ekki hvar að leita að ég veit ekki hverju.

Kannski eru það bara plön um leikfélagalausan mánuð sem eru að fara svona með mig. Samviskan að naga mig fyrir að vera með klærnar út um allt land að pína menn til að setja upp einþáttunga fyrir hátíðina á Dalvík án þess að vera að gera baun í bala sjálf.

Allavega, veit aldrei hvaða dagur er, er alltaf jafn hissa á því hvað klukkan er og get ekki skipulagt einu sinni fram fyrir nefið á mér þessa dagana. (Og ef ég reyni það þá gleymi ég jafnóðum hvað ég var að ákveðja.) Held ég hafi kannski smitast af óvirkum alkóhólisma og geti þessvegna bara tekið einn klukkutíma í einu.

Það fer ekki vel í fólk með kvíðaröskun.

3.5.04

Þegar maður nennir ekki að skrifa ritgerð dettur manni ýmislegt skemmtilegt í hug. Eins og t.d að garfa í internetinu, lesa blogg hjá ókunnugu fólki og gúgla öllu sem manni dettur í hug. Ef ég mætti t.d. skila inn öllu sem ég er búin að komast að núna sem er ekki ritgerðartengt, þá væri ég komin með rannsóknarvinnu upp á þúsundir blaðsíðna.

Í dag komst ég t.d. að því að fastapöbburinn minn úti í Montpellier er kominn með þessa líka fínu heimasíðu . Nú þurfa þeir bara að finna leið til að geta selt mér ítalst kaffi á morgnana í gegnum netið. Þeir mættu líka hafa nýjast slúðrið af svæðinu á vefnum sínum.

Svo komst ég líka að því að ég hef verið á framboðslista til aðþingiskosninga. Árið 1999. Fyrir Anarkista. Í 21. sæti. Jahérnahér. Þar með er líklega úti um pólitískan frama. Sjitt. Ég man ekkert eftir þessu og er ekki einu sinni viss um að ég hafi vitað um þetta pólitíska frumhlaup mitt á sínum tíma. Ég hef allavega kosið alveg bandvitlaust...

Jæja, þá er ég búin að "læra" nóg í dag. Best að fara heim að prjóna. Keypti mér svona líka ljómandi lagleg görn áðan.
Þá er rúmlega mánuður í útferð og ég er búin að gera túdú-lista. Á honum er fátt, en alltsaman alveg hrúthundandskoti leiðinlegt. Endurnýja vegabréf, sækja um Visakort, og sollis. Oj. Þoli ekki að fara í passamyndatökur. (Sem er skýringin á því að myndin í debetkortinu mínu er síðan ég var 17 ára og sköllótt.)

Af skemmtilegri fréttum er það helst að mér skilst að nýr einþáttungur eftir mig sé á leiðinni á svið, hann heitir opinberlega "Listin að lifa" en óopinberlega gengur hann undir nafninu "Kúkaþátturinn". Svo er Hugleikur að leggja lokahönd á nokkra einþáttunga eftir hina afkastamiklu Þórunni Guðmundsdóttur og mér skilst að það eigi að sýna þá í Kaffileikhúsinu föstudags- laugardags- og sunnudagsköld um komandi helgi. Nánar auglýst síðar, en það sem ég hef séð og lesið af þeim eru hreinrætaðar snilldir og menn ætti ekki að láta þennan gjörning framhjá sér fara.

Svo fer að líða að Bandalagsþingi og einþáttungahátíð að Húsabakka...

...og þá man ég það. Mig dreymdi í nótt að ég var á skólanum á Húsabakka, en í draumnum ruglaðist þetta einhvern veginn allt saman við bernskuminningar úr Sumarbúðum Þjóðkirkjunnar á Eiðum. Hef aldrei áður áttað mig á því, en þetta eru ótrúlega svipaðar upplifanir.

Annars er ég náttlega ekkert að fara að vera þar. Búin að þrusa öllum yfirdráttarheimildum í botn og borga gjöld og ferðir til Írlands. Enda farin að grípa mig hin týpíska ferða-ógleði. Merkilegt að ég skuli alltaf vera að þvælast eitthvað. Eins og ég líð andlegar og líkamlegar kvalir við það. Verð hreinlega geðvond við tilhuxunina um að rífa mig upp eldsnemma á laugardaxmorgni til að fara í flug, og svo annað flug, og svo rútu, og hefja að því loknu einhverja hálfsmánaðar búsetu hjá ókunnugu fólki (sem eru örugglega bjánar) í einhverju landi sem ég hef aldrei komið til. Ojogpjæj. Held ég sé búin með ævintýraþrána fyrir lífstíð. Bara eins gott að þetta námskeið verði tómt gagn og gaman.

2.5.04

Sá hina stórskemmtilegu kynningu á Júróvísíonlögum ársins í gærkvöldi. Algjör snilld! Búið að setja saman panel úr skandinavískum júróspekingum sem tjá skoðanir sínar á lögunum. Segi kannski ekki að umsagnir séu alveg að farast úr innihaldi, en skandinavískan gefur öllusaman skemmtilega kontrapúnktískt yfirbragð. Obbosslega gaman að því.

Nokkrar umræður spunnust um notkun þjóðararfs í tónlist í júró-lögum, mikið hryllilega væri nú gaman ef Íslendingar þyrðu að senda einhver skemmtilegan fimmundasöng í fallegum flutningi í staðinn fyrir að tefla endalaust fram hinum flatneskjulegu súkkulöðum þjóðarinnar. Eða ef Færeyingar tækju þátt og sendu Tý með eins og einn nýjan föröjskan dans?

En, því miður, flestir virðast vera að reyna að herma eftir einhverjum hallæris-popp-bræðingi og úr öllusaman verður eins stór flatneskja. Syndogskömm.

Sit annars bara með pínulítið gat í handleggnum og þykist skrifa ritgerð þessa helgina og velti því fyrir mér hvar dagar lífs míns hafa lit sínum glatað. Er ekki frá því að það hafi verið um svipað leyti og ég fékk þá forkastanlegu hugmynd að að væri góð hugmynd að fara í mastersnám. Sem var aftur bein afleiðing af því að ég nennti ómögulega að vinna.

Svona getur nú bölvuð letin komið aftan að manni. Mánuðurinn fyrirfram ónýtur í stressi og akademísku þunglyndi, eins og flestir maímánuðir lífs míns.

Hrrrmpf.