26.3.04

Það er ekki eins og maður eigi ekki að læra af reynslunni.
Það er ekki eins og þetta hafi ekki komið fyrir áður, svosem.
Það er ekki eins og ég viti ekki að ef maður stenst ekki freistingar þá komi afleiðingarnar beint í skallann á manni.

Eins og segir í Fiðlaranum á þakinu:
"Sá sem spýtir upp í loftið fær það aftur framan í sig".

En samt, en samt.

Þegar sýningin á fimmdudaxkvöldi er búin.
Og þjáningafulli búningurinn er hættur að vera á eigin skinni og kominn úr augsýn.
Og fyrsti bjórinn í anddyrinu yljar.
Og maður má loxins tala upphátt við allt skemmtilega fólkið.
Og einhver segir: "Er ekki ungi?"

Þá fer nú dómgreindin aldeilis út í veður og vind.
Og einn bjór verður að tveimur.
Og þar enda þolmörkin.
Og öllu saman er skolað niður með fleiri sígarettum en lungunum er hollt.
Og þarmeð er búið að leggja drög að einkar fúlum föstudegi.

Já, afleiðingar koma beint frá Satni.

Er ekki 29 ára í dag, heldur 92, súrrealísk í orði og æði.

25.3.04

Framtal á ofbeldi á sviði vakti athygli Varríusar, og hann gerði svoleiðis fyrir sjálfan sig. Má geta þess að hann hefur mikkklu meiri reynslu en ég á því sviði og merkilegt að Hafnfirðingar skulu ekki vera búnir að negla hann. Þar sá ég líka að ég hef einu sinni drepið hann, með mínum baneitruðu skrifum.

Drap annan í einþáttungi sem ég flíkaði í fyrsta sinn á höfundafundi í gær, vakti það nokkra lukku. Svo drepast tveir og einn þykist í einþáttungi sem ég held að eigi að sýna hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs í næstu viku. Svo þarf að fara að klára leikritið með nauðguninni og mannátinu. Var ekki búin að fatta að ég væri svona bráðdrepandi penni... Ætti kannski frekar að fara að skrifa fyrir Leikfélag Hafnarfjarðar, í samkeppni við Lalla Vill!?! Þá gæti ég kannski drepið manninn minn, svona til tilbreytingar...

Er búin að vera mikið að gera við að finna mér annað að gera en að skrifa ritgerð í dag, gekk svo langt að ég lakkaði á mér neglurnar í stíl við búninginn minn. Nú ætlaði ég einmitt að fara að byrja að grúska í heimildum... en... úpps... kominn tími til að fara niður í Tjarnarbíó og sýna leikrit.

Æ, æ.

23.3.04

Jahjarna.
Og vítamínin og ljósin bara svínvirka. Fór í ljós og keypti mér lýsistvennur í gær, og át. Hef ekki verið svona vel vakandi í manna minnum.

Hef legið nokkuð vel við böggi í Leikfélagi Hafnarfjarðar undanfarið, þar sem ég hélt ég hefði eiginlega ekki nóga reynslu í ofbeldi á sviði til að fylla þann ágæta flokk. Er síðan búin að dunda mér við að setja saman ferilskrá með leikafrekum mínum og sé að það er mesti misskilningur.

1992 - Drakúla Greifynja. Ég er geðsjúklingur og Siggadís lemur mig og setur mig í spennitreyju.

1993 - Ef. Ég og vinir mínir í "vonda genginu" beitum hvert annað og Berglindi Rós ofbeldi stanslítið, auk þess sem sama Siggadís hendir mér og öllum vinum mínum í "góða genginu" út. (Þess má geta að téð Siggadís er líka nýr félagi li Leikfélagi Hafnarfjarðar og er greinilega vel að því komin.)

1996 - Páskahret. Kærastinn minn hann Gúndi (leikinn af Togga) þrusar á mig eins og einu glóðarauga. Svo fæ ég reyndar að lemja hann til baka í lokin og fæ mikið útúr því.

1997 - Embættismannahvörfin. Mér og öllum vinum mínum er troðið ofan í gryfju á sviðinu. (Og kærastinn minn hann Friþjófur, leikinn af Sævari, missir reyndar einu sinni vasaljós í fésið á mér, en það var nú óvart.)

1998 - Sálir Jónanna. Leik afturgenginn útburð.

2001 - Víst var hann Ingjaldur á rauðum skóm. Drep kærastann minn hann "biskup" (leikinn af V. Kára) með skærum. Mikill splatter.

2003 - Sirkus. Er manhöndluð af tveimur fávísum fyrrverandi lögregluþjónum, við hvert tækifæri, og eiginmaður minn reynir að kasta í mig hníf.

Semsagt, hef alla burði og fullt af þjálfun í hvers konar heimilisofbeldi eða annars konar og ætti ekki að vera neins manns undirhundur í LH.

22.3.04

Er búin að vera hryllilega löt og syfjuð og lítið upplífgandi undanfarið, þrátt fyrir mikinn hasar allt í kring. Er með kenningar um einhvern vítamínskort og svo náttúrulega ritgerðarófétið sem hangir ennþá yfir mér eins og 5 ára gamalt óveðurský. En nú skal gripið réttri hendi í rassinn á sér og ástandið snúið niður með annarri hendi.

1. Fara í ljós í leiðinni heim úr vinnunni til þess að:
a) fá góðan skammt af c-vítamíni
b) gera heiðarlega tilraun til endurheimta fyrri fegurð og yndisþokka (sem er óðum að hverfa undir ljósgrænan húðlit og svarta hringi í kringum augu).

2. Urlast heim og taka ritgerðina í bakaríið til svona ca. 4-5 leytis.

3. Fara að því loknu í góða gönguferð sem endar líklega á skrifstofunni.

4. Halda áfram að ritgerða fram að Survivor.

5. Fara fáránlega snemma að sofa.

Verði af þessu öllu gerir minna til þó morgundagurinn fari í kaffi og versl með Svandísi og kvöldið í Leikfélag Hafnarfjarðar.

Heitmaður minn og unnusti (sem þarf að taka einn dag í einu) nýr mér því óspart um nasir þessa dagana að vera skipulaxfíkill (þurfa helst að vita allt nákvæmilega um mánuð fram í tímann) og hefur mikið til síns máls. Það sem mér fannst t.d. mest heillandi við leikhúsvinnu, til að byrja með, var það að það gerðist í aðalatriðum það sama á hverri leiksýningu. Meira og minna hvert spor og athöfn fyrirfram plönuð frá seinniparti til miðnættis. Af sömu ástæðu gætu ég og mín kvíðaröskun aldrei tekið þátt í spunasýningu.

Skemmti mér líka konunglega um árið þegar ég lenti óvart á miðvikudaxfyllerí með fjórum MORFÍS dómurum. Þrátt fyrir að það væri, að forminu til, skyndihugdetta, var byrjað á að setjast niður og gera dagskrá í einhverjum 5 liðum, a b og c. Ennþá eitt það alskemmtilegasta sem ég hef gert um ævina en sjaldan hefur mér vafist jafnoft tunga um höfuð á einu kvöldi, þar sem nöfn þessara manna voru undarlega samslungin. Ef þeir Hjálmar, Hjörvar, Tjörvi og Ari Knörr eru einhversstaðar á lífi vona ég að þeim heilsist.

Mér finnst gott að skipuleggja yfir mig, en verð að sama skapi alveg vitlaus þegar skipulagið klúðrast.

Gott að átta sig á sínum takmörkunum, og lifa bara samkvæmt þeim.

Og, bæðevei, ég er ENNÞÁ 29 ára!