8.11.11

Jóla! Jólajóla!

Eftir afmæli Rannsóknarskips, sem er 5. nóvember, finnst mér alveg passlegt að fara að hugsa um jólin. Segi ekki að það gerist neitt alveg strax en þegar ég fór í kringluna á sunnudag (degi of seint) til að kaupa afmælisgjöfina hans einsetti ég mér að hugsa líka um jólagjafir. Steingleymdi því síðan alveg en einbeittur brotavilji var til staðar.

Ég er alveg að fara að ná í allavega tvo jóladiska til að setja í bílinn. Jafnvel þrjá. Jóladiskar Sigurðar Guðmundssonar og Baggalúts eru bara allt of góðir til að hlusta bara á þá einn mánuð á ári. Ef ég finn diskinn úr Jólaævintýri Hugleiks getur vel verið að hann fái að koma með. Hann er nefnilega ekkert mjög jólalegur, nema lokalagið sem er svo jólalegt að mann svíður í jaxlana.

Ég er búin að heyra eitt jólalag í útvarpinu. Það var með Baggalút og fjallaði um rjúpnaskytterí.
Venjulega er Last Christmas með Wham fyrsta jólalagið sem ég heyri í útvarpinu. En venjulega finnst mér Pottþétt jól ekki viðeigandi fyrr en á aðventu. Þá má líka Maria Carey koma og jafnvel Barbara Streisand. Boney M. er hins vegar ekki viðeigandi fyrr en í desember.

Jólaóratoróur, jólasálmar og Hátíð fer að höndum ein með Þremur á palli er alltsaman alveg bannað þar til kannski í vikunni fyrir jól.

Á hverju ári ætla ég síðan að gera jólalegt heima hjá mér alveg viku fyrir jól, í síðasta lagi. Það heppnast aldrei. Núna er planið að vera heima um áramótin (sem hefur aldrei gerst utan einusinni þegar þau bar upp rétt fyrir fæðingu frumburðar, að talið var.) Þarf kona þá að baka sjálf?

Einhverjum þykja þetta kannske ótímabærar vangaveltur? En í mínum heimi tekur nokkrar vikur að koma hlutunum í verk... Takmarkið er að koma Sigurði Guðmundssyni og jóladiskum Baggalúts í bílinn áður en jólafasta hefst. Það er ekkert víst að þriggja vikna umþóttunartími dugi.

Svo, ef maður er jólafíkill, en vill halda því leyndu fyrir sjálfum sér og öðrum, þá er þetta tildæmis ekki jólalag!