24.12.03

Óska öllum vinum og vandamönnum, kunningjum, velgjörðarmönnum sem illviljuðum, nær og fjær, til sjávar og sveita, um landið og miðin,
gleðilegra Jóla og farsældar á ári komanda.
Guð launi allan viðurgjörning á því liðna með óvenju innihaldsríkum jólagjöfum og yljandi jólamat.


*Lesi hver upphátt fyrir sig með rödd Gerðar G. Bjarklind*

23.12.03

Hvað er þetta með skötuna?
Ég veit að það er rökrétt að borða eitthvað alveg fokvont rétt fyrir jól svo jólamaturinn bragðist betur í samanburði, en þarf þess eitthvað? Er jólamatur ekki bara ágætur nú á dögum? Ég skil þetta svosem hérna í gamla daga þegar það var kannski farið að slá í hangikjötið sem þar að auki var af sjálfdauðu og skemmd epli voru notuð í millimálasnakk í staðinn fyrir súkkulaði en komm on! Þetta er 21. öldin. Það eru til ísskápar.
Það er allavega skötulykt inni í nefinu á mér. Einstaklega ójóló.

Við Bára erum annars búnar að vera að garfa í Sögu Daganna, en þar er m.a. að finna ýmsan fróðleik um íslenska jólasveina. Minn uppáhalds er Lungnaslettir. Hann hafði þann leiða ávana að berja börn með blautum lungum. Það gerði líka hann Reykjasvælir, en sumar heimildir herma líka að sá hafi verið með lungun utan á skrokknum. Sexý!

Svo veit ég að það er fullt af fólki hérna í bænum sem mig langar svakalega að hitta, en ég bara veit ekki um neinn.
Sennilega spurning um að fara í kuffélagið eftir vinnu... Eða reyna að láta fólk koma í kaffi í vinnuna!
Er að huxa um að beita hugarorkunni við það. Þori ekki að hringja í fólk á Þollák.

22.12.03

Gleðilegan stysta dag ársins!

Og allir komnir í ískrandi jólaskap. Nú streyma systkini mín og vinir í bæinn sem aldrei fyrr. Á ennþá eftir að gera slatta af hlutum, en nenni þeim ekki. Mig langar miklu meira að skipuleggja hittingar við alla heldur en að sitja heima og föndra með jólapappír og merkimiða. Af hverju er maður aldrei búinn að þessu fyrr, eins og maður ætlar?

Annars á ég eiginlega líka að vera að huxa fyrir því að pakka niður. Ég er að flytja í bæinn föstudaginn 2. janúar, fyrir hádegi. Það vill hins vegar svo skemmtilega til að í öllu millilandaruglinu undanfarin ár þá hefur draslið mitt minnkað alveg svakalega. Akkúrat núna held ég að allt sem ég á komist næstum með flugi á milli staða án þess að fara í yfirvigt! Allavega það sem ég hef með mér hér, eitthvað er í geymslum fyrir sunnan. En þetta er semsagt ein gífurlega jákvæð þróun sem varð á árinu sem er að líða. Nú er draslið mitt allt í einu landi. Um síðustu áramót var það í þrem.

Mér finnst eitt alveg agalegt. Undanfarna daga er búið að vera algjört jólakortaveður. Snjór, falleg birta o.s.fr.v. Í dag er hins vegar komin jólahláka, þannig að snjórinn verður kannski bara farinn þegar Svandís og Jonathan koma á morgun. Það finnst mér mjög slæmt. Þegar fólk kemur alveg frá Frakklandi þá finnst mér alveg lágmark að það fái jólakortaveður.

21.12.03

Hvað er það við jólin
sem fær allar konur til að ryksuga?


Segir í flunkunýju jólalagi sem mér finnst sniðugt. Mér þætti gaman að vita hver það var sem ákvað að flestar kellingar verði alveg snar eftir miðjan desember? Faðir minn hefur ævinlega passað sig að halda sig utan heimilis, eða allavega í útihúsunum, sem mest á þessum tíma. Núna er ég líka búin að búa mér til leiksvæði í bílskúrnum og Bára komin með lykla að Tónskólanum. Við erum sem sagt viðbúin því að flýja að heiman þegar hinn hávaða- og stressbelgurinn mætir á heimilið á morgun. (Altso, systir mín hin eldri.)
Það er samt svo skrítið að mamma mín er alltaf bara stressuð þangað til Hugrún mætir á svæðið með sinn 140 yfir 98 blóðþrýsting og fer að hafa hátt. Eftir að það hefur gerst verður mamma alveg pollróleg.
Kannski er þetta bara eitthvað eðlisfræðilögmál sem gildir bara í desember. Þá þarf einn aðili á hverju heimili að vera yfir þrýstimörkum.
Hmmm?

Persónulega líð ég annars líkamlegar og andlegar kvalir fyrir þrif á heimilum. Sérstaklega svona skipulögð, sem þurfa að gerast á ákveðnum tíma. Mér getur hins vegar alveg dottið í hug að þrífa ísskápinn í febrúar, forstofuna í júlí og taka fataskápana í gegn um miðja nótt á miðvikudegi í október.
Ef fólk eða náttúruöflin ætla hins vegar að fara að segja mér að ég "þurfi" að gera svona hluti á einhverjum ákveðnum tíma þá fæ ég kvíðakast. Það slær út um mig köldum angistarsvita og mig langar að vera að gera hvað sem er annað. Þetta er einhvers konar mótþrói.

Og í honum er ég einmitt núna, sit og blogga þegar ég ætti að vera að taka til í herberginu mínu. Grrrrr....