22.9.10

Rútína smútína

Þessir dagar virðast nú aldrei geta verið eins, leiðinlega tilbreytingalausir og allir í röð, eins og maður þyrfti. Í dag þurfa tveir að vera heim með horið sitt, og ég sjálf að leggjast í einhvern fjandann til viðbótar. Argansfjandi.

Á hinn bóginn var farið mjög grúndígt yfir leikritið (sem enn heitir ekki neitt) í gær með leikstjórum og kominn tími til að fara í lokayfirferð. Er að hugsa um að reyna það á meðan ormarnir horfa á „Up“ sem er þvílík uppáhaldsmynd þessa dagana að stundum er horft á hana þrisvar sama daginn. Jafnvel í röð!

Svo dagskipunin er: Reyna að gera leikritsnefnuna að einhverju, áður en hor leggst yfir fyrir alvöru. Það ku eiga að samlesa á laugardag og mánudagskvöld og hlutverkaskipa einhverntíma í næstu viku. Jæjajæja.

En ljóst er að doktorsritgerð lengist ekki á meðan. Bráðum þarf líklega að fara að leggjast í kvöld- og helgarvinnu. Sem ég ætlaði þó alllls ekki að gera...

Wellwell.

Svo fremi að maður taki sér pásu á aðfangadag...

Annars er bara helgin nýbúin. Og önnur yfirvofandi.
Miðvikudagar.

Já, svo eru Hálfvitar og co. líklegast bara á leiðinni austur. Sigla þaðan til Færeyja í kveld.
Issss.. Verður örugglega alveg ömurlega leiðinlegt hjá þeim.
Var það allavega síðast þegar ég fór með einhverju af þeim þangað!

(Síst.)

21.9.10

Feitan og ljótan

Hálfníu. Búið að slökkva á feisbúkk. Byrjað að ræsa heilaræksnið. Kaflinn sem á að klárast í lok september þarf að lengjast um einar 20 blaðsíður. Sem ég held að sé ekki stórmál. Svona frekar spurning um að vera í stuði en nokkuð annað. Spurning hvað maður á að fabjúlera um í dag.

Í gær var ég með feituna. Svalt heilu hungri og fór í leikfimi og er ögn skárri í dag.

Annars hef ég verið að pæla heilmikið í þessu með feiturnar og ljóturnar. Það er þannig að stundum þegar mér finnst ég vera of feit og segi það við einhvern þá fæ ég undarlegustu viðbrögð. Sumir (kannski sérstaklega karlmenn) fara mikinn um að karlmönnum finnist bara ekkert endilega flottara að konur séu mjóar. Aðrir (kannski aðallega konur) fara að ræða brengluð fegurðarviðmið í Hollívúddheiminum og svo framvegis.

Það er ekki útaf því hvað einhverjum óskilgreindum karlmönnum finnst að ég fæ feituna. Enda hefst aldrei annað upp úr eiginmanninum að ég sé alfullkomin á alla kanta, sama hvernig lögunin er. Aðrir karlmenn hafa ekki atkvæðisrétt í málinu. Mér er líka sama hvað öðrum konum finnst. Enda held ég að flestum öðrum sé almennt sama hvernig ég er í laginu.

Það sem ræður því hvernig ég vil vera er... ég.

Jú, vissulega er það trend tímans að flottara sé að vera mjór en feitur. Ég held að það helgist af fágæti og heilsufarsástæðum. Einu sinni voru fleiri mjóir en feitir og heilsufarsvandamál tengdust almennt vannæringu. Þá var flott að vera feitur. Núna eru fleiri feitir en mjóir og heilsufarsvandamál tengjast gjarnan offitu. Dæmið hefur snúist við.

Hvar maður vill vera á skalanum er hins vegar undir manni sjálfum komið.
Öllum öðrum er líka meira og minna sama.

Og ég vil helst að mittið á mér beygist innávið.
Mér finnst það bara svo fagurt!

Jæja, einn-tveir-og-þrír...

20.9.10

Fokkíng BELJA!

Upphitun hefst seint í dag. Var „heima með lítinn lasarus“ (sagði það samt ekki á feisbúkk) fram að hádegi og mætti svo beint í hádegisleikfimi hvar ég svitnaði eins og hundur, sem gerist jafnan tvö hádegi í viku. (Ættu að vera þrjú, en á föstudögum er tími.) Svo er ég búin að vera að hjóla brjálað langt tvisvar í viku líka. Ætla síðan alltaf að reyna að hlaupa langa hringinn um helgar, en síðustu helgi gerðist það ekki vegna ákafra timburmanna sem entust nánast fram yfir helgina.

Og ég er að fitna. Ekki neitt „þyngjast vegna vöðvamassa“ neitt. Hef ekki verið á algjöru nasistafæði og er þess vegna að SPIKFITNA!

Er það virkilega svo að kona á mínum háa aldri þarf að svelta heilu andskotans hungri og geta hlaupið eins og hundur í smalamennsku minnst tvisvar í viku til að VERA EKKI Í LAGINU EINS OG FOKKÍNG BELJA?!

Ég er alveg að gefast upp á þessu lífi.

Jæja, helvítis leikritið er víst ekki nema hálf-yfirfarið og vinnudagurinn verður ekki nema hálfur svo það dugar ekkert hálfkák.