Þá er ég orðin hugfangin af Stúdentagörðunum. Og skil ekkert í mér að hafa ekki hugkvæmst að selja og sækja um þar fyrr. Miðað við leiguverð á svæðinu er þetta bara svo... svín-ódýrt!
Er að reyna að sjá fyrir mér hvernig er hægt að krumpa liðinu saman í þriggja herbergja íbúð... Það bara hlýtur að vera hægt í smá stund. Ég geng um með dollaramerki í augunum og sé fyrir mér hvað við getum sparað marga peninga með því að leigja á undir hundraðþúsundkalli á mánuði, með hita, rafmagni og interneti, og fengið svo húsaleigubætur. Tala nú ekki um ef smuga væri að einhver örlítill afgangur yrði af íbúðarsölunni.
(Og ég ætla ekki að svekkja mig á að hugsa um útborgunina sem við gerðum á sínum tíma, sem er auðvitað horfin í hrunið. Ef við komum nokkurn veginn skuldlaus undan þessu skal ég bara fantavel við una.)
Ég kann vel við tilhugsunina um að hætta að eiga húsnæði og skuldir. Og ég hugsa að ég vilji ekkert kaupa mér "fasteign" aftur nema ég sé alveg hundraðogfimmtíu prósent viss um að ég ætli að búa í henni þangað til ég dey. Eða væri allavega til í það. Eiginlega ætti maður alltaf að fá að prufukeyra fasteignir sem maður kaupir. Leigja þær í hálft til eitt ár og ákveða sig svo.
En, já, Stúdentagarðarnir heilla alveg ferlega núna. Fjölskyldugarðarnir, það er að segja. Börn á aldri við börnin mín í hverri íbúð, rólóar og leiksvæði allt um kring, leikskólar í sama húsi, eða þarumbil, fólki umsvifalaust hent út fyrir fylleríislæti á nóttunni... Ég er til. Ég væri næstum til í að fara með stóðið niður í 60 fermetra uppá allan þennan lúxus!
(Næstum... en samt ekki alveg.) (Þó það væri ódýrt.) (Hmmm. Sjáum til.)
Svo hef ég bara búið ferlega mikið á görðunum. Og þótt það alveg ljómandi. Og svo skemmtilegt með það að einn fyrsti sambýlingur minn þar, hún Björk, vinnur einmitt á skrifstofu Stúdentagarðanna núna.
Tilviljun?
Ég held að alheimurinn hafi verið að reyna að segja mér eitthvað alveg frá því að ég komst að því.
Svo er ár kanínunnar hafið í Kína.
En það ku einmitt vera svona dandalagott ár þegar allt er með friði og spekt og gengur upp!
9.2.11
7.2.11
Á vergang!
Vegna allskonar held ég að við séum eiginlega alveg búin að ákveða að skella íbúðinni á sölu og vera á vergangi með familíuna síðustu tvö árin áður en við hyggjum á hina löngu ofskipulögðu Námsdvöl Erlendis. Það þýðir að við ætlum að taka bjartsýniskastið og athuga hvort við getum ekki fengið einhver eðalfín híbýli, helst í gamla vesturbænum, helst stærri en við vorum í, helst á undir tvöhundruðþúsundkall, á mánuði, leigð til tveggja ára, eða svo.
Ekki veit ég nú svo ofboðslega gjörla hvort við nennum alveg "á fullt" í þessar ráðagerðir fyrr en eftir Egilstaði-Edinborg, en rétt er að flagga þessu sem mest og víðast. Við reiknum með einhverskonar vistaskiptum í sumar, sirkabát. Og leit að leiguhúsnæði á þessu svæði reynist tilefni til bjartsýnisverðlauna, þá skoðum við auðvitað önnur hverfi og svona. (Svo var ég rétt í þessu að muna að á stúdentagörðum er ein 4 herbergja íbúð... best að spurja Gerði hvernig var að búa í henni...)
Semsagt, allir mega hugsa til okkar ef þeir frétta af einhverju...
Svona annað en þetta er tíðindalítið, nema Freigátan telur nú dagana þangað til hún kemst til hinna langþráðu Egilsstaða (og Míu hunds) (þeir eru fimm) og við Rannsóknarskip hömumst við að ofskipuleggja hvert fótmál Edinborgarferðar. Hótelið okkar virðist vera í leikhúskraðakinu miðju, sem er afar heppilegt, svo þá er bara að komast eftir því hvar helstu bókabúðir eru staðsettar. (Og hvort þær eru opnar á laugardögum eða hvort við þurfum að taka sprettinn um leið og við lendum á föstudagseftirmiðdegi.)
Jæja. Best að skrifa doktorsritgerð.
Ekki veit ég nú svo ofboðslega gjörla hvort við nennum alveg "á fullt" í þessar ráðagerðir fyrr en eftir Egilstaði-Edinborg, en rétt er að flagga þessu sem mest og víðast. Við reiknum með einhverskonar vistaskiptum í sumar, sirkabát. Og leit að leiguhúsnæði á þessu svæði reynist tilefni til bjartsýnisverðlauna, þá skoðum við auðvitað önnur hverfi og svona. (Svo var ég rétt í þessu að muna að á stúdentagörðum er ein 4 herbergja íbúð... best að spurja Gerði hvernig var að búa í henni...)
Semsagt, allir mega hugsa til okkar ef þeir frétta af einhverju...
Svona annað en þetta er tíðindalítið, nema Freigátan telur nú dagana þangað til hún kemst til hinna langþráðu Egilsstaða (og Míu hunds) (þeir eru fimm) og við Rannsóknarskip hömumst við að ofskipuleggja hvert fótmál Edinborgarferðar. Hótelið okkar virðist vera í leikhúskraðakinu miðju, sem er afar heppilegt, svo þá er bara að komast eftir því hvar helstu bókabúðir eru staðsettar. (Og hvort þær eru opnar á laugardögum eða hvort við þurfum að taka sprettinn um leið og við lendum á föstudagseftirmiðdegi.)
Jæja. Best að skrifa doktorsritgerð.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)